Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnar konur verðskulda virðingu og heiður

Kristnar konur verðskulda virðingu og heiður

Kristnar konur verðskulda virðingu og heiður

„Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu.“ — 1. PÉTURSBRÉF 3:7.

1, 2. (a) Hvaða viðbrögð vakti samtal Jesú við samversku konuna við brunninn og hvers vegna? (Sjá einnig neðanmálsathugasemd.) (b) Hvað sýndi Jesús með því að prédika fyrir samversku konunni?

 VIÐ gamla brunninn í grennd við borgina Síkar sýndi Jesús hvernig hann áleit eiga að koma fram við konur. Þetta var um hádegisbil dag einn undir lok ársins 30. Hann hafði verið á göngu um hæðir Samaríu um morguninn og var þreyttur, svangur og þyrstur er hann kom að brunninum. Hann settist við brunninn og bar þá að samverska konu sem var að sækja vatn. „Gef mér að drekka,“ sagði Jesús við hana. Konan hlýtur að hafa starað forviða á hann. Svo spurði hún: „Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“ Síðar, er lærisveinarnir komu með vistirnar sem þeir höfðu keypt, urðu þeir agndofa að sjá Jesú „tala við konu.“ — Jóhannes 4:4-9, 27.

2 Af hverju spurði konan eins og hún gerði og hvað olli undrun lærisveinanna? Hún var samversk og Gyðingar höfðu ekkert samneyti við Samverja. (Jóhannes 8:48) En ljóst er að undrun þeirra var líka sprottin af öðru. Erfikenningar rabbína löttu menn þess að tala við konur á almannafæri. * En þarna prédikaði Jesús opinberlega fyrir þessari einlægu konu og upplýsti hana jafnvel um að hann væri Messías. (Jóhannes 4:25, 26) Þannig sýndi Jesús að hann lét ekki óbiblíulegar erfikenningar hafa áhrif á sig, þeirra á meðal kenningar sem lítilsvirtu konur. (Markús 7:9-13) Þvert á móti sýndi hann með orðum sínum og framkomu að karlmenn ættu að sýna konum heiður og virðingu.

Framkoma Jesú við konur

3, 4. (a) Hvernig brást Jesús við er kona snerti klæði hans? (b) Hvernig gaf Jesús kristnum karlmönnum gott fordæmi, sérstaklega umsjónarmönnum?

3 Innileg meðaumkun Jesú með fólki endurspeglaðist í framkomu hans við konur. Einu sinni leitaði kona, sem hafði þjáðst af blæðingum í 12 ár, Jesú uppi í mannþröng. Sjúkleiki hennar gerði hana trúarlega óhreina þannig að hún hefði ekki átt að vera þar. (3. Mósebók 15:25-27) En örvænting hennar var slík að hún laumaði sér inn í hópinn fyrir aftan Jesú. Er hún snerti klæði hans læknaðist hún þegar í stað! Jesús staðnæmdist jafnvel þótt hann væri á leið til fársjúkrar dóttur Jaírusar. Hann fann kraft streyma frá sér og leit í kringum sig til að sjá hver hefði snert hann. Loks gaf konan sig fram og féll skjálfandi að fótum hans. Ætli Jesús hafi ávítað hana fyrir að snerta klæði hans í leyfisleysi? Alls ekki, heldur var hann hlýr og vingjarnlegur. „Dóttir,“ sagði hann, „trú þín hefur bjargað þér.“ Þetta er eina skiptið sem Jesús ávarpaði konu beint sem ‚dóttur.‘ Henni hlýtur að hafa létt mjög við orð hans. — Matteus 9:18-22; Markús 5:21-34.

