Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Göfugt hlutverk kvenna meðal þjóna Guðs til forna

Göfugt hlutverk kvenna meðal þjóna Guðs til forna

Göfugt hlutverk kvenna meðal þjóna Guðs til forna

„[Jehóva] Guð sagði: ‚Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.‘“ — 1. MÓSEBÓK 2:18.

1. Hvernig lýsir biblíuorðabók hlutskipti kvenna til forna?

 HVERGI meðal fornþjóða Miðjarðarhafslanda eða Austurlanda nær nutu konur sama frelsis og þær njóta á Vesturlöndum nú á dögum. Almennt voru konur undir karlmenn settar á sama hátt og þrælar voru settir skör lægra en frjálsir menn og ungir skör lægra en gamlir. . . . Meybörn voru minna metin en sveinbörn og voru stundum borin út.“ Þannig lýsir biblíuorðabók hlutskipti kvenna til forna.

2, 3. (a) Hver er staða margra kvenna nú á dögum samkvæmt fréttum? (b) Hvaða spurningum er varpað fram?

2 Konur víða um heim eru lítið betur settar nú á dögum. Til dæmis fjallaði árleg mannréttindaskýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins í fyrsta sinn um meðferð á konum árið 1994. „Gögn frá 193 ríkjum sýna að daglegt misrétti er ein af staðreyndum lífsins,“ sagði fyrirsögn í dagblaðinu New York Times um skýrsluna.

3 Þar eð mikill fjöldi kvenna af margvíslegum og ólíkum menningaruppruna tilheyrir söfnuðum votta Jehóva um heim allan vakna nokkrar spurningar: Ætlaðist Guð til að konur hlytu þá meðferð sem lýst er hér að ofan? Hvernig var farið með konur meðal dýrkenda Jehóva á biblíutímanum? Og hvernig ætti að fara með konur nú á dögum?

„Meðhjálp“ og „við hans hæfi“

4. Hvað sagði Jehóva eftir að fyrsti maðurinn hafði verið einsamall í Eden um tíma, og hvað gerði Guð?

4 Eftir að Adam hafði verið einsamall í Edengarðinum um tíma sagði Jehóva: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mósebók 2:18) Jafnvel þótt Adam væri fullkominn þurfti meira til að framkvæma tilgang skaparans. Með það fyrir augum skapaði Jehóva konuna og gaf fyrstu hjónin saman. — 1. Mósebók 2:21-24.

5. (a) Hvernig nota biblíuritarar oft hebreska nafnorðið sem þýtt er „meðhjálp“? (b) Hvað er gefið í skyn með því að Jehóva skuli segja fyrstu konuna ‚við hæfi‘ mannsins?

5 Gefa orðin „meðhjálp“ og „við hans hæfi“ til kynna að Guð hafi ætlað konunni auvirðilegt hlutverk? Þvert á móti. Biblíuritararnir nota hebreska nafnorðið ʽeʹser, sem þýtt er „meðhjálp,“ oft um Guð. Til dæmis er Jehóva „hjálp vor og skjöldur.“ (Sálmur 33:20; 2. Mósebók 18:4; 5. Mósebók 33:7) Í Hósea 13:9 kallar Jehóva sig meira að segja „hjálpara“ Ísraels. Um hebreska orðið neʹgheð, sem þýtt er „við hans hæfi,“ segir biblíufræðingur: „Hjálpin, sem sóst er eftir, er ekki bara aðstoð við dagleg störf eða við barneignir . . . heldur hinn gagnkvæmi stuðningur sem felst í félagsskap.“

6. Hvað var sagt eftir sköpun konunnar og hvers vegna?

6 Það er því engin lítillækkun að Jehóva skuli lýsa konunni sem „meðhjálp“ mannsins og „við hans hæfi.“ Konan var sérstök, bæði andlega, tilfinningalega og líkamlega. Hún var viðeigandi förunautur mannsins, félagi við hans hæfi. Þau voru ólík en bæði ómissandi til að ‚uppfylla jörðina‘ sem var tilgangur Guðs. Það var greinilega eftir að bæði maðurinn og konan voru sköpuð að „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ — 1. Mósebók 1:28, 31.

