Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig „kristnir menn“ urðu hluti af þessum heimi

Hvernig „kristnir menn“ urðu hluti af þessum heimi

Hvernig „kristnir menn“ urðu hluti af þessum heimi

RÓMAVELDI, þar sem frumkristnin átti upptök sín, hrundi um síðir. Margir sagnfræðingar fullyrða að það hrun hafi farið saman við endanlegan sigur kristninnar yfir heiðninni. Anglíkanski biskupinn E. W. Barnes lét í ljós aðra skoðun er hann skrifaði: „Þegar hin klassíska siðmenning hrundi hætti kristnin að vera hin göfuga kenning Jesú Krists: hún varð að trú er reyndist nytsöm sem félagslegt bindiefni heims í upplausn.“ — The Rise of Christianity.

Sagan greinir að fyrir það hrun hafi þeir sem játuðu sig fylgjendur Jesú á annarri, þriðju og fjórðu öld haldið sér á marga vegu aðgreindum frá hinum rómverska heimi. Hún sýnir hins vegar einnig hvernig fráhvarf frá trúnni í kenningu, hegðun og skipulagsmálum þróaðist, alveg eins og Jesús og postular hans höfðu sagt fyrir. (Matteus 13:36-43; Postulasagan 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3-12; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18; 2. Pétursbréf 2:1-3, 10-22) Loks var farið að slaka til gagnvart hinum grísk-rómverska heimi og sumir, sem sögðust vera kristnir, tóku upp heiðindóm heimsins (svo sem hátíðir hans og dýrkun móðurgyðju og þríeins guðs), heimspeki hans (svo sem trú á ódauðlega sál) og stjórnarfyrirkomulag hans (sem birtist í tilkomu klerkastéttar). Það var þessi spillta útgáfa kristninnar sem laðaði til sín heiðinn almúgann og varð afl sem rómverskir keisarar reyndu í fyrstu að berja niður en sættu sig síðar við og reyndu að notfæra sér til að ná eigin markmiðum.

Sigruð af heiminum

Kirkjusagnfræðingurinn August Neander bendir á hvaða áhætta fólst í þessu nýja sambandi „kristninnar“ og heimsins. Ef kristnir menn fórnuðu aðskilnaði sínum frá heiminum „yrðu afleiðingarnar þær að kirkjan blandaðist heiminum . . . og með því myndi kirkjan fyrirgera hreinleika sínum og, þrátt fyrir sýndarsigur sinn, væri hún sjálf sigruð.“ — Allgemeine Geschichte der Christlichen Religion und Kirche (Almenn saga kristinnar trúar og kirkju), 3. bindi, bls. 202.

Og þannig fór það. Snemma á fjórðu öld reyndi Konstantínus Rómarkeisari að nota hina „kristnu“ trú síns tíma til að binda saman heimsveldi sitt sem var að gliðna í sundur. Í þeim tilgangi veitti hann þeim sem játuðu sig kristna trúfrelsi og flutti sum af sérréttindum hinnar heiðnu prestastéttar yfir á klerkastétt þeirra. The New Encyclopædia Britannica segir: „Konstantínus færði kirkjuna úr einangrun sinni frá heiminum og fékk hana til að taka á sig þjóðfélagslega ábyrgð og átti þátt í að vinna heiðið þjóðfélag til fylgis við kirkjuna.“

Ríkistrú

Eftir daga Konstantínusar gerði Júlíanus keisari (361-363) tilraun til að veita kristninni viðnám og koma aftur á heiðni. Það mistókst og um 20 árum síðar bannaði Þeódósíus I keisari heiðni og gerði þrenningarsinnaða „kristni“ að ríkistrú Rómaveldis. Franski sagnfræðingurinn Henri Marrou hitti naglann á höfuðið þegar hann skrifaði: „Undir lok stjórnartíðar Þeódósíusar varð kristni, eða réttara sagt kaþólskur rétttrúnaður, opinber trú alls hins rómverska heims.“ Kaþólskur rétttrúnaður var kominn í stað sannrar kristni og orðinn ‚hluti af heiminum.‘ Þessi ríkistrú var gerólík trú fyrstu fylgjenda Jesú sem hann sagði við: „Þér eruð ekki af heiminum.“ — Jóhannes 15:19.

