Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varið ykkur á óheilnæmri tónlist!

Varið ykkur á óheilnæmri tónlist!

Varið ykkur á óheilnæmri tónlist!

„Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:15, 16.

1. Hvers vegna má kalla tónlist „Guðs gjöf“?

 „TÓNLIST . . . er Guðs gjöf.“ Svo skrifaði Lulu Rumsey Wiley í bók sinni Bible Music. Allt frá öndverðu hafa guðhræddir karlar og konur viðurkennt það. Maðurinn hefur tjáð sínar dýpstu tilfinningar — gleði, sorgir, reiði og ást — í tónlist. Tónlist gegndi því mikilvægu hlutverki á biblíutímanum og er nefnd víða í hinni helgu bók. — 1. Mósebók 4:21; Opinberunarbókin 18:22.

2. Hvernig var tónlist notuð á biblíutímanum til að lofa Jehóva?

2 Það var í tilbeiðslunni á Jehóva sem tónlist birtist með göfugustum hætti. Sumar af fegurstu lofgerðum til Jehóva Guðs, sem þekkjast, voru upphaflega fluttar með tónlist. „Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng,“ kvað sálmaritarinn Davíð. (Sálmur 69:31) Sumir léku á hljóðfæri þegar þeir báðust fyrir einir saman. „Ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar,“ orti Asaf. (Sálmur 77:7) Í musteri Jehóva var tónlist notuð með tilkomumiklum hætti. (1. Kroníkubók 23:1-5; 2. Kroníkubók 29:25, 26) Stundum var teflt fram mikilli sveit tónlistarmanna, svo sem við musterisvígsluna þegar stillt var upp 120 lúðrablásurum. (2. Kroníkubók 5:12, 13) Við höfum engar heimildir fyrir því hvernig þessi mikilfenglega tónlist hljómaði en bókin The Music of the Bible segir: „Ekki er erfitt að mynda sér skoðun um almenn áhrif tónlistarinnar í musterinu við hátíðleg tækifæri . . . Ef einhver okkar gæti ferðast aftur í tímann og verið viðstaddur slíkan viðburð yrði hann óhjákvæmilega gagntekinn djúpri lotningu og göfugleik.“ *

Tónlist misnotuð

3, 4. Á hvaða hátt misnotaði þjóð Guðs og heiðnir nágrannar hennar tónlist?

3 Tónlist var þó ekki alltaf notuð í svona göfugum tilgangi. Við Sínaífjall var tónlist notuð til að örva til dýrkunar gullkálfsins. (2. Mósebók 32:18) Tónlist var einnig stundum tengd drykkjuskap og jafnvel vændi. (Sálmur 69:13; Jesaja 23:15) Heiðnir nágrannar Ísraels voru jafnsekir um að misnota þessa gjöf Guðs. „Í Fönikíu og Sýrlandi,“ segir The Interpreter’s Dictionary of the Bible, „endurómaði nálega öll vinsæl tónlist dýrkun frjósemisgyðjunnar Ístar. Þannig var vinsælt lag yfirleitt undanfari kynsvalls.“ Forn-Grikkir dönsuðu líka „kynæsandi dansa“ við vinsæla tónlist.

4 Já, tónlist býr yfir krafti til að hafa áhrif á menn, hrífa og gagntaka. Fyrir mörgum áratugum var jafnvel gengið svo langt í bók John Stainers, The Music of the Bible, að segja: „Engin list fer með jafnsterkt áhrifavald yfir manninum nú á tímum og tónlistin.“ Tónlist hefur enn sterk áhrif. Þess vegna getur guðhræddum unglingum stafað raunveruleg hætta af rangri tegund tónlistar.

Varúðar er þörf

5. (a) Hve stóru hlutverki gegnir tónlist í lífi margra táninga? (b) Hvernig lítur Guð á það að ungt fólk skemmti sér?

