Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Jehóva með fórnfúsum anda

Þjónaðu Jehóva með fórnfúsum anda

Þjónaðu Jehóva með fórnfúsum anda

„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross [„kvalastaur,“ NW] sinn og fylgi mér.“ — MATTEUS 16:24.

1. Hvernig sagði Jesús lærisveinum sínum frá yfirvofandi dauða sínum?

 Í SKUGGA hins snækrýnda Hermonfjalls nær Jesús merkum áfanga í lífi sínu. Hann á innan við eitt ár ólifað. Hann veit það en lærisveinar hans ekki. Nú er kominn tími til að þeir viti það. Jesús hefur að vísu áður ýjað að yfirvofandi dauða sínum en þetta er í fyrsta sinn sem hann talar opinskátt um hann. (Matteus 9:15; 12:40) Frásaga Matteusar segir: „Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.“ — Matteus 16:21; Markús 8:31, 32.

2. Hvernig brást Pétur við orðum Jesú um væntanlegar þjáningar sínar og hvernig svaraði Jesús?

2 Jesús á skammt eftir ólifað. En Pétur tekur þessa að því er virðist óhugnanlegu hugmynd óstinnt upp. Hann getur ekki meðtekið að Messías verði í alvöru drepinn. Pétur vogar sér því að setja ofan í við meistara sinn. Sjálfsagt gengur honum gott eitt til er hann andmælir: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ En Jesús hafnar þegar í stað mislagðri góðvild Péturs, jafneinarðlega og hann myndi kremja höfuðið á eiturslöngu: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ — Matteus 16:22, 23.

3. (a) Hvernig gerði Pétur sig óafvitandi að talsmanni Satans? (b) Hvernig var Pétur ásteytingarsteinn á lífsbraut fórnfýsinnar?

3 Óafvitandi hefur Pétur gerst talsmaður Satans. Jesús svaraði honum hvasst og jafnákveðið og hann svaraði Satan í eyðimörkinni. Þar reyndi djöfullinn að freista hans til að lifa þægilegu lífi, verða konungur án þess að þjást. (Matteus 4:1-10) Núna hvetur Pétur hann til að vera góður við sjálfan sig. Jesús veit að það er ekki vilji föður hans. Hann verður að lifa fórnfúsu lífi, ekki að þóknast sjálfum sér. (Matteus 20:28) Pétur er orðinn að ásteytingarsteini á slíkri braut; vel meint samúð hans verður að gildru. * Jesús gerir sér þó fulla grein fyrir að ef hann gældi á nokkurn hátt við þá hugmynd að lifa lífinu án fórnfýsi myndi hann glata velþóknun Guðs og falla í gildru Satans þar sem ekkert biði annað en dauðinn.

4. Hvers vegna vildi Jesús ekki að hann eða fylgjendur hans lifðu til að þóknast sjálfum sér?

4 Það þurfti því að leiðrétta hugsunarhátt Péturs. Orð hans við Jesú lýstu hugsunarhætti manna, ekki Guðs. Jesús vildi ekki lifa í þægindum og eftirlæti við sjálfan sig og forðast þannig þjáningar með auðveldum hætti, og fylgjendur hans áttu ekki að gera það heldur því að hann hélt áfram og sagði við Pétur og hina lærisveinana: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross [„kvalastaur,“ NW] sinn og fylgi mér.“ — Matteus 16:24.

5. (a) Hvaða áskorun felst í því að lifa kristilegu lífi? (b) Hvað þrennt verður kristinn maður að vera fús til að gera?

5 Aftur og aftur kemur Jesús inn á þetta aðalstef: Það er áskorun að lifa kristilegu lífi. Til að vera fylgjendur Jesú verða kristnir menn, eins og leiðtogi þeirra, að þjóna Jehóva með fórnfúsum anda. (Matteus 10:37-39) Hann telur því upp þrennt sem kristinn maður verður að vera reiðubúinn að gera: (1) afneita sjálfum sér, (2) taka upp kvalastaur sinn og (3) fylgja honum stöðuglega.

