Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gætið hjarðar Guðs af fúsu geði

Gætið hjarðar Guðs af fúsu geði

Gætið hjarðar Guðs af fúsu geði

„Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:2.

1. Hvers vegna ættum við að vænta þess að kristnir öldungar ‚gæti hjarðar Guðs fúslega‘?

 JEHÓVA gætir þjóna sinna fúslega. (Sálmur 23:1-4) „Góði hirðirinn,“ Jesús Kristur, gaf fullkomið mannslíf sitt fúslega fyrir sauðumlíka menn. (Jóhannes 10:11-15) Þess vegna hvatti Pétur postuli kristna öldunga til að ‚gæta hjarðar Guðs fúslega.‘ — 1. Pétursbréf 5:2.

2. Hvaða spurningar varðandi hirðastarf kristinna öldunga verðskulda íhugun?

2 Fúsleiki einkennir þjóna Guðs. (Sálmur 110:3) En kristinn karlmaður þarf meira en fúsleika til að vera skipaður umsjónarmaður eða undirhirðir. Hverjir eru hæfir til að vera slíkir hirðar? Hvað er fólgið í hjarðgæslu þeirra? Hvernig er hún best innt af hendi?

Forstaða fyrir heimili

3. Hvers vegna má segja að það hvernig kristinn karlmaður annast fjölskyldu sína hafi áhrif á það hvort hann sé hæfur til að gæta safnaðarins?

3 Áður en hægt er að útnefna mann umsjónarmann þarf hann að uppfylla kröfur Ritningarinnar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Til dæmis sagði Páll postuli að umsjónarmaður ætti að „vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.“ Það er góð ástæða fyrir því vegna þess að Páll spurði: „Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?“ (1. Tímóteusarbréf 3:4, 5) Þegar Títus útnefndi öldunga í söfnuðinum á eynni Krít var honum sagt að leita að manni sem væri ‚óaðfinnanlegur, einkvæntur, ætti trúuð börn, sem eigi væru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.‘ (Títusarbréfið 1:6) Já, taka þarf mið af því hvernig kristinn maður annast fjölskyldu sína þegar ákveðið er hvort hann sé hæfur til að axla þá þyngri ábyrgð sem felst í því að gæta safnaðarins.

4. Hvernig sýna kristnir foreldrar börnum sínum umhyggju, auk þess að nema Biblíuna reglulega og biðja með þeim?

4 Karlmenn, sem veita heimili sínu góða forstöðu, gera meira en að biðja og nema Biblíuna reglulega með fjölskyldu sinni. Þeir eru alltaf fúsir til að hjálpa ástvinum sínum. Hjá þeim sem verða foreldrar hefst það sama dag og barn er fætt. Kristnir foreldrar vita að því nákvæmar sem þeir fylgja guðrækilegum venjum, þeim mun fyrr mun barnið þeirra falla inn í daglega stundaskrá þeirra yfir andlegar athafnir. Það hversu vel kristinn faðir veitir forstöðu við þessar aðstæður segir til um hæfni hans sem öldungs. — Efesusbréfið 5:15, 16; Filippíbréfið 3:16.

5. Hvernig getur kristinn faðir alið börn sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva]“?

5 Samviskusamur kristinn faðir fer eftir ráðleggingum Páls í því að veita heimili sínu forstöðu: „Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Reglulegt biblíunám með fjölskyldunni, bæði eiginkonu og börnum, býður upp á gott tækifæri til að veita kærleiksríka fræðslu. Þannig fá börnin „aga“ eða fræðslu sem leiðréttir. „Umvöndun,“ sem þá á sér stað, hjálpar hverju barni að kynnast viðhorfum Jehóva til hlutanna. (5. Mósebók 4:9; 6:6, 7; Orðskviðirnir 3:11; 22:6) Í þægilegu andrúmslofti þessarar andlegu samverustundar hlustar umhyggjusamur faðir gaumgæfilega þegar börnin hans tala. Vinsamlegar, leiðandi spurningar er notaðar til að draga fram hreinskilnisleg svör frá þeim um hugðarefni þeirra og viðhorf. Faðirinn gengur ekki út frá því sem gefnum hlut að hann viti allt sem fram fer í ungum hugum þeirra. „Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm,“ segja Orðskviðirnir 18:13. Það er reynsla flestra foreldra nú á dögum að þær aðstæður, sem mæta börnum þeirra, séu gerólíkar þeim sem þeir sjálfir stóðu frammi fyrir á uppvaxtarárunum. Faðir leitast þess vegna við að kynna sér orsakir og einstök atriði vandamáls áður en hann segir hvernig taka skuli á því. — Samanber Jakobsbréfið 1:19.

