Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Orð Guðs breiddist út“

„Orð Guðs breiddist út“

„Orð Guðs breiddist út“

AÐEINS fáeinum klukkustundum eftir að kristni söfnuðurinn var stofnsettur fjölgaði safnaðarmönnum úr um 120 manns í ríflega 3000. (Postulasagan 1:15; 2:41) Biblían segir að ‚orð Guðs hafi breiðst út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem farið stórum vaxandi.‘ (Postulasagan 6:7) Á nokkrum árum breiddist kristnin út til annarra heimsálfa, Afríku, Asíu og Evrópu.

Kristni söfnuðurinn er líka í örum vexti nú á dögum. Til dæmis eru boðberar Guðsríkis orðnir 443.640 í Mexíkó og hefur fjölgað um meira en 130.000 á aðeins fimm árum! Árið 1995 var einn af hverjum 59 Mexíkóbúum viðstaddur minningarhátíðina um dauða Krists með söfnuðum votta Jehóva. Hinni andlegu uppskeru þar í landi er þó ekki lokið eins og eftirfarandi frásaga ber með sér. — Matteus 9:37, 38.

Í bæ einum í Chiapas-ríki hafði enginn þegið biblíunám með vottum Jehóva þótt þeir hefðu prédikað fagnaðarerindið þar í 20 ár. Greinilegt var að margir bæjarbúar voru hræddir við mann einn sem var álitinn mjög ofbeldishneigður. Þeir óttuðust viðbrögð hans ef hann kæmist að raun um að þeir væru að nema Biblíuna með vottunum.

Tveir hugrakkir vottar, sem höfðu flust á svæðið, ákváðu að takast á við vandann með því að fara rakleiðis til umrædds manns. Eiginkona hans kom til dyra og hlustaði með athygli á boðskap þeirra. Sérstaklega hafði hún áhuga á því sem Biblían segir um paradís á jörð. Hún viðurkenndi þó að maðurinn hennar myndi gera henni mjög erfitt fyrir ef hún færi að nema Biblíuna. Vottarnir bentu henni á að ef hún kynnti sér ekki vel það sem Biblían segir myndi hún aldrei læra að þjóna Guði og öðlast eilíft líf á jörð. Hún þáði þá biblíunám.

Eins og við var að búast var maðurinn ekki hrifinn af ákvörðun hennar. Hann bannaði henni að nota bílinn til að sækja samkomur þótt hún mætti nota hann til annarra ferða. Þrátt fyrir andstöðu hans fór hún að staðaldri fótgangandi 10 kílómetra leið til næsta ríkissalar votta Jehóva. Innan skamms vakti hugrekki hennar og einbeitni athygli annarra í bænum. Fólk fór að hlusta þegar vottarnir heimsóttu það. Sumir slógust jafnvel í för með konunni á samkomurnar. Áður en langt um leið voru vottarnir komnir með um 20 biblíunám í þessum bæ!

Vinkona þessarar konu ákvað líka að nema Biblíuna þrátt fyrir andstöðu eiginmanns síns. Henni til undrunar hvatti eiginmaður konunnar, sem fyrst byrjaði að nema, hana til þess. Eftir að sá hafði talað við manninn hennar lét hann af andstöðunni. Þannig atvikaðist það að sáðkorn sannleikans tók að spíra eftir 20 ár, og yfir 15 manns nema Biblíuna og sækja kristnar samkomur, þeirra á meðal konurnar tvær sem nú eru orðnar boðberar fagnaðarerindisins.