Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frelsun við opinberun Jesú Krists

Frelsun við opinberun Jesú Krists

Frelsun við opinberun Jesú Krists

„Gleðjist . . . til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:13.

1. Hvernig hefur Jehóva auðgað þjóna sína?

 JEHÓVA hefur gefið vottum sínum margar gjafir. Sem hinn mikli fræðari okkar hefur hann upplýst okkur með ítarlegri þekkingu á vilja sínum og tilgangi. Með hjálp heilags anda síns hefur hann ræktað með okkur hæfni til að endurkasta ljósinu með djörfung. Hinn innblásni Páll postuli segir okkur í 1. Korintubréfi 1:6, 7: „Vitnisburðurinn um Krists er líka staðfestur orðinn á meðal yðar, svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.“

2. Hvaða gleðilegar framtíðarhorfur býður ‚opinberun Drottins vors Jesú Krists‘ upp á?

2 ‚Opinberun Drottins vors Jesú Krists‘ — hvað merkir hún? Hún merkir þann tíma þegar Jesús opinberast sem dýrlegur konungur og lætur til skarar skríða að umbuna frúföstum fylgjendum sínum og fullnægja hefnd á hinum óguðlegu. Eins og 1. Pétursbréf 4:13 gefur til kynna verður það tími fyrir ráðvanda, andasmurða kristna menn og drottinholla félaga þeirra af hinum ‚mikla múgi‘ til að „gleðjast miklum fögnuði“ því að þetta merkir að heimskerfi Satans er komið að endalokum sínum.

3. Hvernig verðum við að vera staðföst eins og bræður okkar í Þessaloníku?

3 Eftir því sem þessi tími nálgast eykur Satan í reiði sinni þrýstinginn á okkur. Líkt og öskrandi ljón reynir hann að gleypa okkur. Við verðum að vera staðföst! (1. Pétursbréf 5:8-10) Þegar bræður okkar í Þessaloníku til forna voru nýir í sannleikanum máttu þeir þola svipaðar þrengingar og margir votta Jehóva nú á tímum. Þess vegna eru orð Páls postula til þeirra merkingarþrungin fyrir okkur. Hann skrifaði: „Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:6-8) Já, lausnin kemur!

4. Hvers vegna verðskulda klerkarnir dóminn sem verður fullnægt við opinberun Jesú?

4 Á dögum Páls var stór hluti þrenginganna kominn frá trúarleiðtogum Gyðinga. Eins er það nú á dögum að andstaðan gegn hinum friðelskandi vottum Jehóva er oft runnin undan rifjum þeirra sem segjast vera fulltrúar Guðs, einkum klerka kristna heimsins. Þeir þykjast þekkja Guð en þeir afneita hinum ‚eina Jehóva‘ Biblíunnar og stilla upp í staðinn dulúðlegri þrenningu. (Markús 12:29) Þeir hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin okkar Jesú heldur vænta þess að lausnin komi frá stjórn manna, og þeir hafna fagnaðarerindinu um hið komandi réttlætisríki Krists. Allir þessir trúarlegu andstæðingar verða að farast „þegar Drottinn Jesús opinberast af himni“!

‚Koma‘ Jesú Krists

5. Hvernig er opinberun Jesú lýst með lifandi hætti í Matteusi 24:29, 30?

5 Jesús lýsti þessari opinberun greinilega í Matteusi 24:29, 30. Þegar hann lýsir tákninu um endi veraldar segir hann: „Þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.“ Þá mun „tákn Mannssonarins birtast á himni.“ Þjóðir jarðar munu „hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn [Messíasarkonung Guðs] koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ Þessi „koma,“ erkhoʹmenon á grísku, vísar til komu Jesú til að réttlæta Jehóva.

6, 7. Hvernig mun ‚hvert auga sjá hann‘ og hverjir eru þar meðtaldir?