7, 8. (a) Hvaða áhrif myndi tilkoma syndarinnar í Eden hafa á hlutverk konunnar? (b) Hvaða spurninga er spurt um uppfyllingu 1. Mósebókar 3:16 meðal tilbiðjenda Jehóva?

7 Með tilkomu syndarinnar breyttist staðan bæði hjá manninum og konunni. Jehóva felldi dóm yfir þeim báðum sem syndurum. „Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi,“ sagði Jehóva Evu, og talar þá um það sem hann leyfði eins og væri hann valdur að því. Hann bætti við: „Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.“ (1. Mósebók 3:16) Þaðan í frá hafa karlmenn oft drottnað með harðri hendi yfir konum sínum. Í stað þess að koma fram við þær sem mikils metnar hjálparhellur við sitt hæfi hafa þeir oft farið með þær eins og þjóna eða þræla.

8 En hvað þýddi uppfylling 1. Mósebókar 3:16 fyrir konur sem tilbáðu Jehóva? Voru þær lítillækkaðar og gerðar að lítilmótlegum þjónum? Því fer fjarri! En hvað um frásagnir Biblíunnar af siðum og venjum er höfðu áhrif á konur og gætu virst óaðgengilegar í sumum nútímaþjóðfélögum?

Skilningur á siðvenjum biblíutímans

9. Hvaða þrjú atriði ættum við að hafa í huga er við íhugum siðvenjur sem snertu konur á biblíutímanum?

9 Vel var farið með konur meðal þjóna Guðs á biblíutímanum. En þegar litið er á siðvenjur þess tíma, sem tengdust konum, er gott að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi er Biblían ekki að gefa í skyn að Guð hafi haft velþóknun á slæmri meðferð kvenna þegar hún greinir frá óþægilegum aðstæðum sem þróuðust vegna eigingjarnrar yfirdrottnunar vondra manna. Í öðru lagi, enda þótt Jehóva hafi umborið vissar siðvenjur meðal þjóna sinna um tíma setti hann reglur um þær konum til verndar. Í þriðja lagi megum við ekki dæma fornar siðvenjur eftir nútímahugmyndum. Vissar siðvenjur, sem gætu virst ógeðfelldar nú á tímum, voru ekki endilega auvirðandi í augum kvenna á þeim tímum. Tökum nokkur dæmi.

10. Hvernig leit Jehóva á fjölkvæni og hvað bendir til að hann hafi aldrei horfið frá upphaflegum staðli sínum um einkvæni?

10 Fjölkvæni. * Samkvæmt upphaflegum tilgangi Jehóva átti eiginkona ekki að deila manni sínum með annarri konu. Guð skapaði aðeins eina konu handa Adam. (1. Mósebók 2:21, 22) Eftir uppreisnina í Eden kom fjölkvæni fyrst til skjalanna í ættlegg Kains. Með tímanum varð það útbreidd siðvenja og sumir tilbiðjendur Jehóva tóku það upp. (1. Mósebók 4:19; 16:1-3; 29:21-28) Enda þótt Jehóva hafi leyft fjölkvæni og það hafi stuðlað að fjölgun Ísraelsmanna tók hann tillit til kvenna með því að setja reglur um það til verndar eiginkonum og börnum. (2. Mósebók 21:10, 11; 5. Mósebók 21:15-17) Og Jehóva lagði aldrei upphaflegan staðal sinn um einkvæni á hilluna. Nói og synir hans, sem fyrirskipað var að ‚margfaldast og uppfylla jörðina,‘ voru allir einkvænismenn. (1. Mósebók 7:7; 9:1; 2. Pétursbréf 2:5) Guð lýsti sjálfum sér sem einkvænismanni er hann líkti sambandi sínu við Ísrael við samband eiginmanns og eiginkonu. (Jesaja 54:1, 5) Og Jesús Kristur kom síðan aftur á einkvæni og þessi upphaflegi staðall Guðs var haldinn í frumkristna söfnuðinum. — Matteus 19:4-8; 1. Tímóteusarbréf 3:2, 12.