6. Hvers vegna ætti kristinn faðir að ráðfæra sig við orð Guðs þegar hann hjálpar fjölskyldu sinni?

6 Hvað gerist eftir að vandamál, áhyggjur og viðhorf barnanna liggja ljós fyrir? Faðir, sem veitir góða forstöðu, ráðfærir sig við Ritninguna sem er „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ Hann kennir börnum sínum að heimfæra innblásnar viðmiðunarreglur Biblíunnar. Þannig geta börnin orðið ‚albúin og hæf gjör til sérhvers góðs verks.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Sálmur 78:1-4.

7. Hvaða fordæmi ættu kristnir feður að gefa í sambandi við bænina?

7 Guðræknir unglingar geta lent í erfiðum aðstæðum í umgengni við veraldlega skólafélaga. Hvernig geta kristnir feður dregið úr ótta barna sinna? Meðal annars með því að biðja reglulega með þeim og fyrir þeim. Þegar þessi börn verða fyrir prófraunum munu þau líklega líkja eftir trausti foreldra sinna til Guðs. Þrettán ára stúlka, sem haft var viðtal við áður en hún lét skírast til tákns um vígslu sína til Guðs, sagði frá því að skólafélagar hennar hefðu hæðst að henni og misþyrmt henni. Þegar hún varði biblíulega trú sína í sambandi við heilagleika blóðsins börðu aðrar stúlkur hana og hræktu á hana. (Postulasagan 15:28, 29) Svaraði hún í sömu mynt? Nei. „Ég bað Jehóva innilega um að hjálpa mér að halda ró minni,“ sagði hún. „Ég mundi líka eftir því sem foreldrar mínir höfðu kennt mér í fjölskyldunáminu um nauðsyn þess að hafa stjórn á okkur þegar við líðum illt.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:24.

8. Hvernig getur barnlaus öldungur veitt heimili sínu góða forstöðu?

8 Barnlaus öldungur getur líka séð vel fyrir andlegum og efnislegum þörfum fjölskyldu sinnar, það er að segja konu sinnar og kannski kristinna ættingja sem búa á heimili hans og hann er með á framfæri. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Góð forstaða er því ein af kröfunum er sá maður þarf að uppfylla sem er skipaður til að axla þá ábyrgð að vera safnaðaröldungur. En hvernig ættu útnefndir öldungar að líta á sérréttindi sín og ábyrgð í söfnuðinum?

Að veita forstöðu ‚með kostgæfni‘

9. Hvaða viðhorf ættu kristnir öldungar að hafa til þjónustuverkefna sinna?

9 Á fyrstu öld okkar tímatals þjónaði Páll sem ráðsmaður meðal heimamanna Guðs, kristna safnaðarins undir forystu Krists. (Efesusbréfið 3:2, 7; 4:15) Páll hvatti síðan trúbræður sína í Róm: „Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna. Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni, sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði.“ — Rómverjabréfið 12:6-8.

10. Hvaða fordæmi gaf Páll nútímaöldungum í því að gæta hjarðar Guðs?

10 Páll minnti Þessaloníkumenn á þetta: „Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín, til þess að þér skylduð breyta eins og samboðið er Guði, er kallar yður til ríkis síns og dýrðar.“ (1. Þessaloníkubréf 1:1; 2:11, 12) Áminningarnar höfðu verið veittar svo blíðlega og með slíkum kærleika að Páll gat skrifað: „Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Í samræmi við föðurlegt fordæmi Páls bera trygglyndir öldungar djúpa umhyggju fyrir öllum í söfnuðinum.

11. Hvernig geta útnefndir öldungar verið kappsamir?

11 Mildi samfara kappsemi þarf að einkenna kærleiksríka umsjón trúfastra kristinna undirhirða okkar. Framkoma þeirra segir mikið. Pétur ráðleggur öldungum að gæta hjarðar Guðs „ekki af nauðung“ eða „sakir vansæmilegs ávinnings.“ (1. Pétursbréf 5:2) Fræðimaðurinn William Barclay tengir eftirfarandi varnaðarorð þessum ritningarstað: „Það er hægt að taka við embætti og veita þjónustu eins og það væri ill og óþægileg skylda, eins og það væri þreytandi og eins og það væri gremjuleg byrði. Maður gerir kannski það sem hann er beðinn um en með slíkri ólund að það er einskis virði. . . . En [Pétur] segir að sérhver kristinn maður eigi að brenna í skinninu að veita þá þjónustu sem hann getur, enda þótt honum sé fullljóst hve óverðugur hann er að veita hana.“