Franski sagnfræðingurinn og heimspekingurinn Louis Rougier skrifaði: „Þegar kristnin breiddist út tók hún svo undarlegum stökkbreytingum að hún varð nánast óþekkjanleg. . . . Frumkirkja hinna fátæku, sem lifði á ölmusu, varð sigrandi kirkja sem sættist við ráðandi öfl þegar hún var ófær um að drottna yfir þeim.“

Snemma á fimmtu öld skrifaði „heilagur“ Ágústínus, sem var rómversk-kaþólskur, sitt mikla verk De civitate Dei (Um borgríki Guðs) Þar lýsir hann tveim borgum, „borg Guðs og borg heimsins.“ Lagði þetta verk áherslu á aðskilnaðinn milli kaþólskra manna og heimsins? Í rauninni ekki. Prófessor Latourette segir: „Ágústínus viðurkenndi hreinskilnislega [að] borgirnar tvær, sú jarðneska og sú himneska, séu samtvinnaðar.“ Ágústínus kenndi að „ríki Guðs væri nú þegar byrjað að ríkja í þessum heimi með stofnsetningu [kaþólsku] kirkjunnar.“ (The New Encyclopædia Britannica, Macropædia, 4. bindi, bls. 506) Óháð því hvað Ágústínusi kann að hafa gengið til í upphafi höfðu kenningar hans þannig þau áhrif að kaþólska kirkjan flæktist enn meir í stjórnmál þessa heims.

Sundurskipt ríki

Árið 395, þegar Þeódósíus I dó, klofnaði Rómaveldi opinberlega í tvennt. Austrómverska ríkið, einnig nefnt Býsansríkið, hafði Konstantínópel (sem hét áður Býsans en heitir nú Istanbúl) sem höfuðborg, og vestrómverska ríkið hafði Ravenna á Ítalíu (eftir 402) sem höfuðborg. Af því leiddi að kristni heimurinn klofnaði bæði stjórnmálalega og trúarlega. Hvað samskipti kirkju og ríkis áhrærði fylgdi kirkjan í austrómverska ríkinu kenningu Eusebíosar í Sesareu (sem var samtíðarmaður Konstantínusar mikla). Eusebíos virti að vettugi hina kristnu meginreglu um aðgreiningu frá heiminum og ályktaði að ef keisarinn og keisaradæmið yrðu kristin myndi kirkja og ríki verða eitt kristið samfélag þar sem keisarinn gegndi því hlutverki að vera fulltrúi Guðs á jörð. Að langmestu leyti hefur þessu sambandi ríkis og kirkju verið fylgt í aldanna rás í rétttrúnaðarkirkjunum. Í bók sinni The Orthodox Church lýsir Timothy Ware, sem er rétttrúnaðarbiskup, afleiðingunum: „Þjóðernishyggjan hefur verið bölvaldur rétttrúnaðarstefnunnar síðastliðnar tíu aldir.“

Í vesturríkinu steyptu germanskir innrásarflokkar síðasta rómverska keisaranum af stóli árið 476. Þar með leið vestrómverska keisaradæmið undir lok. The New Encyclopædia Britannica segir um hið pólitíska tómarúm sem fylgdi í kjölfarið: „Nýtt veldi varð til: rómverska kirkjan, kirkja biskupsins í Róm. Þessi kirkja leit á sjálfa sig sem arftaka hins útdauða Rómaveldis.“ Alfræðibókin heldur áfram: „Páfarnir í Róm . . . færðu tilkall kirkjunnar til veraldlegs stjórnarvalds út fyrir landamæri kirkjuríkisins og þróuðu hina svokölluðu kenningu um sverðin tvö sem er á þá lund að Kristur hafi ekki aðeins gefið páfanum andlegt vald yfir kirkjunni heldur einnig veraldlegt vald yfir hinum jarðnesku ríkjum.“

