Fylgið ljósi heimsins
Fylgið ljósi heimsins
„Sá sem fylgir mér, mun . . . hafa ljós lífsins.“ — JÓHANNES 8:12.
1. Hve nauðsynlegt er ljósið?
HVAÐ myndum við gera án ljóss? Reyndu að ímynda þér að það væri myrkur allan sólarhringinn allt árið um kring. Reyndu að ímynda þér heim án lita, því að án ljóss eru engir litir. Svo þýðingarmikið er ljósið að ef það væri ekki til værum við ekki heldur til! Hvers vegna? Vegna ljóstillífunarinnar þar sem grænu jurtirnar nota ljós til að framleiða fæðuna sem við neytum — korn, grænmeti og ávexti. Að vísu borðum við stundum kjöt af dýrum, en þessi dýr lifðu á jurtum eða öðrum dýrum sem lifðu á jurtum. Þannig er líf okkar algerlega háð ljósi.
2. Hvaða öflugir ljósgjafar eru til og hvað segir það okkur um Jehóva?
2 Ljósið okkar kemur frá sólinni sem er stjarna. Þótt sólin okkar gefi frá sér gríðarlegt ljósmagn er hún einungis meðalstór stjarna. Margar eru miklu stærri. Og í stjörnuþyrpingunni, sem við eigum heima í, vetrarbrautinni, eru yfir hundrað milljarðar stjarna. Auk þess eru til óteljandi milljarðar vetrarbrauta í alheiminum. Stjörnuskarinn er gríðarlegur! Ljósmagnið, sem þær senda frá sér, er óhemjulegt. Jehóva, sem skapaði allt þetta, er svo sannarlega voldug ljósuppspretta! Jesaja 40:26 segir: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“
Annars konar ljós
3. Hve þýðingarmikið er andlegt ljós frá Jehóva?
3 Jehóva er líka uppspretta annars konar ljóss sem gerir okkur kleift að hafa andlega sjón, að vera andlega upplýst. Orðabók skilgreinir orðið „upplýsa“ þannig: „fræða, kenna, veita andlega innsýn.“ Sá sem er „upplýstur“ er þá „laus við fáfræði og rangar eða villandi hugmyndir.“ Andleg upplýsing frá Jehóva er veitt með nákvæmri þekkingu á orði hans, Biblíunni. Það er þannig sem við getum vitað hver Guð er og hver tilgangur hans er. „Guð, sem sagði: ‚Ljós skal skína fram úr myrkri!‘ — hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ (2. Korintubréf 4:6) Þannig frelsar sannleikur orðs Guðs okkur frá fáfræði og röngum eða villandi hugmyndum. Jesús sagði: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:32.
4, 5. Hvernig er þekking frá Jehóva eins og ljós í lífi okkar?
4 Jehóva, uppspretta sannrar andlegrar upplýsingar, er ‚fullkominn að vísdómi.‘ (Jobsbók 37:16) Einnig segir Sálmur 119:105 um Guð: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ Þannig getur hann bæði lýst upp næsta skref lífs okkar andlega og einnig lengra fram veginn. Án þess væri lífið eins og værum við að aka bifreið eftir krókóttum fjallvegi á myrkri nóttu án nokkurra ljósa á bifreiðinni eða annars staðar. Líkja má andlegu ljósi frá Jehóva við ökuljós bifreiðar. Ljósin lýsa upp veginn framundan þannig að við getum séð nákvæmlega hvert við erum að fara.
5 Spádómurinn í Jesaja 2:2-5 sýnir að á okkar tímum er Guð að safna saman frá öllum þjóðum fólki sem þráir andlegt ljós þannig að það geti lært sanna guðsdýrkun og stundað hana. Þriðja versið segir: ‚Hann mun kenna oss sína vegu og vér munum ganga á hans stigum.‘ Fimmta versið býður sannleiksleitandi mönnum: „Komið, göngum í ljósi [Jehóva].“
