Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnir menn og nútímasamfélag

Kristnir menn og nútímasamfélag

Kristnir menn og nútímasamfélag

„Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ — MATTEUS 24:9.

1. Hvað átti að vera sérkenni kristinna manna?

 EITT sérkenni frumkristinna manna var það að þeir voru aðgreindir frá heiminum. Í bæn til síns himneska föður, Jehóva, sagði Kristur um lærisveina sína: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14) Þegar Jesús var leiddur fyrir Pontíus Pílatus sagði hann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóhannes 18:36) Kristnu Grísku ritningarnar og sagnfræðingar bera vitni um að frumkristnin hafi verið aðgreind frá heiminum.

2. (a) Átti að verða einhver breyting á sambandi fylgjenda Jesú og heimsins með tímanum? (b) Átti ríki Jesú að koma á þann hátt að þjóðunum yrði snúið til trúar?

2 Upplýsti Jesús síðar að sambandið milli fylgjenda hans og heimsins myndi breytast og að ríki hans myndi koma á þann hátt að heiminum yrði snúið til kristni? Nei. Ekkert sem fylgjendum Jesú var innblásið að skrifa eftir dauða hans gaf slíkt jafnvel óljóst í skyn. (Jakobsbréfið 4:4 [skrifað skömmu fyrir 62 e.o.t.]; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 5:19 [skrifað um 98 e.o.t.]) Þvert á móti tengir Biblían „nærveru“ Jesú og síðan ‚komu‘ hans í mætti Guðsríkis við ‚endalok heimskerfisins‘ sem ná munu hámarki með ‚endi‘ hans eða eyðingu. (Matteus 24:3, 14, 29, 30, NW; Daníel 2:44; 7:13, 14) Í tákninu, sem Jesús gaf um nærveru sína eða parósíu, sagði hann um sanna fylgjendur sína: „Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ — Matteus 24:9.

Sannkristnir menn nú á tímum

3, 4. (a) Hvernig lýsir kaþólsk alfræðibók frumkristnum mönnum? (b) Með hvaða svipuðum orðum er vottum Jehóva og frumkristnum mönnum lýst?

3 Hvaða trúarhópur nú á tímum hefur getið sér orð fyrir að vera trúr kristnum meginreglum og að halda sér aðgreindum frá heiminum, þannig að meðlimir hans eru hataðir og ofsóttir? Já, hvaða heimssamtök kristinna manna samsvara á allan hátt hinum sögulegu lýsingum á frumkristnum mönnum? New Catholic Encyclopedia segir um þá: „Þótt hið frumkristna samfélag væri í fyrstu álitið enn einn sértrúarflokkur innan samfélags Gyðinga skar það sig úr sökum guðfræðikenningar sinnar en þó sérstaklega vegna kostgæfni meðlima sinna er þjónuðu sem vottar Krists í ‚allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar‘ (Postulasagan 1.8).“ — 3. bindi, bls. 694.

4 Taktu eftir orðunum „álitið enn einn sértrúarflokkur,“ „skar það sig úr sökum . . . kenningar sinnar“ og „kostgæfni . . . sem vottar.“ Og taktu nú eftir hvernig þessi sama alfræðibók lýsir vottum Jehóva: „Sértrúarflokkur . . . Vottarnir eru algerlega sannfærðir um að heimsendir komi innan fáeinna ára. Þessi lifandi trú virðist vera sterkasti drifkrafturinn að baki óþreytandi kostgæfni þeirra. . . . Grundvallarskylda hvers meðlims sértrúarflokksins er að bera vitni um Jehóva með því að kunngera komandi ríki hans. . . . Þeir líta á Biblíuna sem einu uppsprettu trúar sinnar og hegðunarreglna . . . Til að vera sannur vottur verður maður að prédika á áhrifaríkan hátt með einu eða öðru móti.“ — 7. bindi, bls. 864-5.

5. (a) Að hvaða leyti eru kenningar votta Jehóva sérstakar? (b) Nefndu dæmi sem sýna að trú votta Jehóva er í samræmi við Ritninguna.