4 Jesús einblíndi ekki á bókstaf lögmálsins. Hann sá andann að baki því og skildi að það væri nauðsynlegt að sýna miskunn og meðaumkun. (Samanber Matteus 23:23.) Jesús skynjaði örvæntingu þessarar sjúku konu og tók tillit til þess að það var trú sem knúði hana til verka. Þannig gaf hann kristnum karlmönnum gott fordæmi, sérstaklega umsjónarmönnum. Ef kristin systir á við persónuleg vandamál að stríða eða er í sérstaklega erfiðri aðstöðu ættu öldungarnir að reyna að einblína ekki bara á orðin eða verkin heldur taka tillit til aðstæðna og hvata. Slík hyggni eða innsæi segir þeim kannski að það sé meiri þörf á þolinmæði, skilningi og meðaumkun en leiðbeiningum og leiðréttingu. — Orðskviðirnir 10:19; 16:23; 19:11.

5. (a) Hvaða takmörk settu erfikenningar rabbínanna konum? (Sjá neðanmálsathugasemd.) (b) Hverjir voru fyrstir til að sjá og bera vitni um Jesú upprisinn?

5 Erfikenningar rabbína meinuðu konum á dögum Jesú að bera vitni í dómsmálum. * En rifjaðu upp það sem gerðist skömmu eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum morguninn 16. nísan árið 33. Hverjir ætli hafi orðið fyrstir til að sjá hinn upprisna Jesú og bera vitni fyrir hinum lærisveinunum um að Drottinn þeirra væri upprisinn? Það reyndust vera konurnar sem höfðu haldið sig í nágrenni afstökustaðarins uns hann dó. — Matteus 27:55, 56, 61.

6, 7. (a) Hvað sagði Jesús konunum sem komu að gröfinni? (b) Hvernig brugðust karlmennirnir meðal lærisveinanna við vitnisburði kvennanna í fyrstu, og hvað má læra af því?

6 Árla morguns fyrsta dag vikunnar fóru María Magdalena og fleiri konur til grafarinnar með ilmsmyrsl til að smyrja lík Jesú. Er þær fundu gröfina tóma hljóp María af stað til að segja Pétri og Jóhannesi frá. Hinar konurnar biðu átekta. Innan skamms birtist engill sem sagði þeim að Jesús væri upprisinn. „Farið í skyndi og segið lærisveinum hans,“ sagði engillinn. Er konurnar flýttu sér að færa fréttirnar birtist Jesús þeim sjálfur. „Farið og segið bræðrum mínum,“ sagði hann þeim. (Matteus 28:1-10; Markús 16:1, 2; Jóhannes 20:1, 2) María Magdalena vissi ekki af heimsókn engilsins og sneri aftur harmþrungin til tómrar grafarinnar. Þar birtist Jesús henni, og er hún þekkti hann loksins sagði hann: „Farðu til bræðra minna og seg þeim: ‚Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.‘“ — Jóhannes 20:11-18; samanber Matteus 28:9, 10.

7 Jesús hefði getað birst Pétri, Jóhannesi eða einhverjum öðrum karlmanni af lærisveinahópnum fyrst. En hann kaus að sýna þessum konum þá velvild að láta þær vera fyrstu sjónarvottana að upprisu sinni og með því að fela þeim að bera vitni um það fyrir körlunum í lærisveinahópnum. Hvernig brugðust karlarnir við í fyrstu? Frásagan segir: „Þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.“ (Lúkas 24:11) Getur hugsast að þeim hafi þótt erfitt að viðurkenna vitnisburðinn af því að hann kom frá konum? Ef svo var fengu þeir síðar ríkulegan vitnisburð um að Jesús væri risinn upp frá dauðum. (Lúkas 24:13-46; 1. Korintubréf 15:3-8) Það er viturlegt af kristnum karlmönnum nú á dögum að taka tillit til þess sem andlegar systur þeirra sjá og heyra. — Samanber 1. Mósebók 21:12.

8. Hvað sýndi Jesús með framkomu sinni við konur?

8 Það er einkar hjartnæmt að sjá hvernig Jesús kom fram við konur. Hann var alltaf umhyggjusamur og fullkomlega öfgalaus í samskiptum sínum við þær þannig að hann hvorki upphóf þær né gerði lítið úr þeim. (Jóhannes 2:3-5) Hann hafnaði erfikenningum rabbínanna sem rændu konur reisn sinni og ógiltu orð Guðs. (Samanber Matteus 15:3-9.) Með því að virða konur og heiðra sýndi Jesús hvernig Jehóva Guð vill að komið sé fram við konur. (Jóhannes 5:19) Jesús gaf kristnum karlmönnum afbragðsfordæmi til eftirbreytni. — 1. Pétursbréf 2:21

Kennsla Jesú um konur

9, 10. Hvernig hrakti Jesús erfikenningar rabbína um konur og hvað sagði hann eftir að farísearnir spurðu um hjónaskilnað?