6. Hvert mun ljósið frá Jehóva að lokum leiða okkur?
6 Þannig er Jehóva uppspretta tvenns konar ljóss sem er nauðsynlegt til að lifa: hins bókstaflega og hins andlega. Hið bókstaflega ljós hjálpar til við að halda líkama okkar lifandi núna, kannski í 70 eða 80 ár eða þar um bil. Andlega ljósið leiðir okkur hins vegar til eilífs lífs á jörð sem verður paradís. Það er eins og Jesús sagði í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
Heimur í andlegu myrkri
7. Hvers vegna þörfnumst við andlegrar upplýsingar meir en nokkru sinni fyrr?
7 Við þörfnumst andlegs ljóss meir núna en nokkru sinni fyrr. Spádómar svo sem Matteus 24. kafli og 2. Tímóteusarbréf 3. kafli sýna að við stöndum nærri endalokum þessa heimskerfis. Þessir spádómar og aðrir sögðu fyrir hina hræðilegu atburði sem hafa átt sér stað á okkar tímum þannig að við vitum að ‚síðustu dagar‘ standa yfir. Í samræmi við slíka spádóma hefur ein ógæfan elt aðra á þessari öld. Glæpir og ofbeldi hafa magnast ógurlega. Styrjaldir hafa kostað yfir hundrað milljónir mannslífa. Milljónir manna eru smitaðar sjúkdómum svo sem hinu óttalega alnæmi. Yfir 160.000 hafa nú þegar dáið af völdum alnæmis í Bandaríkjunum einum. Fjölskyldulíf er í upplausn og siðsemi í kynferðismálum er álitin gamaldags.
8. Hvaða ástand blasir við mannkyninu núna og hvers vegna?
8 Fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier Pérez de Cuéllar, sagði: „Ástandið í heiminum ber því vitni á yfirþyrmandi hátt að þjóðfélög eru að gliðna sundur af völdum fátæktar.“ Hann benti á að „yfir milljarður manna búi núna við algera örbirgð“ og að „það hafi nært þau öfl sem valda ofbeldi og átökum.“ Hann sagði að „þau bjargráð, sem stjórnvöld geta gripið til, ráði ekki við þetta . . . alvarlega böl.“ Og formaður áhrifamikilla samtaka komst að svipaðri niðurstöðu: „Meginvandi þjóðfélagsins er sá að því er orðið óstjórnandi.“ Þau eru dagsönn orðin í Sálmi 146:3: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“
9. Hver ber mesta ábyrgð á myrkrinu sem hjúpar mannkynið og hver getur losað okkur við þessi áhrif?
9 Ástandið nú á tímum er eins og Jesaja 60:2 sagði fyrir: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ Þetta myrkur, sem hjúpar yfirgnæfandi meirihluta jarðarbúa, stafar af því að þeir taka ekki til sín hið andlega ljós frá Jehóva. Og undirrót þessa andlega myrkurs er Satan djöfullinn og illir andar hans, höfuðóvinir Guðs ljóssins. Þeir eru ‚heimsdrottnar þessa myrkurs.‘ (Efesusbréfið 6:12) Eins og 2. Korintubréf 4:4 segir er djöfullinn „guð þessarar aldar“ sem hefur „blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ Engin mannleg stjórn getur losað heiminn við áhrif Satans! Guð einn getur það.
„Mikið ljós“
10. Hvernig sagði Jesaja fyrir að ljósi yrði varpað á mannkynið á okkar dögum?
10 En þótt stærstur hluti mannkyns sé í niðamyrkri spáði orð Guðs í Jesaja 60:2, 3: „En yfir þér upp rennur [Jehóva], og dýrð hans birtist yfir þér. Þjóðirnar stefna á ljós þitt.“ Þetta er í samræmi við spádóminn í Jesaja 2. kafla sem hét því að hin upplýsta sanna tilbeiðsla á Jehóva yrði grundvölluð núna á síðustu dögum og, eins og 2. og 3. versið segja: „Þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva],‘“ það er að segja til hinnar hátt upphöfnu, sönnu tilbeiðslu á honum. Enda þótt heimurinn sé undir stjórn Satans skín þannig ljós frá Guði sem frelsar menn hópum saman frá myrkrinu.
11. Hver myndi gegna stærstu hlutverki í því að endurspegla ljósi Jehóva og hvernig bar Símeon kennsl á hann?
11 Spádómurinn í Jesaja 9:2 sagði fyrir að Guð myndi senda í heiminn þann sem myndi endurkasta ljósi hans. Þar segir: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.“ Þetta ‚mikla ljós‘ er talsmaður Jehóva, Jesús Kristur. Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóhannes 8:12) Sumir vissu þetta meðan Jesús var enn lítið barn. Lúkas 2:25 segir að maður að nafni Símeon hafi verið „réttlátur og guðrækinn“ og „heilagur andi“ verið yfir honum. Þegar Símeon sá barnið Jesús sagði hann í bæn til Guðs: „Augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum.“ — Lúkas 2:30-32.
