Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í leit að áreiðanlegum spám

Í leit að áreiðanlegum spám

Í leit að áreiðanlegum spám

„SÁ SEM gæti séð þrjá daga fram í tímann yrði ríkur í þúsund ár,“ segir kínverskt máltæki.

Fólk langar til að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og margir myndu fúslega greiða háar fúlgur fyrir áreiðanlegar upplýsingar af því tagi. Þeir eru að leita að áreiðanlegum framtíðarspám. Við höfum áhuga á atburðum framtíðarinnar eins og veðurspár og efnahagsspár bera vitni. Áreiðanleg vitneskja um framtíðina myndi auk þess gera okkur kleift að skipuleggja líf okkar betur og gera áætlanir.

Löngun til að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu kemur mörgum til að leita til spásagnamanna, austurlenskra kennifeðra, stjörnuspámanna og galdralækna. Í bókaverslunum má finna ókjör bæði gamalla og nýrra rita um þá sem segjast geta sagt framtíðina fyrir. En spám af þessu tagi er tekið með nokkurri varúð. Rómverski stjórnmálamaðurinn Cató á að hafa sagt: ‚Mig undrar að spákarlar skuli ekki fara að hlæja þegar þeir sjá hver annan.‘

Spár eru að sjálfsögðu margs konar. Árið 1972 birti alþjóðlegur hópur háskólamanna og kaupsýslumanna, sem kallaður er Rómarklúbburinn, niðurstöður rannsóknar þar sem því var spáð að auðlindir jarðar, sem endurnýjast ekki, myndu brátt ganga til þurrðar. Gull yrði uppurið árið 1981, kvikasilfur árið 1985 og sink árið 1990, jarðolía árið 1992 og svo framvegis. Við sjáum núna að þessar spár rættust ekki.

Margar spár hafa verið byggðar á trúarlegum viðhorfum. Nefnum dæmi: Saxneski biskupinn Wulfstan áleit að innrás Dana í England snemma á 11. öld væri merki þess að heimsendir væri í nánd. Árið 1525 beitti Thomas Münzer sér fyrir uppreisn þýskra bænda af því að hann sá engla í sýn sem voru að brýna sigðir fyrir það sem hann áleit vera uppskeruna miklu. Ljóst er að þessar spár voru rangar.

Eins og þú veist kannski inniheldur Biblían spádóma. Enn fremur sögðust biblíuritaranir hafa fengið innblástur frá Guði. Kristni postulinn Pétur sagði: „Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ — 2. Pétursbréf 1:20, 21.

Meðal annars sagði Biblían fyrir margvíslega atburðarás er skyldi einkenna þá kynslóð þegar Jesús Kristur kæmi sem himneskur konungur. Styrjaldir, hallæri, jarðskjálftar og siðferðishrun, sem ætti sér ekkert fordæmi, skyldu einkenna það tímabil sem Biblían kallar ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:3-14, 34) Samkvæmt Biblíunni yrði núverandi heimskerfi fjarlægt og brautin þannig rudd nýjum heimi þar sem mannkynið ætti fyrir sér hamingju og eilífa blessun. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1-4.

Hvernig lítur þú á slíka spádóma Biblíunnar? Eru þetta einungis ágiskanir eins og margar aðrar spár? Við getum sannprófað áreiðanleika spádóma Biblíunnar með því að ganga úr skugga um hvort spádómar hennar um liðna atburði hafi reynst áreiðanlegir. Í næstu grein lítum við á nokkra þeirra.

[Rétthafi]

Birt með leyfi National Weather Service