Jehóva veitir gnægð friðar og sannleika
Jehóva veitir gnægð friðar og sannleika
„Ég lækna þá og opinbera þeim gnægð friðar og sannleika.“ — JEREMÍA 33:6, NW.
1, 2. (a) Hvaða orð hafa þjóðirnar getið sér í sambandi við frið? (b) Hvaða lexíu kenndi Jehóva Ísrael árið 607 f.o.t. um frið?
FRIÐUR er svo sannarlega eftirsóknarverður en hann hefur að sama skapi verið sárasjaldgæfur í sögu mannkynsins! Tuttugasta öldin hefur öðrum fremur verið ófriðaröld með tveim skæðustu styrjöldum mannkynssögunnar. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Þjóðabandalaginu komið á laggirnar í þeim tilgangi að viðhalda heimsfriði. Það brást. Eftir síðari heimsstyrjöldina voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar í sama tilgangi. Við þurfum ekki annað en lesa dagblöðin til að sjá hve hrapallega þeim er að mistakast.
2 Ætti það að koma okkur á óvart að stofnanir og samtök manna skuli ekki geta komið á friði? Alls ekki. Fyrir meira en 2500 árum þurfti útvalin þjóð Guðs, Ísrael, að læra sína lexíu í því sambandi. Á sjöundu öld f.o.t. ógnaði upprennandi heimsveldi, Babýlon, friði Ísraels. Ísrael reyndi að tryggja sér frið með hjálp Egypta. Egyptar brugðust. (Jeremía 37: 5-8; Esekíel 17: 11-15) Árið 607 f.o.t. braut babýlonskur her niður múra Jerúsalem og brenndi musteri Jehóva. Þannig lærði Ísrael í hörðum skóla reynslunnar hve tilgangslaust það væri að treysta á mannleg samtök. Í stað þess að öðlast frið var þjóðin neydd í útlegð til Babýlonar. — 2. Kroníkubók 36: 17-21.
3. Hvaða sögulegur atburður, sem uppfyllti orð Jehóva fyrir munn Jeremía, kenndi Ísrael aðra lexíu í sambandi við frið?
3 Fyrir fall Jerúsalemborgar hafði Jehóva þó opinberað að það væri hann, ekki Egyptaland, sem myndi veita Ísrael sannan frið. Hann hét fyrir munn Jeremía: „Ég lækna þá og opinbera þeim gnægð friðar og sannleika. Og ég leiði heim bandingjana frá Júda og bandingjana frá Ísrael og byggi þá upp eins og í upphafi.“ (Jeremía 33:6, 7, NW) Jehóva byrjaði að uppfylla fyrirheit sitt árið 539 f.o.t. er Babýlon var unnin og ísraelskum útlögum var boðið frelsi. (2. Kroníkubók 36:22, 23) Á síðari hluta ársins 537 f.o.t. hélt hópur Ísraelsmanna laufskálahátíðina á ísraelskri jörð í fyrsta sinn í 70 ár! Eftir hátíðina hófust þeir handa við að endurbyggja musteri Jehóva. Hvernig var þeim innanbrjósts? Frásagan segir: „Allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði [Jehóva] fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi [Jehóva].“ — Esrabók 3:11.
4. Hvernig hvatti Jehóva Ísraelsmenn til að byggja musterið og hverju hét hann um frið?
4 En eftir þessa ánægjulegu byrjun drógu andstæðingar kjark úr Ísraelsmönnum svo að þeir hættu musterisbyggingunni. Nokkrum árum síðar vakti Jehóva upp spámennina Haggaí og Sakaría til að hvetja Ísraelsmenn til að ljúka endurbyggingunni. Það hlýtur að hafa verið hrífandi fyrir þá að heyra Haggaí segja um musterið sem byggja átti: „Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var — segir [Jehóva] allsherjar — og ég mun veita heill [„frið,“ NW] á þessum stað.“ — Haggaí 2:9.
Jehóva uppfyllir fyrirheit sín
5. Hvað er eftirtektarvert í sambandi við áttunda kafla Sakaría?
5 Í Sakaríabók finnum við fjölmargar innblásnar sýnir og spádóma sem styrktu fólk Guðs á sjöttu öld f.o.t. Þessir sömu spádómar halda áfram að fullvissa okkur um stuðning Jehóva. Þeir gefa okkur fullt tilefni til að ætla að Jehóva veiti fólki sínu frið á okkar dögum líka. Til dæmis segir spámaðurinn Sakaría tíu sinnum í áttunda kafla bókarinnar er ber nafn hans: ‚Svo segir Jehóva.‘ Þessi orð eru í öllum tilvikum inngangur að yfirlýsingu sem tengist friði fólks Guðs. Sum þessara fyrirheita rættust á dögum Sakaría. Öll hafa þau uppfyllst eða eru að uppfyllast nú á dögum.
„Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar“
6, 7. Á hvaða vegu var Jehóva ‚vandlætisfullur og upptendaður mikilli reiði vegna Síonar?
6 Orðin koma fyrst fyrir í Sakaría 8:2 þar sem við lesum: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna.“ Loforð Jehóva um að vera vandlætisfullur eða mjög kostgæfur vegna þjóðar sinnar merkti að hann yrði vakandi fyrir því að veita henni frið. Með því að leiða Ísrael aftur heim í land sitt til að endurbyggja musterið var Jehóva að sýna þessa kostgæfni.
7 En hvað um þá sem höfðu veitt fólki Jehóva mótspyrnu? Kostgæfni hans vegna fólks síns myndi birtast í „mikilli reiði“ gagnvart þessum óvinum. Þegar trúfastir Gyðingar tilbæðu í endurbyggðu musteri gætu þeir íhugað örlög hinnar voldugu Babýlonar sem nú var fallin. Þeir gátu líka hugleitt hvernig óvinunum, sem reyndu að hindra endurbyggingu musterisins, hafði mistekist algerlega. (Esrabók 4:1-6; 6:3) Og þeir gátu þakkað Jehóva fyrir að uppfylla fyrirheit sín. Kostgæfni hans veitti þeim sigur!
„Borgin trúfasta“
8. Hvernig átti Jerúsalem að verða borgin trúfasta á dögum Sakaría í samanburði við fyrri tíma?
8 Sakaría segir öðru sinni: „Svo segir [Jehóva].“ Hver eru orð Jehóva nú? „Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall [Jehóva] allsherjar fjallið helga.“ (Sakaría 8:3) Fyrir árið 607 f.o.t. var Jerúsalem engan veginn borgin trúfasta. Prestar og spámenn voru spilltir og íbúar ótrúir. (Jeremía 6:13; 7:29-34; 13:23-27) Núna var fólk Guðs að endurreisa musterið og sýna stuðning sinn við hreina tilbeiðslu. Jehóva bjó aftur í Jerúsalem í anda. Sannindi hreinnar guðsdýrkunar voru aftur töluð í Jerúsalem þannig að hægt var að kalla hana ‚borgina trúföstu.‘ Hið háa borgarstæði gat kallast ‚fjall Jehóva.‘
9. Hvaða athyglisverð aðstöðubreyting varð hjá „Ísrael Guðs“ árið 1919?
9 Þessar tvær yfirlýsingar höfðu vissulega þýðingu fyrir Ísrael til forna, en þær hafa líka mikla þýðingu fyrir okkur er dregur að lokum 20. aldarinnar. Fyrir næstum 80 árum, meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir, voru hinir nokkur þúsund smurðu fulltrúar ‚Ísraels Guðs‘ hnepptir í andlega ánauð alveg eins og Ísrael til forna hafði verið í ánauð í Babýlon. (Galatabréfið 6:16) Í spádómi var þeim lýst sem líkum liggjandi á strætinu. En þeir báru í brjósti einlæga löngun að tilbiðja Jehóva „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Þess vegna leysti Jehóva þá úr ánauð árið 1919 og vakti þá upp af andlegu dauðadái. (Opinberunarbókin 11:7-13) Jehóva svaraði þannig með drynjandi jái spádómlegri spurningu Jesaja: „Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu?“ (Jesaja 66:8) Árið 1919 urðu þjónar Jehóva enn á ný til sem andleg þjóð í eigin ‚landi‘ eða andlegri landareign sinni á jörð.
10. Hvaða blessunar hafa smurðir kristnir menn notið í ‚landi‘ sínu frá 1919?
10 Óhultir í landi sínu þjónuðu smurðir kristnir menn í miklu, andlegu musteri Jehóva. Þeir voru útnefndir hinn „trúi og hyggni þjónn“ og öxluðu þá ábyrgð að annast jarðneskar eigur Jesú. Það eru sérréttindi sem þeir njóta enn, nú er dregur að lokum 20. aldarinnar. (Matteus 24:45-47) Þeir lærðu vel þá lexíu að Jehóva er „sjálfur friðarins Guð.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:23.