9 Jesús hrakti erfikenningar rabbínanna og veitti konum verðskuldaða virðingu, ekki bara með framkomu sinni heldur einnig kennslu. Tökum kennslu hans um skilnað og hórdóm sem dæmi.

10 Jesús var spurður um skilnað: „Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“ Samkvæmt frásögn Markúsar svaraði Jesús: „Sá sem skilur við konu sína [nema sakir hórdóms] og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.“ (Markús 10:10-12; Matteus 19:3, 9) Þessi einföldu orð bera vitni um virðingu fyrir reisn kvenna. Hvernig?

11. Hvað gefa orð Jesú, „nema sakir hórdóms,“ til kynna um hjónabandið?

11 Í fyrsta lagi gaf Jesús til kynna með orðunum „nema sakir hórdóms“ (samkvæmt Matteusarguðspjalli) að ekki mætti vera léttúðugur gagnvart hjónabandinu eða slíta því eins og ekkert væri. Rabbínakenningarnar, sem fram var haldið á þeim tíma, heimiluðu skilnað fyrir minnstu sakir, svo sem þær að eiginkona spillti máltíð eða talaði við ókunnugan karlmann. Hjónaskilnaður var jafnvel leyfður ef maðurinn fann sér konu sem honum þótti meira aðlaðandi. Biblíufræðingur segir: „Með þessum orðum sínum var Jesús . . . að ljá konum stuðning með því að leitast við að koma hjónabandinu aftur í það horf sem það átti að vera.“ Hjónabandið átti að vera varanlegt band sem veitti konunni öryggistilfinningu. — Mark 10:6-9.

12. Hvaða viðhorfi var Jesús að koma á framfæri með orðunum „drýgir hór gegn henni“?

12 Með orðunum „drýgir hór gegn henni“ var Jesús í öðru lagi að halda fram viðhorfi sem dómstólar rabbínanna viðurkenndu ekki — því viðhorfi að eiginmaður gæti drýgt hór gegn konu sinni. Biblíuskýringabókin The Expositor’s Bible Commentary segir: „Í hinum rabbínska Gyðingdómi gat kona drýgt hór gegn manni sínum með því að vera honum ótrú, og maður gat drýgt hór gegn öðrum manni með því að hafa kynmök við eiginkonu hans. En maður gat aldrei drýgt hór gegn konu sinni, hvað sem hann gerði. Með því að leggja sömu siðferðiskvaðir á karla og konur upphóf Jesús stöðu og reisn kvenna.“

13. Hvernig benti Jesús á að sömu reglur skyldu gilda um hjónabandið fyrir karla og konur í kristninni?

13 Í þriðja lagi, með orðunum „skilur við mann sinn“ viðurkenndi Jesús rétt konu til að skilja við ótrúan eiginmann — sem virðist hafa verið þekkt en ekki algengt samkvæmt lögum Gyðinga á þeim tíma. * Sagt var að „skilja mætti við konu með eða án samþykkis hennar, en mann var aðeins hægt að skilja við með samþykki hans.“ En samkvæmt orðum Jesú áttu sömu reglur að gilda bæði um karla og konur í kristninni.

14. Hvað endurspeglaði Jesús með kennslu sinni?

14 Kenningar Jesú bera greinilega vitni um djúpa umhyggju fyrir velferð kvenna. Það er því ekki vandskilið að sumum konum hafi þótt svo vænt um Jesú að þær notuðu eigin fjármuni til að sinna þörfum hans. (Lúkas 8:1-3) „Kenning mín er ekki mín,“ sagði Jesús, „heldur hans, er sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Með kennslu sinni endurspeglaði Jesús ástúðlega umhyggju Jehóva sjálfs fyrir konum.

