Jehóva fyrirlítur ekki sundurkramið hjarta
Jehóva fyrirlítur ekki sundurkramið hjarta
„Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta. — SÁLMUR 51:19.
1. Hvernig lítur Jehóva á tilbiðjendur sína sem syndga alvarlega en iðrast?
JEHÓVA getur ‚hulið sig í skýi svo að engin bæn kemst í gegn.‘ (Harmljóðin 3:44) Hann vill hins vegar að þjónar hans hafi aðgang að honum. Jafnvel þótt einn af tilbiðjendum hans syndgi alvarlega man himneskur faðir okkar hið góða sem þessi einstaklingur hefur gert, ef hann iðrast. Þess vegna gat Páll postuli sagt kristnum bræðrum sínum: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ — Hebreabréfið 6:10.
2, 3. Hvers ættu kristnir öldungar að taka tillit til þegar þeir hjálpa trúbræðrum sem hafa syndgað?
2 Kristnir öldungar ættu einnig að taka tillit til áralangrar, trúfastrar þjónustu trúbræðra sinna við Guð. Þar er innifalin heilög þjónusta iðrunarfullra einstaklinga sem hafa misstigið sig eða jafnvel syndgað alvarlega. Kristnir hirðar vinna að andlegri velferð allra sem tilheyra hjörð Guðs. — Galatabréfið 6:1, 2.
3 Iðrunarfullur syndari þarfnast miskunnar Jehóva. Meira er þó krafist. Það er ljóst af orðum Davíðs í Sálmi 51:12-21.
Hreint hjarta nauðsynlegt
4. Hvers vegna bað Davíð um hreint hjarta og nýjan anda?
4 Hvers kann vígður kristinn maður, sem er illa staddur andlega vegna syndar, að þarfnast auk miskunnar Jehóva og fyrirgefningar? Davíð bað: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálmur 51:12) Davíð virðist hafa beðið um þetta af því að hann gerði sér grein fyrir að tilhneigingin til grófrar syndar var enn í hjarta hans. Við höfum kannski ekki flækst í þess konar syndir sem Davíð leiddist út í í sambandi við Batsebu og Úría, en við þörfnumst hjálpar Jehóva til að láta ekki undan freistingu til að taka þátt í nokkru alvarlega syndsamlegu hátterni. Enn fremur má vera að við þurfum persónulega á hjálp Guðs að halda til að uppræta úr hjörtum okkar syndsamleg einkenni svo sem ágirnd og hatur — glæpi sem eru keimlíkir þjófnaði og morði. — Kólossubréfið 3:5, 6; 1. Jóhannesarbréf 3:15.
5. (a) Hvað merkir það að hafa hreint hjarta? (b) Hvað þráði Davíð þegar hann bað um nýjan anda?
5 Jehóva krefst þess að þjónar hans hafi „hreint hjarta,“ það er að segja hreinar hvatir eða áform. Davíð gerði sér ljóst að hann hafði ekki sýnt slíkan hreinleika og bað Guð að hreinsa hjarta sitt og samstilla það stöðlum Guðs. Sálmaritarinn þráði líka að fá nýjan, heiðvirðan anda eða tilhneigingu. Hann þurfti að fá anda sem myndi hjálpa honum að standast freistingar og halda sér einbeittur við lög Jehóva og meginreglur.
Heilagur andi nauðsynlegur
6. Hvers vegna sárbændi Davíð Jehóva um að taka ekki heilagan anda frá sér?
6 Þegar við örvæntum vegna mistaka okkar eða synda gæti okkur fundist Guð vera í þann mund að fleygja okkur frá sér og taka heilagan anda sinn eða starfskraft frá okkur. Davíð fannst það því að hann sárbændi Jehóva: „Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.“ (Sálmur 51:13) Davíð var auðmjúkur og yfirbugaður af iðrun og fannst syndir hans hafa gert hann óverðugan þess að þjóna Jehóva. Að vera varpað burt frá augliti Guðs væri hið sama og að missa velþóknun hans, hughreystingu og blessun. Davíð þurfti heilagan anda Jehóva til að ná sér aftur andlega. Með andann yfir sér gat konungur leitað leiðsagnar Jehóva í bæn til að þóknast honum, gat forðast synd og stjórnað viturlega. Davíð var sér meðvitandi um syndir sínar gegn gjafara heilags anda. Það var viðeigandi að hann sárbændi Jehóva að taka hann ekki frá honum.
