Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Aukið starf á nærverutíma Krists

Aukið starf á nærverutíma Krists

Aukið starf á nærverutíma Krists

„Þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — MATTEUS 25:34.

1. Á hvaða hátt hefur parósía Krists verið eins og „dagar Nóa“?

 NÆRVERA Krists — sá langþráði atburður! Tíminn líkur „dögum Nóa,“ sem Jesús talaði um í tengslum við ‚endalok veraldar,‘ rann upp árið 1914. (Matteus 24:3, 37) En hvað myndi nærvera Krists eða parósía þýða fyrir hinar smurðu leifar ‚hins trúa og hyggna þjóns‘? (Matteus 24:45) Nú, að þær þyrftu að verða sífellt starfssamari sem ljósberar! Stórkostlegir hlutir áttu að gerast! Samansöfnun, slík sem átti sér ekkert fordæmi, var í þann mund að hefjast.

2. Hvaða hreinsun hefur átt sér stað til uppfyllingar Malakí 3:1-5?

2 En fyrst þurftu þessir smurðu kristnu menn að hreinsast. Eins og Malakí 3:1-5 hafði sagt fyrir komu Jehóva Guð og ‚engill sáttmálans,‘ Jesús Kristur, til að skoða hið andlega musteri vorið 1918. Dómurinn átti að hefjast „á húsi Guðs.“ (1. Pétursbréf 4:17) Malakí 3:3 sagði fyrir: „Hann [Jehóva] mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur.“ Það var tími hreinsunar og fágunar.

3. Hvers vegna er nauðsynlegt að andleg hreinsun eigi sér stað?

3 Með því að ganga gegnum þennan dómstíma, sem náði hámarki árið 1918, voru leifar þjónshópsins hreinsaðar af veraldlegum og trúarlegum óhreinleika. Hvers vegna hreinsaði Jehóva þá? Vegna þess að það varðaði andlegt musteri hans. Það er ráðstöfun Guðs, sem líkist musteri, til að tilbiðja Jehóva á grundvelli friðþægingarfórnar Jesú Krists. Jehóva vildi að musteri hans væri hreint þannig að þegar stórir hópar dýrkenda hans með jarðneska von væru leiddir þangað myndu þeir finna stað þar sem alheimsdrottinvald hans væri virt, þar sem nafn hans væri helgað og réttlátum lögum hans væri hlýtt. Þannig myndu þeir meta Jehóva að verðleikum og taka þátt í að kunngera stórkostlegan tilgang hans.

Aukin sérréttindi

4, 5. (a) Hvernig er spurning Jesú Krists áskorun á sérhvern sem tilheyrir þjónshópnum nú á dögum? (b) Hvernig ber að skilja orðin ‚trúr og hygginn þjónn‘ og ‚hjú hans‘? (c) Hvaða verkefni fékk Jesús þjóninum?

4 Árið 1919 gat hinn hreinsaði þjónshópur hlakkað til síaukins starfs. Árið 1914 hafði Jesús Kristur, húsbóndi þeirra, tekið við hinu himneska ríki. Þegar hann sneri aftur til að skoða öll ‚hjú‘ sín var hann íklæddur konungstign sem hann hafði ekki haft þegar hann var hér niðri á jörðinni. Hvað fann hann? Var þjónshópurinn önnum kafinn við að gæta hagsmuna húsbóndans? Í Matteusi 24:45-47 spurði Jesús spurningar sem skorar á sérhvern smurðan lærisvein að grannskoða persónulega hollustu sína við Messías Jehóva: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“

5 Augljóslega hæfir lýsing Jesú á þessum trúa þjóni ekki neinum einstökum manni. Hún lýsir hins vegar trúföstum, smurðum söfnuði Krists sem heild, sem hópi. Hjúin eru smurðir fylgjendur Krists sem einstaklingar. Jesús vissi að hann ætti eftir að kaupa smurða fylgjendur sína með sínu eigin blóði, þannig að hann talaði um þá alla saman sem þjón sinn. Fyrra Korintubréf 7:23 segir um þá: „Þér [allir sem heild] eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.“ Jesús fól þjónshópi sínum að láta ljós sitt skína til að laða að og gera aðra menn að lærisveinum og að næra hjúin markvisst með því að gefa þeim andlega fæðu á réttum tíma.

6. Hvernig var þjóninum umbunað eftir rannsókn Jesú?

6 Frá því er nærvera Krists hófst og fram til 1918 hafði þjónshópurinn, þrátt fyrir óvinsældir, ofsóknir og jafnvel dálitla ráðvillu, leitast við að gefa hjúunum tímabæra, andlega fæðu. Það var það sem húsbóndinn uppgötvaði þegar athugun hans hófst. Drottinn Jesús var ánægður og árið 1919 lýsti hann þennan trúa þjónshóp sælan. Hver voru hin gleðilegu laun þjónsins fyrir að gera það sem húsbóndinn hafði skipað hann til að gera? Stöðuhækkun! Já, aukin ábyrgð í því að vinna að hagsmunamálum húsbóndans. Með því að húsbóndinn var núna himneskur konungur urðu jarðneskar eigur hans enn dýrmætari.

