Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu á Jehóva!

Treystu á Jehóva!

Treystu á Jehóva!

„Treystu [Jehóva] af öllu hjarta.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 3:5.

1. Hvaða áhrif höfðu Orðskviðirnir 3:5 á ungan mann og með hvaða afleiðingum til langs tíma litið?

 GAMALREYNDUR trúboði skrifar: „‚TREYSTU DROTTNI AF ÖLLU HJARTA, EN REIDDU ÞIG EKKI Á EIGIÐ HYGGJUVIT.‘ Þessi orð úr Biblíunni gripu athygli mína þar sem þau héngu innrömmuð á vegg á heimili sem ég var að heimsækja. Ég velti þeim fyrir mér það sem eftir var dagsins. Gat ég, spurði ég sjálfan mig, treyst Guði af öllu hjarta?“ Þessi maður var þá 21 árs. Níræður að aldri þjónar hann enn trúfastur sem öldungur í Perth í Ástralíu. Hann getur litið um öxl yfir ævi sína, sem er auðguð þeim ávexti sem kemur af skilyrðislausu trausti á Jehóva, þeirra á meðal 26 ára brautryðjandastarf á nýjum trúboðsökrum á Ceylon (nú Srí Lanka), Búrma (nú Mýanmar), Malaja, Taílandi, Indlandi og Pakistan. *

2. Hvaða fullvissu ættu Orðskviðirnir 3:5 að byggja upp með okkur?

2 „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta“ — þessi orð úr Orðskviðunum 3:5 ættu að örva okkur öll til að halda áfram að helga Jehóva líf okkar skilyrðislaust í trausti þess að hann geti styrkt trú okkar, jafnvel svo að hún geti yfirstigið fjallháar hindranir. (Matteus 17:20) Við skulum nú skoða Orðskviðina 3:5 í samhengi sínu.

Föðurleg tilsögn

3. (a) Hvaða uppörvun má finna í fyrstu níu köflum Orðskviðanna? (b) Hvers vegna ættum við að gefa nákvæman gaum að Orðskviðunum 3:1, 2?

3 Fyrstu níu kaflar Orðskviðanna í Biblíunni geisla af föðurlegri tilsögn, viturlegum heilræðum frá Jehóva handa öllum sem hlakka til þess að vera synir á himnum eða hlakka til „dýrðarfrelsis Guðs barna“ á jörð sem verður paradís. (Rómverjabréfið 8:18-21, 23) Þar eru viturleg heilræði sem foreldrar geta notað til ala upp syni sína og dætur. Þar bera af ráðleggingar 3. kafla Orðskviðanna sem hefjast með varnaðarorðunum: „Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín.“ Við skulum gefa sífellt nákvæmari gaum að áminningum Jehóva er síðustu dagar hins illa heims Satans nálgast endalok sín. Leiðin kann að hafa virst löng, en öllum sem halda út er heitið ‚löngum lífdögum og farsælum árum og velgengni‘ — eilífu lífi í nýjum heimi Jehóva. — Orðskviðirnir 3:1, 2.

4, 5. (a) Hvaða hamingjuríku sambandi er lýst í Jóhannesi 5:19, 20? (b) Hvernig eiga ráðleggingar 5. Mósebókar 11:18-21 við fram á okkar daga?

4 Hamingjuríkt samband föður og sonar getur verið afar dýrmætt. Skapari okkar, Jehóva Guð, gerði ráðstafanir til að það yrði þannig. Kristur Jesús sagði um sitt eigið, nána samband við Jehóva: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig. Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur.“ (Jóhannes 5:19, 20) Jehóva áformaði að sams konar náið samband yrði milli hans og allrar fjölskyldu hans á jörðinni, og einnig milli mennskra feðra og barna þeirra.

5 Í Ísrael til forna var hvatt til trúnaðartrausts innan fjölskyldunnar. Jehóva ráðlagði ísraelskum feðrum: „Þér [skuluð] leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar. Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur. Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín, til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem [Jehóva] sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu.“ (5. Mósebók 11:18-21) Innblásið orð okkar mikilfenglega fræðara, Jehóva Guðs, getur sannarlega orðið til þess að tengja hann náið foreldrum og börnum þeirra, svo og öllum öðrum sem þjóna honum í kristna söfnuðinum. — Jesaja 30:20, 21.

