Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Getur gleði og gott skipulag farið saman?

Getur gleði og gott skipulag farið saman?

Getur gleði og gott skipulag farið saman?

GOTT skipulag hjálpar okkur að gera hlutina vel. Skilvirkni hjálpar okkur að nýta tíma okkar og krafta sem best. (Galatabréfið 6:16; Filippíbréfið 3:16; 1. Tímóteusarbréf 3:2) En lífið er meira en skipulag og skilvirkni. Hinn innblásni sálmaritari sagði: „Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ (Sálmur 144:15) Það er talsverð áskorun að hafa gott skipulag á öllu sem við gerum en varðveita jafnframt gleði okkar.

Gott skipulag samfara gleði

Jehóva Guð er mesta fordæmið um gott skipulag. Allar sköpunarverur hans, allt frá einfrumungum til flókinna lífvera, frá agnarsmáum atómum til ógnarstórra vetrarbrauta, bera vitni um reglu og nákvæmni. Algild lögmál hans gera okkur kleift að skipuleggja líf okkar með öryggi. Við vitum að sólin kemur upp á hverjum morgni og að sumar fylgir vetri. — 1. Mósebók 8:22; Jesaja 40:26.

En Jehóva er ekki bara Guð reglu og skipulags. Hann er líka ‚hinn sæli Guð.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi. 1912; 1. Korintubréf 14:33) Allt sköpunarverkið ber því vitni að hann sé sæll eða hamingjusamur. Kettlingar að leik, fagurt sólsetur, lystugur matur, örvandi tónlist, ánægjuleg vinna og ótalmargt annað sýnir að hann ætlaði okkur að njóta lífsins. Lög hans eru ekki óþægilegar hömlur heldur vernda þau hamingju okkar.

Jesús Kristur líkir eftir föður sínum. Hann er „hinn sæli og eini alvaldur“ og hegðar sér nákvæmlega eins og faðir hans. (1. Tímóteusarbréf 6:15; Jóhannes 5:19) Þegar hann vann með föður sínum að sköpunarverkinu var hann meira en bara skilvirk „verkstýra.“ Hann hafði ánægju af því sem hann gerði. Hann var ,yndi [Jehóva] dag hvern, leikandi sér fyrir augliti hans alla tíma, leikandi sér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi sitt af mannanna börnum.‘ — Orðskviðirnir 8:30, 31.

Við viljum endurspegla sams konar góðvild, gleði og ást á fólki í öllu sem við gerum. Stundum getum við þó lagt svo mikið kapp á skilvirkni að við gleymum kannski að það að „ganga regluföst . . . eftir anda“ Guðs felur í sér að bera ávexti anda hans. (Galatabréfið 5:22-25, NW) Við getum því spurt hvernig hægt sé bæði að hafa gott skipulag á hlutunum og vera jafnframt ánægð í okkar eigin starfi og í því að stýra starfi annarra.

Vertu ekki grimmur við sjálfan þig

Tökum eftir hinu góða ráði sem gefið er í Orðskviðunum 11:17. Fyrst segir hinn innblásni ritari okkur að ‚kærleiksríkur maður geri sálu sinni gott.‘ Síðan kemur andstæðan: „En hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.“ New International Version orðar það þannig: „Góðviljaður maður gerir sjálfum sér gott en grimmur maður vinnur sjálfum sér tjón.“

Hvernig gætum við óafvitandi verið grimm við sjálf okkur? Ein leiðin er sú að vilja vel en hafa algera óreglu á hlutunum. Hvaða afleiðingar hefur það? Sérfræðingur segir: „Gleymska, mislagt skjal, misskilin fyrirmæli eða ranglega skráð símtal — þetta eru smáu mistökin, ormarnir sem éta sig inn í burðarvirki skilvirkninnar og láta góðan ásetning renna út í sandinn.“ — Teach Yourself Personal Efficiency.

Þetta kemur heim og saman við orð hins innblásna ritara sem sagði: „Sá sem tómlátur er í verki sínu, er skilgetinn bróðir eyðsluseggsins.“ (Orðskviðirnir 18:9) Já, óskilvirkir menn, sem hafa litla reglu á hlutunum, geta valdið sjálfum sér og öðrum ógæfu og tjóni. Sökum þessa eru þeir oft sniðgengnir. Með hirðuleysi sínu vinna þeir sjálfum sér tjón.

Lifandi hundur eða dautt ljón?

En við getum líka verið grimm við sjálf okkur með því að gera óhóflegar kröfur til sjálfra okkar. Við getum, segir höfundur bókarinnar um skilvirkni sem vitnað er í hér á undan, gert „slíkar kröfur um fullkomnun að það sé ógerlegt að uppfylla þær algerlega.“ Hann segir að afleiðingin verði á endanum „vonbrigði og hugraun.“ Sá sem er haldinn fullkomnunaráráttu er kannski skilvirkur og hefur gott skipulag á hlutunum en hann verður aldrei ánægður í raun og veru. Fyrr eða síðar verður hann bara niðurdreginn.

