Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Elskið sannleik og frið“!

„Elskið sannleik og frið“!

„Elskið sannleik og frið“!

„Orð [Jehóva] allsherjar kom til mín, svo hljóðandi: . . . Elskið sannleik og frið.“ — SAKARÍA 8:18, 19.

1, 2. (a) Hvernig er ferill mannkynsins í sambandi við frið? (b) Af hverju á núverandi heimur aldrei eftir að sjá sannan frið?

 HEIMURINN hefur aldrei notið friðar. Alltaf hefur verið stríð einhvers staðar — og oft á mörgum stöðum samtímis.“ Svo mælti prófessor Milton Mayer við University of Massachusetts í Bandaríkjunum. Þetta er sorglegur vitnisburður um mannkynið. Vissulega hafa menn þráð frið. Stjórnmálamenn hafa reynt alls konar leiðir til að viðhalda honum, allt frá Pax Romana á tímum Rómverja til stefnunnar sem kölluð var „gagnkvæm tortímingarvissa“ á tímum kalda stríðsins. En fyrr eða síðar hafa allar tilraunir þeirra mistekist. Eins og Jesaja sagði endur fyrir löngu hafa ‚friðarboðarnir grátið beisklega.‘ (Jesaja 33:7) Af hverju?

2 Það stafar af því að friður er ekki varanlegur nema hatur og ágirnd sé víðs fjarri; hann þarf að byggjast á sannleika. Friður getur ekki byggst á lygum. Þess vegna sagði Jehóva er hann hét Forn-Ísrael endurreisn og friði: „Ég veiti velsæld [„friði,“ NW] til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.“ (Jesaja 66:12) Guð þessa heimskerfis, Satan djöfullinn, er „manndrápari,“ morðingi, „lygari og lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44; 2. Korintubréf 4:4) Hvernig getur heimur, sem á sér slíkan guð, nokkurn tíma haft frið?

3. Hvaða eftirtektarverða gjöf hefur Jehóva gefið fólki sínu þótt það lifi í ólgusömum heimi?

3 En það er eftirtektarvert að Jehóva veitir fólki sínu frið jafnvel þótt það búi í stríðshrjáðum heimi Satans. (Jóhannes 17:16) Á sjöttu öld f.o.t. uppfyllti hann fyrirheit sitt fyrir munn Jeremía og veitti kjörþjóð sinni ‚frið og sannleik‘ er hann lét hana snúa heim í land sitt. (Jeremía 33:6, NW) Og núna á síðustu dögum hefur hann veitt þjónum sínum „sannleik og frið“ í ‚landi‘ þeirra eða andlegri landareign á jörð, enda þótt þeir hafi lifað verstu erfiðleikatíma sem heimurinn hefur mátt þola til þessa. (Jesaja 66:8; Matteus 24:7-13; Opinberunarbókin 6:1-8) Er við höldum áfram umfjölluninni um 8. kafla Sakaríabókar lærum við að meta betur þennan frið og sannleika, sem Guð gefur, og sjáum hvað við þurfum að gera til að varðveita hlutdeild okkar í honum.

„Verið hughraustir“

4. Hvað hvatti Sakaría Ísraelsmenn til að gera ef þeir vildu njóta friðar?

4 Í 8. kafla Sakaría heyrum við í sjötta sinn hrífandi yfirlýsingu frá Jehóva: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús [Jehóva] allsherjar, musterið. Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum.“ — Sakaría 8:9, 10.

5, 6. (a) Hvernig var ástatt í Ísrael vegna kjarkleysis landsmanna? (b) Hvaða breytingu hét Jehóva Ísraelsmönnum ef þeir létu tilbeiðslu hans ganga fyrir?

5 Sakaría mælti þessi orð er verið var að endurbyggja musterið í Jerúsalem. Áður höfðu Ísraelsmenn, sem sneru heim frá Babýlon, misst kjarkinn og hætt musterisbyggingunni. Þar eð þeir beindu athyglinni að eigin þægindum nutu þeir engrar blessunar og einskis friðar frá Jehóva. Enda þótt þeir ræktuðu landið og yrktu víngarðana döfnuðu þeir ekki. (Haggaí 1:3-6) Það var eins og þeir hefðu ‚engan arð‘ af vinnu sinni.

