Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Kallið á öldungana‘

‚Kallið á öldungana‘

‚Kallið á öldungana‘

„Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:14.

1, 2. (a) Í hvaða hættu eru þjónar Jehóva núna og hvernig kann þeim að vera innanbrjósts? (b) Hvaða spurningar kalla á svör?

 „ÖRÐUGAR tíðir“ standa yfir. Fólk er eigingjarnt, fullt efnishyggju og hroka og æsir oft til ólgu núna á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Kristnum mönnum í núverandi illu heimskerfi stendur ógn af þrem alvarlegum hættum: Satan djöflinum, heimi óguðlegra manna og sínum eigin syndugu tilhneigingum sem þeir hafa tekið í arf. — Rómverjabréfið 5:12; 1. Pétursbréf 5:8; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

2 Stundum geta okkur fundist þessar hættur svo ógnandi að við missum allan þrótt. Hvar getum við þá leitað stuðnings til að hjálpa okkur að halda út í trúfesti? Til hvers eða hverra getum við leitað leiðsagnar þegar við þurfum að taka ákvarðanir í sambandi við kristna starfsemi okkar og tilbeiðslu?

Hjálpin er nærri

3. Hjá hverjum getum við leitað hughreystingar og hvernig?

3 Sú vitneskja að Jehóva sé uppspretta styrks okkar er bæði hughreystandi og styrkjandi. (2. Korintubréf 1:3, 4; Filippíbréfið 4:13) Sálmaritarinn Davíð, sem naut hjálpar Guðs, lýsti yfir: „Fel [Jehóva] vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“ „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 37:5; 55:23) Við erum vissulega þakklát fyrir slíkan stuðning!

4. Hvernig geta bæði Pétur og Páll hughreyst okkur?

4 Við getum líka leitað hughreystingar í þeirri vitneskju að við erum ekki ein um að eiga í freistingum og hættum. Pétur postuli hvatti kristna bræður sína: „Standið gegn honum [Satan djöflinum], stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ (1. Pétursbréf 5:9) Vissulega þrá allir kristnir menn að vera stöðugir í trúnni. Að vísu getur okkur oft fundist við vera „aðþrengdir“ eins og Páll postuli. Þó var hann ekki ‚ofþrengdur.‘ Líkt og hann erum við kannski ráðvilltir en „örvæntum þó ekki.“ Jafnvel þótt við séum ofsóttir erum við „ekki yfirgefnir.“ Ef við erum ‚felldir til jarðar tortímumst við þó ekki.‘ Þar af leiðandi „látum vér ekki hugfallast.“ Við kappkostum að horfa „ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega.“ (2. Korintubréf 4:8, 9, 16, 18) Hvernig getum við gert það?

5. Hvaða þríþætta hjálp veitir Jehóva?

5 Jehóva, hann „sem heyrir bænir,“ veitir okkur þríþætta hjálp. (Sálmur 65:3; 1. Jóhannesarbréf 5:14) Í fyrsta lagi býður hann okkur leiðsögn gegnum innblásið orð sitt, Biblíuna. (Sálmur 119:105; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Í öðru lagi gefur heilagur andi hans okkur kraft til að gera vilja hans. (Samanber Postulasöguna 4:29-31.) Og í þriðja lagi er jarðneskt skipulag Jehóva reiðubúið að hjálpa okkur. Hvað þurfum við að gera til að fá hjálp?

‚Gjafir í mönnum‘

6. Hvaða hjálp veitti Jehóva í Tabera og hvernig?

6 Atvik frá dögum spámannsins Móse hjálpar okkur að meta að verðleikum ástríka umhyggju Jehóva sem birtist í hjálp til handa þjónum hans. Það átti sér stað í Sínaíeyðimörk við Tabera sem merkir „bruni; stórbruni; eldhaf.“ Á þeim stað í Sínaíeyðimörk lét Guð eld koma yfir Ísraelsmennina sem kvörtuðu. ‚Útlendi lýðurinn,‘ sem slóst í för með Ísraelsmönnum út af Egyptalandi, hafði tekið undir með þeim í því að láta í ljós óánægju með fæðuna sem Guð sá þeim fyrir. Móse vissi að Guð var reiður og fannst ábyrgðin á þjóðinni og þörfum hennar yfirþyrmandi og hrópaði: „Ég rís ekki einn undir öllu þessu fólki, því að það er mér of þungt. Og ef þú ætlar að fara svona með mig, þá deyð mig heldur hreinlega, ef ég hefi fundið náð í augum þínum, svo að ég þurfi eigi að horfa upp á ógæfu mína.“ (4. Mósebók 11:1-15) Hvernig brást Jehóva við? Hann skipaði ‚sjötíu menn af öldungum Ísraels‘ og lagði anda sinn yfir þá þannig að þeir gætu létt Móse stjórnarstörfin. (4. Mósebók 11:16, 17, 24, 25) Með útnefningu þessara hæfu karlmanna áttu Ísraelsmenn og ‚útlendi lýðurinn‘ auðveldara með að fá hjálp. — 2. Mósebók 12:38.

