Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sköpunarverkið segir: ‚þeir eru án afsökunar‘

Sköpunarverkið segir: ‚þeir eru án afsökunar‘

Sköpunarverkið segir: ‚þeir eru án afsökunar‘

„Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 1:20.

1, 2. (a) Hvernig kvartaði Job beisklega gegn Jehóva? (b) Hvernig dró Job orð sín til baka síðar?

 JOB var maður til forna sem bjó yfir órjúfanlegri trúfesti við Jehóva Guð. Satan hafði lagt skelfilega prófraun á Job og valdið því að hann missti allar efnislegar eigur sínar, syni sína og dætur, og slegið hann hræðilegum sjúkdómi. Job hélt að það væri Guð sem legði þessar plágur á hann og kvartaði beisklega við Jehóva: „Er það ávinningur fyrir þig, að þú undirokar  . . . er þú leitar að misgjörð minni og grennslast eftir synd minni, þótt þú vitir, að ég er ekki sekur?“ — Jobsbók 1:12-19; 2:5-8; 10:3, 6, 7.

2 Einhvern tíma síðar endurspegluðu orð Jobs að hann hefði gerbreytt um afstöðu: „Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi. Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig! Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.“ (Jobsbók 42:3, 5, 6) Hvað hafði komið Job til að skipta um skoðun?

3. Hvaða nýtt viðhorf fékk Job til sköpunarverksins?

3 Jehóva hafði talað við Job úr stormviðri. (Jobsbók 38:1) Hann hafði spurt Job spjörunum úr: ‚Hvar varst þú þegar ég grundvallaði jörðina? Hver byrgði hafið inni með hurðum og setti því takmörk hvert öldurnar gætu gengið? Getur þú látið rigna úr skýjunum á jörðina? Getur þú látið grasið vaxa? Getur þú bundið stjörnumerkin saman og stýrt braut þeirra?‘ Út í gegnum 38. til 41. kafla Jobsbókar lét Jehóva þessum spurningum og mörgum öðrum um sköpunarverkið rigna yfir Job. Hann kom Job í skilning um hið gríðarlega hyldýpi milli Guðs og manna og minnti Job rækilega á þá visku og þann mátt, sem endurspeglast í sköpunarverki Guðs, á það sem Job var algerlega ofviða að gera eða jafnvel skilja. Sá ógurlegi máttur og ótrúlegra viska hins alvalda Guðs, sem birtist í sköpunarverki hans, hafði yfirþyrmandi áhrif á Job og honum óaði það að hann skyldi hafa dirfst að þrátta við Jehóva. Hann sagði því: „Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!“ — Jobsbók 42:5.

4. Hvað ættum við að skynja út frá sköpunarverkum Jehóva og hvernig er ástatt með þá sem sjá það ekki?

4 Mörgum öldum síðar staðfesti innblásinn biblíuritari að eiginleikar Jehóva sæjust í sköpunarverki hans. Páll postuli skrifaði í Rómverjabréfinu 1:19, 20: „Það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“

5. (a) Hvaða meðfædda þörf hafa menn og hvernig fullnægja sumir henni ranglega? (b) Hvað ráðlagði Páll Grikkjum í Aþenu?

5 Manninum var ásköpuð sú þörf að tilbiðja einhvern æðri mátt. Í bók sinni, The Undiscovered Self, kallar dr. C. G. Jung þessa þörf „eðlislægt viðhorf sem er einkennandi fyrir manninn og hægt er að rekja gegnum alla sögu mannsins hvernig það hefur birst.“ Páll postuli talaði um meðfædda hvöt mannsins til að tilbiðja sem skýrir hvers vegna Grikkir í Aþenu gerðu líkneski og ölturu helguð mögum guðum, þekktum og óþekktum. Páll benti þeim einnig á hinn sanna Guð og sýndi að þeir ættu að svala þessari meðfæddu þörf rétt með því að leita Jehóva, hins sanna Guðs, „ef verða mætti [þeir] þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.“ (Postulasagan 17:22-30) Við getum skynjað eiginleika hans og einkenni jafnauðveldlega og við getum virt fyrir okkur sköpunarverkið.

Hin undraverða hringrás vatnsins

6. Hvaða eiginleika Jehóva sjáum við í hringrás vatnsins?

6 Hvaða eiginleika Jehóva sjáum við til dæmis þegar við virðum fyrir okkur dúnmjúk skýin sem geta haldið í sér vatni í tonnatali? Við sjáum kærleika hans og visku því að þannig sér hann fyrir regnskúrum til góðs fyrir jörðina. Hið stórkostlega hugvit, sem birtist í hringrás vatnsins, er nefnt í Prédikaranum 1:7: „Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.“ Jobsbók í Biblíunni lýsir nákvæmlega hvernig þetta gerist.