„Veitið þeim virðingu“

15. Hvað sagði Pétur postuli um framkomu eiginmanna við konur sínar?

15 Pétur postuli sá með eigin augum hvernig Jesús kom fram við konur. Um 30 árum síðar gaf hann eiginkonum kærleiksrík ráð og sagði svo: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Hvað átti Pétur við með orðunum „veitið þeim virðingu“?

16. (a) Hvað merkir gríska nafnorðið sem þýtt er ‚virðing‘? (b) Hvernig sýndi Jehóva Jesú virðingu eða heiður við ummyndunina og hvað lærum við af því?

16 Að sögn orðabókarhöfundar merkir gríska nafnorðið timeʹ, sem þýtt er ‚virðing,‘ „verð, gildi, heiður, virðing.“ Aðrar myndir þessa gríska orðs eru þýddar ‚gjafir‘ og „dýrmætur.“ (Postulasagan 28:10; 1. Pétursbréf 2:7) Við fáum innsýn í merkingu þess að heiðra einhvern ef við rannsökum hvernig Pétur notar mynd sama orðs í 2. Pétursbréfi 1:17. Þar sagði hann um ummyndun Jesú: „Hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ Við ummyndun Jesú heiðraði Jehóva son sinn með því að lýsa yfir velþóknun sinni á honum, og hann gerði það í annarra áheyrn. (Matteus 17:1-5) Maður, sem veitir eiginkonu sinni heiður eða virðingu, lítillækkar hana því ekki eða auðmýkir. Hann sýnir í orðum og verkum — bæði þegar þau eru ein og í fjölmenni — að hann metur hana mikils. — Orðskviðirnir 31:28-30.

17. (a) Af hverju ber kristinni eiginkonu virðing? (b) Af hverju ætti karlmanni ekki að finnast hann meira virði í augum Guðs en kona?

17 Pétur segir að kristnir eiginmenn eigi að ‚veita‘ konum sínum þessa virðingu. Það á ekki að vera gustukaverk heldur réttur eiginkonunnar. Af hverju ber eiginkonum slík virðing? Af því að „þær munu erfa með yður náðina og lífið,“ segir Pétur. Á fyrstu öld okkar tímatals voru bæði karlar og konur, sem fengu bréf Péturs, kölluð til að vera samerfingjar Krists. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Galatabréfið 3:28) Þau höfðu ekki sömu ábyrgð í söfnuðinum en að lokum áttu þau að ríkja með Kristi á himnum. (Opinberunarbókin 20:6) Núna, þegar flestir þjónar Guðs hafa jarðneska von, væru það alvarleg mistök af kristnum karlmanni að finnast hann meira virði í augum Guðs en konurnar, sökum þeirra sérréttinda sem hann kann að hafa í söfnuðinum. (Samanber Lúkas 17:10.) Andlega séð standa karlar og konur jafnfætis frammi fyrir Guði því að fórnardauði Jesú opnaði bæði körlum og konum sama tækifæri — að frelsast undan fordæmingu syndar og dauða og eiga eilíft líf í vændum. — Rómverjabréfið 6:23.

18. Hvaða ærna ástæðu nefnir Pétur fyrir því að maður heiðri konu sína?

18 Pétur nefnir aðra ærna ástæðu fyrir eiginmann til að veita konu sinni virðingu: „Þá hindrast bænir yðar ekki.“ Orðið „hindrast“ er komið af grísku sögninni enkoʹpto sem merkir bókstaflega „að skera í.“ Samkvæmt Expository Dictionary of New Testament Words eftir Vine var það „notað um það að tálma för manna með því að rjúfa veg eða leggja hindrun skyndilega í veginn.“ Eiginmaður, sem veitir konu sinni ekki virðingu, gæti uppgötvað vegatálma milli bæna hans og Guðs. Manninum getur fundist hann óverðugur þess að nálgast Jehóva, eða Jehóva vill ekki hlusta á hann. Ljóst er að Jehóva lætur sér mjög annt um framkomu karla við konur. — Samanber Harmljóðin 3:44.