6. Hvernig getum við öðlast hylli Guðs og manna?

6 Viturlegum, föðurlegum ráðum til þjóna Guðs, ungra sem aldinna, er haldið áfram í 3. og 4. versi 3. kafla Orðskviðanna: „Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns, þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna.“ Jehóva Guð sýnir sjálfur kærleika og trúfesti svo að af ber. Eins og Sálmur 25:10 segir eru „allir vegir [Jehóva] . . . elska og trúfesti.“ Við ættum að líkja eftir Jehóva og hafa þessa eiginleika og verndarmátt þeirra í hávegum, meta þá eins og við myndum meta dýrmætt hálsmen og greypa þau óafmáanlega í hjörtu okkar. Við getum því beðið innilega: „[Jehóva], lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.“ — Sálmur 40:12.

Varanlegt traust

7. Á hvaða vegu hefur Jehóva sýnt að honum sé treystandi?

7 Traust er skilgreint sem „það að reiða sig með öryggi á persónuleika, hæfni, styrk eða einlægni einhvers.“ (Webster’s Ninth New Collegiate Dictionary) Persónuleiki Jehóva er tryggilega rótfestur í kærleika hans. Og við getum treyst fullkomlega á hæfni hans til að gera það sem hann hefur lofað, því að sjálft nafn hans, Jehóva, auðkennir hann sem hinn mikla Guð er hefur tilgang. (2. Mósebók 3:14; 6:2-8) Sem skaparinn er hann uppspretta styrks og orku. (Jesaja 40:26, 29) Hann er ímynd sannleikans því að það er „óhugsandi . . . að hann fari með lygi.“ (Hebreabréfið 6:18) Þess vegna erum við hvött til að setja skilyrðislaust traust á Jehóva, Guð okkar, hina miklu uppsprettu alls sannleika sem býr yfir almætti til að vernda þá sem treysta á hann og leiða allan sinn stórkostlega tilgang til lykta með dýrlegum árangri. — Sálmur 91:1, 2; Jesaja 55:8-11.

8, 9. Hvers vegna er tilfinningalegur skortur á trausti í heiminum og hvernig skera þjónar Jehóva sig úr?

8 Í hinum siðspillta heimi umhverfis okkur er tilfinnanlegur skortur á trausti. Í staðinn blasir ágirnd og spilling alls staðar við. Forsíða tímaritsins World Press Review í maí 1993 sló upp boðskapnum: „UPPGANGUR SPILLINGARINNAR — Illa fengið fé í nýju heimsskipaninni. Spillingarstarfsemin teygir sig frá Brasilíu til Þýskalands, frá Bandaríkjunum til Argentínu, frá Spáni til Perú, frá Ítalíu til Mexíkó, frá Páfagarði til Rússlands.“ Hin svokallaða nýja heimsskipan manna er grundvölluð á hatri, ágirnd og vantrausti og uppsker ekkert annað en stigvaxandi eymd fyrir mannkynið.

9 Ólíkt hinum pólitísku þjóðum er vottum Jehóva það gleðiefni að vera „sú þjóð er á [Jehóva] að Guði.“ Þeir einir geta með sanni sagt: „Guði treystum vér.“ Hver og einn þeirra getur hrópað glaðlega: „Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, . . . Guði treysti ég, ég óttast eigi.“ — Sálmur 33:12; 56:5, 12.