Fúsir hirðar

12. Hvernig geta kristnir öldungar sýnt fúsleika?

12 „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður . . . af fúsu geði,“ hvetur Pétur enn fremur. Kristinn umsjónarmaður, sem lætur sér annt um sauðina, gerir það fúslega, af frjálsum vilja, undir handleiðslu góða hirðisins, Jesú Krists. Það að þjóna fúslega merkir einnig að kristnir hirðar lúta yfirvaldi Jehóva, ‚hirðis og umsjónarmanns sálna okkar.‘ (1. Pétursbréf 2:25) Kristinn undirhirðir lætur fúslega í ljós virðingu fyrir guðræðislegri skipan. Hann gerir það þegar hann vísar þeim sem leita ráða á orð Guðs, Biblíuna. Enda þótt reynsla hjálpi öldungi að byggja sér upp forðabúr biblíulegra ráða merkir það ekki að hann hafi biblíulega lausn á sérhverju vandamáli á takteinum. Jafnvel þegar hann veit svarið við einhverri spurningu getur hann talið viturlegt að leita, ásamt spyrjandanum, í Efnisskrá Varðturnsfélagsins eða áþekkum efnisskrám. Þannig kennir hann á tvo vegu: Hann sýnir hvernig finna megi gagnlegar upplýsingar og sýnir auðmjúka virðingu fyrir Jehóva með því að beina athyglinni að því sem skipulag Guðs hefur birt.

13. Hvað getur hjálpað öldungum að gefa góð ráð?

13 Hvað getur öldungur gert ef ekkert hefur verið birt í ritum Félagsins um það vandamál sem fyrir liggur? Vafalaust mun hann biðja um innsæi og leita að einhverjum biblíulegum meginreglum sem eiga við málið. Hann getur líka talið gagnlegt að stinga upp á að einstaklingurinn, sem leitaði hjálpar, ígrundi fordæmi Jesú. Öldungurinn gæti spurt: „Hvað heldur þú að Jesús, kennarinn mikli, myndi gera ef hann stæði í sömu sporum og þú?“ (1. Korintubréf 2:16) Slík röksemdafærsla getur hjálpað fyrirspyrjandanum að taka viturlega ákvörðun. En það væri mjög óviturlegt af öldungi að láta aðeins í ljós persónulegt álit eins og það væri heilbrigð, biblíuleg ráð! Betra væri að öldungar ræddu saman um erfið úrlausnarefni. Þeir gætu jafnvel lagt slík mikilvæg mál fram til umræðu á fundi öldungaráðsins. (Orðskviðirnir 11:14) Niðurstaðan, sem þeir komast að, mun gera þeim öllum kleift að vera sammála. — 1. Korintubréf 1:10.

Mildi er nauðsyn

14, 15. Hvers er krafist af öldungum þegar þeir leiðrétta kristinn mann sem syndgaði óafvitandi?

14 Kristinn öldungur þarf líka að vera mildur þegar hann kennir öðrum, einkum þegar hann leiðbeinir þeim. „Bræður,“ ráðleggur Páll, „ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð [„mildilega,“ NW].“ (Galatabréfið 6:1) Athyglisvert er að gríska orðið, sem hér er þýtt „leiðréttið,“ er skylt læknisfræðihugtaki sem notað var til að lýsa því hvernig brotið bein var sett saman til að koma í veg fyrir ævilanga fötlun. Orðabókarhöfundurinn W. E. Vine setur þetta í samband við það að „þeir sem andlegir eru leiðrétta þann sem syndin hefur komið að óvörum eins og lim sem gengið hefur úr liði á hinum andlega líkama.“ Orðið má einnig þýða „að setja aftur í rétta stöðu; að rétta af.“

15 Það er ekki auðvelt að leiðrétta sína eigin hugsun og það getur verið mjög erfitt að stýra hugsun villuráfandi manns inn á rétta braut. En hjálp, sem boðin er fram með mildi, er líklega þegin með þökkum. Þar af leiðandi ættu kristnir öldungar að fara eftir heilræðum Páls: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð [„mildi,“ NW] og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) Hvað ættu öldungar að gera þegar viðhorf þess sem þarfnast leiðréttingar eru slæm? Þeir ættu að „stunda . . . hógværð [„mildi,“ NW].“ — 1. Tímóteusarbréf 6:11.

Gætni við hjarðgæsluna

16, 17. Hvaða hættur ættu öldungar að varast þegar þeir leiðbeina öðrum?