Ef við hneigjumst til fullkomnunaráráttu er skynsamlegt að muna að „lifandi hundur er betri en dautt ljón.“ (Prédikarinn 9:4) Við drepum okkur kannski ekki bókstaflega með óraunsærri fullkomnunaráráttu en við getum unnið sjálfum okkur alvarlegt tjón með því að brenna okkur út. Það er, að sögn heimildarmanns, „að ofkeyra sig líkamlega, tilfinningalega, andlega, vitsmunalega og félagslega.“ (Job Stress and Burnout) Það er grimmileg meðferð á sjálfum sér að ofkeyra sig með því að keppa að marki sem aldrei er hægt að ná, og óhjákvæmilegt að það ræni okkur hamingjunni.

Gerum sjálfum okkur gott

Mundu að „kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott.“ (Orðskviðirnir 11:17) Við gerum sjálfum okkur gott þegar við setjum okkur raunhæf og skynsamleg markmið og höfum í huga að hinn sæli Guð, Jehóva, þekkir takmörk okkar. (Sálmur 103:8-14) Við getum verið sæl eða hamingjusöm ef við virðum líka þessi takmörk og ‚kostum síðan kapps‘ að rækja skyldur okkar sem best við getum. — Hebreabréfið 4:11; 2. Tímóteusarbréf 2:15; 2. Pétursbréf 1:10.

Að sjálfsögðu er sú hætta alltaf fyrir hendi að við förum út í hinar öfgarnar — séum of góð við okkur. Gleymum ekki viðbrögðum Jesú við því þegar Pétur postuli stakk upp á að hann ‚væri góður við sjálfan sig‘ þegar þörf var á einbeittum aðgerðum. Svo hættulegur var hugsanagangur Péturs að Jesús sagði: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ (Matteus 16:22, 23) Það að gera sjálfum okkur gott gefur okkur ekki svigrúm til kæruleysis og sjálfsdekurs. Við þurfum að vera sanngjörn, ekki ofstækisfull. — Filippíbréfið 4:5.

Veitum öðrum umbun

Fræðimennirnir og farísearnir á dögum Jesú álitu sig líklega mjög skilvirka og skipulega. A Dictionary of the Bible segir um guðsdýrkun þeirra: „Sérhvert boðorð Biblíunnar var umkringt heilu neti smásmugulegra reglna. Ekkert svigrúm var gefið fyrir breytilegar aðstæður; krafist var miskunnarlaust að sérhver Gyðingur hlýddi lögmálinu í öllum smáatriðum . . . Hin lagalegu smáatriði voru margfölduð uns trúin varð atvinna og lífið óþolandi byrði. Menn voru gerðir að siðferðilegum vélmennum. Rödd samviskunnar var kæfð; hinn lifandi máttur orðs Guðs var bældur niður og kæfður undir ógrynni eilífra reglna.“

Engin furða er að Jesús Kristur skyldi fordæma þá fyrir það. „Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.“ (Matteus 23:4) Kærleiksríkir öldungar forðast að íþyngja hjörðinni með aragrúa smásmugulegra reglna og ákvæða. Þeir gera hjörð Guðs gott með því að fylgja fordæmi Krists Jesú og vera góðviljaðir og uppörvandi. — Matteus 11:28-30; Filippíbréfið 2:1-5.

Jafnvel þegar sinna þarf margs konar ábyrgð og verkefnum innan skipulagsins missa umhyggjusamir öldungar aldrei sjónar á þeirri staðreynd að þeir eru að annast fólk — fólk sem Guð elskar. (1. Pétursbréf 5:2, 3, 7; 1. Jóhannesarbréf 4:8-10) Þeir verða aldrei svo uppteknir af skipulagsmálum eða starfsreglum að þeir gleymi meginhlutverki sínu sem er það að gæta, annast og vernda hjörðina. — Orðskviðirnir 3:3; 19:22; 21:21; Jesaja 32:1, 2; Jeremía 23:3, 4.

Það að vera algerlega upptekinn af áætlunum og tölum gæti til dæmis valdið því að umhyggja fyrir fólki kæmist ekki að. Tökum sem dæmi strætisvagnastjóra sem álítur það aðalskyldu sína að halda tímaáætlun hvað sem það kostar. Hann er gagntekinn þeirri löngun að komast akstursleiðina á enda nákvæmlega eftir tímaáætlun. Frá hans sjónarhóli eru farþegarnir því miður að þvælast fyrir. Þeir eru hægfara, í einni kös og koma alltaf á viðkomustaði vagnsins rétt í sömu mund og hann er að leggja af stað. Í stað þess að hafa í huga að starf hans hefur það markmið að þjóna þörfum farþeganna sér hann þá sem hindrun í vegi fyrir því að hann haldi áætlun og forðast þá.