12. Hvenær og hvernig byrjaði Jesús að fjarlægja skýlu myrkursins sem hylur menn?
12 Jesús byrjaði að svipta burt skýlu myrkursins af mannkyninu skömmu eftir skírn sína. Matteus 4:12-16 segir okkur að það hafi uppfyllt Jesaja 9:1, 2 sem talaði um „mikið ljós“ er myndi byrja að skína á fólk sem gengi í andlegu myrkri. Matteus 4:17 segir: „Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘“ Með því að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs upplýsti Jesús fólk um tilgang Guðs. Hann „leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:10.
13. Hvernig lýsti Jesús sjálfum sér og hvers vegna gat hann gert það með slíkri vissu?
13 Jesús endurspeglaði ljós Guðs trúfastlega. Hann sagði: „Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri. . . . Ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf.“ — Jóhannes 12:44-50.
„Í honum var líf“
14. Hvernig er Jesú lýst í Jóhannes 1:1, 2?
14 Já, Jehóva sendi son sinn til jarðar til að vera ljós til að vísa mönnum veginn til eilífs lífs. Taktu eftir hvernig það kemur fram í Jóhannesi 1:1-16. Vers 1 og 2 hljóða svo: „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.“ Hér notar Jóhannes titilinn „Orðið“ um Jesú í fortilveru hans. Það vísar til þess hlutverks er hann hafði sem talsmaður Jehóva Guðs. Og þegar Jóhannes segir: „Í upphafi var Orðið,“ á hann við að Orðið hafi verið upphaf sköpunarverka Jehóva, „upphaf sköpunar Guðs.“ (Opinberunarbókin 3:14) Hin háa staða Orðsins meðal sköpunarvera Guðs er fullgild ástæða fyrir því að hann skuli vera kallaður ‚guð‘ eða máttugur. Jesaja 9:6 kallar hann ‚Guðhetju‘ þótt ekki sé hann alvaldur Guð.
15. Hvaða viðbótarupplýsingar gefur Jóhannes 1:3-5 um Jesú?
15 Jóhannes 1:3 segir: „Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.“ Kólossubréfið 1:16 segir líka að ‚allt hafi verið skapað í honum í himninum og á jörðinni.‘ Og Jóhannes 1:4 segir að „í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.“ Með milligöngu eingetins sonar Guðs, Orðsins, voru því öll önnur lífsform sköpuð, og það er einnig með milligöngu sonar síns að Guð gerir syndugu, deyjandi mannkyni kleift að hljóta eilíft líf. Svo sannarlega er Jesús hinn máttugi sem Jesaja 9:2 kallar „mikið ljós.“ Og Jóhannes 1:5 segir: „Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því,“ eða „myrkrið hefur ekki borið það ofurliði.“ (NW) Ljós er tákn sannleika og réttlætis, andstætt myrkri sem er tákn villu og ranglætis. Þannig sýnir Jóhannes að myrkrið muni ekki sigra ljósið.
16. Hvernig benti Jóhannes skírari á hve umfangsmikið starf Jesú væri?
16 Jóhannes heldur nú áfram í 6. til 9. versi: „Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes [skírari]. Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann. Ekki var hann [Jóhannes] ljósið, hann kom til að vitna um ljósið [Jesú]. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“ Jóhannes benti á hinn komandi Messías og beindi fylgjendum sínum til hans. Með tíð og tíma var hverjum manni eða alls konar fólki gefið tækifæri til að taka við ljósinu. Jesús kom því ekki aðeins til gagns fyrir Gyðingana heldur til gagns öllu mannkyni — ríkum sem fátækum, óháð kynþætti.
17. Hvað segir Jóhannes 1:10, 11 okkur um andlegt ástand Gyðinga á dögum Jesú?
17 Vers 10 og 11 halda áfram: „Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.“ Áður en Jesús varð maður hafði mannkynið verið skapað með aðstoð hans. Þegar hann kom til jarðar höfnuðu flestir af hans eigin þjóð, Gyðingarnir, honum. Þeir vildu ekki láta fletta ofan af illsku sinni og hræsni. Þeir tóku myrkrið fram yfir ljósið.
