Umbreytt í huga og upplýst í hjarta
Umbreytt í huga og upplýst í hjarta
„Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:17.
1. Hvað gerir hugur okkar og hjarta fyrir okkur?
HUGURINN og hjartað eru tveir af undursamlegustu hæfileikum mannsins. Þótt starfsemi beggja sé afar fjölþætt er hún sérkennandi fyrir hvern einstakling. Persónuleiki okkar, mál, hegðun, tilfinningar og verðmætamat er allt undir sterkum áhrifum huga okkar og hjarta.
2, 3. (a) Hvernig notar Biblían hugtökin „hjarta“ og „hugur“? (b) Hvers vegna verðum við að láta okkur umhugað bæði um hjarta og huga?
2 Í Biblíunni er „hjarta“ yfirleitt notað um áhugahvatir, tilfinningar og innri kenndir og „hugur“ um vitsmuni og hugsun. Merkingarsvið þessara hugtaka skarast þó nokkuð. Til dæmis hvatti Móse Ísraelsmenn: „Þú verður að minna hjarta þitt á [neðanmáls: „verður að rifja upp í huga þér“] að Jehóva er hinn sanni Guð.“ (5. Mósebók 4:39, NW) Jesús sagði fræðimönnunum sem höfðu illt í hyggju gagnvart honum: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar?“ — Matteus 9:4; Markús 2:6, 7.
3 Þetta gefur til kynna náin tengsl huga og hjarta. Þau víxlverka hvort á annað þannig að stundum styrkja þau hvort annað og vinna saman eins og samherjar en stundum berjast þau hvort gegn öðru um völdin. (Matteus 22:37; samanber Rómverjabréfið 7:23.) Til að afla okkur hylli Jehóva verðum við þess vegna bæði að fylgjast með ástandi huga og hjarta og eins og þjálfa þau til að vinna samstillt saman, að toga í sömu áttina. Við verðum að vera umbreytt í huga og upplýst í hjarta. — Sálmur 119:34; Orðskviðirnir 3:1.
„Eins og heiðingjarnir hegða sér“
4. Hvernig hefur Satan haft áhrif á hugi og hjörtu manna og með hvaða afleiðingum?
4 Satan er meistari í því að blekkja og ráðskast með fólk. Hann veit að til að ná tökum á fólki þarf hann að einbeita sér að hugum þeirra og hjörtum. Allt frá upphafi mannkynssögunnar hefur hann beitt einhvers konar klækjabrögðum til að ná því markmiði sínu. Þar af leiðandi ‚er allur heimurinn á valdi hins vonda.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Svo vel hefur Satan gengið að hafa áhrif á hugi og hjörtu manna í heiminum að Biblían lýsir þeim sem ‚rangsnúinni og gjörspilltri kynslóð.‘ (Filippíbréfið 2:15) Páll postuli lýsir með lifandi orðfæri hvernig hugur og hjarta þessarar rangsnúnu og gjörspilltu kynslóðar er og orð hans eru okkur öllum, sem nú lifum, til viðvörunar. Lestu til dæmis Efesusbréfið 4:17-19 og berðu það saman við orð Páls í Rómverjabréfinu 1:21-24.
5. Hvers vegna aðvaraði Páll Efesusmenn alvarlega?
5 Við getum glöggvað okkur betur á hvers vegna Páll kveður svona sterkt að orði við kristna menn í Efesus þegar við höfum í huga að borgin var alræmd fyrir siðspillingu sína og heiðna skurðgoðadýrkun. Enda þótt Grikkir hafi átt sína frægu hugsuði og heimspekinga virðist grísk menntun hafa ýtt undir hinar lægri hvatir margra og menning þeirra aðeins fágað þá í spillingunni. Páll hafði miklar áhyggjur af kristnum bræðrum sínum sem bjuggu í slíku umhverfi. Hann vissi að margir þeirra höfðu áður verið hluti af þjóðunum og höfðu ‚lifað samkvæmt aldarhætti þessa heims.‘ En núna höfðu þeir tekið við sannleikanum. Hugir þeirra höfðu umbreyst og hjörtu þeirra verið upplýst. Páli var mikið í mun að þeir ‚hegðuðu sér svo sem samboðið var köllun þeirra.‘ — Efesusbréfið 2:2; 4:1.
6. Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á orðum Páls?
6 Ástandið er svipað nú á dögum. Við búum líka í heimi sem er siðferðilega gjaldþrota, með afbakað verðmætamat og falskar trúarathafnir. Margir okkar lifðu einu sinni eftir háttarlagi þessa heimskerfis. Aðrir okkar þurfa daglega að umgangast veraldlega sinnað fólk náið. Sumir búa á heimilum þar sem veraldlegur andi ríkir. Þess vegna er áríðandi fyrir okkur að skilja hvað orð Páls merkja og njóta gagns af leiðbeiningum hans.