Þjóðkirkjur mótmælenda

Gegnum miðaldirnar héldu bæði rétttrúnaðarkirkjan og rómversk-kaþólska kirkjan áfram að blanda sér mjög í stjórnmál, veraldlegt leynimakk og stríð. Markaði siðbót mótmælenda á 16. öld afturhvarf til sannrar kristni sem hélt sér aðgreindri frá heiminum?

Nei. Við lesum í The New Encyclopædia Britannica: „Siðbótarmenn mótmælenda innan lútersks, kalvínsks og anglíkansks siðar . . . héldu sér óhagganlega við skoðanir Ágústínusar og fundu fyrir sérstökum skyldleika við guðfræði hans. . . . Hver hinna þriggja siða mótmælendatrúarinnar í Evrópu á 16. öld . . . naut stuðnings veraldlegra yfirvalda í Saxlandi [Mið-Þýskalandi], Sviss og Englandi og varðveitti sömu stöðu gagnvart ríkinu og miðaldakirkjan hafði gert.“

Í stað afturhvarfs til ósvikinnar kristni ól siðbót mótmælenda af sér sæg þjóðkirkna eða heimastjórnarkirkna sem hafa með fagurgala áunnið sér velvild þjóðríkjanna og stutt þau dyggilega í stríðum þeirra. Í reynd hafa bæði kaþólska kirkjan og mótmælendakirkjurnar kynt undir trúarstríðum. Í bók sinni An Historian’s Approach to Religion segir Arnold Toynbee um slík stríð: „Þau sýndu hvernig kaþólskir og mótmælendur í Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi og á Írlandi, og sértrúarflokkar mótmælenda, sem öttu kappi hver við annan á Englandi og í Skotlandi, reyndu grimmilega að bæla hver annan niður með vopnavaldi.“ Þau átök, sem sundra Írlandi og fyrrverandi Júgóslavíu núna, sýna að kirkjur rómversk-kaþólskra, rétttrúnaðarmanna og mótmælenda eru enn á kafi í málefnum þessa heims.

Þýðir allt þetta að sönn kristni, aðgreind frá heiminum, sé ekki lengur til á jörðinni? Greinin á eftir svarar þeirri spurningu.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 10, 11]

HVERNIG „KRISTNI“ VARÐ RÍKISTRÚ

KRISTNIN átti aldrei að vera hluti af þessum heimi. (Matteus 24:3, 9; Jóhannes 17:16) Sagnfræðibækur segja okkur samt sem áður að á fjórðu öld hafi „kristni“ orðið opinber ríkistrú Rómaveldis. Hvernig stóð á því?

Allt frá Neró (54-68) og langt fram á þriðju öld ofsóttu allir keisarar Rómar kristna menn, annaðhvort beint eða leyfðu ofsóknir á hendur þeim. Gallíenus (253-268) var fyrstur rómverskra keisara til að gefa út yfirlýsingu um að þeir skyldu umbornir. Jafnvel þá var kristnin bannfærð trú hvarvetna í ríkinu. Ofsóknirnar héldu áfram eftir tíma Gallíenusar og færðust jafnvel í aukana í stjórnartíð Díócletíanusar (284-305) og næstu arftaka hans.