7. Hvernig kemst vatnið úr sjónum upp í skýin og hvernig geta skýin haldið í sér vatni í tonnatali?

7 Úrkoma vetrarins rennur út í sjó en hún endar ekki bara þar. Jehóva „dregur vatnsdropana úr sjónum og skilur regnið úr þokunni sem hann hefur gert.“ Þar eð vatnið í skýjunum er fyrst í gufu- og síðar þokuformi „hanga skýin grafkyrr upp yfir, undraverk hans sem er fullkominn að kunnáttu.“ (Jobsbók 36:27; 37:16, The New English Bible) Skýin haldast á lofti svo lengi sem þau eru í þokuformi: „Hann bindur vatnið saman í skýjum sínum, og þó brestur skýflókinn ekki undir því.“ Eða, eins og önnur þýðing kemst að orði: „Hann heldur vatninu innilokuðu í þéttum skýmassa og skýin rifna ekki sundur undan þunga þess.“ — Jobsbók 26:8, Bi. 1981; NE.

8. Hvaða mismunandi skref þarf til að hella úr ‚vatnsbelgjum himinsins‘ og ljúka hringrás vatnsins?

8 Þessir „vatnsbelgir himinsins — hver hellir úr þeim“ til að láta rigna á jörðina? (Jobsbók 38:37) Hann sem kom þeim þar fyrir í upphafi með ‚fullkominni kunnáttu‘ sinni, sem „skilur regnið úr þokunni sem hann hefur gert.“ Og hvað þarf til að skilja regndropa úr þokunni? Einhvers staðar á bilinu þúsundir til hundruð þúsunda smásærra agna af föstu efni, svo sem ryk- eða saltagnir, í hverjum rúmsentimetra lofts til að mynda kjarna sem smádropar geta myndast um. Áætlað er að það þurfi um milljón smádropa í skýi til að mynda meðalstóran regndropa. Það er ekki fyrr en allt þetta hefur gerst sem skýin geta látið regnið falla til jarðar til að mynda ár og læki sem renna í sjóinn. Þannig lokast hringrás vatnsins. Og gerðist allt þetta vegna blindrar tilviljunar? Þeir sem halda því fram eru „án afsökunar“!

Einn af viskubrunnum Salómons

9. Hvað fannst Salómon athyglisvert í sambandi við eina maurategund?

9 Viska Salómons átti sér engan samjöfnuð í heimi fortíðar. Stór hluti þessarar visku tengdist sköpunarverki Jehóva: „[Salómon] talaði um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanon til ísópsins, sem sprettur á múrveggnum. Og hann talaði um fénað og fugla, orma og fiska.“ (1. Konungabók 4:33) Það var líka Salómon konungur sem skrifaði: „Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn. Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra, þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.“ — Orðskviðirnir 6:6-8.

10. Hvernig reyndust orð Salómons um uppskerumaurana vera rétt?

10 Hver kenndi maurunum að safna vistum á sumrin til að nærast á meðan vetrarkuldinn stendur yfir? Um aldaraðir var það véfengt að Salómon hafi haft rétt fyrir sér um þessa maura sem söfnuðu korni og geymdu til vetrarins. Enginn hafði fundið nokkur merki þess að þeir væru til. Árið 1871 uppgötvaði breskur náttúrufræðingur hins vegar neðanjarðarkorngeymslur þeirra og nákvæmni Biblíunnar um þá var staðfest. En hvernig fengu þessir maurar þá framsýni að kaldur vetur fylgdi sumri og visku til að gera eitthvað í málinu? Biblían útskýrir að mörgum af sköpunarverum Jehóva sé ásköpuð sú viska sem þær þurfa til að komast af. Uppskerumaurarnir hafa hlotið þessa blessun af hendi skapara síns. Orðskviðirnir 30:24 tala um hana: „Þau [dýrin] eru vitur af eðlishvöt.“ (NW) Það er gagnstætt heilbrigðri skynsemi að segja að slík viska getið komið til af tilviljun; það er óafsakanlegt að sjá ekki að vitur skapari býr að baki því.

11. (a) Hvers vegna er risafuran í Kaliforníu svona stórkostleg? (b) Hvað er svona undravert í sambandi við fyrstu efnabreytingu ljóstillífunarinnar?