10. Hvað hefur styrkt marga unga kristna menn til að varðveita ráðvendni?

10 Í Asíulandi, þar sem þúsundir ungra votta hafa sætt alvarlegum barsmíðum og fangavist, hefur traust til Jehóva gert yfirgnæfandi meirihluta kleift að halda út. Ungum votti í fangelsi, sem hafði mátt þola hræðilegar pyndingar, fannst nótt eina að hann þyldi ekki meira. En annar unglingur laumaðist til hans í rökkrinu. Hann hvíslaði: „Gefstu ekki upp; ég gaf eftir og ég hef ekki haft nokkurn hugarfrið síðan.“ Fyrri unglingurinn endurnýjaði þann ásetning sinn að vera staðfastur. Við getum treyst Jehóva algerlega til að hjálpa okkur að standast hverja einustu tilraun Satans til að grafa undan ráðvendni okkar. — Jeremía 7:3-7; 17:1-8; 38:6-13, 15-17.

11. Hvaða örvun fáum við til að treysta á Jehóva?

11 Æðsta boðorðið hljóðar að hluta til svo: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu.“ (Markús 12:30) Þegar við ígrundum orð Guðs sökkva þau stórkostlegu sannindi, sem við erum að læra, djúpt inn í hjörtu okkar þannig að við finnum okkur knúin til að nota alla krafta okkar í þjónustu okkar undursamlega Guðs, hins alvalda Drottins Jehóva. Það er með hjörtum sem eru barmafull af þakklæti til hans — fyrir allt sem hann hefur kennt okkur, gert fyrir okkur og á enn eftir að gera fyrir okkur — að við erum örvuð til að treysta í einu og öllu á hjálpræði hans. — Jesaja 12:2.

12. Hvernig hafa margir kristnir menn fengið hjálp gegnum árin til að rækta með sér traust á Jehóva?

12 Þetta traust er hægt að rækta með sér gegnum árin. Auðmjúkur vottur Jehóva, sem hóf störf í aðalstöðvum Varðturnsfélagsins í Brooklyn í apríl 1927 og þjónaði þar trúfastur í meira en 50 ár, skrifaði: „Í lok þess mánaðar fékk ég 5 dala fjárstyrk í umslagi ásamt fallegu korti með biblíutextanum í Orðskviðunum 3:5, 6 . . . Það var full ástæða til að treysta Jehóva því að í aðalstöðvunum gerði ég mér fljótt grein fyrir að Jehóva átti ‚trúan og hygginn þjón‘ sem gætti trúfastur allra hagsmuna Guðsríkis hér á jörð. — Matteus 24:45-47.“ * Hjartans ósk þessa kristna manns var ekki að eignast peninga heldur „fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki.“ Eins er það nú á dögum að þær þúsundir, sem þjóna á Betelheimilum Varðturnsfélagsins víða um heim, gera það undir eins konar lagalegu heiti um að vinna ekki fyrir kaupi. Þær treysta að Jehóva sjái fyrir daglegum þörfum þeirra. — Lúkas 12:29-31, 33, 34.

Reiddu þig á Jehóva

13, 14. (a) Hvar eingöngu er þroskaðar ráðleggingar að fá? (b) Hvað verður að forðast til að lifa af ofsóknir?

13 Himneskur faðir okkar áminnir okkur: „Reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ (Orðskviðirnir 3:5) Veraldlegir ráðgjafar og sálfræðingar geta aldrei vænst þess að nálgast þá visku og þann skilning sem Jehóva sýnir. „Speki hans er ómælanleg.“ (Sálmur 147:5) Í stað þess að reiða sig á visku frammámanna heimsins eða okkar eigin, fávísu tilfinningar skulum við horfa til Jehóva, orðs hans og öldunganna í kristna söfnuðinum til að fá þroskaðar ráðleggingar. — Sálmur 55:23; 1. Korintubréf 2:5.

