Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Var Guð hlutdrægur þegar hann valdi menn í hið stjórnandi ráð fyrstu aldar sem voru allir af sama kynþætti og þjóðerni — það er að segja allir Gyðingar?

Vissulega ekki. Allir fyrstu lærisveinar Jesú voru Gyðingar. Síðan, á hvítasunnunni árið 33, voru Gyðingar og umskornir trúskiptingar þeir fyrstu til að fá smurningu heilags anda og eiga þess kost að ríkja með Kristi á himnum. Það var ekki fyrr en síðar að Samverjar og óumskornir menn af þjóðunum, sem tekið höfðu kristna trú, voru teknir með. Þess vegna er skiljanlegt að hið stjórnandi ráð á þeim tíma væri skipað Gyðingum, ‚postulunum og öldungunum í Jerúsalem‘ eins og nefnt er í Postulasögunni 15:2. Þessir menn höfðu breiðari þekkingargrunn í Ritningunni en aðrir og víðtækari reynslu af sannri tilbeiðslu og höfðu haft meiri tíma til að ná þroska sem kristnir öldungar. — Samanber Rómverjabréfið 3:1, 2.

Þegar fundur hins stjórnandi ráðs var haldinn, sem 15. kafli Postulasögunnar greinir frá, höfðu margir heiðingjar tekið kristna trú, þeirra á meðal Afríkubúar, Evrópubúar og fólk víðar að. En það eru engar heimildir fyrir því að nokkrum mönnum af þjóðunum hafi verið bætt við hið stjórnandi ráð á þeim tíma til að láta kristnina höfða betur til þeirra sem ekki voru Gyðingar. Þessir kristnu menn af þjóðunum, sem höfðu nýlega tekið trú, voru jafnir hinum sem hluti af „Ísrael Guðs,“ en þeir hafa samt virt þroska og meiri reynslu kristinna Gyðinga, svo sem postulanna, er tilheyrðu hinu stjórnandi ráði á þeim tíma. (Galatabréfið 6:16) Taktu eftir í Postulasögunni 1:21, 22 hve mikils metin slík reynsla var. — Hebreabréfið 2:3; 2. Pétursbréf 1:18; 1. Jóhannesarbréf 1:1-3.

Um margra alda skeið hafði Guð átt sérstök samskipti við Ísraelsþjóðina og það var af henni sem Jesús valdi postula sína. Það voru engin mistök eða ranglæti að enginn postuli skyldi koma þaðan sem nú er Suður-Ameríka, Afríka eða Austurlönd fjær. Síðar fengju karlar og konur frá þessum slóðum miklu stórkostlegri sérréttindi en þau að vera postular á jörðinni, meðlimir hins stjórnandi ráðs fyrstu aldar eða að hljóta einhverja aðra útnefningu meðal fólks Guðs nú á tímum. — Galatabréfið 3:27-29.

Einn postulanna fann sig knúinn til að segja að ‚Guð færi ekki í manngreinarálit heldur tæki opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.‘ (Postulasagan 10:34, 35) Já, allir menn geta hlutdrægnislaust notið góðs af lausnarfórn Krists. Og einstaklingar af sérhverri kynkvísl og tungu og þjóð verða með í hinu himneska ríki og hluti af múginum mikla sem lifir að eilífu á jörðinni.

Margir verða mjög viðkvæmir út af kynþætti, tungumáli eða þjóðerni. Það má sjá af því sem við lesum í Postulasögunni 6:1 um mál er olli óánægju meðal grískumælandi kristinna manna og hebreskumælandi. Við höfum kannski alist upp við viðkvæmni gagnvart tungumáli, kynþætti, þjóðerni eða kynferði, eða tileinkað okkur slíkt. Þar eð sá möguleiki er fyrir hendi væri gott að við legðum okkur einbeitt fram við að móta tilfinningar okkar og viðbrögð í samræmi við afstöðu Guðs, sem er sú að allir menn séu jafnir fyrir honum, óháð ytra útliti. Þegar Guð lét skrifa niður hæfniskröfur öldunga og safnaðarþjóna minntist hann ekki á kynþætti og þjóðerni. Hann beindi athyglinni að andlegum hæfileikum þeirra sem kynnu að vera færir um að þjóna. Það gildir um safnaðaröldunga, farandumsjónarmenn og starfsfólk deildanna nú á tímum, alveg eins og var þegar Guð myndaði hið stjórnandi ráð á fyrstu öldinni.