11. Hvernig hafa trúarleiðtogar kristna heimsins reynst vera óvinir fólks Guðs?
11 En hvað um óvini Ísraels Guðs? Vandlæti Jehóva gagnvart fólki sínu á sér samsvörun í reiði hans gagnvart andstæðingunum. Í fyrri heimsstyrjöldinni beittu trúarleiðtogar kristna heimsins þennan litla hóp kristinna manna, er töluðu sannleikann, gífurlegum þrýstingi er þeir reyndu — en mistókst — að þurrka hann út. Í síðari heimsstyrjöldinni voru prestar kristna heimsins sameinaðir um aðeins eitt: Beggja vegna víglínunnar hvöttu þeir stjórnvöld til að kúga votta Jehóva. Enn þann dag í dag hvetja trúarleiðtogar stjórnvöld til að takmarka eða banna kristna prédikun votta Jehóva.
12, 13. Hvernig birtist reiði Jehóva gagnvart kristna heiminum?
12 Jehóva hefur ekki látið það fram hjá sér fara. Eftir fyrri heimsstyrjöldina féll kristni heimurinn ásamt Babýlon hinni miklu í heild. (Opinberunarbókin 14:8) Það komst í hámæli að kristni heimurinn væri fallinn er úthellt var röð af táknrænum plágum frá og með 1922, þar sem afhjúpað var að hann væri andlega dauður og varað við komandi eyðingu hans. (Opinberunarbókin 8:7–9:21) Sem merki um að haldið sé áfram að úthella þessum plágum var ræðan „Endir falstrúarbragða er nálægur“ flutt um heim allan 23. apríl 1995 og í kjölfarið var dreift sérstöku tölublaði Frétta um Guðsríki í hundruðmilljónatali.
13 Kristni heimurinn er í aumkunarverðu ástandi núna. Alla 20. öldina hafa þegnar hans drepið hver annan í grimmilegum styrjöldum sem prestar hans hafa blessað. Í sumum löndum eru áhrif hans nánast engin. Hann á eyðingu yfir höfði sér ásamt Babýlon hinni miklu í heild. — Opinberunarbókin 18:21.
Friður handa fólki Jehóva
14. Hvaða spádómleg mynd er dregin upp af friðsömu fólki?
14 Fólk Jehóva nýtur hins vegar ríkulegs friðar nú á árinu 1996 í endurreistu landi sínu eins og lýst er í þriðju yfirlýsingu Jehóva: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir. Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum.“ — Sakaría 8:4, 5.
15. Hvaða friðar hafa þjónar Jehóva notið þrátt fyrir styrjaldir þjóðanna?
15 Þessi fögru orð lýsa eftirtektarverðu fyrirbæri í þessum stríðshrjáða heimi — friðsömu fólki. Frá 1919 hafa spádómsorð Jesaja verið að uppfyllast: „Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann! En . . . hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.“ (Jesaja 57:19-21) Þótt þjónar Jehóva tilheyri ekki heiminum verður auðvitað ekki hjá því komist að ólga þjóðanna hafi áhrif á þá. (Jóhannes 17:15, 16) Í sumum löndum þurfa þeir að þola mikla erfiðleika og fáeinir hafa jafnvel verið myrtir. En sannkristnir menn njóta friðar aðallega á tvo vegu. Í fyrsta lagi eiga þeir „frið við Guð fyrir Drottin [sinn] Jesú Krist.“ (Rómverjabréfið 5:1) Í öðru lagi er friður milli þeirra innbyrðis. Þeir rækta með sér ‚spekina, sem að ofan er,‘ sem er „í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm.“ (Jakobsbréfið 3:17; Galatabréfið 5:22-24) Enn fremur hlakka þeir til friðar í sinni fyllstu mynd er ‚hinir hógværu erfa landið og njóta unaðsemdar af þeim mikla friði.‘ — Sálmur 37:11, Biblían 1859.
16, 17. (a) Hvernig hafa „gamlir menn og gamlar konur,“ og einnig ‚drengir og stúlkur,‘ styrkt skipulag Jehóva? (b) Hvað sýnir friðinn sem fólk Jehóva nýtur?
16 Enn eru „gamlir menn og gamlar konur“ meðal fólks Jehóva, smurðir einstaklingar sem muna eftir fyrstu sigrum skipulags Jehóva. Trúfesti þeirra og þolgæði er mikils metið. Þeir sem yngri eru af hinum smurðu tóku forystuna á átakatímum fjórða áratugarins og síðari heimsstyrjaldarinnar, og einnig í hinum hrífandi vexti sem fylgdi í kjölfarið. Og „mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ hefur komið fram á sjónarsviðið, einkum frá 1935. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Er smurðir kristnir menn hafa elst og þeim hefur fækkað hafa hinir aðrir sauðir að mestu tekið við prédikunarstarfinu og fært út kvíarnar til allra heimshorna. Á síðustu árum hafa hinir aðrir sauðir streymt inn í land fólks Guðs. Á síðasta ári létu 338.491 þeirra skírast niðurdýfingarskírn til tákns um vígslu sína til Jehóva! Þessir nýju eru vissulega mjög ungir í andlegu tilliti. Ferskleiki þeirra og eldmóður er mikils metinn er þeir ganga í lið með þeim er syngja „Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu“ þakklátir lof. — Opinberunarbókin 7:10.