Allslaus og myrkvaður hugur
7. Hvað átti Páll við með orðunum „hugsun þeirra er allslaus“?
7 Til að rökstyðja vel þá hvatningu sína að kristnir menn mættu ‚ekki framar hegða sér eins og heiðingjarnir hegða sér‘ minntist Páll fyrst á að ‚hugsun þeirra væri allslaus.‘ (Efesusbréfið 4:17) Hvað merkir það? Orðið sem hér er þýtt „allslaus“ gefur, samkvæmt The Anchor Bible, í skyn „tómleika, iðjuleysi, hégómleika, flónsku, tilgangsleysi og vonbrigði.“ Páll var þannig að benda á að frægð og ljómi hins gríska og rómverska heims gæti virst tilkomumikill en að það væri í rauninni innantómt, heimskulegt og tilgangslaust að sækjast eftir því. Þeir sem þráðu frægð og frama myndu að lokum uppskera tóm vonbrigði. Hið sama má segja um heim nútímans.
8. Á hvaða hátt eru viðfangsefni heimsins tilgangslaus?
8 Heimurinn á sína menntamenn og frammámenn sem fólk leitar svara hjá við svo stórum spurningum eins og um uppruna og tilgang lífsins og örlög mannkyns. En hvaða innsæi og leiðsögn geta þeir boðið fram? Guðleysi, efahyggju, þróunarkenningu og sæg ruglingslegra og mótsagnakenndra hugmynda og kenninga til viðbótar sem upplýsa ekkert meira en helgisiðir og hjátrú fortíðar. Mörg veraldleg viðfangsefni virðast líka bjóða upp á einhverja fullnægju og lífsfyllingu. Fólk talar um árangur og afrek á sviði vísinda, lista, tónlistar, íþrótta, stjórnmála og svo framvegis. Það baðar sig í stundlegum frægðarljóma sínum. Engu að síður eru annálar sögunnar og skrár samtíðarinnar fullar af hetjum sem fallnar eru í gleymsku. Allt er þetta ekkert annað en tómleiki, fánýti, hégómi, flónska, tilgangsleysi og vonbrigði.
9. Hvaða gagnslausa viðleitni hella margir sér út í?
9 Margir gera sér ljóst hversu gagnslaus slík viðleitni er og hella sér út í efnishyggju — þeir safna sér peningum og hlutum sem hægt er að kaupa fyrir peninga — og gera það að markmiði sínu í lífinu. Þeir eru sannfærðir um að hamingjan fáist gegnum auð, eignir og skemmtanalíf. Þeir láta sér ekki nægja að beita huga sínum til þess heldur eru þeir fúsir til að fórna öllu til — heilsu, fjölskyldu og jafnvel samviskunni. Hver er afleiðingin? Í stað lífsfyllingar hafa þeir „valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Það er engin furða að Páll skyldi hvetja kristna bræður sína til að hætta að framganga eins og þjóðirnar gera, vegna þess hve gagnslaus þess konar hugsunarháttur er.
10. Hvernig er ‚skilningur fólks í heiminum blindaður‘?
10 Páll sýndi þessu næst fram á að heimurinn hefði ekkert sem væri þess virði að öfunda hann af eða herma eftir og sagði að ‚skilningur manna væri blindaður.‘ (Efesusbréfið 4:18) Heimurinn á að sjálfsögðu mennta- og kunnáttumenn á nálega öllum sviðum. Eigi að síður sagði Páll að skilningur þeirra væri blindaður. Hvers vegna? Páll var ekki að tala um sérfræðiþekkingu manna eða hæfileika. Orðið „skilningur“ getur líka átt við miðstöð skynjunar og skyntúlkunar, setur skilnings, hinn innri mann. Menn eru í myrkri af því að þeir hafa ekkert leiðarljós eða stefnuskyn í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Það má sjá af ruglingskenndum hugmyndum þeirra um rétt og rangt. Fólki finnst kannski að það viðhorf heimsins að ekkert megi fordæma og að ekkert megi banna sé merki upplýsingar, en í rauninni er það myrkvað hugarfar eftir því sem Páll segir. Andlega fálma menn í niðamyrkri. — Jobsbók 12:25; 17:12; Jesaja 5:20; 59:6-10; 60:2; samanber Efesusbréfið 1:17, 18.
11. Af hverju stafar hugarblinda heimsins?
11 Hvernig getur heimurinn haft þekkingu og jafnvel snilligáfu á svo mörgum sviðum en samt verið í andlegu myrkri? Páll svarar í 2. Korintubréfi 4:4: „Guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ Það er dýrmæt blessun að þeir sem taka við hinu dýrlega fagnaðarerindi skuli hafa umbreyst í huga og upplýst í hjarta!