11. Af hverju var greitt brúðarverð á biblíutímanum og var það auvirðandi fyrir konur?

11 Brúðarverð: Bókin Ancient Israel — Its Life and Institutions segir: „Sú skylda í Ísrael að greiða fjölskyldu stúlkunnar fjárupphæð eða jafngildi hennar lítur auðvitað út eins og verið sé að kaupa hana. En [brúðarverðið] virðist frekar vera fébætur til fjölskyldunnar en greiðsla fyrir konuna.“ (Leturbreyting okkar.) Brúðarverðið var því bætur til fjölskyldu konunnar fyrir vinnuaflið, sem hún nú missti, og fyrir erfiðið og útgjöldin af uppeldi hennar. Í stað þess að auvirða konuna var þetta staðfesting á verðmæti hennar fyrir fjölskylduna. — 1. Mósebók 34:11, 12; 2. Mósebók 22:16; sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. janúar 1989, bls. 21-4.

12. (a) Hvað voru kvæntir menn og giftar konur stundum kölluð í Ritningunni og var það móðgun við konur? (b) Hvað er eftirtektarvert í sambandi við orðin sem Jehóva notaði í Eden? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

12 Eiginmenn sem „eigendur“: Atvik í lífi Abrahams og Söru um árið 1918 f.o.t. sýnir að á þeim tíma var orðin venja að líta á kvæntan mann sem eiganda (á hebresku baʹʽal) og gifta konu sem ‚eign‘ (á hebresku beʽulahʹ). (1. Mósebók 20:3, NW) Þessi orð eru stundum notuð eftir það í Ritningunni, og ekkert bendir til að konum fyrir daga kristninnar hafi fundist þau móðgandi. * (5. Mósebók 22:22, NW) En það átti þó ekki að fara með konur eins og hverja aðra eign. Eignir og efnislega hluti var hægt að kaupa, selja og jafnvel erfa, en eiginkonur ekki. „Hús og auður er arfur frá feðrunum,“ segir biblíuorðskviður, „en skynsöm kona er gjöf frá [Jehóva].“ — Orðskviðirnir 19:14; 5. Mósebók 21:14.

Göfugt hlutverk

13. Hvað hafði það í för með sér fyrir konur er guðhræddir karlmenn fylgdu fordæmi Jehóva og hlýddu lögmálinu?

13 Hvert var þá hlutverk kvenna meðal þjóna Guðs fyrir daga kristninnar? Hvernig var litið á konur og hvernig var farið með þær? Í stuttu máli héldu konur reisn sinni og nutu margvíslegra réttinda og sérréttinda þegar guðhræddir karlar fylgdu fordæmi Jehóva sjálfs og hlýddu lögmáli hans.

14, 15. Hvað bendir til að konur hafi verið virtar í Ísrael og hvers vegna gat Jehóva réttilega ætlast til að karlmenn, sem tilbáðu hann, virtu þær?

14 Konum átti að sýna virðingu. Lögmál Guðs fyrirskipaði börnum að heiðra bæði föður sinn og móður. (2. Mósebók 20:12; 21:15, 17) „Sérhver óttist móður sína og föður sinn,“ segir 3. Mósebók 19:3. Er Batseba gekk einhverju sinni á fund Salómons sonar síns ‚stóð hann upp á móti henni og laut henni‘ í virðingarskyni. (1. Konungabók 2:19) Alfræðibókin Encyclopaedia Judaica segir: „Spádómarnir líkja kærleika Guðs til Ísraels við kærleika eiginmanns til konu sinnar. Það gat aðeins haft gildi í þjóðfélagi þar sem konur voru virtar.“

15 Jehóva ætlast til að karlar, sem tilbiðja hann, virði konur því að hann virðir þær. Þess sjást merki í ritningargreinum þar sem Jehóva notar reynslu kvenna sem samlíkingu og líkir tilfinningum sínum við tilfinningar kvenna. (Jesaja 42:14; 49:15; 66:13) Það hjálpar lesendum að skilja hvernig Jehóva er innanbrjósts. Athyglisvert er að hebreska orðið fyrir „miskunn“ eða að ‚miskunna,‘ sem Jehóva notar um sjálfan sig, er nátengt orðinu fyrir „móðurkvið“ og má lýsa sem „móðurlegri tilfinningu.“ — 2. Mósebók 33:19; Jesaja 54:7.