6 En nú var verið að endurbyggja musterið og Sakaría hvatti Gyðinga til að ‚vera hughraustir‘ og sýna það hugrekki að láta tilbeiðslu Jehóva ganga fyrir. Hvernig færi ef þeir gerðu það? „Nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga — segir [Jehóva] allsherjar —  því að sáðkorn þeirra verða ósködduð [„því að þar verður sáðkorn friðar,“ NW]. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar. Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir.“ (Sakaría 8:11-13) Ísraelsmenn myndu dafna ef þeir væru einbeittir. Áður fyrr höfðu þjóðirnar getað bent á Ísrael ef þær vildu nefna dæmi um bölvun eða formælingu. En núna yrði Ísrael dæmi um blessun. Það var kjörin ástæða til að ‚vera hughraustir.‘

7. (a) Hvaða hrífandi breytingar hefur fólk Jehóva séð fram til þjónustuársins 1995? (b) Frá hvaða löndum er athyglisverðar tölur að sjá í ársskýrslunni yfir boðbera, brautryðjendur og meðalstarfstíma?

7 Hvað um okkar daga? Á árunum fyrir 1919 skorti eitthvað á kostgæfni þjóna Jehóva. Þeir voru ekki fullkomlega hlutlausir í fyrri heimsstyrjöldinni og höfðu frekar tilhneigingu til að fylgja manni en konungi sínum, Jesú Kristi. Þar af leiðandi misstu sumir kjarkinn vegna andstöðu innan og utan skipulagsins. Þá, árið 1919, urðu þeir hughraustir með hjálp Jehóva. (Sakaría 4:6) Jehóva veitti þeim frið og þeir döfnuðu mikillega. Það má sjá af skýrslum um starf þeirra síðastliðin 75 ár fram til þjónustuársins 1995. Sem heild hafa vottar Jehóva forðast þjóðernishyggju, ættflokkaríg, fordóma og allt annað sem veldur hatri. (1. Jóhannesarbréf 3:14-18) Þeir þjóna Jehóva með ósvikinni kostgæfni í andlegu musteri hans. (Hebreabréfið 13:15; Opinberunarbókin 7:15) Á síðasta ári eyddu þeir yfir milljarði klukkustunda í að tala við aðra um himneskan föður sinn! Í mánuði hverjum héldu þeir 4.865.060 biblíunám. Að meðaltali tók 663.521 þátt í brautryðjandastarfinu. Þegar prestar kristna heimsins vilja nefna dæmi um fólk sem er virkilega ákaft í tilbeiðslu sinni benda þeir stundum á votta Jehóva.

8. Hvernig getur hver einstakur kristinn maður notið góðs af ‚sáðkorni friðarins‘?

8 Vegna kostgæfni fólks síns gefur Jehóva því „sáðkorn friðar.“ Hver og einn, sem ræktar þetta sæði, sér frið vaxa í hjarta sínu og lífi. Sérhver trúaður kristinn maður, sem ástundar frið við Jehóva og kristna meðbræður sína, á hlutdeild í sannleika og friði þess fólks er ber nafn Jehóva. (1. Pétursbréf 3:11; samanber Jakobsbréfið 3:18.) Er það ekki dásamlegt?

„Óttist ekki!“

9. Hvaða breytingum hét Jehóva í samskiptum við fólk sitt?

9 Nú lesum við sjöundu yfirlýsinguna frá Jehóva. Hver er hún? „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði — segir [Jehóva] allsherjar — og lét mig ekki iðra þess, eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki!“ — Sakaría 8:14, 15.

10. Hvað sýnir að vottar Jehóva hafa ekki verið óttaslegnir?

10 Enda þótt þjónar Jehóva væru tvístraðir í andlegum skilningi á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar vildu þeir í hjörtum sér gera það sem rétt var. Þess vegna tók Jehóva þá öðrum tökum eftir að hafa agað þá svolítið. (Malakí 3:2-4) Núna lítum við um öxl og þökkum honum innilega fyrir það sem hann hefur gert. Vissulega hafa ‚allar þjóðir hatað okkur.‘ (Matteus 24:9) Margir hafa verið hnepptir í fangelsi og sumir hafa jafnvel dáið fyrir trú sína. Við mætum oft áhugaleysi eða fjandskap. En við óttumst ekki. Við vitum að Jehóva er sterkari en nokkur andstaða, sýnileg eða ósýnileg. (Jesaja 40:15; Efesusbréfið 6:10-13) Við hættum ekki að fara eftir orðunum: „Vona á [Jehóva], ver öruggur og hugrakkur.“ — Sálmur 27:14.

„Talið sannleika hver við annan“

11, 12. Hvað ættum við hvert og eitt að hafa hugfast ef við viljum eiga fulla hlutdeild í þeirri blessun sem Jehóva veitir fólki sínu?

11 Við þurfum að muna eftir ýmsu til að geta hlotið fulla hlutdeild í blessun Jehóva. Sakaría segir: „Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar. Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég — segir [Jehóva].“ — Sakaría 8:16, 17.