Skynlaus og ónæm hjörtu
12. Á hvaða hátt er heimurinn ‚fjarlægur lífi Guðs‘?
12 Til að hjálpa okkur enn frekar að skilja hvers vegna við verðum að vera umbreytt í huga og upplýst í hjarta beindi Páll athygli okkar að þeirri staðreynd að hættir heimsins eru ‚fjarlægir lífi Guðs.‘ (Efesusbréfið 4:18) Ekki svo að skilja að fólk sé hætt að trúa á Guð eða að það sé orðið algerlega guðlaust. Dálkahöfundur hjá dagblaði orðaði það þannig: „Í stað guðleysis skulum við smíða nýtt hugtak: lausari við Guð. Fólk sem er lausara við Guð vill fá lof fyrir trú sína á Guð en samtímis geymir það hann í öskju og hleypir honum aðeins út á sunnudagsmorgnum og leyfir honum aldrei að rekast á við pólitíska heimsmynd sína eða persónuleg viðhorf það sem eftir er vikunnar. Það trúir að mestu leyti á Guð en finnst hann ekki hafa mikil áhrif á nútímaþjóðfélag.“ Páll orðaði það þannig í bréfi sínu til Rómverja: „Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum.“ (Rómverjabréfið 1:21) Daglega hittum við fólk sem gengur gegnum lífið án þess að hugsa nokkurn tíma um Guð, hvað þá að það þakki honum eða heiðri hann.
13. Hvað er ‚líf Guðs‘?
13 Orðin ‚líf Guðs‘ eru þýðingarmikil. Þau sýna enn betur fram á hvernig hugarfarslegt og andlegt myrkur ruglar verðmætamat fólks. Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚líf,‘ er ekki bios sem merkir lífsmáti eða lífsstíll, heldur orðið zoe. Það merkir „líf sem lögmál, líf í algerum skilningi, líf eins og Guð hefur það. . . . Maðurinn er orðinn fjarlægur þessu lífi vegna syndafallsins,“ samkvæmt Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words. Páll er þannig að segja okkur að hið hugarfarslega og andlega myrkur hafi ekki aðeins leitt fólkið í heiminum út í spillingu holdsins heldur einnig gert það viðskila við vonina um eilíft líf sem Guð veitir. (Galatabréfið 6:8) Hvers vegna? Páll segir okkur ástæðurnar í framhaldinu.
14. Nefndu eina ástæðu fyrir því að þessi heimur er fjarlægur lífi Guðs.
14 Í fyrsta lagi sagði hann það vera „vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í.“ (Efesusbréfið 4:18) Orðin „sem þeir lifa í“ leggur áherslu á að vanþekkingin stafi ekki af því að tækifæri hafi vantað heldur því þeir hafi af ásettu ráði hafnað þekkingunni á Guði. Þessi orð hafa einnig verið þýdd á þennan veg: „eðlislæg neitun þeirra að þekkja Guð“ (The Anchor Bible); „án þekkingar vegna þess að þeir hafa lokað hjörtum sínum fyrir henni.“ (Jerusalem Bible). Vegna þess að menn hafna vísvitandi eða fyrirlíta nákvæma þekkingu á Guði hafa þeir enga forsendu fyrir því að hljóta þess konar líf sem Jehóva býður þeim sem iðka trú á son hans er sagði: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3; 1. Tímóteusarbréf 6:19.
15. Hvað stuðlar að því að þessi heimur er fjarlægur lífi Guðs?
15 Önnur ástæða fyrir því að heimurinn almennt er fjarlægur lífi Guðs er, að sögn Páls, hið „harða hjarta“ þeirra. (Efesusbréfið 4:18) Grunnmerkingin er sú að harðna eins og þegar sigg safnast á húð. Við vitum öll hvernig sigg myndast. Húðin er kannski í fyrstu mjúk og næm fyrir snertingu en ef hún verður aftur og aftur fyrir vissum þrýstingi eða núningi harðnar hún og þykknar og safnar siggi. Hún finnur ekki lengur fyrir ertingunni. Eins er það að fólk fæðist ekki með hörð eða sigggróin hjörtu þannig að það sé sjálfkrafa tilfinningalaust gagnvart Guði. En vegna þess að við lifum í heiminum og mætum anda hans er hjartað ekki lengi að verða sigggróið og hart ef það er ekki verndað. Þess vegna aðvaraði Páll: „Gætið þess . . . að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.“ (Hebreabréfið 3:7-13; Sálmur 95:8-10) Hversu áríðandi er þá ekki að við séum umbreytt í huga og upplýst í hjarta!