7, 8. (a) Hverjar eru „allar eigur“ húsbóndans? (b) Hvers krefst það af þjóninum að hafa umsjón með þessum eigum?

7 Hverjar eru þá ‚allar eigur hans‘? Þær eru augljóslega allir hinir andlegu hlutir sem eru orðnir eign Krists á jörðinni í tengslum við vald hans sem himneskur konungur. Það fól tvímælalaust í sér umboðið til að gera menn að lærisveinum Krists ásamt þeim stórkostlegu sérréttindum að koma fram sem fulltrúar hins stofnsetta ríkis Guðs meðal allra þjóða heims.

8 Slík stöðuhækkun til að hafa umsjón með öllum eigum húsbóndans útheimti að þjónshópurinn gæfi því meiri tíma og athygli að gera starfi Guðsríkis skil og skapaði einnig betri aðstöðu til þess starfs. Núna var starfssviðið miklu stærra en áður — öll jarðarbyggðin.

Sauðunum safnað saman

9. Hvað hefur leitt af vaxandi starfsemi þjónsins?

9 Hlýðinn í bragði færði hinn trúi og hyggni þjónn Krists út kvíarnar í starfi sínu. Og hver er árangurinn? Hinum síðustu af þeim 144.000 smurðu var safnað saman. Þá fór sýn Jóhannesar, sem sagt er frá í Opinberunarbókinni 7:9-17, að verða hrífandi veruleiki sem yljar okkur um hjartarætur. Einkum frá 1935 hefur þjónshópurinn notið þess að sjá þessa sýn uppfyllast jafnt og þétt. Alls staðar að af jörðinni streymir nú „mikill múgur“ í milljónatali inn á umráðasvæði andlegs musteris Jehóva sem tilbiðjendur hans. Engill Jehóva sagði Jóhannesi að enginn hafi getað komið tölu á þennan mikla múg. Það merkir að því eru engin takmörk sett hve margt fólk þjónshópurinn getur fært inn í andlegt musteri Jehóva. Svo lengi sem leiðin stendur opin verður haldið áfram að safna þeim saman.

10. Hvað kærleiksríku starfi vinnur þjónninn að núna?

10 Hinn trúi þjónshópur ber þá þungu ábyrgð að annast sífellt fleiri „aðra sauði,“ vitandi að þessir sauðumlíku menn af öllum þjóðum eru mjög hjartfólgnir húsbóndanum Jesú Kristi. Þeir eru í rauninni hans hjörð. (Jóhannes 10:16; Postulasagan 20:28; 1. Pétursbréf 5:2-4) Í kærleika til meistara síns og sauðanna heldur þjónshópurinn því hamingjusamur áfram að sinna andlegum þörfum múgsins mikla.

11-13. Hvaða viðeigandi orð lét þáverandi forseti Varðturnsfélagsins falla um starf þjónsins?

11 Já, ljósberastarf þjónshópsins er að stærstum hluta fólgið í því að safna saman þessum jarðnesku þegnum Guðsríkis. Þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, F. W. Franz, sagði um sívaxandi starf hins trúa þjóns rétt fyrir dauða sinn í desember 1992:

12 „Jesús Kristur hefur notað skipulagið á sífellt stórkostlegri hátt, samkvæmt reynslu minni á 99 ára ævi. Það er ekki einfaldlega maður sem stjórnar skipulaginu heldur hlýtur það að vera Drottinn Jesús Kristur, því að það hefur áorkað langtum stórkostlegri hlutum en hvarflaði nokkru sinni að okkur. Núna höfum við skipulag sem hefur teygt sig út um allan heiminn. Það starfar á norðurhveli jarðar og á suðurhveli jarðar, í austri og í vestri. Aðeins ein persóna getur staðið að baki þessum einstæða vexti — sonur Guðs sem ber ábyrgð á hinum trúa þjónshópi. Hann hefur risið undir ábyrgð sinni og það er það sem er skýringin á þessum tilkomumikla vexti sem við höfum orðið vitni að.

13 Þetta stendur ekki og fellur með einum manni. Við höfum skipulag sem er guðræðislegt og það starfar á guðræðislegan hátt, stjórnað eftir aðferð Guðs. Enginn maður, ekki einu sinni stofnandi Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, getur gert tilkall til eða verið eignuð ábyrgðin á því sem hefur verið áorkað út um allan hnöttinn. Það er einfaldlega undursamlegt.“ Og eru ekki allir þeir sem tilheyra hinum mikla múgi af öllu hjarta sammála þessu viðhorfi bróður Franz heitins? Jú, svo sannarlega eru þeir innilega þakklátir fyrir aukið starf hins trúa þjóns.