5 Ef þú ert ungur veist þú vel hve mikilvæg tónlist — einkum ýmiss konar popp- eða rokktónlist — er fyrir marga á þínum aldri. Tónlist hefur jafnvel verið kölluð „þáttur í efnaskiptum táninga.“ Talið er að síðustu sex skólaárin hlusti bandarískur unglingur á rokktónlist í að meðaltali yfir fjórar klukkustundir á dag! Það ber sannarlega vitni um ójafnvægi. Ekki svo að skilja að það sé neitt rangt við það að njóta þess sem gerir fólk ánægt og lætur því líða vel. Jehóva, skapari gleðilegrar tónlistar, ætlast ekki til að ungt fólk sé dapurt eða vansælt. Hann fyrirskipar meira að segja þjónum sínum: „Gleðjist yfir [Jehóva] og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!“ (Sálmur 32:11) Orð hans segir þeim sem ungir eru: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín.“ — Prédikarinn 11:9.

6. (a) Hvers vegna þurfa unglingar að vera varkárir í vali sínu á tónlist? (b) Hvers vegna er stór hluti tónlistar nú á tímum hneykslanlegri en tónlist fyrri kynslóða?

6 Eigi að síður er full ástæða fyrir þig til að vera vandfýsinn í vali þínu á tónlist. Páll postuli sagði í Efesusbréfinu 5:15, 16: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ Sumir unglingar andmæla eins og ein ung stúlka: „Foreldrar okkar fengu að hlusta á sína tónlist þegar þeir voru ungir. Af hverju megum við ekki hlusta á okkar?“ Kannski var sum tónlist, sem foreldrar ykkar höfðu ánægju af þegar þeir voru á ykkar aldri, líka aðfinnsluverð. Þegar grannt er skoðað reynast mörg sívinsæl dægurlög ýja ótrúlega oft að siðleysi, beint eða undir rós. En því sem áður var aðeins ýjað að en lýst núna berum orðum. Rithöfundur segir: „Siðlaus boðskapur dynur núna á börnum okkar í meira magni en þekkst hefur nokkru sinni fyrr í menningu okkar.“

Rapp — tónlist uppreisnarinnar

7, 8. (a) Hvað er rapptónlist og af hverju stafa vinsældir hennar? (b) Hvað gæti einkennt þann sem tileinkar sér lífsstíl rappsins?

7 Tökum rapptónlistina sem dæmi en hún er mjög í tísku núna. Að sögn tímaritsins Time er rapp orðið „alþjóðleg hljóðfallsbylting“ og er gífurlega vinsælt í Bandaríkjunum, Brasilíu, Evrópu, Japan og Rússlandi. Oft er alls engin laglína heldur eru textarnir þuldir, ekki sungnir, undir kröftugum takti. En það virðist vera þessi harði taktur sem er leyndardómurinn að baki því hve góð verslunarvara rappið hefur orðið. „Þegar ég hlusta á rapptónlist,“ segir japönsk unglingsstúlka, „finnst mér ég spennt, og þegar ég dansa finnst mér ég frjáls.“

8 Textarnir við rapplögin — oft ósvífnisleg blanda blótsyrða og götuslangurs — virðist vera önnur ástæða fyrir vinsældum rappsins. Ólíkt venjulegum rokklagatextum, sem margir hverjir fjalla um ástir unglinga, er boðskapur rapplagatextanna oft alvarlegri. Sumir rapplagatextar andmæla óréttlæti, kynþáttamisrétti og hrottaskap lögreglu. Stundum eru stefin þó þulin á grófasta og hneykslanlegasta máli sem hugsast getur. Rappið virðist líka vera uppreisn gegn hefðbundnum stöðlum um klæðnað, hárgreiðslu og siðferði. Það kemur ekki á óvart að rappið hefur skapað sér sinn eigin lífsstíl. Rappunnendur þekkjast á götuslangri, áberandi fasi eða klæðaburði — pokalegum gallabuxum, óreimuðum, háum íþróttaskóm, gullkeðjum, derhúfum og sólgleraugum.