5 Að hvaða leyti skera kenningar votta Jehóva sig úr? New Catholic Encyclopedia nefnir fáein dæmi: „Þeir [vottar Jehóva] fordæma þrenningarkenninguna sem heiðna skurðgoðadýrkun . . . Þeir líta á Jesú sem mesta vott Jehóva, ‚guð‘ (þannig þýða þeir Jóhannes 1.1), engum óæðri nema Jehóva. . . . Hann dó sem maður og var reistur upp sem ódauðlegur andasonur. Pína hans og dauði var gjaldið sem hann greiddi til að endurheimta handa mannkyninu réttinn til að lifa eilíflega á jörðinni. Hinn ‚mikli múgur‘ (Opb 7.9) sannra votta vonar á jarðneska paradís; aðeins 144.000 trúaðir (Opb 7.4; 14.1, 2) fá notið himneskrar dýrðar með Kristi. Hinum illu verður algerlega tortímt. . . . Skírn — sem vottarnir tíðka með niðurdýfingu . . . [er] hið ytra tákn þess að þeir hafi vígt sig þjónustu við Jehóva Guð. . . . Vottar Jehóva hafa vakið umtal með því að neita að þiggja blóðgjafir . . . Siðferði þeirra í hjónabands- og kynferðismálum er fremur ósveigjanlegt.“ Vottar Jehóva skera sig kannski úr á þessum sviðum en afstaða þeirra í öllum þessum atriðum er traustlega byggð á Biblíunni. — Sálmur 37:29; Matteus 3:16; 6:10; Postulasagan 15:28, 29; Rómverjabréfið 6:23; 1. Korintubréf 6:9, 10; 8:6; Opinberunarbókin 1:5.

6. Hvaða afstöðu hafa vottar Jehóva haldið sér við? Hvers vegna?

6 Þetta rómversk-kaþólska uppsláttarrit bætir því við að árið 1965 (auðsjáanlega árið sem greinin var skrifuð) hafi „vottarnir enn ekki álitið sig tilheyra þjóðfélaginu sem þeir bjuggu í.“ Höfundurinn virðist hafa haldið að þegar tímar liðu og vottum Jehóva fjölgaði og þeir „tækju meir og meir á sig einkenni kirkju fremur en sértrúarflokks“ myndu þeir verða hluti af þessum heimi. En sú hefur ekki orðið raunin. Núna eru vottar Jehóva fjórfalt fleiri en þeir voru árið 1965 en þeir hafa hvergi hvikað í afstöðu sinni gagnvart þessum heimi. „Þeir eru ekki af heiminum“ eins og Jesús var „ekki af heiminum.“ — Jóhannes 17:16.

Aðgreindir en ekki fjandsamlegir

7, 8. Hvað má segja um votta Jehóva nú á tímum líkt og um frumkristna menn?

7 Í bók sinni Early Christianity and Society vísar höfundur, Robert M. Grant, til varnarrits Jústínusar píslarvotts á annarri öld þar sem hann talar máli kristinna manna: „Ef kristnir menn væru byltingarmenn myndu þeir halda sér í felum til að ná markmiði sínu. . . . Þeir eru bestu bandamenn keisarans til viðhalds friði og góðri reglu.“ Eins eru vottar Jehóva nú á tímum þekktir um heim allan sem friðelskandi og löghlýðnir borgarar. Stjórnvöld, hverrar tegundar sem þau eru, vita að þau hafa ekkert að óttast frá vottum Jehóva.

8 Norður-amerískur leiðarahöfundur skrifaði: „Það þarf hatrammlega ofstækisfullt og sjúklega tortryggið ímyndunarafl til að trúa því að nokkurri pólitískri stjórn stafi minnsta ógn af vottum Jehóva; þeir eru eins friðelskandi og lausir við niðurrifsstarfsemi sem nokkurt trúfélag getur verið.“ Í bók sinni L’objection de conscience (Samviskuneitun) segir Jean-Pierre Cattelain: „Vottarnir eru fullkomlega undirgefnir yfirvöldum og almennt löghlýðnir; þeir greiða skatta sína og leitast ekki við að gagnrýna, breyta eða steypa ríkisstjórnum af stóli, því að þeir skipta sér ekki af málefnum þessa heims.“ Cattelain bætir síðan við að vottar Jehóva neiti því aðeins að hlýða að ríkið geri tilkall til lífs þeirra sem þeir hafi að fullu helgað Guði. Þar eru þeir nauðalíkir frumkristnum mönnum. — Markús 12:17; Postulasagan 5:29.