12 Jehóva hvetur okkur til að tala sannleikann. (Efesusbréfið 4:15, 25) Hann heyrir ekki bænir þeirra sem hugsa illt með sér, fela sannleikann í ábataskyni eða sverja falskan eið. (Orðskviðirnir 28:9) Þar eð hann hatar fráhvarf vill hann að við höldum okkur fast við sannleika Biblíunnar. (Sálmur 25:5; 2. Jóhannesarbréf 9-11) Og eins og öldungarnir við borgarhlið Ísraels ættu safnaðaröldungar, sem hafa dómsmál til meðferðar, að byggja ráðleggingar sínar og ákvarðanir á sannleika Biblíunnar, ekki persónulegri skoðun sinni. (Jóhannes 17:17) Jehóva vill að þeir ‚dæmi ráðvandlega‘ og reyni sem kristnir hirðar að koma á friði milli deilandi manna og hjálpi iðrunarfullum syndurum að eignast aftur frið við Guð. (Jakobsbréfið 5:14, 15; Júdasarbréfið 23) Og um leið standa þeir vörð um frið safnaðarins og víkja hugrakkir úr söfnuðinum hverjum þeim sem raskar þeim friði með því að halda þrákelknislega áfram rangri breytni. — 1. Korintubréf 6:9, 10.

‚Fögnuður og gleði‘

13. (a) Hvaða breytingu á föstuhaldi spáði Sakaría? (b) Hvaða föstur voru haldnar í Ísrael?

13 Nú lesum við áttundu yfirlýsinguna: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Fastan í hinum fjórða mánuði, fastan í hinum fimmta mánuði, fastan í hinum sjöunda mánuði og fastan í hinum tíunda mánuði mun verða Júda húsi til fagnaðar og gleði og að unaðslegum hátíðardögum. En elskið sannleik og frið.“ (Sakaría 8:19) Undir Móselögunum föstuðu Ísraelsmenn á friðþægingardeginum til að láta í ljós iðrun vegna synda sinna. (3. Mósebók 16:29-31) Fösturnar fjórar, sem Sakaría nefnir, virðast hafa verið haldnar til að syrgja atburði er tengdust falli og eyðingu Jerúsalem. (2. Konungabók 25:1-4, 8, 9, 22-26) En nú var musterið endurbyggt og Jerúsalem aftur byggð fólki. Sorg breyttist í gleði og fösturnar gátu breyst í fagnaðarstundir.

14, 15. (a) Hvernig var minningarhátíðin mikið gleðiefni og hvað ætti það að minna okkur á? (b) Í hvaða löndum var einstök aðsókn að minningarhátíðinni samkvæmt ársskýrslunni?

14 Núna höldum við ekki fösturnar, sem Sakaría nefndi, eða fösturnar sem lögmálið kvað á um. Þar eð Jesús fórnaði lífi sínu fyrir syndir okkar njótum við blessunar hins meiri friðþægingardags. Búið er að friðþægja fyrir syndir okkar, ekki bara táknrænt heldur algerlega. (Hebreabréfið 9:6-14) Að fyrirmælum hins himneska æðsta prests, Jesú Krists, höldum við minningarhátíðina um dauða hans sem einu hátíðina á almanaki kristinna manna. (Lúkas 22:19, 20) Finnum við ekki til „fagnaðar og gleði“ er við komum árlega saman til þessarar hátíðar?

15 Á síðasta ári komu 13.147.201 saman til að halda minningarhátíðina, 858.284 fleiri en árið 1994. Hvílíkur fjöldi! Hugsaðu þér fögnuðinn í hinum 78.620 söfnuðum votta Jehóva er óvenjumargir streymdu í ríkissali þeirra til hátíðarinnar. Vissulega voru allir knúnir til að ‚elska sannleik og frið‘ er þeir minntust dauða hans sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ og ríkir nú sem mikill „Friðarhöfðingi“ Jehóva! (Jóhannes 14:6; Jesaja 9:6) Þessi hátíð hafði sérstaka þýðingu fyrir þá sem héldu hana í löndum átaka og eyðileggingar. Sumir bræður okkar urðu vitni að ólýsanlegum hryllingi á árinu 1995. Samt sem áður ‚varðveitti friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, hjörtu þeirra og hugsanir í Kristi Jesú.‘ — Filippíbréfið 4:7.

‚Blíðkum Jehóva‘

16, 17. Hvernig geta menn af þjóðunum ‚blíðkað Jehóva‘?

16 En hvaðan komu þessar milljónir sem sóttu miningarhátíðina? Níunda yfirlýsing Jehóva svarar: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga. Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: ‚Vér skulum fara til þess að blíðka [Jehóva] og til þess að leita [Jehóva] allsherjar! Ég fer líka!‘ Og þannig munu fjölmennir þjóðflokkar og voldugar þjóðir koma til þess að leita [Jehóva] allsherjar í Jerúsalem og til þess að blíðka [Jehóva].“ — Sakaría 8:20-22.