6 Jóhannes postuli lýsir einnig þessari „komu“ í Opinberunarbókinni 1:7 þar sem hann segir: „Sjá, hann kemur í skýjunum.“ Þessir óvinir munu ekki sjá Jesú með sínum bókstaflegu augum því að ‚skýin‘ tákna að hann kemur ósýnilegur til að fullnægja dómi. Ef smáir menn myndu sjá himneska dýrð með berum augum myndu þeir blindast eins og Sál blindaðist á veginum til Damaskus er hinn dýrlega gerði Jesús birtist honum í miklum ljósblossa. — Postulasagan 9:3-8; 22:6-11.

7 Opinberunarbókin segir að ‚hvert auga muni sjá hann, jafnvel þeir sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar muni kveina yfir honum.‘ Þetta merkir að andstæðingarnir á jörðinni munu gera sér grein fyrir því í eyðingunni, sem Jesús lætur dynja yfir þá, að hann sé kominn í mætti og mikilli dýrð sem aftökumaður Jehóva. Hvers vegna er þessum óvinum lýst þannig að ‚þeir hafi stungið hann‘? Vegna þess að í beiskju sinni gagnvart nútímaþjónum Jehóva líkjast þeir þeim sem ofsóttu Jesú. Þeir munu sannarlega ‚kveina biturlega yfir honum.‘

8. Hvernig vara bæði Jesús og Páll við skyndilegri eyðingu?

8 Hvernig mun þessi hefndardagur Jehóva koma? Í spádóminum í Lúkasi 21. kafla lýsir Jesús þeim miklu hörmungaratburðum sem hafa verið tákn nærveru hans frá 1914. Síðan, í versi 34 og 35, aðvarar Jesús: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.“ Já, þessi hefndardagur Jehóva kemur skyndilega, í einu vetfangi! Páll postuli staðfestir það í 1. Þessaloníkubréfi 5:2, 3 og segir: „Dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ Nú þegar eru þjóðirnar að tala um frið og öryggi og eru með tillögur um að styrkja Sameinuðu þjóðirnar til að halda uppi lögum og reglu með hervaldi á átakasvæðum.

9. Fyrir hverja ‚rennur upp ljós‘ og hvers vegna?

9 Í 4. og 5. versi heldur postulinn áfram: „En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur. Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.“ Við fögnum því að vera synir ljóssins — ljósberar til annarra sem þrá sannan frið og öryggi í nýjum heimi Guðs. Í Sálmi 97:10, 11 lesum við: „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra. Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.“

Atburðarásin

10. Hvaða viðvörun ættum við að hlýða í sambandi við reikningsskiladag Guðs? (Opinberunarbókin 16:15)

10 Hver verður atburðarásin þegar þrengingin mikla dynur yfir? Við skulum fletta upp í 16. kafla Opinberunarbókarinnar. Tökum eftir, eins og lýst er í 13. til 16. versi, að óhreinir djöflaandar safna þjóðum allrar jarðarinnar saman til Harmagedón, stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. Enn á ný er lögð áhersla á að reikningsskiladagurinn komi eins og þjófur, og við erum áminnt um að halda okkur vakandi — að varðveita þau andlegu klæði sem eru okkur merki til hjálpræðis. Tíminn er kominn til að dæma íbúa jarðar, þjóðirnar, og — einhvern annan. Hvern?

11. Hvernig hefur konan í Opinberunarbókinni 17:5 sýnt deili á sér?

11 Það er táknræn kona sem hefur sannarlega reynt að setja sig á háan hest. Henni er lýst í Opinberunarbókinni 17:5 sem ‚leyndardómi: Babýlon hinni miklu, móður hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.‘ En hún er enginn leyndardómur lengur fyrir votta Jehóva. Hún hefur greinilega sýnt sig vera heimsveldi falskra trúarbragða þar sem sértrúarsöfnuðir kristna heimsins eru ráðandi afl. Hún er viðurstyggileg í augum Jehóva fyrir afskipti sín af stjórnmálum, fyrir að vera „drukkin af blóði hinna heilögu“ með því að ofsækja sannkristna menn og fyrir að bera ábyrgð á blóði „allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni,“ þeirra á meðal yfir hundrað milljóna manna sem hafa fallið í styrjöldum tuttugustu aldarinnar einnar. — Opinberunarbókin 17:2, 6; 18:24.

