Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frumkristnir menn og heimurinn

Frumkristnir menn og heimurinn

Frumkristnir menn og heimurinn

FYRIR um það bil tvö þúsund árum átti sér stað stórkostlegur atburður í Miðausturlöndum. Eingetinn sonur Guðs var sendur frá himneskum bústað sínum til að búa um skamman tíma í mannheimi. Hvernig brugðust flestir menn við? Jóhannes postuli svarar: „Hann [Jesús] var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar [Ísraels], en hans eigin menn tóku ekki við honum.“ — Jóhannes 1:10, 11.

Heimurinn hreinlega tók ekki við Jesú, syni Guðs. Hvers vegna? Jesús nefndi eina ástæðu þegar hann sagði: „Heimurinn . . . hatar [mig], af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.“ (Jóhannes 7:7) Að lokum lét þessi sami heimur — undir forystu nokkurra trúarleiðtoga Gyðinga, edómísks konungs og rómversks stjórnmálamanns — taka Jesú af lífi. (Lúkas 22:66–23:25; Postulasagan 3:14, 15; 4:24-28) Hvað um fylgjendur Jesú? Myndi heimurinn vera eitthvað fúsari til að taka við þeim? Nei. Skömmu fyrir dauða sinn aðvaraði Jesús þá: „Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ — Jóhannes 15:19.

Á postulatímanum

Jesús reyndist sannspár. Aðeins fáeinum vikum eftir dauða hans voru postular hans handteknir, ógnað og barðir. (Postulasagan 4:1-3; 5:17, 18, 40) Skömmu eftir það var hinn kostgæfi Stefán dreginn fyrir æðstaráð Gyðinga og síðan grýttur til bana. (Postulasagan 6:8-12; 7:54, 57, 58) Síðar tók Heródes Agrippa I konungur Jakob postula af lífi. (Postulasagan 12:1, 2) Á trúboðsferðum sínum var Páll ofsóttur að undirlagi Gyðinga í dreifingunni. — Postulasagan 13:50; 14:2, 19.

Hvernig brugðust frumkristnir menn við slíkri andstöðu? Þegar hin trúarlegu yfirvöld bönnuðu postulunum að prédika í nafni Jesú snemma á þessu tímabili svöruðu þeir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 4:19, 20; 5:29) Þetta hélt áfram að vera afstaða þeirra hvenær sem þeir mættu andstöðu. Eigi að síður ráðlagði Páll postuli kristnum mönnum í Róm að ‚hlýða yfirvöldum.‘ Hann ráðlagði þeim einnig: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18; 13:1) Frumkristnir menn urðu því að ná vandfundnu jafnvægi. Þeir hlýddu Guði sem æðsta stjórnanda sínum en voru samtímis undirgefnir stjórnvöldum þjóðar sinnar og reyndu að lifa í friði við alla menn.

Kristnir menn í hinum rómverska heimi

Kristnir menn á fyrstu öld nutu vafalaust góðs af Pax Romana, Rómarfriðnum, sem rómverskar hersveitir stóðu vörð um. Stöðugleiki, lög og regla, góðir vegir og tiltölulega öruggar sjóferðir sköpuðu umhverfi sem auðveldaði útbreiðslu kristninnar. Frumkristnir menn gerðu sér greinilega ljósa skuld sína við þjóðfélagið og hlýddu fyrirmælum Jesú um að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er.‘ (Markús 12:17) Í bréfi til Antonínusar Píusar Rómarkeisara (138-161) fullyrti Jústínus píslarvottur að kristnir menn greiddu skatta sína „fúslegar en allir aðrir menn.“ (First Apology, 17. kafli) Árið 197 sagði Tertúllíanus rómverskum stjórnvöldum að skattheimtumenn þeirra stæðu í „þakkarskuld við kristna menn“ fyrir að greiða skatta sína samviskusamlega. (Apologeticus, 42. kafli) Meðal annars þannig fylgdu þeir leiðbeiningum Páls um að vera undirgefnir æðri yfirvöldum.

Enn fremur reyndu frumkristnir menn, að svo miklu leyti sem kristnar meginreglur leyfðu, að lifa í friði við nágranna sína. En það var ekki auðvelt. Heimurinn umhverfis þá var mestmegnis siðlaus og gagnsýrður grísk-rómverskri skurðgoðadýrkun, þar á meðal hinni nýlega tilkomnu keisaradýrkun. Heiðin trú Rómar var í reynd ríkistrú þannig að líta mátti á það sem fjandskap gegn ríkinu að neita að taka þátt í henni. Hvaða aðstöðu setti þetta frumkristna menn í?

E. G. Hardy, prófessor við Oxfordháskóla, skrifar: „Tertúllíanus telur upp margt sem var blandað skurðgoðadýrkun og samviskusamur kristinn maður gat ekki tekið þátt í: t.d. eiða sem venja var að sverja við samninga; það að lýsa upp dyr á hátíðum o.s.frv.; allar heiðnar trúarathafnir; leikina og hringleikahúsið; þá atvinnu að kenna veraldlegar [klassískar, heiðnar] bókmenntir; herþjónustu; opinber embætti.“ — Christianity and the Roman Government.