17 Núna eru ‚torgin full af drengjum og stúlkum,‘ vottum sem eru fullir af æskuþrótti. Á þjónustuárinu 1995 bárust skýrslur frá 232 löndum og eyjum hafsins. En það er engin samkeppni milli þjóða, ekkert hatur milli ættflokka og engin óviðeigandi afbrýði milli hinna smurðu og hinna annarra sauða. Allir vaxa saman andlega, sameinaðir í kærleika. Heimsbræðrafélag votta Jehóva er vissulega einstakt. — Kólossubréfið 3:14; 1. Pétursbréf 2:17.
Jehóva um megn?
18, 19. Hvernig hefur Jehóva áorkað frá 1919 því sem kann að hafa virst torvelt frá mannlegum sjónarhóli?
18 Árið 1918, þegar hinar smurðu leifar voru aðeins nokkur þúsund kjarklitlar sálir í andlegri ánauð, gat enginn séð fyrir þá atburðarás sem síðar varð. En Jehóva vissi hana fyrir — eins og fjórða spádómlega yfirlýsingin ber með sér: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? — segir [Jehóva] allsherjar.“ — Sakaría 8:6.
19 Árið 1919 endurlífgaði andi Jehóva fólk hans til verksins framundan. Engu að síður þurfti trú til að halda sér við hið smáa skipulag þjóna Jehóva. Þeir voru svo fáir og margt sem lá ekki ljóst fyrir. En smám saman styrkti Jehóva þá skipulagslega og útbjó þá til þess kristna starfs að prédika fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. (Jesaja 60:17, 19; Matteus 24:14; 28:19, 20) Smám saman hjálpaði hann þeim að sjá mikilvæg mál, svo sem hlutleysi og drottinvaldið yfir alheiminum, í skýru ljósi. Var það Jehóva um megn að koma vilja sínum í framkvæmd fyrir atbeina þessa litla vottahóps? Vissulega ekki. Það má sjá af yfirlitinu yfir starf þeirra á þjónustuárinu 1995, sem er að finna á blaðsíðu 12 til 15 í erlendum útgáfum þessa blaðs og í Árbók votta Jehóva 1996.
„Ég skal vera þeirra Guð“
20. Hve umfangsmikil átti samansöfnun fólks Guðs að vera samkvæmt spádóminum?
20 Fimmta yfirlýsingin bendir enn frekar á hamingjuríkt ástand votta Jehóva nú á tímum: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins, og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti.“ — Sakaría 8:7, 8.
21. Hvernig hefur ríkulegum friði fólks Jehóva verið viðhaldið og hann aukinn?
21 Árið 1996 getum við hiklaust sagt að fagnaðarerindið hafi verið prédikað um heim allan, frá „landi sólarupprásarinnar“ til ‚lands sólsetursins.‘ Menn af öllum þjóðum hafa verið gerðir að lærisveinum og þeir hafa séð fyrirheit Jehóva uppfyllast: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Við njótum friðar af því að Jehóva hefur frætt okkur. Í þeim tilgangi hafa verið gefin út rit á yfir 300 tungumálum. Á síðasta ári bættist við 21 tungumál. Tímaritið Varðturninn kemur nú út samtímis á 111 tungumálum og Vaknið! á 54. Jafnt alþjóðamót sem innanlandsmót sýna opinberlega þann frið sem fólk Guðs býr við. Vikulegar samkomur sameina okkur og hvetja eins og þarf til að vera staðföst. (Hebreabréfið 10:23-25) Já, Jehóva er að fræða fólk sitt „í trúfesti og réttlæti.“ Hann er að veita fólki sínu frið. Hvílík blessun fyrir okkur að eiga hlutdeild í þessum ríkulega friði!
Geturðu svarað?
◻ Hvernig hefur Jehóva verið ‚vandlætisfullur og upptendaður mikilli reiði‘ vegna fólks síns nú á dögum?
◻ Hvernig nýtur fólk Jehóva friðar, jafnvel í stríðshrjáðum löndum?
◻ Á hvaða vegu eru ‚torgin full af drengjum og stúlkum‘?
◻ Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að fólk Jehóva fái kennslu frá honum?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 8, 9]
Á sjöttu öld f.o.t. komust trúfastir Gyðingar, sem endurbyggðu musterið, að raun um að Jehóva var eina áreiðanlega friðaruppsprettan.