19. Hvernig geta karlar og konur í söfnuðinum þjónað saman með gagnkvæmri virðingu?

19 Sú skylda að veita virðingu er ekki aðeins eiginmannsins megin. Enda þótt maður eigi að veita konu sinni virðingu með því að vera ástríkur við hana og virða reisn hennar, á eiginkona líka að heiðra mann sinn með því að vera undirgefin og bera djúpa virðingu fyrir honum. (1. Pétursbréf 3:1-6) Enn fremur hvatti Páll kristna menn til að ‚veita hver öðrum virðingu.‘ (Rómverjabréfið 12:10) Þarna er verið að hvetja karla og konur í söfnuðinum til að þjóna saman með gagnkvæmri virðingu. Þar sem slíkur andi ríkir tala kristnar konur ekki þannig að þær grafi undan valdi þeirra sem með forystuna fara. Þær styðja öldungana og vinna með þeim. (1. Korintubréf 14:34, 35; Hebreabréfið 13:17) Og kristnir umsjónarmenn virða „aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Það er því viturlegt af öldungum að taka vinsamlegt tillit til þess sem kristnar systur þeirra segja. Þegar systir sýnir að hún virðir guðræðislega forystu og spyr spurninga með tilhlýðilegri virðingu, eða bendir jafnvel á eitthvað sem sinna þarf, þá gefa öldungarnir spurningunni eða vandamálinu fúslega gaum.

20. Hvernig á að koma fram við konur samkvæmt Biblíunni?

20 Allt frá því syndin kom til skjalanna í Eden hefur konum í mörgum menningarsamfélögum verið skákað í stöðu þar sem þeim er lítill sómi sýndur. En það var ekki þannig sem Jehóva ætlaðist í upphafi til að komið væri fram við þær. Óháð ríkjandi afstöðu til kvenna í ýmsum menningarsamfélögum sýna bæði Hebresku og kristnu Grísku ritningarnar greinilega að guðræknum konum skuli sýnd virðing og heiður. Það er réttur sem Guð hefur gefið þeim.

[Neðanmáls]

^ The International Standard Bible Encyclopedia segir: „Konur mötuðust ekki með gestkomandi körlum og karlmenn voru lattir þess að tala við konur. . . . Samræður við konu á almannafæri þóttu sérlega hneykslanlegar.“ Mísna Gyðinga, sem er safn rabbínakenninga, ráðlagði: „Talaðu ekki mikið við kvenþjóðina. . . . Sá sem talar mikið við kvenþjóðina kallar yfir sig bölvun og vanrækir nám lögmálsins, og mun að lokum erfa Gehenna.“ — Aboth 1:5.

^ Bókin Palestine in the Time of Christ segir: „Í sumum tilvikum var konan næstum sett á bekk með þrælum. Til dæmis gat hún ekki borið vitni fyrir rétti, nema til að votta dauða eiginmanns síns.“ Mísna segir um 3. Mósebók 5:1: „[Lögin um] að ‚bera vitni‘ eiga við karla en ekki konur.“ — Shebuoth 4:I.

^ Gyðingasagnfræðingurinn Jósefus á fyrstu öld greinir svo frá að Salóme, systir Heródesar konungs, hafi sent eiginmanni sínum „skjal er leysti upp hjónaband þeirra, en það var ekki samkvæmt lögum Gyðinga. Því að við leyfum (aðeins) manninum að gera slíkt.“ — Jewish Antiquities, XV, 259 [vii, 10].

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða dæmi sýna að Jesús sýndi konum virðingu og heiður?

◻ Hvernig bar kennsla Jesú vott um virðingu fyrir reisn kvenna?

◻ Af hverju ætti eiginmaður að veita kristinni konu sinni virðingu?

◻ Hvaða skylda hvílir á öllum kristnum körlum og konum í sambandi við að sýna virðingu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Sér til mikillar gleði voru guðræknar konur fyrstar til að sjá Jesú upprisinn, og hann lét þær bera vitni um það fyrir bræðrum sínum.