16. Hvaða dæmi sýna að ráð guðrækinna kvenna voru mikils metin?

16 Ráð guðrækinna kvenna voru mikils metin. Er hinn guðhræddi Abraham hikaði einu sinni við að fara að ráðum guðrækinnar konu sinnar, Söru, sagði Jehóva honum: „Hlýð þú Söru.“ (1. Mósebók 21:10-12) ‚Ísak og Rebekku var sár skapraun‘ að hetítískum konum Esaús. Síðar lét Rebekka í ljós hvílík kvöl það yrði henni ef Jakob sonur þeirra gengi að eiga hetítíska konu. Hvernig brást Ísak við? „Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann,“ segir frásagan, „og hann bauð honum og sagði við hann: ‚Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum.‘“ Enda þótt Rebekka hefði ekki beinlínis gefið ráð í málinu tók Ísak tillit til skoðana hennar er hann tók ákvörðun. (1. Mósebók 26:34, 35; 27:46; 28:1) Síðar forðaðist Davíð konungur blóðskuld með því að hlusta á beiðni Abígail. — 1. Samúelsbók 25:32-35.

17. Hvað sýnir að konur höfðu visst vald í fjölskyldunni?

17 Konur fóru með visst vald í fjölskyldunni. Börn voru hvött: „Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ (Orðskviðirnir 1:8) Lýsingin á ‚vænni konu‘ í 31. kafla Orðskviðanna sýnir að iðjusöm, gift kona stjórnaði ekki bara heimili heldur gat hún líka annast fasteignaviðskipti, ræktað frjósaman akur, stundað smárekstur og verið þekkt fyrir viskuorð sín. Mestu máli skipti þó lotningarfullur ótti lofsverðrar konu við Jehóva. Það er engin furða að slík eiginkona skuli hafa verið „miklu meira virði en perlur [„kórallar,“ NW].“ Rauðir kórallar voru afar dýrmætir og mikils metnir sem skartgripir og skrautmunir. — Orðskviðirnir 31:10-31.

Konur sem nutu sérstakrar hylli Guðs

18. Á hvaða vegu nutu vissar konur á biblíutímanum sérstakrar velvildar?

18 Virðing Jehóva fyrir konum endurspeglaðist í þeirri sérstöku hylli sem hann veitti sumum þeirra á biblíutímanum. Englar heimsóttu Hagar, Söru og eiginkonu Manóa til að koma leiðbeiningum Guðs til þeirra. (1. Mósebók 16:7-12; 18:9-15; Dómarabókin 13:2-5) Konur „gegndu þjónustu“ í tjaldbúðinni og sungu við hirð Salómons. — 2. Mósebók 38:8; 1. Samúelsbók 2:22; Prédikarinn 2:8.

19. Hvernig komu konur stundum fram fyrir hönd Jehóva?

19 Nokkrum sinnum í sögu Ísraels notaði Jehóva konur sem fulltrúa sína eða talsmenn. Við lesum um spákonuna Debóru: „Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra.“ (Dómarabókin 4:5) Eftir sigur Ísraels yfir Jabín konungi í Kanaan varð Debóra mikilla sérréttinda aðnjótandi. Hún virðist, að minnsta kosti að hluta til, hafa ort sigurljóðið er síðar varð hluti af innblásnu orði Jehóva. * (Dómarabókin 5. kafli) Öldum síðar gerði Jósía konungur út sendinefnd til Huldu spákonu. Æðsti presturinn var með í för. Hulda gat sagt valdsmannslega: „Svo segir [Jehóva] Guð Ísraels.“ (2. Konungabók 22:11-15) Þarna fyrirskipaði konungur sendinefndinni að fara til spákonu, en það var gert til að fá leiðbeiningar frá Jehóva. — Samanber Malakí 2:7.