7, 8. (a) Hvernig sá Jehóva fyrir ‚gjöfum í mynd manna‘ í Forn-Ísrael? (b) Hvernig heimfærði Páll Sálm 68:19 á fyrstu öld?

7 Eftir að Ísraelsmenn höfðu verið í fyrirheitna landinu í fjölda ára steig Jehóva í óeiginlegri merkingu niður á Síonfjall og gerði Jerúsalem að höfuðborg táknræns ríkis þar sem Davíð var konungur. Davíð hóf upp raust sína til lofs ‚Hinum almáttka‘ og söng: „Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum [„gjöfum í mynd manna,“ NW].“ (Sálmur 68:15, 19) Í reynd voru menn, sem teknir voru til fanga þegar fyrirheitna landið var unnið, settir aðstoðarmenn Levítanna við skyldustörf þeirra. — Esrabók 8:20.

8 Á fyrstu öld okkar tímatals vakti Páll postuli athygli á spádómlegri uppfyllingu orða sálmaritarans. Páll skrifaði: „Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum. Því segir ritningin: ‚Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir [„gjafir í mönnum,“ NW].‘ (En ‚steig upp‘, hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar? Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)“ (Efesusbréfið 4:7-10) Hver er þessi „sá“? Enginn annar en fulltrúi Jehóva, hinn meiri Davíð og messíasarkonungur, Jesús Kristur. Hann er sá sem Guð reisti upp og ‚hátt upp hóf.‘ — Filippíbréfið 2:5-11.

9. (a) Hverjir voru gjafir í mönnum á fyrstu öld? (b) Hverjir eru gjafir í mönnum nú á dögum?

9 Hverjar eru þá þessar „gjafir í mönnum“ (eða „gjafir í mynd manna“)? Páll útskýrir að aðalfulltrúi Guðs hafi gefið þá gjöf að „sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar.“ (Efesusbréfið 4:11, 12) Allir fylgjendur Krists, er þjónuðu sem postular, spámenn, trúboðar, hirðar og kennarar, gerðu það undir guðræðislegri forystu. (Lúkas 6:12-16; Postulasagan 8:12; 11:27, 28; 15:22; 1. Pétursbréf 5:1-3) Á okkar dögum þjóna andlega hæfir öldungar, skipaðir af heilögum anda, sem umsjónarmenn í um 70.000 söfnuðum votta Jehóva um heim allan. Þeir eru gjafir okkar í mönnum. (Postulasagan 20:28) Samfara því að prédikun Guðsríkis vex ört um allan heim ‚sækjast‘ sífellt fleiri bræður eftir því að axla þá ábyrgð sem er fólgin í ‚umsjónarmannsstarfi.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:1, NW) Við útnefningu sína verða þeir líka gjafir í mönnum.

10. Hvernig hæfir lýsing Jesaja á ‚höfðingjunum‘ hlutverki kristinna öldunga nú á tímum?

10 Þessir kristnu öldungar eða gjafir í mönnum koma heim og saman við lýsingu spámannsins Jesaja þegar hann spáði fyrir um hlutverk ‚höfðingjanna‘ er myndu stjórna undir yfirumsjón Guðsríkis. Hver og einn verður að vera „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Þetta sýnir hversu styrkjandi hin kærleiksríka umsjón þessara útnefndu manna ætti að vera. Hvernig getur þú haft sem mest gagn af henni?