16 Það er fleira fólgið í heilræðum Páls í Galatabréfinu 6:1. Hann hvetur andlega hæfa karlmenn: „Þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, [þann sem hefur syndgað] með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ Að fara ekki eftir þessu ráði getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Í tilefni frétta um anglíkanskan prest, sem fundinn var sekur um að drýja hór með tveim sóknarbörnum sínum, sagði Lundúnablaðið The Times að þetta sé „dæmigerð staða þar sem karlmaður, er veitir ráð og virðist föðurlegur eða bróðurlegur, fellur í þá freistni að misnota sér trúnaðarsambandið.“ Fréttamaðurinn vitnaði síðan í orð dr. Peters Rutters sem staðhæfir að „ástarævintýri milli sjúklinga eða skjólstæðinga og karlmanna sem eru ráðgjafar þeirra — lækna, lögfræðinga, presta og vinnuveitenda — séu í okkar kynferðislega undanlátssama samfélagi orðin að skaðlegum og skammarlegum faraldri sem er þagað yfir.“

17 Við ættum ekki að ímynda okkur að þjónar Jehóva séu ónæmir fyrir slíkum freistingum. Einn virtur öldungur, sem hafði þjónað trúfastur í mörg ár, gerðist sekur um siðleysi af því að hann fór í hirðisheimsóknir til giftrar systur þegar hún var ein. Enda þótt bróðirinn hafi iðrast missti hann öll þjónustusérréttindi. (1. Korintubréf 10:12) Hvernig geta útnefndir öldungar þá hagað hirðisheimsóknum sínum þannig að þeir falli ekki í freistni? Hvernig geta þeir fengið næði til eintals og bænar og tækifæri til að leita til orðs Guðs og kristinna rita?

18. (a) Hvernig getur það að fylgja meginreglunni um forystu hjálpað öldungum að forðast varhugarverðar aðstæður? (b) Hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að fara í hirðisheimsókn til systur?

18 Meginreglan um forystu er eitt sem öldungarnir taka mið af. (1. Korintubréf 11:3) Ef barn eða unglingur leitar ráða er gott að reyna að láta foreldra hans taka þátt í samræðunum þegar það á við. Er hægt að hafa eiginmanninn viðstaddan heimsóknina þegar gift systir óskar andlegrar hjálpar? Hvað nú ef það er ekki mögulegt eða ef hann er ekki í trúnni og hefur misboðið henni á einhvern hátt? Þá skal gera sömu ráðstafanir og verið væri að fara í hirðisheimsókn til ógiftrar systur. Viturlegt væri að tveir andlega hæfir bræður heimsæktu systurina saman. Ef það hentar ekki væri kannski hægt að finna heppilegan tíma fyrir tvo bræður til að ræða við hana í Ríkissalnum, helst í herbergi þar sem þau geta verið út af fyrir sig. Þegar aðrir bræður og systur eru viðstödd í ríkissalnum, þó án þess að geta séð til þeirra eða heyrt samtalið, er ólíklegt að nokkur myndi hneykslast á. — Filippíbréfið 1:9, 10.

19. Hvaða góðum árangri skilar það að gæta sauða Guðs fúslega og hverjum þökkum við fyrir hina fúsu undirhirða?

19 Að gæta sauða Guðs fúslega skilar góðum árangri — andlega sterkri hjörð undir góðri leiðsögn. Líkt og Páll postuli bera kristnir öldungar nú á tímum mikla umhyggju fyrir trúbræðrum sínum. (2. Korintubréf 11:28) Sú ábyrgð að gæta þjóna Guðs núna á þessum erfiðu tímum er sérstaklega mikil. Þess vegna erum við innilega þakklát fyrir hið góða starf bræðra okkar sem eru öldungar. (1. Tímóteusarbréf 5:17) Við lofum gjafara ‚sérhverrar góðrar gjafar og sérhverrar fullkominnar gáfu,‘ elskuríkan hirði okkar, Jehóva, fyrir þá blessun að hafa fengið ‚gjafir í mönnum‘ sem gæta hjarðarinnar fúslega. — Efesusbréfið 4:8; Jakobsbréfið 1:17.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig getur maður veitt heimili sínu góða forstöðu?

◻ Hvaða eiginleikar ættu að einkenna umsjónarstarf kristinna öldunga?

◻ Hvernig geta öldungar sýnt auðmýkt og mildi þegar þeir veita ráð?

◻ Hvaða stuðlar að því að gera andlega leiðréttingu áhrifaríka?

◻ Hvernig geta öldungar forðast að koma sér í varhugarverðar aðstæður þegar þeir gæta hjarðarinnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Kristinn öldungur verður að veita heimili sínu góða forstöðu.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Kristnir hirðar eiga að vinna starf sitt með mildi og góðri dómgreind.