Já, það var erfitt að búa í heimi Rómaveldis án þess að bregðast hinni kristnu trú. Kaþólski rithöfundurinn A. Hamman, sem er franskur, skrifar: „Það var ómögulegt að hreyfa sig án þess að rekast á einhvern guðdóm. Afstaða kristins manns setti hann daglega í vanda; hann lifði við útjaðar samfélagsins . . . Hann mætti síendurteknum vanda heima fyrir, á götum úti, á markaðinum . . . Úti á götu átti kristinn maður, hvort heldur hann var rómverskur ríkisborgari eða ekki, að taka ofan er hann gekk fram hjá musteri eða styttu. Hvernig gæti hann komist hjá að gera það án þess að vekja grunsemdir, en hvernig gæti hann hlýtt þessum fyrirmælum án þess að það væri hollustuathöfn? Ef hann stundaði viðskipti og þyrfti að taka peninga að láni yrði hann að sverja lánsalanum eið í nafni guðanna. . . . Ef hann þæði opinbert embætti var til þess ætlast að hann færði fórn. Ef hann væri skráður í herinn, hvernig gæti hann forðast að sverja eið og taka þátt í helgisiðum herþjónustunnar?“ — La vie quotidienne des premiers chrétiens (95-197) (Daglegt líf meðal frumkristinna manna, 95-197).

Góðir borgarar en þó hallmælt

Um árið 60 eða 61, þegar Páll var í Róm þar sem hann beið réttarhalda hjá Neró keisara, sögðu forystumenn Gyðinga um frumkristna menn: „Það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Sagan ber vitni um að talað var illa um kristna menn — en að tilhæfulausu. Í bók sinni The Rise of Christianity segir E. W. Barnes: „Í elstu opinberum skjölum sínum er hinni kristnu hreyfingu lýst sem sé hún í eðli sínu grandvör og löghlýðin. Meðlimir hennar þráðu að vera góðir borgarar og drottinhollir þegnar. Þeir forðuðust bresti og lesti heiðindómsins. Í einkalífinu leituðust þeir við að vera friðsamir nágrannar og traustir vinir. Þeim var kennt að vera reglusamir, iðjusamir og hreinlífir. Mitt í ríkjandi spillingu og lauslæti voru þeir heiðarlegir og sannsöglir, ef þeir voru trúir frumreglum sínum. Staðlar þeirra í kynferðismálum voru háir: hjónabandið var virt og fjölskyldulífið hreint. Úr því að þeir voru prýddir slíkum dyggðum er ekki hægt að ímynda sér að þeir hafi verið til vandræða sem borgarar. Eftir sem áður voru þeir löngum fyrirlitnir, hataðir og hallmælt.“

Rétt eins og heimurinn til forna skildi ekki Jesú, eins skildi hann ekki kristna menn og hataði þá þess vegna. Með því að þeir neituðu að tilbiðja keisarann og heiðna guðdóma voru þeir sakaðir um guðleysi. Ef ófarir urðu var þeim kennt um að hafa reitt guðina til reiði. Þar eð þeir sóttu ekki siðlaus leikrit eða blóðuga skylmingaleiki voru þeir álitnir andfélagslegir, jafnvel ‚mannhatarar.‘ Fjandmenn þeirra fullyrtu að hinn kristni „sértrúarflokkur“ sundraði fjölskyldum og að stöðugleika þjóðfélagsins stafaði þess vegna hætta af honum. Tertúllíanus talaði um heiðna eiginmenn sem kusu frekar að eiginkonur þeirra fremdu hjúskaparbrot en að þær gerðust kristnar.

Kristnir menn voru gagnrýndir af því að þeir voru mótfallnir fóstureyðingum sem tíðkuðust mjög á þeim tíma. En samt ásökuðu fjandmenn þeirra þá um að drepa börn. Fullyrt var að á samkomum sínum drykkju þeir blóð fórnfærðra barna. Samtímis reyndu óvinir þeirra að neyða þá til að borða blóðpylsur þótt þeir vissu mætavel að það stríddi gegn samvisku þeirra. Þannig voru þessir andstæðingar í mótsögn við sínar eigin ásakanir. — Tertúllíanus, Apology, 9. kafli.

Fyrirlitnir sem nýr sértrúarflokkur

Sagnfræðingurinn Kenneth Scott Latourette skrifaði: „Enn aðrar ásakanir gerðu kristnina háðulega fyrir það hve ung hún var og báru hana saman við háan aldur keppinauta sinna [gyðingdómsins og hinna grísk-rómversku heiðnu trúarbragða].“ (A History of the Expansion of Christianity, 1. bindi, bls. 131) Á fyrri hluta annarrar aldar okkar tímatals kallaði rómverski sagnaritarinn Suetóníus kristnina „nýja og skaðvænlega hjátrú.“ Tertúllíanus staðfesti að sjálft nafnið kristinn væri hatað og að kristnir menn væru fyrirlitinn sértrúarflokkur. Robert M. Grant skrifaði um það hvernig embættismenn Rómaveldis litu á kristna menn á annarri öld: „Meginsjónarmiðið var það að kristnin væri einfaldlega óþörf og ef til vill skaðleg trú.“ — Early Christianity and Society.