„Hver sem vill fylgja mér“

6. (a) Hvernig afneitar maður sjálfum sér? (b) Hverjum verðum við að þóknast framar sjálfum okkur?

6 Hvað merkir það að afneita sjálfum sér? Það merkir að einstaklingurinn verður að afneita sjálfum sér algerlega, eins og að deyja gagnvart sjálfum sér. Grunnhugmynd gríska orðsins, sem er þýtt „afneita,“ er „að segja nei“; það merkir „að þverneita.“ Ef þú tekur þeirri áskorun að lifa kristilegu lífi ertu því fúslega að gefa eftir þín eigin metnaðarmál, þægindi, langanir, hamingju og ánægju. Í stuttu máli ertu í eitt skipti fyrir öll að gefa Jehóva Guði allt þitt líf og allt sem felst í því. Að afneita sjálfum sér merkir meira en að neita sér um vissa ánægju af og til. Það merkir að einstaklingurinn verður að afsala sér eignarrétti yfir sjálfum sér í hendur Jehóva. (1. Korintubréf 6:19, 20) Sá sem hefur afneitað sjálfum sér lifir ekki til að þóknast sjálfum sér heldur Guði. (Rómverjabréfið 14:8; 15:3) Það merkir að allar stundir lífsins segir hann nei við eigingjarnar langanir og já við Jehóva.

7. Hvað er kvalastaur kristins manns og hvernig ber hann hann?

7 Að taka upp kross sinn eða kvalastaur hefur því alvarlegar afleiðingar. Að bera kvalastaur er byrði og tákn dauðans. Kristinn maður er fús til að þjást ef þörf krefur, eða að láta smána sig eða pynda eða jafnvel taka af lífi vegna þess að hann er fylgjandi Jesú Krists. Jesús sagði: „Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.“ (Matteus 10:38) Ekki eru allir sem þjást að bera kvalastaurinn. Hinir óguðlegu þola miklar ‚þjáningar‘ en bera engan kvalastaur. (Sálmur 32:10) Kristinn maður verður hins vegar að bera kvalastaur fórnfúsrar þjónustu við Jehóva.

8. Hvers konar líf gaf Jesús fylgjendum sínum fyrirmynd um?

8 Síðasta skilyrðið, sem Jesús nefndi, var að við fylgdum honum stöðuglega. Jesús krefst ekki aðeins að við viðurkennum og trúum öllu sem hann kenndi heldur líka að við fylgjum stöðuglega þeirri fyrirmynd sem hann gaf. Og hvaða einkennum bar mest á í lífi hans? Þegar hann gaf fylgjendum sínum síðustu fyrirmælin sagði hann: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Jesús prédikaði og kenndi fagnaðarerindið um ríkið. Það gerðu líka þeir lærisveinar, sem stóðu honum næstir, og reyndar allur frumkristni söfnuðurinn í heild sinni. Þetta kostgæfa starf, auk þess að þeir tilheyrðu ekki heiminum, kallaði yfir þá hatur og andstöðu heimsins sem olli því að kvalastaur þeirra varð enn þungbærari. — Jóhannes 15:19, 20; Postulasagan 8:4.

9. Hvernig kom Jesús fram við aðra?

9 Annað áberandi einkenni í fari Jesú var framkoma hans við annað fólk. Hann var góðviljaður, „hógvær og af hjarta lítillátur.“ Fylgjendum hans fannst því hressandi og uppörvandi að vera í návist hans. (Matteus 11:29) Hann hræddi þá ekki til að fylgja sér og setti ekki heldur reglu eftir reglu um það hvað þeir ættu að gera, og hann vakti ekki heldur með þeim sektarkennd til að þvinga þá til að vera lærisveinar hans. Þrátt fyrir að þeir lifðu fórnfúsu lífi geisluðu þeir af ósvikinni gleði. Þeir stungu mjög í stúf við þá sem höfðu anda heimsins eða kepptust við að þóknast sjálfum sér eins og er áberandi einkenni ‚síðustu daga‘! — 2. Tímóteusarbréf 3:1-4.