11 Maður, sem stendur við rætur risafuru í Kaliforníu, fyllist lotningu frammi fyrir þessum risa skógarins og finnst hann skiljanlega vera eins og lítill maur. Tréð er tröllaukið að stærð: 90 metra hátt, 22 metrar í þvermál, með 60 sentimetra þykkan börk og ræturnar ná yfir allt að einn og hálfan hektara. En sú efna- og eðlisfræði, sem stýrir vexti þess, er þó enn stórkostlegri. Laufið fær vatn frá rótunum, koldíoxíð úr loftinu og orku frá sólinni til að framleiða sykrur og gefa frá sér súrefni — ferli sem er kallað ljóstillífun og felur í sér um 70 efnabreytingar sem menn skilja ekki allar enn þá. Fyrsta efnabreytingin er háð ljósi frá sólinni sem er, svo furðulegt sem það er, af nákvæmlega réttum lit eða réttri bylgjulengd; að öðrum kosti myndu blaðgrænusameindirnar ekki drekka það í sig til að koma ljóstillífuninni af stað.

12. (a) Hvað er sérstakt við vatnsnotkun risafurunnar? (b) Hvers vegna er vöxtur jurta háður köfnunarefni og hvernig er köfnunarefnishringnum lokað?

12 Það er einnig stórfurðulegt að tréð skuli geta dregið vatnssúlu frá rótunum alveg upp í topp á þessum 90 metra háa risa. Tréð dregur upp langtum meira vatn en það þarf til ljóstillífunar. Það sem umfram er fer út í loftið með útgufun úr laufblöðunum. Þannig er tréð vatnskælt, ekki ósvipað og við kælum okkur með því að svitna. Til að mynda prótín til vaxtar þarf köfnunarefni að bindast sykrunum eða kolvetnunum. Laufið getur ekki notað loftkennt köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Hins vegar geta lífverur í jarðveginum breytt loftkenndu köfnunarefni í jörðinni í nítröt og nítrít sem eru vatnsleysanleg, og þau geta síðan borist frá rótunum upp í laufblöðin. Þegar jurtir og dýr, sem hafa notað þetta köfnunarefni til prótínmyndunar, deyja og rotna losnar köfnunarefnið og þar með lokast köfnunarefnishringurinn. Hið margbrotna eðli alls þessa er yfirþyrmandi og varla hægt að ætla tilviljun einni að koma því í kring.

Án ræðu eða orða eða raustar tala þau!

13. Hvaða áhrif hafði stjörnuhiminninn á Davíð og hvernig talar hann til okkar?

13 Stjörnubjartur næturhiminn ber ægifagurt vitni um mikilfenglegan skapara! Í Sálmi 8:4, 5 lýsti Davíð þeirri lotningu sem hann fann til: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ Þessi stjörnumprýddi himinn talar til þeirra sem hafa sjáandi augu, heyrandi eyru og næmt hjarta, alveg eins og hann talaði til Davíðs: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð.“ — Sálmur 19:2-5.

14. Hvers vegna er voldugt afl einnar af stjörnunum svona mikilvægt fyrir okkur?

14 Því meira sem við vitum um stjörnurnar, þeim mun sterkari röddu tala þær til okkar. Í Jesaja 40:26 erum við hvött til að taka eftir gífurlegri orku þeirra: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ Aðdráttarkraftur og voldugt afl einnar þeirra, sólarinnar okkar, heldur jörðinni á braut, lætur jurtirnar spretta, heldur á okkur hita og gerir allt lífið hér á jörðinni mögulegt. Páll postuli skrifaði undir innblæstri: „Stjarna ber af stjörnu í ljóma.“ (1. Korintubréf 15:41) Vísindunum er kunnugt um gular stjörnur eins og sólina okkar, en einnig bláar stjörnur, rauðar risastjörnur, hvítar dvergstjörnur, nifteindastjörnur og sprengistjörnur sem leysa úr læðingi óskiljanlega orku.