7. Hvers vegna ættum við að biðja um heilagan anda og varast að hryggja hann?
7 Hvað um okkur? Við ættum að biðja um heilagan anda og verðum að varast að hryggja hann með því að fylgja ekki leiðsögn hans. (Lúkas 11:13; Efesusbréfið 4:30) Að öðrum kosti gætum við misst andann og orðið ófær um að sýna ávexti hans, kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, mildi og sjálfstjórn sem eru gjafir Guðs. Sérstaklega myndi Jehóva Guð taka heilagan anda sinn frá okkur ef við héldum áfram að syndga gegn honum og iðruðumst ekki.
Fögnuður hjálpræðisins
8. Hvað þurfum við að gera ef við syndgum en viljum hafa gleði hjálpræðisins?
8 Iðrunarfullur syndari, sem er reistur við andlega, getur aftur fagnað yfir hjálpræðisráðstöfun Guðs. Davíð þráði það og bað Guð: „Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda.“ (Sálmur 51:14) Það var dásamlegt að fagna í hinni öruggu von um hjálpræði frá Jehóva Guði! (Sálmur 3:9) Eftir að hafa syndgað gegn Guði sóttist Davíð eftir að endurnýja gleði sína vegna hjálpræðisins frá honum. Síðar sá Jehóva fyrir hjálpræði með lausnarfórn sonar síns, Jesú Krists. Ef við sem erum vígðir þjónar Guðs syndgum alvarlega en viljum endurheimta gleði hjálpræðisins þurfum við að vera iðrunarfull og megum ekki ganga svo langt að syndga gegn heilögum anda. — Matteus 12:31, 32; Hebreabréfið 6:4-6.
9. Hvað var Davíð að biðja um þegar hann bað Guð að styðja sig með „fúsleiks anda“?
9 Davíð bað Jehóva um að styðja hann með „fúsleiks anda.“ Þetta virðist ekki eiga við fúsleika Guðs til að hjálpa eða við heilagan anda hans heldur þá tilhneigingu sem knúði huga Davíðs. Davíð langaði til að Guð styddi hann með því að veita honum fúsleiksanda til að gera það sem var rétt og falla ekki aftur í syndina. Jehóva Guð heldur áfram að styðja þjóna sína og reisir upp þá sem eru niðurbeygðir vegna ýmissa rauna. (Sálmur 145:14) Það er mjög hughreystandi að gera sér það ljóst, einkum ef við höfum syndgað en iðrumst og langar til að þjóna Jehóva trúföst að eilífu!
Kenna afbrotamönnum hvað?
10, 11. (a) Hvað gat Davíð kennt ísraelskum syndurum? (b) Hvað þurfti Davíð sjálfur að gera áður en hann gat kennt syndurum?
10 Ef Guð leyfði vildi Davíð í óeigingirni sinni gera eitthvað til að sýna að hann kynni að meta miskunn Jehóva og myndi hjálpa öðrum. Hinn iðrunarfulli konungur sagði þessu næst í bæn sinni til Jehóva: „Að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.“ (Sálmur 51:15) Hvernig gat Davíð, sem var syndugur, kennt syndurum lög Guðs? Hvað gæti hann sagt þeim og hverju góðu myndi það koma til leiðar?