9, 10. (a) Hvað ættu unglingar að íhuga til að ganga úr skugga um hvort rapptónlist og lífsstíllinn, sem fylgir henni, ‚þóknist Drottni‘? (b) Hvað virðast sumir kristnir unglingar láta sér í léttu rúmi liggja?

9 Í Efesusbréfinu 5:10 er kristnum mönnum sagt að ‚meta rétt, hvað Drottni þóknast.‘ Með hliðsjón af þeim orðstír sem rappið hefur getið sér, heldur þú að það geti verið ‚Drottni þóknanlegt‘ að þú gefir þig að því? Myndi kristinn maður vilja láta kenna sig við þann lífsstíl sem jafnvel margir í heiminum álíta ótækan? Taktu eftir hvernig gagnrýnandi lýsti rapptónleikum: „Rappsöngvararnir kepptust við að ganga hver öðrum lengra í blótsyrðum og kynferðislega djörfum textum. . . . Dansarar (karlar og konur) líktu eftir kynlífsathöfnum á sviðinu.“ Einn þeirra sem stóð fyrir hljómleikunum sagði um eitt aðalatriðið á dagskránni: „Annað hvert orð sem kemur út úr þeim er (klúrt).“

10 Tónlistin, sem leikin var þetta kvöld, var þó tæplega talin fjarri meginstraumi rapptónlistarinnar. Forstöðumaður tónleikasalarins sagði: „Það sem maður heyrir hér er venjulegt rapp — hið sama og krakkarnir kaupa í búðunum.“ Það er hryggilegt frá að segja að meðal þeirra rúmlega 4000 unglinga, sem sóttu tónleikana, voru nokkrir sem segjast vera vottar Jehóva! Sumir láta sér greinilega í léttu rúmi liggja að Satan er ‚valdhafinn í loftinu.‘ Hann stjórnar þeim ‚anda [eða ríkjandi hugarfari] sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.‘ (Efesusbréfið 2:2) Hagsmunum hvers værir þú að þjóna ef þú gæfir þig að rapptónlist eða þeim lífsstíl sem hún ýtir undir? Að vísu er ekki öll rapptónlist jafn-hneykslanleg og lýst er hér að ofan, en er einhver skynsemi í því að rækta með sér smekk fyrir þess konar tónlist sem er að stærstum hluta hneykslanleg samkvæmt kristnum mælikvarða?

Þungarokk — kynlíf, ofbeldi og Satansdýrkun

11, 12. Hvað er þungarokk og hvað einkennir það sem er hneykslanlegt?

11 Þungarokk er önnur vinsæl tónlistartegund. Þungarokk er meira en venjulegt, hávært rokk. Í frétt í The Journal of the American Medical Association segir: „Þungarokk . . . einkennist af háværum, föstum takti og textarnir lofsyngja gjarnan hatur, misþyrmingu, afbrigðilegt kynlíf og stöku sinnum Satansdýrkun.“ Meira að segja nöfn sumra af vinsælustu hljómsveitunum bera vitni um siðspillingu þessa rokkafbrigðis. Í þeim bregður fyrir orðum eins og „eitur,“ „byssur“ og „dauði.“ En þungarokk virðist þó næsta saklaust í samaburði við thrash-rokk og dauðarokk — öfgagreinar sprottnar út af þungarokkinu. Í nöfnum þessara hljómsveita bregður fyrir orðum eins og „mannæta“ og „dauði.“ Unglingar víða um lönd gera sér kannski ekki grein fyrir hve fráhrindandi þessi nöfn eru vegna þess að þau eru á ensku eða öðru erlendu máli.