Umhyggja fyrir hverjum og einum

Tilfinningalaust kapp eftir skilvirkni og atorku tekur oft ekkert tillit til þarfa einstaklingsins. Þeir sem eru veikburða og atorkulitlir eru kannski álitnir byrði. Þegar slíkt gerist geta afleiðingarnar orðið skelfilegar. Í forngríska borgríkinu Spörtu voru veikburða og lasburða börn til dæmis borin út. Þau hefðu ekki orðið efni í sterka og hrausta hermenn til að verja sterkt og vel skipulagt ríki. „Þegar barn fæddist,“ segir heimspekingurinn Bertrand Russell, „færði faðirinn það öldungum fjölskyldu sinnar til rannsóknar. Væri það hraust var það afhent föðurnum aftur til uppeldis; ef ekki var því kastað í djúpa vatnsgryfju.“ — History of Western Philosophy.

Ríki, sem stjórnað var af slíku miskunnarleysi, einkenndist af hörku og sjálfsafneitun, ekki hamingju. (Samanber Prédikarann 8:9.) Vafalaust álitu yfirvöld Spörtu að skilvirknin réttlætti gerðir þeirra, en framferði þeirra var gersneytt allri góðvild og umhyggju. Starfshættir þeirra voru ekki í samræmi við starfshætti Guðs. (Sálmur 41:2; Orðskviðirnir 14:21) Umsjónarmenn kristna safnaðarins fara ólíkt að og muna að allir sauðir Guðs eru dýrmætir í augum hans og þeir gera einum og sérhverjum þeirra gott. Þeir láta sér ekki bara annt um þá 99, sem eru hraustir, heldur einnig þann eina sem er veikburða eða í tilfinningalegu ójafnvægi. — Matteus 18:12-14; Postulasagan 20:28; 1. Þessaloníkubréf 5:14, 15; 1. Pétursbréf 5:7.

Haltu þér nærri hjörðinni

Öldungar halda sér nærri hjörðinni sem er í þeirra umsjá. Nútímarannsóknir á aðferðum viðskiptaheimsins geta hins vegar gefið til kynna að framkvæmdastjóri eða umsjónarmaður ætti ekki að vera kumpánlegur við þá sem hann hefur umsjón með. Rannsóknarmaður lýsir ólíkri reynslu foringja í flugher eftir því hvort hann átti náið samband við undirmenn sína eða hélt þeim í hæfilegri fjarlægð: „Þegar hann átti mjög náin tengsl við undirforingja sína virtust þeir finna til öryggiskenndar og ekki gera sér óhóflegar áhyggjur af skilvirkni herdeildarinnar. Um leið og hann varð fálátari og hugsaði meira um stöðu sína tóku undirmenn hans að hafa áhyggjur af því hvort eitthvað hefði farið úrskeiðis . . . og áhyggjur þeirra birtust í því að þeir gáfu starfi sínu meiri gaum. Afleiðingin varð sú að skilvirkni herstöðvarinnar jókst marktækt.“ — Understanding Organizations.

En kristni söfnuðurinn er ekki herstöð. Kristnir öldungar, sem hafa umsjón með starfi annarra, taka Jesú Krist sér til fyrirmyndar. Hann hafði alltaf náin tengsl við lærisveina sína. (Matteus 12:49, 50; Jóhannes 13:34, 35) Hann notfærði sér aldrei áhyggjur þeirra til að auka skilvirkni þeirra. Hann byggði upp sterkt, gagnkvæmt trúnaðartraust milli sín og fylgjenda sinna. Innileg kærleiksbönd einkenndu lærisveina hans. (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Þegar böndin eru svona náin er hjörðin hamingjusöm, lætur kærleika til Guðs knýja sig til verka, bregst jákvætt og þvingunarlaust við forystu og gerir sitt ýtrasta í fúsri þjónustu við hann. — Samanber 2. Mósebók 35:21.

Margir ritningarstaðir leggja áherslu á kristna eiginleika svo sem hamingju og kærleika til bræðrafélagsins. (Matteus 5:3-12; 1. Korintubréf 13:1-13) Tiltölulega fáir leggja áherslu á þörfina á skilvirkni. Að sjálfsögðu er gott skipulag nauðsynlegt. Þjónar Guðs hafa alltaf haft gott skipulag sín á meðal. En hugsaðu um það hve oft þjónum Guðs er lýst þannig, til dæmis í Sálmunum, að þeir séu sælir eða hamingjusamir. Sálmur 119, sem hefur margt að segja um lög Jehóva, áminningar og reglur, hefst með þessum orðum: „Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli [Jehóva]. Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta.“ (Sálmur 119:1, 2) Getur þú tekið þeirri áskorun að hafa bæði gott skipulag á hlutunum og vera hamingjusamur?