Þroskaðu og viðhaltu þeim fórnfúsa anda sem Jesús sýndi

10. (a) Hvernig afneitaði Kristur sjálfum sér samkvæmt Filippíbréfinu 2:5-8? (b) Hvaða hugarfar verðum við að hafa ef við erum fylgjendur Krists?

10 Jesús gaf fyrirmyndina um það að afneita sjálfum sér. Hann tók upp kvalastaur sinn og bar hann stöðugt með því að gera vilja föður síns. Páll skrifaði kristnum mönnum í Filippí: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi [„kvalastaur,“ NW].“ (Filippíbréfið 2:5-8) Hver gat afneitað sjálfum sér rækilegar en þetta? Ef þú tilheyrir Kristi Jesú og ert einn af fylgjendum hans, þá verður þú að hafa þetta sama hugarfar.

11. Vilja hvers verður fórnfús maður að lifa til að gera?

11 Annar postuli, Pétur, segir okkur að kristnir menn eigi, úr því að Jesús þjáðist og dó fyrir okkur, að herklæðast sama hugarfari og Kristur, líkt og vel búnir hermenn. Hann skrifar: „Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd, hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs.“ (1. Pétursbréf 3:18; 4:1, 2) Fórnfús lífsstefna Jesú sýndi greinilega hvað honum fannst um vilja Guðs. Hann var stefnufastur í hollustu sinni og tók alltaf vilja föður síns fram yfir sinn eigin, jafnvel þótt það kostaði hann að deyja smánarlegum dauðdaga. — Matteus 6:10; Lúkas 22:42.

12. Fannst Jesú ógeðfellt að lifa fórnfúsu lífi? Skýrðu svar þitt.

12 Enda þótt það væri erfitt og krefjandi fyrir Jesú að lifa fórnfúsu lífi fannst honum það ekki ógeðfellt. Nei, Jesús hafði yndi af því að lúta vilja Guðs. Það að vinna verk föður hans var í hans augum eins og matur. Hann hafði ósvikna ánægju af því, alveg eins og við höfum af góðri máltíð. (Matteus 4:4; Jóhannes 4:34) Ef þig langar til að njóta ósvikinnar lífsfyllingar getur þú ekkert betra gert en að fylgja fordæmi Jesú með því að rækta sama hugarfar og hann.

13. Hvernig er kærleikur drifkrafturinn að baki anda fórnfýsinnar?

13 Hver er eiginlega drifkrafturinn að baki fórnfýsinni? Því má svara með einu orði: Kærleikur. Jesús sagði: „‚Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ (Matteus 22:37-39) Kristinn maður getur ekki verið eigingjarn og samtímis hlýtt þessum orðum. Hamingja hans og áhugamál verða að stjórnast fyrst og fremst af kærleika hans til Jehóva og síðan af kærleika hans til náungans. Það var þannig sem Jesús lifði lífinu og það er það sem hann ætlast til af fylgjendum sínum.

14. (a) Hvaða ábyrgð er talað um í Hebreabréfinu 13:15, 16? (b) Hvað kemur okkur til að prédika fagnaðarerindið með kostgæfni?

14 Páll postuli skildi þetta lögmál kærleikans. Hann skrifaði: „Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ (Hebreabréfið 13:15, 16) Kristnir menn færa ekki Jehóva dýrafórnir eða þess háttar; þar af leiðandi þurfa þeir ekki mennska presta í efnislegu musteri til að framkvæma embættisathafnir í sambandi við tilbeiðslu þeirra. Það er fyrir milligöngu Krists Jesú sem lofgerðarfórnir okkar eru færðar og það er fyrst og fremst með þessum lofgerðarfórnum, þessari opinberu játningu á nafni hans, sem við sýnum kærleika okkar til Guðs. Það er einkum óeigingjarn andi okkar, sprottinn af kærleika, sem hvetur okkur til að prédika fagnaðarerindið með kostgæfni og gera okkur far um að vera alltaf reiðubúin að færa Guði ávöxt vara okkar. Þannig sýnum við einnig náungakærleika.