15. Hvað hafa margir uppfinningamenn lært af sköpunarverkinu og reynt að líkja eftir?

15 Margir uppfinningamenn hafa lært af sköpunarverkinu og reynt að líkja eftir hæfileikum lifandi vera. (Jobsbók 12:7-10) Nefnum aðeins nokkur athyglisverð dæmi. Sjófuglar með kirtla sem afselta sjó; fiskar og álar sem framleiða rafmagn; fiskar, ormar og skordýr sem gefa frá sér kalt ljós; leðurblökur og höfrungar sem nota ómsjá; vespur sem búa til pappír; maurar sem byggja brýr; bjórar sem reisa stíflur; snákar með innbyggða hitamæla; vatnaskordýr sem nota öndunarpípur og köfunarbjöllur; kolkrabba sem beita þrýstiknúningi; kóngulær sem vefa sjö tegundir vefja og búa til fellihlera, net og snörur og eignast unga sem fljúga þúsundir kílómetra í mikilli hæð í loftbelgjum; fiskar og krabbadýr sem nota flottanka eins og kafbátar, og fuglar, skordýr, sæskjaldbökur, fiskar og spendýr sem vinna stórkostleg afrek á sviði langferða — undraverð afrek sem vísindin kunna ekki að skýra.

16. Hvaða vísindalegan sannleika sagði Biblían þúsundum ára áður en vísindin uppgötvuðu hann?

16 Biblían talaði um vísindaleg sannindi þúsundum ára áður en vísindin vissu af þeim. Móselögin (frá 16. öld f.o.t.) endurspegla vitneskju um sýkla þúsundum ára fyrir daga Pasteurs. (3. Mósebók 13. og 14. kafli) Á 17. öld f.o.t. sagði Job: „Hann . . . lætur jörðina svífa í tómum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Þúsund árum fyrir fæðingu Krists skrifaði Salómon um hringrás blóðsins; læknavísindin urðu að bíða fram á 17. öld með að kynnast henni. (Prédikarinn 12:6) Enn fyrr endurspeglaði Sálmur 139:16 vitneskju um erfðalykilinn: „Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.“ Á 7. öld f.o.t., áður en náttúrufræðingar þekktu til farferða dýra og fugla, skrifaði Jeremía eins og stendur í Jeremía 8:7: „Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar.“

Sá „skapari“ sem þróunarsinnar kjósa

17. (a) Hvað segir Rómverjabréfið 1:21-23 um suma sem neita að sjá skynsemigæddan skapara að baki undrum sköpunarverksins? (b) Hvað kjósa þróunarsinnar í vissum skilningi sem „skapara“ sinn?

17 Einn ritningarstaður segir um þá sem neita því að skynsemigæddur skapari standi að baki undrum sköpunarverksins: „Þeir [hafa] gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri. Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar. Þeir skiptu á vegsemd hins ódauðlega Guðs og myndum, sem líktust dauðlegum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum. Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans.“ (Rómverjabréfið 1:21-23, 25) Hið sama má segja um þróunarvísindamennina sem vegsama í reynd ímyndaða þróunarkeðju frumdýrs-orms-fisks-froskdýrs-skriðdýrs-spendýrs-„apamanns“ sem „skapara“ sinn. Þeir vita eigi að síður að það eru ekki til neinir raunverulega einfaldir einfrumungar til að hefja keðjuna. Einfaldasta þekkta lífveran er samsett úr hundrað milljörðum atóma og þúsundir efnahvarfa eiga sér stað í henni samtímis.

18, 19. (a) Hverjum ber með réttu heiðurinn af tilurð lífsins? (b) Hve mikið af sköpunarverki Jehóva getum við séð?

18 Jehóva Guð er skapari lífsins. (Sálmur 36:10) Hann er hin mikla frumorsök alls. Nafn hans, Jehóva, merkir „hann kemur til leiðar.“ Sköpunarverk hans eru fleiri en við fáum talið. Til eru milljónir sköpunarverka sem maðurinn veit ekki um. Sálmur 104:24, 25 gefur það í skyn: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki.“ Jobsbók 26:14 segir það ótvírætt: „Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega hans, og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum! En þrumu máttarverka hans — hver skilur hana?“ Við sjáum fáeina hluti og heyrum lágt hvísl en okkur er um megn að skynja drynjandi þrumu hans að fullu.

19 Við höfum samt sem áður tækifæri til að sjá hann enn betur annars staðar en gegnum sköpunarverk hans. Þar er um að ræða orð hans, Biblíuna. Við beinum athygli okkar að því í næstu grein.

Manst þú?

Hvað lærði Job þegar Jehóva talaði til hans út úr stormviðrinu?

Hvers vegna sagði Páll að sumir væru án afsökunar?

Lýstu hringrás vatnsins.

Hvernig er sólarljósið okkur mikilvægt?

Hvaða vísindaleg sannindi opinberaði Biblían áður en vísindin uppgötvuðu þau?

[Spurningar]