20. Hvaða dæmi sýna umhyggju Jehóva fyrir tilfinningum og velferð kvenna,

20 Umhyggja Jehóva fyrir velferð kvenna er ljós af þeim tilvikum þegar hann lét til sín taka í þágu sumra kvenna sem tilbáðu hann. Tvívegis skarst hann í leikinn til að vernda Söru, hina fögu konu Abrahams, fyrir nauðgun. (1. Mósebók 12:14-20; 20:1-7) Guð sýndi Leu, eiginkonunni sem Jakob elskaði minna, velvild með því að ‚opna móðurlíf hennar‘ þannig að hún gæti alið son. (1. Mósebók 29:31, 32) Er tvær guðhræddar, ísraelskar ljósmæður hættu lífinu til að hebresk sveinbörn væru ekki drepin í Egyptalandi, „gaf [Jehóva] þeim fjölda niðja“ sem þakklætisvott. (2. Mósebók 1:17, 20, 21) Hann svaraði líka innilegri bæn Hönnu. (1. Samúelsbók 1:10, 20) Og þegar spámannsekkja átti yfir höfði sér að lánsali tæki börn hennar upp í skuld skildi Jehóva hana ekki bjargarlausa eftir. Í kærleika sínum gerði Guð spámanninum Elísa kleift að margfalda olíubirgðir hennar þannig að hún gæti greitt skuldina. Þannig varðveitti hún fjölskyldu sína og reisn. — 2. Mósebók 22:22, 23; 2. Konungabók 4:1-7.

21. Hvaða öfgalaus mynd er dregin upp í Hebresku ritningunum af hlutskipti kvenna?

21 Hebresku ritningarnar hvetja því sannarlega ekki til lítilsvirðingar á konum heldur draga upp öfgalausa mynd af hlutskipti þeirra meðal þjóna Guðs. Enda þótt Jehóva hlífði konum, sem tilbáðu hann, ekki við uppfyllingu 1. Mósebókar 3:16 nutu konur reisnar og virðingar guðrækinna karlmanna sem fylgdu fordæmi hans og hlýddu lögmáli hans.

22. Hvernig hafði hlutverk kvenna breyst á jarðvistardögum Jesú og hvaða spurninga er spurt?

22 Hlutverk kvenna breyttist meðal Gyðinga á öldunum eftir að ritun Hebresku ritninganna lauk. Þegar Jesús kom til jarðar höfðu erfikenningar rabbína takmarkað mjög trúarleg sérréttindi kvenna og félagslíf. Höfðu slíkar erfikenningar áhrif á framkomu Jesú við konur? Hvernig ætti að koma fram við kristnar konur nú á dögum? Þessar spurningar eru til umfjöllunar í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ „Fjölkvæni“ merkir, samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs, „það að vera kvæntur fleiri en einni konu í senn.“ Að kona eigi fleiri en einn eiginmann samtímis er kallað „fjölveri.“

^ Hebresku ritningarnar tala miklu oftar um kvænta menn og giftar konur sem „eiginmenn“ (á hebresku ʼish) og „eiginkonur“ (á hebresku ʼishshahʹ). Í Eden notaði Jehóva til dæmis ekki orðin „eigandi“ og ‚eign‘ heldur „maður“ og ‚eiginkona.‘ (1. Mósebók 2:24; 3:16, 17) Í spádómi Hósea sagði að eftir heimkomuna úr útlegðinni myndi iðrunarfullur Ísrael kalla Jehóva ‚eiginmann sinn‘ en ekki framar ‚eiganda sinn.‘ Þetta kann að benda til að orðið „eiginmaður“ hafi verið hlýlegra orð en „eigandi.“ — Hósea 2:16, NW.

^ Það er eftirtektarvert að Debóra var ávörpuð í fyrstu persónu í Dómarabókinni 5:7. — Biblían 1859, Nýheimsþýðingin.

Hverju svarar þú?

◻ Hvað gefa orðin „meðhjálp“ og „við hans hæfi“ til kynna um það hlutverk er Guð ætlaði konum?

◻ Hvað ættum við að hafa í huga er við íhugum siðvenjur sem höfðu áhrif á konur á biblíutímanum?

◻ Hvað sýnir að konur gegndu göfugu hlutverki meðal þjóna Guðs til forna?

◻ Á hvaða vegu sýndi Jehóva konum fyrir daga kristninnar sérstaka velvild?

[Spurningar]