Misskildir af valdastéttunum

9. Hvaða áberandi munur er á frumkristnum mönnum og kaþólskum mönnum nútímans í sambandi við aðgreiningu frá heiminum?

9 Flestir rómversku keisaranna misskildu frumkristna menn og ofsóttu þá. Díógnetusarbréfið, sem sumir telja vera frá annarri öld okkar tímatals, segir um ástæðuna: „Kristnir menn búa í heiminum en þeir eru ekki hluti af heiminum.“ Á hinn bóginn sagði annað Vatíkanþingið í Kenningarlegri stjórnarskrá kirkjunnar að kaþólskir menn ættu að „leita ríkis Guðs með því að taka þátt í veraldlegum málum“ og „vinna að helgun heimsins innan frá.“

10. (a) Hvernig litu valdastéttirnar á frumkristna menn? (b) Hvernig er oft litið á votta Jehóva og hver eru viðbrögð þeirra?

10 Sagnfræðingurinn E. G. Hardy segir að rómversku keisararnir hafi litið á frumkristna menn sem „hálf-fyrirlitlega ákafamenn.“ Franski sagnfræðingurinn Étienne Trocmé talar um „fyrirlitningu hinna siðmenntuðu grísku og rómversku embættismanna á því sem þeir álitu afar undarlegan, austurlenskan sértrúarflokk [kristna menn].“ Bréfaskipti milli Pliníusar yngri, rómversks landstjóra Biþýníu, og Trajanusar keisara sýna að valdastéttirnar vissu yfirleitt sáralítið um raunverulegt eðli kristninnar. Eins er það núna að valdastéttirnar í heiminum misskilja oft og jafnvel fyrirlíta votta Jehóva. En þetta kemur vottum Jehóva hvorki á óvart né skelfir þá. — Postulasagan 4:13; 1. Pétursbréf 4:12, 13.

„Alls staðar mótmælt“

11. (a) Hvað var sagt um frumkristna menn og hvað hefur verið sagt um votta Jehóva? (b) Hvers vegna taka vottar Jehóva ekki þátt í stjórnmálum?

11 Um frumkristna menn var sagt: „Oss [er] kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Á annarri öld okkar tímatals fullyrti hinn heiðni Celsus að kristnin höfðaði aðeins til dreggja mannfélagsins. Eins hefur verið sagt um votta Jehóva að „þeir séu að mestu leyti sóttir til þurfalinga í samfélagi okkar.“ Kirkjusagnfræðingurinn August Neander skrifaði að „kristnum mönnum hafi verið lýst eins og mönnum sem væru steinsofandi og gagnslausir í öllum málefnum lífsins; . . . og það var spurt hvað yrði um gang lífsins ef allir væru eins og þeir.“ Þar eð vottar Jehóva taka ekki þátt í stjórnmálum eru þeir líka oft sakaðir um að vera til óþurftar í mannlegu samfélagi. En hvernig gætu þeir tekið virkan þátt í stjórnmálum og samtímis verið talsmenn Guðsríkis sem einu vonar mannkynsins? Vottar Jehóva taka til sín orð Páls postula: „Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú. Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

12. Á hvaða mikilvægu sviði líkjast vottar Jehóva frumkristnum mönnum í því að halda sér aðgreindum?