14 Mannleg viska eða stolt vegna stöðu gagnast okkur ekkert á þrengingardeginum sem nálgast ört. (Jesaja 29:14; 1. Korintubréf 2:14) Hæfur en stoltur hirðir þjóna Guðs í Japan á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar kaus að reiða sig á sitt eigið hyggjuvit. Undir þrýstingi gerði hann fráhvarf frá trúnni og stærstur hluti hjarðarinnar gafst líka upp fyrir ofsóknunum. Trygglynd japönsk systir, sem stóðst með hugrekki hræðilega meðferð í grútskítugum fangaklefum, sagði: „Þau okkar, sem voru trúföst áfram, höfðu enga sérstaka hæfileika og voru ekki áberandi. Svo sannarlega verðum við öll að treysta Jehóva alltaf af öllu hjarta.“ *

15. Hvaða guðrækilegur eiginleiki er nauðsynlegur til að þóknast Jehóva?

15 Það krefst auðmýktar að treysta á Jehóva en ekki okkar eigið hyggjuvit. Þetta er sannarlega mikilvægur eiginleiki fyrir alla sem vilja þóknast Jehóva! Jafnvel þótt Guð okkar sé drottinvaldur alls alheimsins sýnir hann auðmýkt í samskiptum við skynsemigædda sköpun sína. Við getum verið þakklát fyrir það. Hann „horfir djúpt á himni og á jörðu. Hann reisir lítilmagnann úr duftinu.“ (Sálmur 113:6, 7) Vegna mikillar miskunnar sinnar fyrirgefur hann okkur veikleika okkar á grundvelli hinnar miklu gjafar sinnar til mannkynsins, hinnar dýrmætu lausnarfórnar síns ástkæra sonar, Krists Jesú. Við ættum sannarlega að vera þakklát fyrir þessa óverðskulduðu góðvild hans!

16. Hvernig geta bræður sóst eftir sérréttindum í söfnuðinum?

16 Jesús minnir okkur sjálfur á þetta: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ (Matteus 23:12) Í auðmýkt ættu skírðir bræður að sækjast eftir ábyrgð í kristna söfnuðinum. En umsjónarmenn ættu ekki að líta á útnefningu sína sem stöðutákn heldur sem tækifæri til að vinna visst verk í auðmýkt, þakklæti og með ákefð eins og Jesús sem sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ — Jóhannes 5:17; 1. Pétursbréf 5:2, 3.

17. Hvað ættum við öll að gera okkur ljóst og hvaða framtakssemi leiðir það til?

17 Megum við alltaf gera okkur það ljóst í fullri auðmýkt og í bænarhug að við erum ekkert annað en ryk í augum Jehóva. Við getum þá glaðst yfir því að „miskunn [Jehóva] við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna.“ (Sálmur 103:14, 17) Við ættum því öll að vera kappsamir nemendur orðs Guðs. Sá tími, sem við notum til einka- og fjölskyldunáms og á safnaðarsamkomum, ætti að vera einhverjar dýrmætustu stundir vikunnar. Þannig byggjum við upp ‚þekkingu á Hinum heilaga.‘ Það eru „hyggindi.“ — Orðskviðirnir 9:10.

„Á öllum þínum vegum . . . “

18, 19. Hvernig getum við heimfært Orðskviðina 3:6 á líf okkar og með hvaða árangri?

18 Orðskviðirnir 3:6 benda okkur þessu næst á Jehóva, hina guðlegu uppsprettu skilnings, og segja: „Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Að muna til eða gefa gaum að Jehóva felur í sér að halda sér nærri honum í bæn. Óháð því hvar við erum og hvaða kringumstæður kunna að koma upp höfum við tafarlausan aðgang að honum í bæn. Við dagleg störf, þegar við búum okkur undir þjónustuna á akrinum, þegar við förum hús úr húsi og boðum ríki Guðs getur það verið stöðug bæn okkar að hann blessi störf okkar. Við getum þannig haft þau óviðjafnanlegu sérréttindi og gleði að ‚ganga með Guði‘ fullviss um að hann muni ‚gera stigu okkar slétta‘ eins og hann gerði fyrir hinn guðhrædda Enok, Nóa og trúfasta Ísraelsmenn svo sem Jósúa og Daníel. — 1. Mósebók 5:22; 6:9; 5. Mósebók 8:6; Jósúabók 22:5; Daníel 6:24; sjá einnig Jakobsbréfið 4:8, 10.

