Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gerir þú þitt ýtrasta?

Gerir þú þitt ýtrasta?

Gerir þú þitt ýtrasta?

„ÉG SKAL gera mitt besta.“ Hversu oft fylgir ekki „en“ í kjölfar þessara orða ásamt löngum lista yfir afsakanir fyrir því að leggja sig ekki fram? Hvað um vígsluheit okkar við Jehóva? Framfylgjum við því loforði okkar að gefa honum það besta sem við getum?

Að vígjast merkir að ‚helga sig algerlega þjónustu eða dýrkun guðdóms eða helga sig heilögum málstað.‘ Jesús sýndi vel hvað felst í vígslu til Jehóva er hann sagði: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Sá sem hefur afneitað sjálfum sér og vígt sig Guði lætur það að gera vilja Guðs vera þýðingarmestu iðju lífs síns.

Sem vígðir þjónar Guðs verðum við að líta rannsakandi í eigin barm til að kanna hvort við lifum í samræmi við vígsluheit okkar. Pétur gaf til kynna hvers vegna við ættum að rannsaka okkur þegar hann hvatti smurða kristna menn: „Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa.“ (2. Pétursbréf 1:10) Já, ef við gerum okkar ýtrasta munum við ekki bíða andlegt skipbrot að lokum.

Við getum bætt okkar ýtrasta

Í víðasta skilningi er til þess ætlast að allir vígðir þjónar Guðs geri sitt ýtrasta eða sitt besta til að þóknast Jehóva. Samt sem áður er hugsanlegt að við getum bætt okkur í því að gera okkar ýtrasta. Þriggja ára drengur er kannski að gera sitt besta til að hjálpa móður sinni með því að vinna eitthvert smáverk fyrir hana, en eftir því sem hann stækkar getur hann gert meira. Eins er það með andlegan vöxt — það sem áður var okkar ýtrasta er það kannski ekki lengur. Við finnum okkur knúin til að gera meira fyrir Jehóva.

Vaxandi þakkarkennd í garð Jehóva eykur löngun okkar til að gera meira. Þakklæti fyrir það sem hann hefur gert fyrir okkur vex samfara einkanámi í orði hans, Biblíunni. Til dæmis erum við knúin til að þjóna höfundi lausnargjaldsráðstöfunarinnar þegar við kynnum okkur rækilega og íhugum hvernig Jehóva sendi son sinn til að frelsa mannkynið frá syndinni. (Jóhannes 3:16, 17; 1. Jóhannesarbréf 4:9-11) Því meir sem við ‚finnum og sjáum að Jehóva er góður‘ þeim mun meir eru hjörtu okkar knúin til að þjóna honum. — Sálmur 34:9.

Boðberi í fullu starfi, Jetter að nafni, gerði sér grein fyrir því. Til að geta kafað dýpra í það sem hún var að nema tók hún lítið herbergi í húsinu til þeirra nota. Hún kom sér þannig fyrir að hún gæti einbeitt sér að því sem hún var að rannsaka. Hún hefur Efnisskrár Varðturnsfélagsins ásamt Varðturninum og Vaknið! innbundnum innan seilingar á bókahillunni. „Þegar ég finn athyglisverðar upplýsingar get ég varla beðið eftir tækifæri til að segja öðrum frá því,“ segir hún.

En á sama hátt og það er ekki hægt að háma í sig dýrindismáltíð af og til og sleppa svo hinum reglulegu, daglegu máltíðum, eins getur rækilegt biblíunám einu sinni ekki fullnægt daglegri þörf okkar fyrir andlega fæðu. Ruth gerir sér grein fyrir þessari þörf því að svo langt sem hún getur munað las fjölskylda hennar Biblíuna saman eftir máltíðir kvölds og morgna. Hún er 81 árs núna og hefur þjónað yfir 60 ár sem boðberi í fullu starfi, og enn þá les hún í Biblíunni eftir að hún vaknar klukkan sex að morgni. Ruth tekur sér tíma til að lesa tímaritin Varðturninn og Vaknið! jafnskjótt og þau berast. Hún fer yfir grein að minnsta kosti þrisvar eða fjórum sinnum áður en hún nemur hana með söfnuðinum. „Maður verður að nærast á orði Guðs til að halda sér sterkum í trúnni,“ segir hún. Það hefur einnig hjálpað henni að halda áfram trúboðsstarfi í mörg ár.