Fórnfýsi hefur ríkulega blessun í för með sér

15. Hvaða rannsakandi spurninga um fórnfýsi getum við spurt okkur?

15 Staldraðu við eitt augnablik og íhugaðu eftirfarandi spurningar: Ber núverandi lífsmynstur mitt vitni um fórnfýsi? Stefna markmið mín í þá átt? Njóta aðrir í fjölskyldunni góðs andlega af fordæmi mínu? (Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:8.) Hvað um munaðarleysingja og ekkjur? Njóta þau einnig góðs af fórnfúsum anda mínum? (Jakobsbréfið 1:27) Get ég notað meiri tíma í opinberri lofgerðarþjónustu minni? Hef ég möguleika á að sækjast eftir sérréttindum í brautryðjanda-, Betel- eða trúboðsþjónustu eða get ég flust til að þjóna á svæði þar sem er meiri þörf fyrir boðbera Guðsríkis?

16. Hvernig gæti hugkvæmni hjálpað okkur að lifa fórnfúsu lífi?

16 Stundum þarf ekki nema svolitla hugkvæmni til að við náum að njóta okkar til fulls í því að þjóna Jehóva með fórnfúsum anda. Janet, sem var reglulegur brautryðjandi í Ekvador, vann fulla veraldlega vinnu. Fljótlega fór hún að eiga erfitt með að skila tilætluðum tíma í brautryðjandastarfinu og viðhalda gleði sinni. Hún ákvað að útskýra vandamálið fyrir vinnuveitanda sínum og óskaði eftir fá að minnka við sig vinnu. Þegar hann var ófús til að leyfa henni að vinna hlutastarf tók hún Maríu með sér, en hún var að leita sér að vinnu hluta úr degi þannig að hún gæti verið brautryðjandi. Báðar buðust þær til að vinna hálfan daginn og deila þannig með sér fullu starfi. Vinnuveitandinn féllst á það. Núna eru báðar systurnar reglulegir brautryðjendur. Þegar Kaffa, sem var líka að gefast upp á að vinna hjá sama fyrirtæki samhliða því að ná tímamarkmiði sínu sem brautryðjandi, sá hve vel þetta reyndist tók hún Magali með sér og gerði vinnuveitandanum sams konar tilboð. Það var líka samþykkt. Núna geta því fjórar systur starfað sem brautryðjendur í stað tveggja sem voru komnar á fremsta hlunn með að hætta þjónustu í fullu starfi. Hugkvæmni og frumkvæði borgaði sig.

17-21. Hvernig endurmátu hjón tilgang sinn í lífinu og með hvaða árangri?

17 Taktu einnig eftir fórnfúsum anda Evonne síðastliðin tíu ár. Hún skrifaði Varðturnsfélaginu eftirfarandi í maí 1991:

18 „Í október 1982 fór ég með fjölskyldu minni í skoðunarferð um Betel í Brooklyn. Það sem ég sá vakti hjá mér löngun til að bjóða mig fram til starfa þar. Ég las umsóknareyðublaðið og þar var ein spurning sem vakti athygli mína: ‚Hver er meðalstundafjöldi þinn í þjónustunni á akrinum síðastliðna sex mánuði? Gefðu skýringu ef meðaltími er undir 10 stundum.‘ Ég gat ekki fundið neina gilda ástæðu þannig að ég setti mér markmið og náði því í fimm mánuði.

19 Enda þótt ég gæti hugsað mér nokkrar afsakanir fyrir því að vera ekki brautryðjandi sannfærðist ég, þegar ég las Árbók votta Jehóva 1983, um að aðrir hefðu yfirstigið stærri hindranir en ég til að geta starfað sem brautryðjendur. Þann 1. apríl 1983 hætti ég því vel launuðu heilsdagsstarfi mínu og gerðist aðstoðarbrautryðjandi, og síðan reglulegur brautryðjandi þann 1. september 1983.