12 Þungarokk hefur margsinnis verið sett í samband við sjálfsmorð unglinga, þunglyndi og fíkniefnanotkun. Tengsl þess við ofbeldisfulla hegðun kom útvarpsráðgjafa til að segja sem svo að það væri „ágætt að drepa foreldra sína við þessa tónlist.“ Það eru tengslin við Satansdýrkun sem skýtur mörgum foreldrum — og lögreglumönnum — skelk í bringu. Rannsóknarmaður fullyrðir að sumir unglingar, sem fást við Satansdýrkun, hafi byrjað á því vegna áhrifa þessarar tónlistar. „Þeir vita ekki hvað þeir eru að fara út í,“ segir hann.

13. Hvaða hættur felast í því að gefa sig að þungarokki?

13 Kristnum unglingum ætti samt sem áður ekki að vera „ókunnugt um vélráð [Satans].“ (2. Korintubréf 2:11) Þegar öllu er á botninn hvolft er „baráttan, sem vér eigum í, . . . við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Það væri mjög heimskulegt að bjóða illum öndum inn í líf sitt gegnum tónlistina sem maður velur sér! (1. Korintubréf 10:20, 21) Fjölmörg kristin ungmenni eru þó greinilega hrifin af þessari tónlist. Sum hafa jafnvel gripið til þess ráðs að hlusta á hana í laumi. Ung stúlka viðurkennir: „Ég hlustaði á þungarokk, stundum næstum alla nótinna. Ég keypti aðdáendablöð um þungarokk og faldi þau í skókössum svo að foreldrar mínir sæju þau ekki. Ég laug að foreldrum mínum. Ég veit að Jehóva var ekki ánægður með mig.“ Grein í tímaritinu Vaknið! kom vitinu fyrir hana. Hve margir aðrir unglingar skyldu enn vera í fjötrum slíkrar tónlistar?

Þú uppskerð það sem þú sáir

14, 15. Hvers vegna megum við vera viss um að það hafi neikvæð áhrif að hlusta á óheilnæma tónlist? Lýstu með dæmum.

14 Vanmettu ekki hættuna sem getur fylgt slíkri tónlist. Sjálfsagt hefurðu ekki löngun til að drepa einhvern eða fremja siðleysi aðeins af því að þú hlustaðir á eitthvert lag. Eigi að síður segir Galatabréfið 6:8: „Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“ Að hlusta á tónlist sem er jarðnesk, dýrsleg og jafnvel djöfulleg getur ekki annað en haft neikvæð áhrif á þig. (Samanber Jakobsbréfið 3:15.) Haft er eftir Joseph Stuessy, tónlistarprófessor: „Öll tónlist hefur áhrif á hugarástand okkar, tilfinningar, viðhorf og hegðunina sem af því leiðir . . . Hver sá sem segir: ‚Ég get hlustað á þungarokk en það hefur ekki áhrif á mig,‘ hefur einfaldlega rangt fyrir sér. Það hefur bara mismikil og ólík áhrif á ólíka einstaklinga.“

15 Kristinn unglingur viðurkennir: „Ég varð fyrir svo miklum áhrifum af thrash-rokki að allur persónuleiki minn breyttist.“ Fljótlega fóru illir andar að valda honum vandræðum. „Loks losaði ég mig við plöturnar og losnaði þá við illu andana.“ Annar unglingur viðurkennir: „Tónlistin, sem ég var vanur að hlusta á, snerist annaðhvort um spíritisma, fíkniefni eða kynlíf. Margir unglingar segja að það hafi ekki áhrif á þá, en það gerir það samt. Ég yfirgaf næstum sannleikann.“ Orðskviður spyr: „Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?“ — Orðskviðirnir 6:27.

Vertu á verði

16. Hvað má segja um semjendur og flytjendur stórs hluta nútímatónlistar?

16 Páll skrifaði kristnum mönnum í Efesus til forna: „Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.“ (Efesusbréfið 4:17, 18) Mætti ekki segja þetta um höfunda og flytjendur stórs hluta tónlistar nútímans? Allar tegundir tónlistar enduróma meira en nokkru sinni fyrr áhrif ‚guðs þessarar aldar,‘ Satans djöfulsins. — 2. Korintubréf 4:4.