Gerum okkar ýtrasta til að hjálpa öðrum

Með djúpu og reglulegu námi í orði Guðs vex kostgæfni okkar í að þjóna Guði og einhver sterk hvöt til að gera meira vaknar innra með okkur. (Samanber Jeremía 20:9.) Slík kostgæfni kom Hirohisa til að gera þjónustu sinni rækileg skil. (2. Tímóteusarbréf 4:5) Hann ólst upp hjá einstæðri móður ásamt fjórum yngri systkinum. Á unglingsárunum studdi Hirohisa fjölskyldu sína fjárhagslega með því að fara á fætur klukkan þrjú á nóttinni til að bera út dagblöð. Hann langaði til að gera meira í því að segja öðrum frá Jehóva þannig að hann sótti um að starfa sem brautryðjandi, eins og boðberar votta Jehóva í fullu starfi eru kallaðir. Þótt ungur væri naut hann þess að hjálpa öðrum að gera sitt ýtrasta ásamt honum Jehóva til lofs.

Að gera okkar ýtrasta til að hjálpa öðrum felur í sér að vera skilvirkur í þjónustunni. Jesús hvatti einu sinni lærisveina sína: „Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.“ (Jóhannes 13:17) Naomi er ágætt dæmi um að nota tillögur skipulags Jehóva um hvernig við getum bætt þjónustu okkar. Henni þótti erfitt að tala við ókunnuga hús úr húsi og varð oft orðlaus þegar hún stóð við dyrnar. Öldungar í söfnuðinum hvöttu hana til að nota tillögur Rökræðubókarinnar í kaflanum „Inngangsorð til að nota í þjónustunni á akrinum.“ * Hún lagði á minnið inngangsorð undir fyrirsögninni „Fjölskylda/börn“ og æfði þau aftur og aftur. Árangurinn varð sá að hún gat haldið uppi samræðum við húsmóður á fertugsaldri. Konan var komin í ríkissalinn áður en Naomi hafði tækifæri til að heimsækja hana aftur. Biblíunám var ákveðið. Húsmóðirin og eiginmaður hennar eru núna skírðir kristnir menn og búa við hamingjusamt fjölskyldulíf ásamt börnum sínum.

Gerum okkar ýtrasta í að sýna persónulegan áhuga

Við getum líka líkt eftir Páli postula sem sagði: „Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.“ — 1. Korintubréf 9:22, 23.

Hatsumi hefur þetta hugarfar. Einu sinni, þegar hún var úti í þjónustunni, svaraði kona dyrasímanum og sagðist ekki mega vera að því að tala við hana. Raddblær konunnar var vingjarnlegur þannig að Hatsumi hélt áfram að heimsækja hana. Konan talaði alltaf við hana í dyrasímanum en kom aldrei til dyra til að hitta Hatsumi. Þessu fór fram í tvö og hálft ár.

Dag einn kom Hatsumi í heimsókn að áliðnu síðdegi, á öðrum tíma en hún var vön. Enginn svaraði. Hún var í þann mund að fara þegar kunnugleg rödd spurði að baki henni: „Hver ert þú?“ Konan var nýkomin heim. „Ó, það ert þú sem hefur verið að heimsækja mig,“ svaraði hún þegar Hatsumi kynnti sig. „Þakka þér fyrir að láta þér svona annt um mig.“ Þessi kona hafði numið Biblíuna áður með vottum Jehóva annars staðar en hætt náminu og hafði skammast sín svo fyrir að hún opnaði ekki dyrnar fyrir Hatsumi. Biblíunám var hafið á ný og konan tekur góðum framförum. Látum við okkur svona annt um þá sem við hittum í þjónustunni hús úr húsi?

Gerðu þitt ýtrasta

Jehóva kann að meta viðleitni okkar til að þjóna honum sem best við getum. Hann er eins og faðir sem á son er færir honum gjafir. Gjafirnar geta verið breytilegar ár frá ári eftir aldri og fjárráðum sonarins. Á sama hátt og faðirinn gleðst yfir sérhverri gjöf sem sonurinn færir honum af ást sinni, eins þiggur Jehóva fúslega þá þjónustu sem við veitum honum af allri sálu í samræmi við andlegan vöxt okkar.

Það þjónar að sjálfsögðu engum tilgangi að bera okkur saman við aðra þegar við gerum okkar ýtrasta. Eins og Páll segir höfum við hrósunarefni í samanburði við sjálfa okkur „en ekki miðað við aðra.“ (Galatabréfið 6:4) Megum við halda áfram að fara eftir hvatningarorðum Péturs postula: „Kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.“ — 2. Pétursbréf 3:14.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.