„Misst alla siðferðisvitund“
16. Hvaða afleiðingar hefur það að skilningur heimsins er blindaður og að hann er fjarlægur lífi Guðs?
16 Páll dregur saman afleiðingar slíks myrkurs og viðskilnaðar: „Þeir eru tilfinningalausir [„hafa misst alla siðferðisvitund,“ NW] og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“ (Efesusbréfið 4:19) Orðalagið „hafa misst alla siðferðisvitund“ merkir bókstaflega að vera „hættur að finna til sársauka,“ það er að segja siðferðilegs sársauka. Það er þannig sem sigggróið hjarta verður. Um leið og það hættir að finna fyrir samviskubiti og ábyrgðartilfinningu gagnvart Guði, þá eru engar hömlur eftir. Páll sagði því að þeir hafi „ofurselt sig“ lostalífi og óhreinleika. Þetta skref er stigið af ásetningi, að yfirlögðu ráði. ‚Lostalíf,‘ eins og það er notað í Biblíunni, táknar óskammfeilin, blygðunarlaus viðhorf, fyrirlitningu fyrir lögum og yfirvaldi. Eins er það að „alls konar siðleysi“ táknar ekki bara kynferðislega siðspillingu heldur líka spillingu sem framin er í nafni trúar, svo sem frjósemisathafnir og helgisiði er viðhafðir voru í musteri Artemisar í Efesus og lesendum Páls var vel kunnugt um. — Postulasagan 19:27, 35.
17. Hvers vegna sagði Páll að fólk, sem væri búið að missa alla siðferðisvitund, syndgaði „af græðgi“?
17 Rétt eins og taumlaust lostalíf væri ekki nógu slæmt bætir Páll við að slíkir menn stundi það „af græðgi.“ Þegar fólk, sem enn hefur einhverja siðferðiskennd, syndgar eru líkur á að það sjái að minnsta kosti eftir því og leggi sig fram um að endurtaka það ekki. En þeir sem hafa „misst alla siðferðisvitund“ syndga „af græðgi“ („og biðja enn um meira,“ The Anchor Bible). Útvarpsmaður komst einu sinni þannig að orði: „Ef þú málar bæinn rauðan í kvöld þarftu stærri fötu og pensil annað kvöld.“ Þeir stökkva með ákefð út í hringiðuna uns þeir sökkva til botns í spillingardíkið — og finnst það allt í lagi. Svo sannarlega er þetta nákvæm lýsing á „vilja heiðingjanna“! — 1. Pétursbréf 4:3, 4.
18. Lýstu í hnotskurn þeirri mynd sem Páll dró upp af hugarfarslegu og andlegu ástandi heimsins.
18 Í aðeins þrem versum, í Efesusbréfinu 4:17-19, afhjúpar Páll þannig hið sanna siðferðislega og andlega ástand heimsins. Hann bendir á að hugmyndir og kenningar, sem hugsuðir heimsins ýta undir, og linnulaus eftirsókn eftir auði og unaði sé algerlega gagnslaus. Hann sýnir greinilega að sökum síns hugarfarslega og andlega myrkurs sé heimurinn í siðfeðilegu kviksyndi sem hann sekkur sífellt dýpra í. Og loks er heimurinn orðinn svo fjarlægur lífi Guðs að hann á sér ekki viðreisnar von, vegna sjálfskapaðrar fáfræði sinnar og tilfinningaleysis. Við höfum svo sannarlega ærna ástæðu til að halda ekki áfram að hegða okkur eins og þjóðirnar hegða sér!
19. Hvaða mikilvægum spurningum er enn ósvarað?
19 Úr því að það er myrkur í huga og hjarta sem kemur heiminum til að verða fjarlægur Jehóva Guði, hvernig getum við þá losnað við allt myrkur úr hugum okkar og hjörtum? Já, hvað ættum við að gera til að geta haldið áfram að hegða okkur eins og börn ljóssins og viðhaldið velvild Guðs? Um það verður fjallað í greininni á eftir.
Getur þú svarað?
◻ Hver var kveikjan að hinum alvarlegu leiðbeiningum Páls í Efesusbréfinu 4:17-19?
◻ Hvers vegna eru vegir heimsins gagnslausir og í myrkri?
◻ Hvað er átt við með orðunum „fjarlægir lífi Guðs“?
◻ Hvaða afleiðingar hefur myrkvaður hugur og ónæmt hjarta?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 9]
Efesus var alræmd fyrir siðspillingu sína og skurðgoðadýrkun.
1. Rómverskur skylmingaþræll í Efesus.
2. Rústir musteris Artemisar.
3. Leikhús í Efesus.
4. Frjósemisgyðjan Artemis Efesusmanna.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hvaða innsæi geta frammámenn heimsis boðið?
Neró
[Rétthafi]
Musei Capitolini, Roma