12 Prófessor K. S. Latourette segir í bók sinni A History of Christianity: „Þátttaka í hernaði var eitt þeirra mála þar sem frumkristnir menn voru á öndverðum meiði við hinn grísk-rómverska heim. Ekkert kristið rit frá fyrstu þrem öldunum, sem hefur varðveist fram til okkar tíma, lætur þátttöku kristins manns í stríði óátalda.“ Ritverk Edwards Gibbons, The History of the Decline and Fall of the Roman Empire, segir: „Það var óhugsandi að kristinn maður gæti, án þess að afsala sér enn helgari skyldu, gegnt starfi hermanns, yfirvalds eða höfðingja.“ Vottar Jehóva taka á sama hátt eindregna hlutleysisafstöðu og fylgja meginreglum Biblíunnar sem er að finna í Jesaja 2:2-4 og Matteusi 26:52.

13. Hvað eru vottar Jehóva sakaðir um en hvað sýna staðreyndir?

13 Fjandmenn votta Jehóva saka þá um að sundra fjölskyldum. Þess eru að vísu dæmi að fjölskyldur klofni þegar einn eða fleiri meðlimir verða vottar Jehóva. Jesús sagði fyrir að það myndi gerast. (Lúkas 12:51-53) Talnaskýrslur sýna samt sem áður að það er undantekning að það slitni upp úr hjónaböndum af þeim orsökum. Í þriðja hverju hjónabandi meðal votta Jehóva í Frakklandi er til dæmis annað hjónanna ekki vottur. Þó eru hjónaskilnaðir ekkert tíðari í þessum blönduðu hjónaböndum en þjóðarmeðaltalið. Hvers vegna? Postularnir Páll og Pétur gáfu kristnum mönnum, sem eiga maka sinn ekki í trúnni, viturleg, innblásin ráð og vottar Jehóva leitast við að fylgja orðum þeirra. (1. Korintubréf 7:12-16; 1. Pétursbréf 3:1-4) Ef það slitnar upp úr blönduðu hjónabandi er það nánast alltaf að frumkvæði þess sem ekki er vottur. Á hinn bóginn hefur þúsundum hjónabanda verið bjargað vegna þess að hjónin urðu vottar Jehóva og tóku að fylgja meginreglum Biblíunnar í lífi sínu.

Kristnir menn, ekki þrenningarsinnar

14. Hvað voru frumkristnir menn sakaðir um og hvers vegna er það kaldhæðnislegt?

14 Það er kaldhæðnislegt að ein af ásökununum, sem frumkristnir menn urðu fyrir í Rómaveldi, var sú að þeir væru guðleysingar. Dr. August Neander skrifar: „Almenningur uppnefndi kristna menn yfirleitt guðleysingja eða guðsafneitara.“ Það er meira en lítið undarlegt að heiðnir menn, sem tilbáðu það sem er „ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar,“ skyldu kalla kristna menn, sem tilbáðu hinn lifandi skapara en ekki marga guði, guðleysingja. — Jesaja 37:19.

15, 16. (a) Hvað hafa sumir innan kristna heimsins sagt um votta Jehóva en hvaða spurningar vekur það? (b) Hvað sýnir að vottar Jehóva eru sannarlega kristnir?

15 Það er jafnkaldhæðnislegt að sumir innan kristna heimsins nú á dögum skuli afneita því að vottar Jehóva séu kristnir. Hvers vegna gera þeir það? Vegna þess að vottarnir hafna þrenningunni. Samkvæmt hlutdrægri skilgreiningu kristna heimsins eru „kristnir menn þeir sem viðurkenna Krist sem Guð.“ Nútímaorðabók skilgreinir aftur á móti kristinn mann sem „mann er trúir á Jesú Krist og fylgir kenningum hans“ og kristni sem „trúarbrögð byggð á kenningum Jesú Krists og þeirri trú að hann hafi verið sonur Guðs.“ Hvaða hópur samsvarar þessari skilgreiningu best?

16 Vottar Jehóva viðurkenna vitnisburð Jesú sjálfs um það hver hann sé. Hann sagði: „Ég er sonur Guðs,“ ekki „ég er Guð, sonurinn.“ (Jóhannes 10:36; samanber Jóhannes 20:31.) Þeir viðurkenna innblásin orð Páls postula um Krist: „Þótt hann væri í Guðs mynd taldi hann ekki að hann mætti hrifsa til sín jafnræði við Guð.“ * (Filippíbréfið 2:6, The New Jerusalem Bible) Bókin The Paganism in Our Christianity segir: „Jesús Kristur nefndi slíkt fyrirbæri [samjafna þrenningu] aldrei á nafn og orðið ‚þrenning‘ stendur hvergi í Nýjatestamentinu. Kirkjan tók ekki upp þessa hugmynd fyrr en 300 árum eftir dauða Drottins okkar og hugmyndin er alheiðin að uppruna.“ Vottar Jehóva viðurkenna kenningu Biblíunnar um Krist. Þeir eru kristnir menn, ekki þrenningarsinnar.

