Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horfið heimsveldi sem kom biblíugagnrýnendum í klípu

Horfið heimsveldi sem kom biblíugagnrýnendum í klípu

Horfið heimsveldi sem kom biblíugagnrýnendum í klípu

„Saga assýrska heimsveldisins var fyrrum einn óljósasti kaflinn í annálum heims.“ „Ekkert var vitað um Níníve fortíðar nema það sem lesa mátti út úr dreifðum og lauslegum tilvitnunum til hennar og spádómum um hana í Biblíunni, og af lauslegum og slitróttum athugasemdum um sögu Assýríu hjá Diodorus Siculus . . . og fleirum.“ —Cyclopædia of Biblical Literature, 1. og 3. bindi, 1862.

GRÍSKI sagnaritarinn Diodorus Siculus var uppi fyrir 2000 árum. Hann fullyrti að Níníve hafi verið ferhyrnd og hliðarnar fjórar verið samanlagt 480 skeið. Það þýðir að ummál hennar hafi verið 96 kílómetrar! Biblían dregur upp svipaða mynd og lýsir Níníve sem mikilli borg, „þrjár dagleiðir á lengd.“ — Jónas 3:3.

Biblíugagnrýnendur 19. aldar neituðu að trúa að óþekkt borg í heimi fortíðar hafi getað verið svona stór. Þeir sögðu enn fremur að Níníve hlyti að hafa verið hluti af fornri siðmenningu fyrir daga Babýlonar, hafi hún á annað borð verið til.

Þetta sjónarmið gekk þvert á 10. kafla 1. Mósebókar sem segir að sonarsonarsonur Nóa, Nimrod, hafi stofnað fyrsta pólitíska ríkið í Babelhéraði eða Babýlon. „Frá þessu landi hélt hann til Assýríu,“ heldur Biblían áfram, „og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala, og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla.“ (1. Mósebók 10:8-12) Tökum eftir að ritningarstaðurinn lýsir hinum fjórum, nýju assýrsku borgum sem einni ‚mikilli borg.‘

Árið 1843 uppgötvaði franskur fornleifafræðingur, Paul-Émile Botta, rústir hallar sem reyndust vera hluti assýrskrar borgar. Þessi fundur vakti mikla athygli þegar heimurinn frétti af honum. „Áhugi almennings jókst enn,“ segir Alan Millard í bók sinni Treasures From Bible Times, „þegar sannað var að höllin hafi tilheyrt Sargon, Assýríukonunginum sem nefndur er í Jesaja 20:1, en tilvist hans hafði verið dregin í efa þar eð hann var að öðru leyti óþekktur.“

Meðan þessu fór fram hóf annar fornleifafræðingur, Austen Henry Layard, að grafa upp rústir staðar sem kallaður var Nimrud, 42 kílómetrum suðvestur af Khorsabad. Rústirnar reyndust vera af Kala, einni af assýrsku borgunum fjórum sem nefndar eru í 1. Mósebók 10:11. Þá, árið 1849, gróf Layard upp rústir firnamikillar hallar á stað sem nefndur er Kuyunjik, milli Kala og Khorsabad. Höllin reyndist vera hluti af Níníve. Milli Khorsabad og Kala liggja rústir annarrar byggðar. Meðal annars er þar rústahaugur sem kallaður er Karamles. „Ef við tökum hina fjóru miklu rústahauga í Nimrúd [Kala], Koyunjik [Níníve], Khorsabad og Karamles sem hornin á ferhyrningi,“ sagði Layard, „kemur í ljós að hliðarnar fjórar svara sæmilega nákvæmlega til hinna 480 skeiða eða 96 kílómetra landfræðingsins sem samsvara þrem dagleiðum spámannsins [Jónasar].“

Svo virðist því sem Jónas hafi talið allar þessar byggðir sem eina ‚mikla borg‘ og kallað hana nafni þeirrar borgar sem fyrst er nefnd í 1. Mósebók 10:11, það er að segja Níníve. Hið sama er gert nú á dögum. Til dæmis er munur á hinni upphaflegu Lundúnaborg og úthverfum hennar sem eru til saman stundum nefnd „Stór-Lundúnir.“

Hrokafullur Assýríukonungur

Í höllinni í Níníve voru yfir 70 herbergi og veggirnir voru samanlagt um þriggja kílómetra langir. Á þessum veggjum fundust sviðnar leifar lágmynda til minningar um hersigra og önnur afrek. Flestar voru illa farnar. Undir lok dvalar sinnar fann Layard hins vegar eitt herbergi sem hafði varðveist merkilega vel. Á veggjunum voru myndir sem sýndu töku vel víggirtrar borgar og stríðsfanga sem leiddir eru fyrir innrásarkonunginn er situr í hásæti utan borgarinnar. Yfir konunginum er áletrun sem sérfræðingar í assýrskum áletrunum þýða þannig: „Sanheríb, konungur heimsins, konungur Assýríu, sat á nimedu -hásæti og kannaði formlega herfangið frá Lakís (La-ki-su).“