Þegnar Guðsríkis

14, 15. (a) Hverju lýsti Jesús í dæmisögunni um talenturnar (Matteus 25:14-30)? (b) Hverju er lýst næst í 25. kafla Matteusar?

14 Líking Jesú í Matteusi 25. kafla um sauðina og hafrana lýsir þessu mikla starfi að safna saman jarðneskum þegnum Guðsríkis. Í dæmisögunni á undan henni, dæmisögunni um talenturnar, lýsti Jesús því að hinir trúu lærisveinar, sem hafa von um að ríkja með honum í ríkinu á himnum, verði að vinna að því að auka jarðneskar eigur hans. Það er því vel við hæfi að í dæmisögunni á eftir skuli Jesús lýsa því hvers sé krafist af þeim sem vilja verða þegnar himnesks ríkis hans.

15 Taktu eftir athugasemdum hans í Matteusi 25:31-33: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.“

16. Hvernig er þjóðunum safnað og fólk aðgreint?

16 Jesús kom í dýrð sinni árið 1914. Hann lagði til atlögu ásamt öllum englunum og réðst gegn og rak út alla djöflaóvini sína af himnum. Það sem því næst gerist í dæmisögunni hjálpar okkur að skilja að það að hann skuli setjast í dýrðarhásæti sitt táknar að hann situr sem dómari á nærverutíma sínum. Að öllum þjóðum skuli safnað saman frammi fyrir honum merkir að Jesús fær allar þjóðirnar sem væntanlega hjörð sína í táknrænni merkingu. Það er hjörð þar sem blandað er saman sauðum og höfrum. Enda þótt dagstund gæti nægt til að skilja sauði frá höfrum í bókstaflegri hjörð tekur það miklu lengri tíma að aðgreina um alla jörðina menn með frjálsa siðferðisvitund. Það kemur til af því að aðgreiningin byggist á þeirri lífsstefnu sem hver og einn tekur.

17. Hvers vegna er staðan nú á tímum alvarleg fyrir alla menn?

17 Í dæmisögunni skipar hirðirinn og konungurinn hinum sauðumlíku sér á hægri hönd en þeim sem líkjast höfrum sér til vinstri. Að vera skipað honum á hægri hönd reynist fela í sér hagstæðan dóm — eilíft líf. Á vinstri hönd er óhagstæður dómur — eilíf tortíming. Ákvörðun konungsins í málinu hefur alvarlegar afleiðingar.

18. Hvers vegna er það engin afsökun fyrir nokkurn mann að konungurinn skuli vera ósýnilegur?

18 Það að Mannssonurinn skuli vera ósýnilegur meðan nærvera hans eða parósía stendur er engin afsökun fyrir nokkurn mann. Fleiri og fleiri sauðumlíkir menn nú á dögum ganga til liðs við þjónshópinn í því að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki um allan heim og láta ljós sitt skína. Svo sannarlega hefur vitnisburður þeirra náð út til ystu endimarka jarðarinnar. — Matteus 24:14.

19. Hvaða eiginleikum sauðahópsins er lýst í dæmisögunni um sauðina og hafrana?

19 Hvers vegna umbunar hirðirinn og konungurinn sauðahópnum með blessunarríkri framtíð? Vegna þess að þeir styðja prédikun Guðsríkis af öllu hjarta og sýna smurðum bræðrum hans góðvild sem Jesús lítur á eins og hún sé honum sýnd. Þess vegna segir hinn konunglegi Mannssonur við þá: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — Matteus 25:34; 28:19, 20.

Konunginum hjálpað

20, 21. Hvaða merki gefa sauðirnir um að þeir standi Guðsríkis megin?

20 Taktu eftir að þessir sauðir verða undrandi þegar konungurinn býður þeim að erfa hið jarðneska yfirráðasvæði Guðsríkis. Þeir spyrja hann: ‚Herra, hvenær gerðum við allt þetta fyrir þig?‘ Hann svarar: „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Matteus 25:40) Þegar Jesús birtist Maríu Magdalenu á upprisudegi sínum talaði hann um andlega bræður sína er hann sagði: „Farðu til bræðra minna.“ (Jóhannes 20:17) Á tímum ósýnilegrar nærveru sinnar á Jesús aðeins litlar leifar 144.000 andlegra bræðra sinna enn í holdi á jörðinni.

