Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er hægt að koma á friði?

Er hægt að koma á friði?

Er hægt að koma á friði?

„ÞAÐ verður alltaf stríð einhvers staðar. Þetta er sorglegur sannleikur sem blasir við mannkyninu.“ Þessi svartsýnisorð stóðu í lesandabréfi sem birtist í tímaritinu Newsweek nýverið. Tekur þú undir þetta sjónarmið? Eru stríð óhjákvæmileg og friður óhugsandi? Ef tekið er mið af mannkynssögunni er erfitt annað en að svara báðum spurningum játandi. Svo langt sem skráðar heimildir ná hefur mannkynið verið flækt í endalaus stríð sem hafa valdið æ meiri eyðileggingu eftir því sem drápstólin hafa orðið öflugri.

Tuttugasta öldin hefur ekki verið nein undantekning. Blóðugustu styrjaldir sögunnar hafa verið háðar á þessari öld. En fyrir 50 árum kom líka til sögunnar ný ógnun — kjarnorkuváin — er Bandaríkin vörpuðu tveim kjarnorkusprengjum á Japan. Á síðastliðnum fimm áratugum hafa þjóðirnar byggt upp gríðarmiklar kjarnorkuvopnabirgðir sem nægja myndu til að tortíma mannkyninu mörgum sinnum. Ætli kjarnorkuvopnin eigi eftir að fæla menn frá því að heyja stríð? Staðreyndirnar tala sínu máli. Frá 1945 hafa margar milljónir fallið í styrjöldum — enda þótt kjarnorkuvopnum hafi ekki verið beitt aftur enn sem komið er.

Af hverju eru menn svona stríðsglaðir? Alfræðibókin Encyclopedia Americana nefnir nokkra þætti mannlegs samfélags sem leitt hafa til styrjalda. Það eru meðal annars umburðarleysi í trúmálum, kynþáttafordómar, ólík menning, ólík hugmyndafræði (svo sem kommúnismi og kapítalismi), þjóðernishyggja og kennisetningin um fullveldi þjóða, efnahagsástand og almenn viðurkenning hernaðarstefnunnar. Þegar þú lest yfir þessa upptalningu, sérðu þá eitthvað sem líklegt er að breytist í náinni framtíð? Munu þjóðirnar leggja minna kapp á að varðveita fullveldi sitt en verið hefur fram til þessa? Munu kynþáttafordómar dvína? Mun draga úr ofstæki bókstafstrúarmanna? Það er harla ósennilegt.

Er þá engin von um að ástandið batni einn góðan veðurdag og varanlegur friður komist á? Jú, það er von. Þrátt fyrir ólguna í heiminum er jafnvel hægt að finna frið nú á dögum. Milljónir manna hafa fundið hann. Við skulum segja þér frá nokkrum til að þú sjáir hvað þú getur lært af reynslu þeirra.

[Rétthafi]

Reuters/Bettmann