20 Í apríl 1985 hlotnaðist mér sú gleði að giftast góðum safnaðarþjóni. Þrem árum síðar kom ræða um brautryðjandastarf á umdæmismóti manninum mínum til að halla sér að mér og hvísla: ‚Sérð þú einhverja ástæðu til að ég byrji ekki að starfa sem brautryðjandi þann 1. september?‘ Næstu tvö ár störfuðum við saman sem brautryðjendur.

21 Maðurinn minn bauð sig líka fram til byggingarvinnu við Betel í Brooklyn og sótti um að fá að starfa við alþjóðaframkvæmdirnar. Í maí 1989 fórum við því til Nígeríu í einn mánuð til að hjálpa til við byggingu deildarskrifstofu. Á morgun leggjum við að stað til Þýskalands þar sem gengið verður frá vegabréfsáritun handa okkur til Póllands. Við erum mjög spennt yfir því að fá að taka þátt í svona sögulegum byggingarframkvæmdum og eiga hlutdeild í þessari nýju þjónustugrein í fullu starfi.“

22. (a) Hvernig gætum við, líkt og Pétur, verið ásteytingarsteinn? (b) Hverju er það að þjóna Jehóva með fórnfúsum anda ekki háð?

22 Ef þú ert ekki fær um að vera brautryðjandi sjálfur, getur þú þá hvatt þá sem eru í þjónustu í fullu starfi til að varðveita sérréttindi sín og jafnvel hjálpað þeim til þess? Ætlar þú kannski að vera eins og sumir velviljaðir ættingar eða vinir sem, líkt og Pétur, segja þeim sem þjóna í fullu starfi að taka lífinu með ró, án þess að gera sér grein fyrir að þeir kunni að vera ásteytingarsteinar? Ef heilsa brautryðjanda væri í alvarlegri hættu eða ef hann vanrækti kristilegar skyldur gæti hann að vísu þurft að hætta þjónustu í fullu starfi um tíma. Það að þjóna Jehóva með fórnfúsum anda er ekki háð því að hafa stimpilinn brautryðjandi, Betelstarfsmaður eða eitthvað þess háttar. Það er öllu heldur háð því sem við erum sem einstaklingar — hvernig við hugsum, hvað við gerum, hvernig við komum fram við aðra, hvernig við lifum lífi okkar.

23. (a) Hvernig getum við haldið áfram að hafa gleði af því að vera samverkamenn Guðs? (b) Hvað erum við fullvissuð um í Hebreabréfinu 6:10-12?

23 Ef við höfum í sannleika til að bera fórnfúsan anda munum við njóta þeirrar gleði að vera samverkamenn Guðs. (1. Korintubréf 3:9) Við munum njóta þeirrar ánægju að vita að við erum að gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Og við megum vera fullviss um að Jehóva muni aldrei gleyma okkur eða yfirgefa okkur, svo lengi sem við erum honum trúföst. — Hebreabréfið 6:10-12.

[Neðanmáls]

^ Á grískunni var ‚ásteytingarsteinn‘ (σκάνδαλον, skanʹdalon) upphaflega „heiti á þeim hluta gildru sem agnið er sett á og þar af leiðandi gildran eða snaran sjálf. — Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig varð Pétur óafvitandi ásteytingarsteinn á lífsbraut fórnfýsinnar?

◻ Hvað merkir það að afneita sjálfum sér?

◻ Hvernig ber kristinn maður kvalastaur sinn?

◻ Hvernig byggjum við upp og viðhöldum fórnfúsum anda?

◻ Hver er drifkrafturinn að baki anda fórnfýsinnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Ert þú fús til að afneita sjálfum þér, taka kvalastaur þinn og fylgja Jesú stöðuglega?