Straumhvörfin áttu sér stað snemma á fjórðu öld þegar Konstantínus I keisari snerist í orði kveðnu til trúar. Um „trúhvarf“ hans segir franska ritið Théo — Nouvelle encyclopédie catholique (Théo — nýja kaþólska alfræðibókin): „Konstantínus sagðist vera kristinn keisari. Sannleikurinn er sá að hann skírðist ekki fyrr en í banalegunni.“ Eigi að síður gáfu Konstantínus og meðstjórnandi hans, Liciníus, út opinbera tilskipun árið 313 er veitti jafnt kristnum mönnum sem heiðnum trúfrelsi. New Catholic Encyclopedia segir: „Það að Konstantínus skyldi veita kristnum mönnum trúfrelsi, sem fól í sér að kristnin var viðurkennd opinberlega sem religio licita [lögleg trú] við hlið heiðindómsins, var byltingarkennd aðgerð.“

En The New Encyclopædia Britannica lýsir yfir: „Hann [Konstantínus] gerði kristnina ekki að trú heimsveldisins.“ Franski sagnfræðingurinn Jean-Rémy Palanque, meðlimur Frönsku stofnunarinnar, skrifar: „Rómverska ríkið . . . var þó eftir sem áður opinberlega heiðið. Og Konstantínus batt ekki enda á það þegar hann aðhylltist trú Krists.“ Í verkinu The Legacy of Rome segir prófessor Ernest Barker: „[Sigur Konstantínusar] hafði ekki í för með sér að kristni væri tafarlaust gerð að ríkistrú. Konstantínus lét sér nægja að viðurkenna kristnina sem ein af opinberum trúarbrögðum heimsveldisins. Næstu sjötíu árin voru gömlu, heiðnu helgisiðirnir stundaðir opinberlega í Róm.“

Á þessu stigi var „kristni“ því lögleg trú í Rómaveldi. Hvenær varð hún þá í fullum skilningi orðsins opinber ríkistrú? Við lesum í New Catholic Encyclopedia: „Arftakar [Konstantínusar] héldu áfram að framfylgja stefnu hans að Júlíanusi (361-363) undanskildum en kristniofsóknir hans tóku skyndilega enda með dauða hans. Að lokum, á síðasta fjórðungi fjórðu aldar, gerði Þeódósíus mikli [379-395] kristni að opinberri trú heimsveldisins og bældi niður heiðna tilbeiðslu almennings.“

Biblíu- og sagnfræðingurinn F. J. Foakes Jackson staðfestir þetta og afhjúpar hver þessi nýja ríkistrú var. Hann skrifar: „Í stjórnartíð Konstantínusar gengu kristnin og Rómaveldi til bandalags. Í stjórnartíð Þeódósíusar sameinuðust þau. . . . Upp frá því var titillinn kaþólskur ætlaður þeim einum sem dýrkuðu föðurinn, soninn og heilagan anda með sömu lotningu. Stefna þessa keisara í trúmálum beindist öll að þessu marki og leiddi til þess að kaþólsk trú varð eina löglega trú Rómverja.“

Jean-Rémy Palanque skrifar: „Þeódósíus, sem barðist gegn heiðni, var einnig hlynntur rétttrúnaðarkirkjunni [kaþólsku kirkjunni]; opinber tilskipun hans árið 380 fyrirskipaði öllum þegnum hans að játa trú Damasusar páfa og biskupsins í Alexandríu [sem var þrenningarsinni] og svipti andófsmenn trúfrelsi. Kirkjuþingið mikla í Konstantínópel (381) fordæmdi aftur alla trúvillu og keisarinn sá til þess að enginn biskup myndi styðja hana. Níkeukristni [þrenningarkristni] var orðin ríkistrú í fullum skilningi . . . Kirkjan var nátengd ríkinu og naut ein stuðnings þess.“

Þannig var það ekki ómenguð kristni postulatímans sem varð ríkistrú í Rómaveldi. Það var kaþólsk þrenningartrú fjórðu aldar sem Þeódósíus keisari I kom á með valdi og rómversk-kaþólska kirkjan stundaði en hún var sannarlega þá, eins og núna, hluti af þessum heimi.

[Rétthafi]

Þeódósíus keisari I: Real Academia de la Historia, Madrid (Foto Oronoz)

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 8]

Scala/Art Resource, N.Y.