Hve nákvæm er biblíusagan?
Hve nákvæm er biblíusagan?
„ÉG tala sannleika, lýg ekki,“ sagði biblíuritari ungum vini sínum. (1. Tímóteusarbréf 2:7) Yfirlýsingar af þessu tagi í bréfum Páls eru sem áskorun á biblíugagnrýnendur. * Yfir 1900 ár eru liðin síðan Páll skrifaði bréf sín. Allan þennan tíma hefur engum tekist að sýna fram á eitt einasta dæmi um ónákvæmni í bréfum hans.
Biblíuritarinn Lúkas nefndi einnig að nákvæmni væri sér mikils virði. Hann skrifaði fyrst frásögu af ævi og þjónustu Jesú og síðan þá frásögu sem nefnd er Postulasagan. „Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi,“ skrifaði Lúkas. — Lúkas 1:3.
Vitnisburður um nákvæmni
Biblíugagnrýnendur á fyrri hluta 19. aldar véfengdu nákvæmni Lúkasar sem sagnaritara. Þeir fullyrtu meira að segja að frásaga Postulasögunnar hefði verið spunnin upp um miðbik annarrar aldar okkar tímatals. Breski fornleifafræðingurinn Sir William Mitchell Ramsay var einn þeirra sem hélt það. Eftir að hafa farið vandlega yfir nöfn og staði, sem Lúkas nefnir, viðurkenndi hann hins vegar: „Ég sannfærðist smám saman um að frásagan bar í ýmsum smáatriðum vitni um undraverða nákvæmni.“
Þegar Ramsay skrifaði orðin hér að ofan var ákveðinni spurningu um nákvæmni Lúkasar ósvarað. Hún varðaði borgirnar Íkóníum, Lýstru og Derbe sem voru nátengdar. Lúkas lætur að því liggja að Íkóníum hafi verið aðgreind frá Lýstru og Derbe með því að tala um síðarnefndu borgirnar sem borgir „í Lýkaóníu.“ (Postulasagan 14:6) Eins og meðfylgjandi kort sýnir stóð Lýstra hins vegar nær Íkóníum en Derbe. Sumir sagnaritarar til forna töluðu um Íkóníum sem hluta af Lýkaóníu og gagnrýnendur fundu því að Lúkasi fyrir að gera það ekki einnig.
Þá gerðist það árið 1910 að Ramsay fann minnismerki í rústum Íkóníum sem sýndi að borgarbúar höfðu talað frýgísku en ekki lýkaónsku. „Fjölmargar aðrar áletranir í Íkóníum og nánasta umhverfi færa sönnur á þá staðreynd að þjóðfræðilega mátti kalla borgin frýgíska,“ segir dr. Merrill Unger í bók sinni Archaeology and the New Testament. Já, á dögum Páls var frýgísk menning í Íkóníum og borgin aðskilin frá borgunum „í Lýkaóníu“ þar sem töluð var ‚lýkaónska.‘ — Postulasagan 14:6, 11.
Biblíugagnrýnendur véfengdu einnig að það væri rétt hjá Lúkasi að nota gríska orðið politarkhas um „borgarstjórana“ í Þessaloníku. (Postulasagan 17:6) Þetta orð var óþekkt í grískum bókmenntum. Þá fannst bogahlið í hinni fornu borg þar sem notað var nákvæmlega sama orð, politarkhas, um borgarstjórana og Lúkas hafði gert. „Það að Lúkas skuli hafa notað orðið staðfestir nákvæmni hans,“ segir W. E. Vine í Expository Dictionary of Old and New Testament Words.
Sjóferð Lúkasar
Sérfræðingar í siglingum hafa rannsakað öll smáatriði skipbrotsins sem lýst er í 27. kafla Postulasögunnar. Að sögn Lúkasar lenti stóra skipið, sem hann og Páll sigldu með, í norðaustan hvassviðri í grennd við smáeyna Káda og skipsmenn óttuðust að skipið myndi hrekjast upp á hinar hættulegu sandgrynningar út af norðurströnd Afríku. (Postulasagan 27:14, 17) Með góðri skipstjórn tókst þeim að beina skipinu frá Afríku og taka stefnu í vesturátt. Hvassviðrinu slotaði ekki og loks strandaði skipið úti fyrir Möltu og hafði þá hrakist um 870 kílómetra leið. Sérfræðingar í siglingum reikna út að það myndi taka stórt skip í stormi yfir 13 daga að hrekjast þetta langa leið. Útreikningar þeirra koma heim og saman við frásögn Lúkasar sem segir að skipið hafi strandað á fjórtánda degi. (Postulasagan 27:27, 33, 39, 41) Eftir að hafa rannsakað öll smáatriði í sjóferðarsögu Lúkasar komst sportsiglingamaðurinn James Smith að þessari niðurstöðu: „Þetta er frásaga af raunverulegum atburðum, skrifuð af manni sem tók þátt í þeim . . . Enginn maður, sem ekki var sjómaður, hefði getað gefið svona raunsanna lýsingu nema vera á staðnum.“
Niðustöður og uppgötvanir sem þessar valda því að sumir guðfræðingar eru fúsir til að verja kristnu Grísku ritningarnar sem nákvæma sagnfræði. En hvað um hinar eldri sagnir sem er að finna í Hebresku ritningunum? Margir prestar fylgja þar nútímaheimspeki og lýsa yfir að þar sé goðsagnir að finna. En gagnrýnendunum til skammar hafa fjölmörg atriði í hinni eldri biblíusögu einnig verið sannreynd. Tökum sem dæmi uppgötvun hins forna Assýríuríkis sem lá í gleymsku um langan aldur.
[Neðanmáls]
^ Sjá einnig Rómverjabréfið 9:1; 2. Korintubréf 11:31; Galatabréfið 1:20.
[Kort á blaðsíðu 3]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
FRÝGÍA
LÝKAÓNÍA
Íkóníum
Lýstra
Derbe
MIÐJARÐARHAF
KÝPUR