12. Hvers vegna eru sértrúarflokkar kristna heimsins dæmdir?

12 Verst af öllu er að sérstrúarsöfnuðir kristna heimsins hafa smánað nafn þess Guðs sem þeir segjast í hræsni sinni vera fulltrúar fyrir. Þeir hafa kennt babýlonska og gríska heimspeki í stað hins ómengaða orðs Guðs og hafa stuðlað að siðspillingu heilla þjóða með því að leggja blessun sína yfir lífsstíl sem virðir meginreglur Biblíunnar að vettugi. Ágjarnir braskarar meðal þeirra eru fordæmdir með orðum Jakobsbréfsins 5:1, 5: „Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma. Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.“

Niður með Babýlon hina miklu!

13. Með hverju hefst þrengingin mikla og hvað er afar áríðandi samkvæmt Opinberunarbókinni 18:4, 5?

13 Byrjunarskothríð þrengingarinnar miklu verður þegar dómi Jehóva yfir Babýlon hinni miklu verður fullnægt. Opinberunarbókin 17:15-18 lýsir á myndmáli „vilja“ Guðs — að láta „hornin tíu,“ voldug öfl innan hins alþjóðlega ‚dýrs,‘ sem er Sameinuðu þjóðirnar, losa sig við Babýlon hina miklu. „Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi, því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn.“ Engin furða er að himnesk rödd skuli hrópa áríðandi aðvörun í Opinberunarbókinni 18:4, 5: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.“ Kallið heldur áfram að hljóma: Slítið öll tengsl við falstrúarbrögðin áður en það er um seinan!

14. Hverjir munu harma eyðingu Babýlonar hinnar miklu og hvers vegna?

14 Hvernig mun heimurinn líta á eyðingu Babýlonar hinnar miklu? Úr fjarlægð munu spilltir stjórnmálamenn — „konungar jarðarinnar“ — harma hana vegna þess að þau höfðu um aldaraðir haft gagnkvæman unað af andlegum saurlifnaði sínum. Ágjarnir kaupsýslumenn, „kaupmenn jarðarinnar . . . sem auðgast hafa á henni,“ munu líka harma og kveina yfir henni. Þeir standa líka álengdar og segja: „Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum. Á einni stundu eyddist allur þessi auður.“ Öll hin klerklegu skartklæði og hinar mikilfenglegu dómkirkjur heimsins verða horfnar að eilífu! (Opinberunarbókin 18:9-17) En munu allir syrgja Babýlon hina miklu?

15, 16. Hvaða tilefni hafa þjónar Guðs til að gleðjast?

15 Opinberunarbókin 18:20, 21 svarar: „Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.“ Líkt og stór kvarnarsteinn, sem kastað er í hafið, mun Babýlon hin mikla „voveiflega . . . kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.“

16 Hvílíkt gleðiefni! Opinberunarbókin 19:1-8 ber því vitni. Fjórum sinnum hljómar frá himni „Hallelúja,“ lofið Jehóva, þið lýðir. Í fyrstu þrjú skiptin er Jehóva lofaður vegna þess að hann hefur fullnægt réttlátum dómi á skækjunni illræmdu, Babýlon hinni miklu. Heimsveldi falskra trúarbragða er ekki til lengur! Rödd heyrist frá hásæti Guðs sem segir: „Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir.“ Það verða mikil sérréttindi fyrir okkur að taka undir þennan söng!

Brúðkaup lambsins

17. Í hvaða tvenns konar samhengi byrjar Jehóva að ríkja sem konungur eftir því sem segir í Opinberunarbókinni 11:17 og 19:6?