Taktu frumkvæðið

11. Hvernig getum við fengið hjálp þegar við erum í andlegri lægð?

11 Drukknandi maður hrópar ósjálfrátt á hjálp. Hann hikar ekki. Það þarf ekki að ýta við manni sem er í lífshættu til að hann kalli á aðstoð. Ákallaði ekki Davíð konungur Jehóva margsinnis um hjálp? (Sálmur 3:5; 4:2; 5:2-4; 17:1, 6; 34:7, 18-20; 39:13) Þegar við erum niðurdregin, kannski jafnvel örvæntingarfull, þá snúum við okkur líka til Jehóva í bæn og sárbænum hann að leiðbeina okkur með heilögum anda sínum. (Sálmur 55:23; Filippíbréfið 4:6, 7) Við sækjum hughreystingu til Ritningarinnar. (Rómverjabréfið 15:4) Við leitum raunhæfra ráðlegginga í kristnum ritum Varðturnsfélagsins. Oft gerir það okkur kleift að leysa vandamál okkar. Ef erfiðleikarnir virðast yfirþyrmandi getum við líka leitað leiðbeininga hinna útnefndu safnaðaröldunga. Stundum getum við meira að segja þurft að ‚kalla til okkar öldungana.‘ Hvers vegna að kalla á öldungana? Hvernig geta þeir hjálpað þeim sem þarfnast andlegrar aðstoðar?

12-14. (a) Hvað er viturlegt að gera þegar maður er veikur? (b) Hvað er ‚sjúkum‘ kristnum mönnum ráðlagt að gera samkvæmt Jakobsbréfinu 5:14? (c) Hvers konar sjúkleika er átt við í Jakobsbréfinu 5:14 og hvers vegna segir þú það?

12 Þegar við veikjumst hvílum við okkur til að gefa lækningamætti líkamans tækifæri til að vinna sitt verk. Ef veikindin dragast á langinn er hins vegar hyggilegt af okkur að leita læknishjálpar. Ættum við ekki að gera það líka ef við verðum veikburða andlega?

13 Tökum eftir ráðleggingum lærisveinsins Jakobs í þessu sambandi. Hann segir: „Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni [Jehóva] og biðjast fyrir yfir honum.“ (Jakobsbréfið 5:14) Hvers konar veikindi er Jakob að tala um hérna? Sumir biblíuskýrendur álykta að það séu líkamleg veikindi út frá því að það að smyrja með olíu var algengt læknisráð í þá daga. (Lúkas 10:34) Þeir álíta einnig að Jakob hafi haft í huga kraftaverkalækningu sökum lækningagáfunnar. En hvað gefur samhengið til kynna?

14 Jakob stillir upp þeim andstæðum að það „liggi vel á einhverjum“ og að ‚einhverjum líði illa.‘ Það gefur til kynna að hann hafi verið að ræða um andlegan sjúkleika. (Jakobsbréfið 5:13) Það átti að kalla á „öldunga safnaðarins,“ ekki lækna eða jafnvel þá sem réðu yfir hinni undraverðu lækningagáfu. Og hvað áttu þeir að gera? Jakob sagði: „Þeir skulu . . . biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan.“ (Jakobsbréfið 5:14, 15; samanber Sálm 119:9-16.) Sú staðreynd að Jakob skuli tala um syndajátningu í sambandi við væntanlega lækningu sannar svo ekki verður um villst að hann er að tala um andlegan sjúkleika. Hann skrifar: „Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir.“ Ef alvarleg synd er orsök hins andlega sjúkleika getur sjúki maðurinn vænst þess að ná sér aðeins ef hann bregst jákvætt við hvatningu byggðri á orði Guðs, iðrast og hættir syndsamlegu hátterni. — Jakobsbréfið 5:16; Postulasagan 3:19.

15. Hvaða aðgerðum mælir Jakobsbréfið 5:13, 14 með?

15 Við getum lesið annað út úr heilræðum Jakobs. Þegar kristnum manni líður illa ætti hann að ‚biðja.‘ Ef hann er léttur í lund ætti hann að ‚syngja lofsöng.‘ Báðar aðstæður — hvort sem okkur líður illa eða það liggur vel á okkur — kalla á athafnir. Annars vegar er þörf á bæn, hins vegar að tjá gleði sína. Hverju ættum við þá að búast við þegar Jakob segir: „Sé einhver sjúkur yðar á meðal“? Enn hvetur hann til jákvæðra aðgerða, já, frumkvæðis. „Þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins.“ — Sálmur 50:15; Efesusbréfið 5:19; Kólossubréfið 3:16.

Hvernig ‚öldungarnir‘ hjálpa

16, 17. Hvernig hjálpa öldungar okkur að heimfæra meginreglur Biblíunnar?

16 Það er stundum erfitt fyrir okkur að vita hvernig við eigum að heimfæra meginreglur Biblíunnar á persónulegar aðstæður okkar. Þar geta kristnir öldungar reynst ómetanleg hjálp. Til dæmis biðja þeir yfir þeim sem er andlega veikur og ‚smyrja hann með olíu í nafni Jehóva‘ með því að heimfæra kunnáttusamlega mýkjandi leiðbeiningar frá orði Guðs. Öldungarnir geta þannig átt drjúgan þátt í andlegum bata okkar. (Sálmur 141:5) Oft þurfum við ekki annað en staðfestingu á því að við rökhugsum rétt. Það að ræða málin við reyndan, kristinn öldung mun styrkja þann ásetning okkar að gera það sem er rétt. — Orðskviðirnir 27:17.