17 Fólk, sem sótti minningarhátíðina, vildi „leita [Jehóva] allsherjar.“ Margir þeirra voru vígðir, skírðir þjónar hans. Milljónir annarra viðstaddra höfðu ekki enn náð því stigi. Í sumum löndum var aðsóknin að minningarhátíðinni fjór- eða fimmföld boðberatalan. Þessi áhugasami fjöldi þarf hjálp til að halda áfram að taka framförum. Við skulum kenna þeim að fagna í þeirri vitneskju að Jesús dó fyrir syndir okkar og stjórnar núna í ríki Guðs. (1. Korintubréf 5:7, 8; Opinberunarbókin 11:15) Og við skulum hvetja þá til að vígjast Jehóva Guði og lúta skipuðum konungi hans. Þannig ‚blíðka þeir Jehóva.‘ — Sálmur 116:18, 19; Filippíbréfið 2:12, 13.

„Tíu menn af þjóðum ýmissa tungna“

18, 19. (a) Hver er ‚Gyðingur‘ nútímans í uppfyllingu Sakaría 8:23? (b) Hverjir eru ‚mennirnir tíu‘ sem „taka í kyrtilskaut eins Gyðings“?

18 Að síðustu í áttunda kafla Sakaríabókar lesum við: „Svo segir [Jehóva] allsherjar.“ Hver er síðasta yfirlýsing Jehóva? „Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ (Sakaría 8:23) Á dögum Sakaría var Ísrael að holdinu útvalin þjóð Guðs. En á fyrstu öld hafnaði Ísrael Messíasi. Þess vegna útvaldi Guð okkar ‚Gyðing‘ — nýjan Ísrael — sem kjörþjóð sína, „Ísrael Guðs,“ myndaðan af andlegum Gyðingum. (Galatabréfið 6:16; Jóhannes 1:11; Rómverjabréfið 2:28, 29) Þeir áttu að verða alls 144.000, valdir úr hópi mannanna til að ríkja með Jesú á himnum. — Opinberunarbókin 14:1, 4.

19 Flestir þessara 144.000 eru nú þegar dánir trúfastir og hafa hlotið himnesk laun sín. (1. Korintubréf 15:51, 52; Opinberunarbókin 6:9-11) Fáeinir eru eftir á jörðinni og fagna því að sjá að ‚mennirnir tíu,‘ sem kjósa að fara með ‚Gyðingnum,‘ eru sannarlega „mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ — Opinberunarbókin 7:9; Jesaja 2:2, 3; 60:4-10, 22.

20, 21. Hvernig getum við varðveitt frið við Jehóva er endir þessa heims nálgast?

20 Nú er endir þessa heims nálgast jafnt og þétt er kris7tni heimurinn eins og Jerúsalem á dögum Jeremía: „Menn vænta hamingju [„friðar,“ NW], en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!“ (Jeremía 14:19) Þessi skelfing nær hámarki þegar þjóðirnar snúast gegn falstrúarbrögðunum og eyða þeim með ofsa. Skömmu síðar verður þjóðunum sjálfum eytt í lokastríði Guðs, Harmagedón. (Matteus 24:29, 30; Opinberunarbókin 16:14, 16; 17:16-18; 19:11-21) Hvílíkir ólgutímar!

21 Í gegnum allt þetta mun Jehóva vernda þá sem elska sannleika og rækta „sáðkorn friðar.“ (Sakaría 8:12, NW; Sefanía 2:3) Við skulum því halda okkur í öruggu skjóli í landi fólks hans og lofa hann opinberlega og hjálpa eins mörgum og mögulegt er að ‚blíðka Jehóva.‘ Ef við gerum það njótum við alltaf friðar Jehóva. Já, „[Jehóva] veitir lýð sínum styrkleik, [Jehóva] blessar lýð sinn með friði.“ — Sálmur 29:11.

Geturðu svarað?

◻ Hvernig var fólk Guðs ‚hughraust‘ á dögum Sakaría? En nú á dögum?

◻ Hver eru viðbrögð okkar við ofsóknum, fjandskap og áhugaleysi?

◻ Hvað er fólgið í því að ‚tala sannleika hver við annan‘?

◻ Hvernig er hægt að ‚blíðka Jehóva‘?

◻ Hvaða mikið fagnaðarefni er uppfylling Sakaría 8:23?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Síðastliðið ár vörðu vottar Jehóva 1.150.353.444 klukkustundum í að tala við fólk um ríki Guðs.