21 Úr því að Jesús er ósýnilegur á himnum er það aðeins óbeint sem þessir sauðumlíku menn vinna þessi kærleiksverk fyrir hann. Þeir sjá hann í hásæti sínu aðeins með augum trúarinnar. Jesús kann að meta allt sem þeir leggja á sig til að aðstoða andlega bræður hans sem verða himneskir samerfingjar hans. Það sem er gert fyrir bræður hans metur hann eins og það sé gert fyrir hann persónulega. Hinir sauðumlíku gera bræðrum Jesú gott að yfirlögðu ráði vegna þess að þeir viðurkenna þá sem slíka. Þeir gera sér grein fyrir að andlegir bræður Jesú eru sendiherrar ríkis Jehóva og þeir vilja láta skýrt í ljós að þeir taki afstöðu með þeim Guðsríkis megin.

22. Hvernig er sauðahópnum umbunað? (Samanber Opinberunarbókina 7:14-17.)

22 Jehóva sá fyrir að þessir sauðumlíku menn myndu koma fram á nærverutíma sonar síns og hefur búið þeim stórfengleg laun! Múgurinn mikli mun erfa þá blessun sem fylgir friði á jörð undir hamingjuríkri þúsund ára stjórn sonar Jehóva, Jesú Krists.

23. Á hvaða vegu hjálpa sauðirnir bræðrum konungsins vísvitandi?

23 Hvað sjáum við þegar við hugleiðum spádóma Biblíunnar sem eiga við um nærverutíma Krists, ásamt dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana? Þetta: Það að gera andlegum bræðrum konungsins gott óafvitandi og fyrir tilviljun gerir manninn ekki að sauði sem stendur réttlátur frammi fyrir Guði og konungi hans. Þeir sem eru af sauðahópnum vita hvað þeir eru að gera, jafnvel þótt þeir sjái hinn ríkjandi konung ekki með bókstaflegum augum sínum. Þeir leitast við að hjálpa bræðrum konungsins, ekki aðeins efnislega heldur einnig andlega. Hvernig? Með því að aðstoða þá við að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og nema Biblíuna með fólki til að gera menn að lærisveinum Krists. Þannig eru núna yfir fjórar milljónir ljósbera sem boða ríki Guðs.

Vaxandi starfsemi

24. Hvaða kærleiksríkt erfiði hefur gert þjónshópinn hamingjusömustu menn á jörðinni?

24 Við skulum telja upp sum hinna góðu verka hins trúa þjónshóps. Í fysta lagi hefur þjónshópurinn verið settur yfir allar eigur húsbóndans — hagsmuni ríkis hans á jörð — og þessar eigur halda áfram að aukast. Í öðru lagi gefur þessi hópur ekki aðeins hjúunum heldur einnig sívaxandi miklum múgi andlega fæðu. Í þriðja lagi tekur þjónninn forystu í því að útbreiða ljós Guðsríkis. Í fjórða lagi er langmestur vöxtur í starfi þjónsins fólgin í því að safna saman miklum múgi annarra sauða og leiða þá inn í andlegt musteri Jehóva. Í fimmta lagi sér þjónninn, með hugheilum stuðningi hinna sauðumlíku, fyrir bættri og aukinni aðstöðu við útibú Félagsins um allan heim, svo og á aðalstöðvunum í Bandaríkjunum. Slíkt kærleiksríkt erfiði hefur gert þjónshópinn að hamingjusömustu mönnum á jörðinni nú á tímum og þeir hafa gert milljónir annarra manna hamingjusamar einnig. Allt er þetta Jehóva Guði og Jesú Kristi að þakka, en þeir hafa stýrt vaxandi starfsemi hins hyggna þjóns.

25. Hvernig geta sauðirnir haldið áfram að styðja þjónshópinn og með hvað í vændum?

25 Þjónshópurinn vinnur núna af meira kappi en nokkru sinni fyrr að þeim skyldum sem Guð hefur falið honum. Tíminn, sem er eftir þangað til ‚þrengingin mikla‘ brýst út, er nánast útrunninn! (Matteus 24:21) Það er því afar áríðandi að þeir sem eru sauðir Guðs haldi sér á hægri hönd hirðinum og konunginum þar sem þeir njóta velþóknunar. Megi því allir halda kostgæfir áfram að styðja hinn trúa og hyggna þjón. Aðeins með því að gera það geta allir hinir sauðumlíku einhvern tíma í mjög náinni framtíð heyrt hin gleðilegu orð: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“

Getur þú svarað?

◻ Hvaða dómur var felldur eftir að konungurinn var settur í hásæti?

◻ Hvernig uppfyllist Matteus 24:45-47 nú á tímum?

◻ Hvaða vaxandi starfsemi er þjónshópurinn og múgurinn mikli þakklátastur fyrir?

◻ Hvernig uppfyllist Matteus 25:34-40 meðan parósían stendur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Húsbóndinn treystir hinum trúa þjóni fyrir öllum eigum sínum.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Jesús hefur sest í dýrðarhásæti sitt til að dæma mannkynið.