Ekkert samkirkjustarf

17. Hvers vegna starfa vottar Jehóva ekki með samkirkjuhreyfingunni?

17 Tvennt annað, sem menn finna vottum Jehóva til foráttu, er að þeir neita að taka þátt í samkirkjuhreyfingunni og stunda það sem kallað er „ágengt trúboð.“ Frumkristnir menn voru líka sakaðir um hvort tveggja. Kristni heimurinn, með kaþólskum kirkjum sínum, rétttrúnaðar- og mótmælendakirkjum, er óneitanlega hluti af þessum heimi. Líkt og Jesús eru vottar Jehóva „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14) Hvernig gætu þeir þá gegnum samkirkjuhreyfingar tekið höndum saman við trúfélög sem ýta undir ókristilegt hátterni og trúarskoðanir?

18. (a) Hvers vegna er ekki hægt að gagnrýna votta Jehóva fyrir að halda því fram að þeir einir iðki hina sönnu trú? (b) Hvað hafa rómversk-kaþólskir menn ekki þótt þeir álíti sig hafa hina sönnu trú?

18 Hver getur með réttu gagnrýnt votta Jehóva fyrir að trúa, eins og frumkristnir menn, að þeir einir iðki sanna trú? Jafnvel þótt kaþólska kirkjan þykist með yfirdrepsskap vinna með samkirkjuhreyfingunni lýsir hún yfir: „Við trúum að þessi eina sanna trú haldi áfram að vera til í hinni kaþólsku og postullegu kirkju sem Drottinn Jesús treysti fyrir því verki að útbreiða hana meðal allra manna er hann sagði við postulana: ‚Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.‘“ (Annað Vatíkanþingið, „Yfirlýsing um trúfrelsi“) Slík trú virðist þó ekki nægja til að innblása kaþólskum mönnum óþreytandi kostgæfni í því að fara út og gera menn að lærisveinum.

19. (a) Hvað eru vottar Jehóva staðráðnir í að gera og af hvaða hvötum? (b) Hvað verður skoðað í greininni á eftir?

19 Vottar Jehóva hafa til að bera slíka kostgæfni. Þeir eru staðráðnir í að halda áfram að bera vitni svo lengi sem Guð vill að þeir geri það. (Matteus 24:14) Vitnisburður þeirra er kostgæfur en ekki ágengur. Hann er sprottinn af náungakærleika, ekki mannhatri. Þeir vona að eins margir og mögulegt er bjargist. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Líkt og frumkristnir menn leitast þeir við að hafa „frið við alla menn.“ (Rómverjabréfið 12:18) Hvernig þeir gera það er umræðuefni næstu greinar.

[Neðanmáls]

^ Umræðu um þessa ritningargrein í tengslum við þrenningarkenninguna er að finna í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 15. júní 1971, bls. 355-6.

Til upprifjunar

◻ Hvað einkenndi frumkristna menn og hvernig líkjast vottar Jehóva þeim?

◻ Að hvaða leyti sýna vottar Jehóva að þeir eru góðir borgarar?

◻ Hvernig litu valdastéttirnar á frumkristna menn og eru viðhorfin önnur nú á dögum?

◻ Hvað kemur sú sannfæring vottanna, að þeir hafi sannleikann, þeim til að gera?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Pílatus sagði: „Sjáið manninn!“ — hann sem var ekki hluti af heiminum. — Jóhannes 19:5.

[Rétthafi]

“Ecce Homo” eftir A. Ciseri: Flórens, Galleria d’Arte Moderna / Alinari/Art Resource, N.Y.