11 Þegar Davíð sýndi ísraelskum syndurum vegu Jehóva í von um að snúa þeim af illskubraut gat hann bent á hve slæm syndin væri, hvað iðrun fæli í sér og hvernig mætti hljóta miskunn Guðs. Davíð hafði fundið fyrir sektarkennd og þeirri kvöl sem fylgdi vanþóknun Jehóva og gat vafalaust verið samúðarfullur kennari iðrunarfullra, sorgmæddra syndara. Hann gat auðvitað ekki notað sjálfan sig sem dæmi til að kenna öðrum fyrr en hann hafði viðurkennt staðla Jehóva og hlotið fyrirgefningu hans, því að þeir sem neita að beygja sig undir kröfur Guðs hafa engan rétt til að ‚telja upp boðorð Guðs.‘ — Sálmur 50:16, 17.
12. Hvernig naut Davíð góðs af þeirri vitneskju að Guð hefði frelsað hann frá blóðskuld?
12 Davíð endurtók ásetning sinn með öðrum orðum og sagði: „Frelsa mig frá dauðans háska [„blóðskuld,“ NW], Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.“ (Sálmur 51:16) Blóðskuld hafði dauðadóm í för með sér. (1. Mósebók 9:5, 6) Sú vitneskja að Guð hjálpræðisins hefði frelsað Davíð frá blóðskuld í sambandi við Úría myndi því veita Davíð frið í huga og hjarta. Tunga hans gæti þá sungið gleðisöng um réttlæti Guðs, ekki hans eigið. (Prédikarinn 7:20; Rómverjabréfið 3:10) Davíð gat ekkert frekar afmáð siðleysi sitt eða kallað Úría fram úr gröfinni en nútímamenn geta gefið táldregnum einstaklingi hreinleika sinn eða reist upp myrtan mann. Ættum við ekki að hugsa um það þegar okkar er freistað? Og hversu mikils ættum við að meta þá miskunn sem Jehóva sýnir okkur í réttlæti sínu! Þakklæti ætti að knýja okkur til að beina öðrum til þessarar miklu uppsprettu réttlætis og fyrirgefningar.
13. Undir hvaða kringumstæðum einum gat syndari réttilega opnað varir sínar til að lofa Jehóva?
13 Enginn syndari getur með réttu opnað varir sínar til að lofa Jehóva nema Guð eins og opni þær til að tala sannleika hans. Þess vegna söng Davíð: „[Jehóva], opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!“ (Sálmur 51:17) Eftir að fyrirgefning Guðs hafði létt á samvisku Davíðs fann hann sig knúinn til að kenna syndurum vegu Jehóva og hann gat lofsungið hann óhindrað. Allir sem Jehóva hefur fyrirgefið eins og Davíð ættu að meta óverðskuldaða góðvild hans við þá og nota hvert tækifæri til að segja frá sannleika Guðs og ‚kunngjöra lof hans.‘ — Sálmur 43:3.
Guði þóknanlegar fórnir
14. (a) Hvaða fórna var krafist samkvæmt lagasáttmálanum? (b) Hvers vegna væri rangt að ímynda sér að við getum haldið áfram að gera það sem rangt er en bætt fyrir það með einhverju góðu sem við gerum?
14 Davíð hafði öðlast djúpt innsæi sem kom honum til að segja: „Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum — annars mundi ég láta þær í té — og að brennifórnum er þér ekkert yndi.“ (Sálmur 51:18) Lagasáttmálinn krafðist þess að Guði væru færðar dýrafórnir. Ekki var þó hægt að friðþægja fyrir syndir Davíðs, hórdóm og morð, með slíkum fórnum. Að öðrum kosti hefði hann ekkert til sparað að færa Jehóva dýrafórnir. Fórnir eru einskis virði án djúprar iðrunar. Það væri þess vegna rangt að halda að við gætum haldið áfram að syndga og bætt fyrir það með því að gera eitthvað gott.
15. Hvernig er hugarfar vígðs manns sem hefur sundurmarinn anda?
15 Davíð bætti við: „Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ (Sálmur 51:19) Þegar iðrunarfullur syndari er annars vegar er ‚sundurmarinn andi Guði þekk fórn.‘ Slíkur maður er ekki deilugjarn að eðlisfari. Hjarta manns, sem er vígður Guði en hefur sundurmarinn anda, er harmi slegið yfir synd hans, er auðmýkt vegna vitundar um vanþóknun Guðs og er fúst til að gera hvað sem vera skal til að endurheimta hylli Guðs. Við getum ekki boðið Guði neitt sem er nokkurs virði fyrr en við iðrumst synda okkar og gefum honum hjörtu okkar með óskiptri hollustu. — Nahúm 1:2.