17 Þegar kristnir öldungar eru beðnir að koma í heimsókn ‚hughreysta þeir ístöðulitla.‘ Þeir munu líka ‚taka að sér þá sem óstyrkir eru og vera langlyndir við alla.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Slíkt náið samband og skilningur milli ‚öldunganna‘ og ‚hinna óstyrku‘ eykur líkurnar á að þeir nái fullum andlegum bata.

Persónuleg ábyrgð og bæn

18, 19. Hvaða hlutverki gegna öldungar í sambandi við Galatabréfið 6:2, 5?

18 Kristnir öldungar verða að axla ábyrgð sína gagnvart hjörð Guðs. Þeir verða að styðja hana. Til dæmis sagði Páll: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka. Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ Postulinn sagði einnig: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ — Galatabréfið 6:1, 2, 5.

19 Hvernig getum við borið hver annars byrðar en jafnframt borið okkar eigin byrði? Svarið liggur í merkingu grísku orðanna sem þýdd eru „byrðar“ og „byrði.“ Ef kristinn maður lendir í andlegum erfiðleikum, sem eru eins og þung byrði fyrir hann, aðstoða öldungar og aðrir trúbræður hann og hjálpa honum þannig að bera „byrðar“ sínar. Einstaklingurinn verður hins vegar sjálfur að bera sína eigin „byrði“ sem er fólgin í ábyrgð gagnvart Guði. * Öldungarnir bera fúslega „byrðar“ bræðra sinna með því að uppörva þá, veita biblíuleg ráð og biðja með þeim. Hins vegar taka öldungarnir ekki á sig okkar eigin „byrði“ sem felst í andlegri ábyrgð okkar. — Rómverjabréfið 15:1.

20. Hvers vegna ættum við ekki að vanrækja bænina?

20 Bæn er nauðsynleg og hana ætti ekki að vanrækja. En margir andlega sjúkir kristnir menn eiga erfitt með að biðja. Hvert er markmið öldunga sem biðja í trú fyrir þeim sem er andlega sjúkur? Að ‚Jehóva reisi hann á fætur‘ upp úr örvæntingu hans og styrki hann til að feta braut sannleikans og réttlætisins. Andlega sjúkur kristinn maður kann að hafa röng viðhorf en þarf ekki að hafa drýgt einhverja alvarlega synd því að Jakob segir: „Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.“ Biblíuleg heilræði öldunganna samfara einlægri bæn kemur andlega veikburða einstaklingi stundum til að játa alvarlegar syndir, sem hann kann að hafa drýgt, og láta í ljós iðrunarhug. Það veldur síðan því að Guð fyrirgefur honum. — Jakobsbréfið 5:15, 16.

21. (a) Hvers vegna eru sumir kristnir menn hikandi við að kalla til sín öldungana? (b) Hvað fjöllum við um í næstu grein?

21 Núna þegar nýir koma inn í kristna söfnuðinn í stríðum straumum hafa samviskusamir öldungar mikið að gera við að hafa góða umsjón. Þessar gjafir í mönnum eru svo sannarlega góð ráðstöfun frá Jehóva til að hjálpa okkur að þrauka á þessum erfiðu tímum. En sumir kristnir menn eru hikandi við að leita hjálpar öldunganna og finnst þessir bræður kannski of uppteknir eða hafi allt of mörg vandamál á sínum herðum. Næsta grein hjálpar okkur að gera okkur ljóst að þessir menn eru meira en fúsir til að hjálpa, því að þeir þjóna fúslega sem undirhirðar í kristna söfnuðinum.

[Neðanmáls]

^ A Linguistic Key to the Greek New Testament eftir Fritz Rienecker skilgreinir phortiʹon sem „byrði sem ætlast er til að maður beri“ og bætir við: „Það var notað á hermannamáli um föggur manns eða útbúnað hermanns.“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvaða þríþætta hjálp veitir Jehóva þegar við þörfnumst hjálpar?

◻ Hverjir eru gjafir í mönnum nú á tímum?

◻ Hvenær ættum við að kalla öldungana til okkar?

◻ Hvaða hjálpar getum við vænst frá kristnum öldungum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Notfærir þú þér það andlega gagn sem fylgir bæn, biblíunámi og hjálp kristinna öldunga?