Sakaðir um ágengt trúboð

Í bók sinni Les premiers siècles de l’Eglise (Fyrstu aldir kirkjunnar) segir prófessor Jean Bernardi við Sorbonne-háskóla: „[Kristnir menn] áttu að fara út og tala alls staðar og við alla. Á þjóðvegunum og í borgunum, á torgunum og á heimilunum. Hvort sem þeir voru velkomnir eða óvelkomnir. Við hina fátæku og hina ríku sem íþyngt var með eigum sínum. Við hina lágt settu og landstjóra rómversku skattlandanna . . . Þeir urðu að leggja land undir fót, stíga á skipsfjöl og fara til endimarka jarðarinnar.“

Gerðu þeir það? Greinilega. Prófessor Léon Homo segir frá því að frumkristnir menn hafi haft almenningsálitið á móti sér vegna „ákafs trúboðs“ síns. Prófessor Latourette segir að Gyðingar hafi misst trúboðsákafann en ‚kristnir menn hafi á hinn bóginn verið ágengir trúboðar og hafi því vakið óvild.‘

Á annarri öld gagnrýndi rómverski heimspekingurinn Celsus prédikunaraðferðir kristinna manna. Hann fullyrti að kristnin væri fyrir hina ómenntuðu og að hún gæti ‚einungis sannfært einfeldninga, þræla, konur og börn.‘ Hann sakaði kristna menn um að innræta „auðtrúa fólki“ trú sína og láta það „trúa án rökréttrar hugsunar.“ Hann staðhæfði að þeir segðu nýjum lærisveinum sínum: „Spyrjið ekki, trúið bara.“ En að sögn Órígenesar viðurkenndi Celsus sjálfur að „það væru ekki aðeins einfeldningar sem létu leiðast af kenningu Jesú til að taka upp trú hans.“

Engin samkirkjuhreyfing

Frumkristnir menn voru enn fremur gagnrýndir fyrir það að fullyrða að þeir hefðu sannleikann um hinn eina, sanna Guð. Þeir voru ekki opnir fyrir samstarfi við aðrar trúarhreyfingar. Latourette skrifaði: „Ólíkt flestum trúarhreyfingum þess tíma voru þeir [kristnir menn] óvinveittir öðrum trúarbrögðum. . . . Ólíkt tiltölulega víðtæku umburðarlyndi annarra trúarstefna lýstu þeir yfir að þeir hefðu hinn endanlega sannleika.“

Árið 202 gaf Septimíus Severus keisari út opinbera tilskipun sem bannaði kristnum mönnum að snúa öðrum til trúar. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir að þeir bæru vitni um trú sína. Latourette lýsir afleiðingunum: „Með því að neita að koma til móts við heiðni samtíðarinnar og hinar mörgu venjur og siðferðishætti þjóðfélagsins á þeim tíma byggðu [frumkristnir menn] upp samheldni og samtök sem kom þeim upp á kant við þjóðfélagið. Þau umskipti, sem voru nauðsynleg til að ganga í samtökin, gáfu áhangendum þeirra sannfæringu sem var þeim uppspretta styrks gegn ofsóknum og kostgæfni til að snúa öðrum til trúar.“

Hin sögulega frásaga er því skýr. Í höfuðatriðum lögðu frumkristnir menn sig fram um að vera góðir borgarar og lifa í friði við alla menn, en þeir neituðu að vera ‚hluti af heiminum.‘ (Jóhannes 15:19) Þeir virtu yfirvöldin. En þegar keisarinn bannaði þeim að prédika áttu þeir ekki annars úrkosti en að halda áfram að prédika. Þeir reyndu að lifa í friði við alla menn en neituðu að slaka til þar sem siðferðisreglur og heiðin skurðgoðadýrkun átti í hlut. Sökum alls þessa voru þeir fyrirlitnir, hataðir, ofsóttir og þeim var illmælt alveg eins og Kristur sagði fyrir að verða myndi. — Jóhannes 16:33.

Héldu þeir áfram að vera aðgreindir frá heiminum eða breyttu þeir sem sögðust iðka kristni afstöðu sinni í þessu efni þegar tímar liðu?

[Innskot á blaðsíðu 4]

„Afstaða kristins manns setti hann daglega í vanda; hann lifði við útjaðar samfélagsins.“

[Innskot á blaðsíðu 6]

‚Kristnin var gerð háðuleg fyrir það hver ung hún var í samanburði við háan aldur keppinauta sinna.‘

[Mynd á blaðsíðu 3]

Kristnir menn voru sakaðir um guðleysi af því að þeir neituðu að tilbiðja rómverska keisarann og heiðna guðdóma.

[Rétthafi]

Museo della Civiltà Romana, Róm

[Mynd á blaðsíðu 7]

Kristnir menn á fyrstu öld voru þekktir sem kostgæfir prédikarar boðskaparins um Guðsríki.