16. Hvernig lítur Guð á mann sem harmar synd sína?
16 Guð hafnar ekki fórnum svo sem sundurmörðu og sundurkrömdu hjarta. Látum því enga erfiðleika sem við, þjónar hans, verðum fyrir koma okkur til að örvænta. Það er ekki úti um okkur þótt við höfum skjögrað eftir braut lífsins á einhvern þann hátt að hjörtu okkar hrópa til Guðs um miskunn. Jafnvel þótt við höfum syndgað alvarlega fyrirlítur Jehóva ekki sundurmarið hjarta, ef við iðrumst. Hann fyrirgefur okkur á grundvelli lausnarfórnar Krists og veitir okkur hylli sína á ný. (Jesaja 57:15; Hebreabréfið 4:16; 1. Jóhannesarbréf 2:1) En líkt og Davíð ættum við að biðja um að endurheimta hylli Guðs, ekki um að sleppa við nauðsynlega áminningu eða leiðréttingu. Guð fyrirgaf Davíð en hann hirti hann líka. — 2. Samúelsbók 12:11-14.
Umhyggja fyrir sannri guðsdýrkun
17. Hvað ættu syndarar að gera auk þess að sárbæna Guð um fyrirgefningu?
17 Ef við höfum drýgt einhverja alvarlega synd hvílir það vafalaust þungt á huga okkar og iðrunarfullt hjarta kemur okkur til að sárbæna Guð um fyrirgefningu. En við skulum líka biðja fyrir öðrum. Þó að Davíð hafi hlakkað til að tilbiðja Guð aftur á velþóknanlegan hátt sýndi hann ekki þá eigingirni að hugsa ekki til annarra í sálmi sínum. Í sálminum er þessi bæn til Jehóva: „Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!“ — Sálmur 51:20.
18. Hvers vegna bað Davíð iðrunarfullur fyrir Síon?
18 Já, Davíð hlakkaði til þess að endurheimta hylli Guðs, en það var líka auðmjúk bæn sálmaritarans að ‚Guð gerði vel við Síon,‘ höfuðborg Ísraels, Jerúsalem, þar sem Davíð vonaðist til að reisa musteri Guðs. Hinar alvarlegu syndir Davíðs höfðu ógnað allri þjóðinni því að hún hefði öll getað liðið fyrir syndir konungsins. (Samanber 2. Samúelsbók 24. kafla.) Í reynd höfðu syndir hans veikt „múra Jerúsalem“ þannig að nú þurfti að endurbyggja þá.
19. Hvað væri viðeigandi að biðja um ef við höfum syndgað en hlotið fyrirgefningu?
19 Ef við höfum syngað alvarlega en hlotið fyrirgefningu Guðs væri viðeigandi að biðja þess að hann bæti einhvern veginn það tjón sem hegðun okkar hefur valdið. Við kunnum að hafa sett blett á heilagt nafn hans, veikt söfnuðinn og valdið fjölskyldu okkar harmi. Elskuríkur faðir okkar á himnum getur þurrkað út hvern þann smánarblett sem settur er á nafn hans, byggt upp söfnuðinn með heilögum anda sínum og hughreyst hjörtu ástvina okkar sem elska hann og þjóna. Hvort sem synd er drýgð eða ekki ættum við að sjálfsögðu alltaf að láta okkur annt um helgun nafns Jehóva og velferð þjóna hans. — Matteus 6:9.