19 Þegar við berum bænir okkar upp við Jehóva getum við verið örugg um að ‚friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú.‘ (Filippíbréfið 4:7) Þessi friður Guðs, sem endurspeglast í gleðilegu yfirbragði, getur mælt með boðskap okkar við húsráðendur sem við hittum í prédikunarstarfi okkar. (Kólossubréfið 4:5, 6) Hann getur líka uppörvað þá sem kunna að vera þjakaðir af því álagi og óréttlæti, sem er svo algengt í heimi nútímans, eins og eftirfarandi frásaga sýnir. *

20, 21. (a) Hvernig var hollusta votta Jehóva öðrum undir ógnarstjórn nasista til uppörvunar? (b) Hvaða ásetning ætti rödd Jehóva að vekja með okkur?

20 Max Liebster, Gyðingur sem lifði helförina af eins og fyrir kraftaverk, lýsti ferð sinni til útrýmingarbúða nasista með þessum orðum: „Við vorum læstir inni í járnbrautarvögnum sem höfðu verið hólfaðir niður í marga, örsmáa, tveggja manna klefa. Mér var sparkað inn í einn þeirra og stóð þar andspænis öðrum fanga. Augu hans endurspegluðu hugarró. Hann var þar vegna virðingar sinnar fyrir lögum Guðs og kaus frekar fangelsi og hugsanlegan dauða en að úthella blóði annarra manna. Hann var einn af vottum Jehóva. Börn hans höfðu verið tekin frá honum og eiginkona hans líflátin. Hann bjóst við sömu örlögum sjálfur. Þessi 14 daga ferð færði mér svar við bænum mínum því að það var einmitt í þessari ferð til dauðans sem ég fann vonina um eilíft líf.“

21 Eftir að þessum bróður var sleppt úr „ljónagryfjunni“ í Auschwitz, eins og hann kallaði það, og hafði látið skírast, kvæntist hann konu af hópi votta Jehóva sem sjálf hafði verið hneppt í fangelsi. Faðir hennar hafði þjáðst í fangabúðunum í Dachau. Meðan faðir hennar var þar frétti hann að eiginkona hans og ung dóttir hefðu líka verið handteknar. Hann lýsti viðbrögðum sínum: „Ég var afar áhyggjufullur. Þá gerðist það einn daginn meðan ég beið í biðröð eftir að komast í steypibað að ég heyrði rödd vitna í Orðskviðina 3:5, 6 . . . Hún bergmálaði eins og rödd af himni ofan. Það var einmitt þetta sem mig vantaði til að ná aftur jafnvægi.“ Reyndar tilheyrði röddin, sem vitnaði í ritningartextann, öðrum fanga en atvikið undirstrikar hvaða áhrif orð Guðs getur haft á okkur. (Hebreabréfið 4:12) Megi rödd Jehóva tala kröftuglega til okkar nú á tímum gegnum orð árstextans 1994: „Treystu Jehóva af öllu hjarta“!

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Trusting Jehovah With All My Heart,“ sem er frásaga Claude S. Goodmans, í Varðturninum (enskri útgáfu), 15. desember 1973, bls. 760-5.

^ Sjá greinina „Determined to Praise Jehovah,“ sem er frásaga Harry Petersons, í Varðturninum (enskri útgáfu), 15. júlí 1968, bls. 437-40.

^ Sjá greinina „Jehovah Does Not Forsake His Servants,“ sem er frásaga Matsue Ishii, í Varðturninum (enskri útgáfu), 1. maí 1988, bls. 21-5.

^ Sjá einnig greinina „Deliverance! Proving Ourselves Grateful,“ sem er frásaga Max Liebsters, í Varðturninum (enskri útgáfu), 1. október 1978, bls. 20-4.

Samantekt

◻ Hvers konar ráðleggingar er að finna í Orðskviðunum?

◻ Hvernig er traust til Jehóva okkur til gagns?

◻ Hvað er fólgið í því að reiða sig á Jehóva?

◻ Hvers vegna ættum við að muna til Jehóva á öllum okkar vegum?

◻ Hvernig gerir Jehóva stigu okkar slétta?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 26]

Hinn gleðilegi boðskapur Guðsríkis höfðar til hjartahreinna manna.