18. Hvernig sýnir Jóhannes 1:12, 13 að sumir gætu orðið börn Guðs og hlotið sérstaka arfleifð?
18 Jóhannes segir í 12. og 13. versi: „En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.“ Þessi vers sýna að fylgjendur Jesú voru ekki í fyrstu synir Guðs. Fyrir komu Krists til jarðar hafði hvorki slíkur sonarréttur né himnesk von staðið mönnum til boða. Vegna verðgildis lausnarfórnar Krists, sem þeir iðkuðu trú á, var sumum mönnum hins vegar veittur sonarréttur og þeir gátu átt von um líf sem konungar með Kristi í himnesku ríki Guðs.
19. Hvers vegna er Jesús í bestri aðstöðu til að endurspegla ljós Guðs eins og fram kemur í Jóhannesi 1:14?
19 Fjórtánda vers segir: „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ Á jörðinni endurspeglaði Jesús dýrð Guðs sem einungis frumburður Guðs gat. Á einstæðan hátt var hann því hæfastur til að opinbera fólkinu Guð og tilgang hans.
20. Hvað segir Jóhannes skírari okkur um Jesú eins og fram kemur í Jóhannesi 1:15?
20 Næst segir Jóhannes í 15. versi: „Jóhannes [skírari] vitnar um hann og hrópar: ‚Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég.‘“ Jóhannes skírari fæddist um sex mánuðum áður en Jesús fæddist sem maður, en Jesús vann miklu meiri verk en Jóhannes þannig að hann var á undan Jóhannesi á alla vegu. Og Jóhannes viðurkennir að Jesús hafi verið til fyrr en hann, því að Jesús var til áður en hann varð maður.
Gjafir frá Jehóva
21. Hvers vegna segir Jóhannes 1:16 að við höfum hlotið „náð á náð ofan“?
21 Jóhannes 1:16 segir: „Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.“ Enda þótt mannkynið hafi verið fætt í synd vegna arfs frá Adam ætlar Jehóva að eyða þessu illa heimskerfi, bjarga milljónum manna inn í nýjan heim, reisa upp dána og fjarlægja synd og dauða og það mun leiða til eilífs lífs á jörð sem verður paradís. Allar þessar blessanir eru óverðskuldaðar því að syndugir menn hafa ekki áunnið sér þær. Þetta eru gjafir frá Jehóva fyrir milligöngu Krists.
22. (a) Hvað gerir mestu gjöf Guðs mögulega? (b) Hvað er okkur boðið í síðustu bók Biblíunnar?
22 Hver er sú mikla gjöf sem gerir allt þetta mögulegt? „Svo elskaði Guð heiminn [mannheiminn], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Nákvæm þekking á Guði og syni hans, „höfðingja lífsins,“ er því lífsnauðsyn fyrir þá sem vilja fá andlegt ljós og eilíft líf. (Postulasagan 3:15) Það er þess vegna sem síðasta bók Biblíunnar býður öllum sem elska sannleikann og sækjast eftir lífi: „‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ — Opinberunarbókin 22:17.
23. Hvað gera sauðumlíkir menn þegar þeir koma til ljóssins?
23 Auðmjúkir, sauðumlíkir menn bæði koma til ljóss heimsins og fylgja því ljósi: „[Sauðirnir] fylgja honum, af því að þeir þekkja [hljóm sannleikans í] raust hans.“ (Jóhannes 10:4) Þeir hafa sannarlega yndi af því að „feta í hans fótspor“ vegna þess að þeir vita að það mun hafa í för með sér eilíft líf fyrir þá. — 1. Pétursbréf 2:21.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða tvenns konar ljós kemur frá Jehóva?
◻ Hvers vegna er andleg upplýsing svona mikilvæg nú á dögum?
◻ Á hvaða hátt var Jesús „mikið ljós“?
◻ Hvað segir Jóhannes 1. kafli okkur um Jesú?
◻ Hvaða gjafir streyma til þeirra sem fylgja ljósi heimsins?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 10]
Símeon kallaði Jesú „ljós til opinberunar heiðingjum.“