20. Undir hvaða kringumstæðum hafði Jehóva þóknun á fórnum Ísraelsmanna?
20 Hvað annað myndi gerast ef Jehóva endurreisti múra Síonar? Davíð söng: „Þá munt þú [Jehóva] hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.“ (Sálmur 51:21) Davíð þráði heitt að hann og þjóðin mætti njóta hylli Jehóva þannig að hún gæti tilbeðið hann á velþóknanlegan hátt. Þá myndi Guð hafa ánægju af brennifórnum þeirra og alfórnum vegna þess að það væru réttlætisfórnir vígðra, einlægra og iðrunarfullra manna sem nytu hylli Guðs. Sökum þakklætis fyrir miskunn Jehóva myndu þeir bera fram uxa á altari hans — bestu og dýrustu fórnirnar. Núna heiðrum við Jehóva með því að gefa honum það besta sem við eigum. Og fórnir okkar eru meðal annars ‚ávöxtur vara vorra,‘ lofgerðarfórnir til okkar miskunnsama Guðs, Jehóva. — Hósea 14:3; Hebreabréfið 13:15.
Jehóva heyrir hróp okkar
21, 22. Hvaða lærdóm getum við dregið af Sálmi 51?
21 Innilegar bænir Davíðs, sem skráðar eru í Sálmi 51, sýna okkur hvernig við ættum að bregðast við synd okkar með sannri iðrun. Sálmurinn inniheldur einnig markvissan lærdóm okkur til góðs. Til dæmis getum við treyst á miskunn Guðs ef við syndgum en iðrumst. Við skulum hins vegar fyrst og fremst hugsa um hvern þann smánarblett sem við kunnum að hafa sett á nafn Jehóva. (Vers 3-6) Líkt og Davíð getum við sárbænt himneskan föður okkar um miskunn vegna þess að við höfum tekið syndina í arf. (Vers 7) Við ættum að vera sannsögul og þurfum að leita eftir visku frá Guði. (Vers 8) Ef við höfum syndgað ættum við að biðja Jehóva um að hreinsa okkur, gefa okkur hreint hjarta og stöðugan anda. — Vers 9-12.
22 Af Sálmi 51 getum við einnig séð að við ættum aldrei að leyfa okkur að forherðast í syndinni. Ef við gerðum það myndi Jehóva taka heilagan anda sinn eða starfskraft frá okkur. Með anda Guðs yfir okkur getum við hins vegar kennt öðrum vegu hans með góðum árangri. (Vers 13-15) Ef við syndgum en iðrumst mun Jehóva leyfa okkur að halda áfram að lofsyngja sig vegna þess að hann fyrirlítur ekki sundurmarið og sundurkramið hjarta. (Vers 16-19) Þessi sálmur sýnir enn fremur að bænir okkar ættu ekki að snúast eingöngu um okkur. Við ættum öllu heldur að biðja um blessun og andlega velferð allra þeirra sem tilbiðja Jehóva í hreinleika. — Vers 20, 21.
23. Hvers vegna ætti Sálmur 51 að koma okkur til að vera hugrökk og bjartsýn?
23 Þessi hrífandi sálmur Davíðs ætti að hvetja okkur til að vera hugrökk og bjartsýn. Hann hjálpar okkur að gera okkur ljóst að við þurfum ekki að halda að allt sé glatað þótt við hrösum og syndgum. Hvers vegna? Vegna þess að ef við iðrumst getur miskunn Jehóva forðað okkur frá því að örvænta. Ef við erum yfirbuguð af iðrun og fullkomlega trú elskuríkum, himneskum föður okkar heyrir hann hróp okkar um miskunn. Og það er mjög hughreystandi að vita að Jehóva fyrirlítur ekki sundurmarið hjarta!
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna þurfa kristnir menn að hafa hreint hjarta og heilagan anda Guðs?
◻ Hvað geta iðrunarfullir syndarar kennt þeim sem brjóta lög Jehóva?
◻ Hvernig lítur Jehóva á sundurmarið og sundurkramið hjarta?
◻ Hvaða lærdóm má draga af Sálmi 51?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 26]
Biður þú um heilagan anda og varast að hryggja hann?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Sýndu að þú kunnir að meta óverðskuldaða góðvild Jehóva með því að boða sannleika hans.