17 Í fjórða skiptið, sem „hallelúja“ hljómar, er hafið máls á öðru: „Hallelúja, [Jehóva] Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.“ En ómaði ekki svipað stef í Opinberunarbókinni 11:17? Þar lesum við: „Vér þökkum þér, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, . . . að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.“ Jú. Hins vegar vísar samhengi Opinberunarbókarinnar 11:17 til þess er Jehóva setur Messíasarríkið á stofn árið 1914 til að „stjórna . . . öllum þjóðum með járnsprota.“ (Opinberunarbókin 12:5) Samhengi Opinberunarbókarinnar 19:6 er eyðing Babýlonar hinnar miklu. Með því að ryðja trúarbrögðum, sem líkjast skækju, úr vegi er guðdómur Jehóva upphafinn. Tilbeiðslan á honum sem hinum æðsta drottinvaldi og konungi mun standa um alla eilífð!

18. Hvaða gleðileg tilkynning er við hæfi eftir að Babýlon hinni miklu hefur verið eytt?

18 Þess vegna má koma með hina gleðilegu tilkynningu: „Gleðjumst og fögnum og gefum honum [Jah] dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra.“ (Opinberunarbókin 19:7, 8) Ósagt er nákvæmlega hvenær hinir smurðu, sem enn eru á jörðinni, hljóta sína himnesku upprisu, en samhengið fullvissar okkur um að hlutdeild þeirra í brúðkaupi lambsins verði gleðirík, ekki síst vegna þess að þeir hafa með eigin augum orðið vitni að auðmýkingu skækjunnar illræmdu, Babýlonar hinnar miklu.

Heimi Satans eytt

19. Hvaða annarri þróun er lýst í Opinberunarbókin 19:11-21?

19 Hvíti hesturinn, sem fyrst er nefndur í Opinberunarbókinni 6:2, birtist nú aftur. Við lesum í Opinberunarbókinni 19:11: „Sá, sem á honum [hvíta hestinum] sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.“ Þannig ríður „konungur konunga og Drottinn drottna“ fram til að slá þjóðirnar og troða „vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.“ Til einskis safnast ‚konungar jarðarinnar og hersveitir þeirra‘ saman til að heyja stríðið við Harmagedón. Riddarinn á hvíta hestinum fullnar sigur sinn. Ekkert verður eftir af jarðnesku skipulagi Satans. — Opinberunarbókin 19:12-21.

20. Hvað verður um djöfulinn sjálfan?

20 En hvað um djöfulinn sjálfan? Í Opinberunarbókinni 20:1-6 er Jesú Kristi lýst sem ‚engli er stígur niður af himni og heldur á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.‘ Hann tekur drekann, hinn gamla höggorm sem er djöfull og Satan, bindur hann, kastar honum í undirdjúpið, læsir og setur innsigli yfir. Er Satan hefur verið rutt úr vegi og er ófær um að afvegaleiða þjóðirnar framar hefst hið dýrlega þúsundáraríki lambsins og brúðar hans. Engin sorgartár verða felld framar! Adamsdauðinn er horfinn! Enginn harmur né vein né kvöl er framar til! „Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.

21. Hver ætti að vera ásetningur okkar er við bíðum óþreyjufull eftir opinberun Jesú Krists?

21 Meðan við bíðum óþreyjufull eftir opinberun Drottins Jesú Krists skulum við sýna kostgæfni okkar í því að segja öðrum frá hinum kærleiksríku fyrirheitum Guðs um ríki sitt. Frelsunin er í nánd! Megum við ganga fram veginn, lengra og lengra, sem upplýst börn alvalds Drottins Jehóva!

Til upprifjunar

◻ Hvað gefur til kynna að opinberun Jesú Krists sé nærri?

◻ Hvernig mun hefndardagur Jehóva koma?

◻ Hvernig ættu þeir sem elska Jehóva að líta á núverandi heimsástand?

◻ Hver verður atburðarásin þegar þrengingin mikla skellur á?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 19]

Jesús ‚kemur í skýjum,‘ ósýnilegur, til að fullnægja dómi.