Núna er hægt að skoða þessa lágmynd og áletrun í breska þjóðminjasafninu, British Museum. Lýsingin kemur heim og saman við hinn sannsögulega atburð sem Biblían segir frá í 2. Konungabók 18:13, 14: „Á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs fór Sanheríb Assýríukonungur herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær. Þá sendi Hiskía Júdakonungur boð til Assýríukonungs til Lakís og lét segja honum: ‚Ég hefi syndgað, far aftur burt frá mér. Mun ég greiða þér slíkt gjald, er þú á mig leggur.‘ Þá lagði Assýríukonungur þrjú hundruð talentur silfurs og þrjátíu talentur gulls á Hiskía Júdakonung.“

Aðrar áletranir fundust í rústum Níníve sem gáfu enn frekari upplýsingar um innrás Sanheríbs í Júda og skattinn sem Hiskía galt honum. „Einhver athyglisverðasta samsvörun sagnfræðiheimilda, sem um getur, er kannski sú að upphæð fjársjóðarins í gulli, sem tekin var frá Hiskía, þrjátíu talentur, skuli vera sú sama í tveim, fullkomlega óháðum heimildum,“ skrifaði Layard. Sir Henry Rawlinson, sem tók þátt í að lesa úr áletrunum Assýringa, lýsti yfir að þessar áletranir hafi „tekið af allan vafa um hver [Sanheríb] var.“ Enn fremur spyr Layard í bók sinni Niniveh and Babylon: „Hver hefði álitið það sennilegt eða mögulegt, áður en þessir fundir áttu sér stað, að undir jarðvegs- og rústahaugnum, sem markaði borgarstæði Níníve, myndi finnast sagan af stríðunum milli Hiskía og Sanheríbs, skráð af Sanheríb sjálfum á sama tíma og þau áttu sér stað, og að hún myndi staðfesta frásögn Biblíunnar í smæstu atriðum?“

Að sjálfsögðu er frásögn Sanheríbs ekki samhljóða Biblíunni í öllum atriðum. Fornleifafræðingurinn Alan Millard bendir til dæmis á: „Athyglisverðasta staðreyndin kemur fram í lokin [á frásögu Sanheríbs]. Hiskía sendi sendiboða sinn og allan skattinn til Sanheríbs ‚síðar, til Níníve.‘ Assýrski herinn flutti hann ekki sigri hrósandi heim með venjulegum hætti.“ Biblían segir að skatturinn hafi verið greiddur áður en Assýríukonungur sneri aftur til Níníve. (2. Konungabók 18:15-17) Hvers vegna er hér munur á? Og hvers vegna gat Sanheríb ekki stært sig af því að hafa unnið höfuðborg Júda, Jerúsalem, á sama hátt og hann stærði sig af því að vinna virkið Lakís í Júda? Þrír biblíuritarar færa okkur svarið. Einn þeirra, sem var sjónarvottur, skrifaði: „Þá fór engill [Jehóva] og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík. Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve.“ — Jesaja 37:36, 37; 2. Konungabók 19:35; 2. Kroníkubók 32:21.

Millard dregur eftirfarandi ályktun í bók sinni Treasures From Bible Times: „Það er engin gild ástæða til að véfengja þessa frásögu . . . Skiljanlegt er að Sanheríb skyldi ekki skrásetja slíkar ófarir þannig að arftakar hans gætu lesið um þær, því að það hefði kastað rýrð á hann.“ Í staðinn reyndi Sanheríb að gefa þá hugmynd að innrás hans í Júda hefði heppnast með ágætum og að Hiskía hafi verið honum undirgefinn áfram og sent skattinn til Níníve.

Uppruni Assýríu staðfestur

Í Níníve fundust einnig bókasöfn með leirtöflum í tugþúsundatali. Þessi skjöl sanna að rætur assýrska heimsveldisins lágu suður í Babýlon alveg eins og 1. Mósebók 10:11 gefur til kynna. Með þessar upplýsingar að leiðarljósi tóku fornleifafræðingar að beina athygli sinni lengra til suðurs. Encyclopædia Biblica segir: „Í öllu sem Assýringar hafa látið eftir sig bera þeir vitni um babýlonskan uppruna sinn. Tungumál þeirra og ritmál, bókmenntir, trúarbrögð og vísindi voru sótt til nágrannanna í suðri með sáralitlum breytingum.“

Uppgötvanir eins og þessar hafa neytt biblíugagnrýnendur til að milda afstöðu sína. Einlæg athugun á Biblíunni leiðir reyndar í ljós að hún var rituð af nákvæmum og heiðarlegum mönnum. Fyrrum forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, Salmon P. Chase, sagði eftir rannsókn sína á Biblíunni: „Rannsóknin var löng, alvarleg og djúptæk; og eftir að hafa beitt sömu meginreglunum og ég nota alltaf í veraldlegum málum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Biblían sér yfirnáttúrleg bók, að hún sé komin frá Guði.“ — The Book of Books: An Introduction.

Biblían er svo sannarlega meira en nákvæmt sögurit. Hún er innblásið orð Guðs, gjöf til góðs fyrir mannkynið. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Athugun á landafræði Biblíunnar sýnir fram á það. Um það verður fjallað í næsta tölublaði.

[Myndir á blaðsíðu 6, 7]

Efri mynd: Þrír hlutar veggjalágmyndar.

Neðri mynd: Uppdráttur af assýrskri veggjalágmynd sem lýsir umsátrinu um Lakís.

[Rétthafi]

(Birt með leyfi British Museum)

(Úr The Bible in the British Museum, gefin út af British Museum Press)

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 4]

Birt með leyfi British Museum