17. Hvernig geta unglingar lagt mat á eða prófað tónlist?

17 Biblían spáði um ‚síðustu daga‘: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Þú þarft því að hafa nákvæmari gát en nokkru sinni fyrr á tónlistinni sem þú velur þér. Oft nægir ógeðfelldur titill til að dæma hljómplötu óhlustandi. Jobsbók 12:11 spyr: „Prófar eyrað ekki orðin, eins og gómurinn smakkar matinn?“ Á svipaðan hátt getur þú prófað tónlistina með því að hlusta gagnrýnu eyra á brot úr henni. Hvers konar tilfinningar vekur laglínan með þér? Ýtir hún undir tryllta, spillta hegðun og svallsemi? (Galatabréfið 5:19-21) Hvað um textana? Hvetja þeir til kynferðislegs siðleysis, fíkniefnanotkunar eða annarra synda sem er „jafnvel svívirðilegt um að tala“? (Efesusbréfið 5:12) Biblían segir að slíkt eigi ekki einu sinni „að nefnast á nafn meðal“ þjóna Guðs, hvað þá að endurtaka það taktfast aftur og aftur. (Efesusbréfið 5:3) Hvað um plötuhulstrið? Eru myndirnar kynæsandi eða með spíritisku ívafi?

18. (a) Hvaða breytingar geta sumir unglingar þurft að gera í sambandi við tónlist? (b) Hvernig geta unglingar þroskað með sér smekk fyrir heilnæmari tónlist?

18 Ef til vill þarft þú að breyta einhverju í tónlistarvali þínu. Ef þú átt hljómplötur, hljóðbönd, myndbönd og geisladiska með siðlausu og spíritisku efni ættir þú að losa þig við það þegar í stað. (Samanber Postulasöguna 19:19.) Það þýðir ekki að þú getir ekki notið tónlistar; það er alls ekki öll vinsæl tónlist aðfinnsluverð. Sumir unglingar hafa auk þess tileinkað sér breiðari tónlistarsmekk og hafa nú gaman af sumri sígildri tónlist, þjóðlagatónlist, léttri jasstónlist og mörgu fleiru. Hljóðböndin með tónlist Guðsríkis hafa hjálpað mörgum ungmennum að þroska með sér smekk fyrir hressandi sinfóníutónlist.

19. Hvers vegna er mikilvægt að halda tónlist í réttu hófi?

19 Tónlist er Guðs gjöf. Margir gera sig hins vegar svo upptekna af henni að ekkert annað kemst að. Það er óheilnæmt. Þeir eru eins og Ísraelsmenn til forna sem höfðu ánægju af að leika á ‚gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur . . . en gjörðum Jehóva gáfu þeir eigi gaum.‘ (Jesaja 5:12) Settu þér það markmið að halda tónlist í réttu hófi og láta gerðir Jehóva vera aðalhugðarefni þitt. Vertu vandfýsinn og gætinn í vali þínu á tónlist. Þá getur þú notað — ekki misnotað — þessa gjöf Guðs.

[Neðanmáls]

^ Ísraelsþjóðin virðist hafa skarað fram úr á sviði tónlistar. Assýrsk lágmynd sýnir að Sanheríb konungur krafðist ísraelskra tónlistarmanna í skatt frá Hiskía konungi. Grove’s Dictionary of Music and Musicians segir: „Að krefjast tónlistarmanna í skatt . . . var sannarlega óvenjulegt.“

Manst þú?

◻ Hvers vegna má kalla tónlist Guðs gjöf?

◻ Hvernig var tónlist misnotuð til forna?

◻ Hvernig stafar kristnum unglingum hætta af rappi og þungarokki?

◻ Hvernig geta kristnir unglingar sýnt aðgát í tónlistarvali sínu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Á biblíutímanum var tónlist oft notuð til að lofsyngja Jehóva.