Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar erfikenningar stangast á við sannleikann

Þegar erfikenningar stangast á við sannleikann

Þegar erfikenningar stangast á við sannleikann

HÆTTA! — VATNIÐ ER ÓHÆFT TIL DRYKKJAR. Við höfum kannski séð slíkar viðvaranir. Víða er fólk mjög gætið hvað það drekkur því það veit að vatn er sums staðar mengað hættulegum eiturefnum. Þessi mengun gerir það að verkum, að því er rannsóknarskýrsla segir, að vatn getur „borið sýkla og . . . spilliefni“ í stað þess að „vernda og viðhalda lífi.“ — Water Pollution.

Mengun sannleiksvatnsins

Erfikenningar, sem ganga í berhögg við sannleikann, eru eins og mengað vatn. Við gætum í mesta sakleysi fylgt erfikenningum — upplýsingum, skoðunum, trú eða hefðum er gengið hafa í arf mann fram af manni — sem eru í reynd mengaðar röngum, villandi hugmyndum og heimspeki. Líkt og mengað vatn geta þær valdið ólýsanlegu tjóni — andlegu tjóni.

Jafnvel þótt við teljum að trúarhefðir okkar og trúarskoðanir byggist á Biblíunni ættum við öll að taka okkur tíma til að rannsaka þær vandlega. Munum að Marteinn Lúter taldi sig styðjast við Biblíuna þegar hann fylgdi erfikenningum samtíðarinnar og fordæmdi Kóperníkus. Lúter fylgdi ekki góðu fordæmi Berojumanna til forna sem voru ‚veglyndir og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.‘ — Postulasagan 17:10, 11.

Hugsaðu þér hvílíku tjóni erfikenningar ollu sumum Gyðingum á dögum Jesú. Þeir trúðu innilega að erfikenningar þeirra væru sannar og réttar. Er þeir mótmæltu því að lærisveinar Jesú skyldu ekki halda erfikenningarnar spurði hann þá á móti: „Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?“ (Matteus 15:1-3) Hvað hafði farið úrskeiðis? Jesús benti á vandann er hann vitnaði í orð Jesaja spámanns: „Til einskis dýrka þeir [Guð], er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ — Matteus 15:9; Jesaja 29:13.

Já, þeir tóku kenningar manna, eða það sem verra var, kenningar ættaðar frá illum öndum, fram yfir sannleika frá Guði. Bókin Innsýn í Ritningarnar, 1. bindi, bls. 506, útskýrir til dæmis: „Farísear þess tíma kenndu að sá sem lýst hefði eigur sínar ‚korban,‘ eða gjöf helgaða Guði, mætti ekki nota þær til að sinna þörfum foreldra sinna, hversu þurfandi sem þeir væru, en hins vegar gæti hann, ef hann vildi, notað slíkar eigur í eigin þágu uns hann dæi.“ Mannasetningar, sem menguðu sannleiksvötnin, höfðu áhrif á andleg viðhorf Gyðinga. Þorri þeirra hafnaði jafnvel hinum langþráða Messíasi.

Kristni heimurinn eykur á mengunina

Sams konar andlegt tjón var unnið eftir dauða Jesú. Margir, sem sögðust vera fylgjendur hans, skírskotuðu til munnlegra erfikenninga til að styðja nýjar kenningar. Samkvæmt biblíualfræðibókinni Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature eftir McClintock og Strong álitu sumir svokallaðir kristnir menn að slíkar erfikenningar væru „fyrirmæli sem fyrstu kristnu kirkjurnar hefðu þegið af munni postulanna, hefðu erfst frá postulatímanum og varðveist ómengaðar fram á þeirra dag.“ — Leturbreyting okkar.

Í reynd voru margar þessara erfikenninga mengaðar og hreinlega rangar. Eins og Cyclopedia útskýrir voru þessar nýju heimspekikenningar „ekki bara frábrugðnar öðrum erfikenningum heldur líka sjálfum ritum postulanna sem menn höfðu undir höndum.“ Þetta kom ekki að öllu leyti á óvart. Páll postuli hafði varað kristna menn við: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8.

Núna eru líka margar hefðbundnar trúarskoðanir ‚frábrugðnar sjálfum ritum postulanna.‘ Kristni heimurinn hefur eitrað sannleiksvötnin með ótal hugmyndum ættuðum frá illum öndum, svo sem kenningum um þrenningu, vítiseld, ódauðleika mannssálarinnar, þjóðernishyggju og skurðgoðadýrkun. * (1. Tímóteusarbréf 4:1-3) Sagan ber vitni um þá andlegu sýki er greip fólk sem varð fórnarlömb kenninga illra anda, og eru nú orðnar hefðbundnar kenningar kristna heimsins. — Samanber Jesaja 1:4-7.

Sannleikanum hefur reyndar verið spillt þannig frá upphafi mannkynssögunnar. Satan hefur haldið áfram því sem hann hóf í Eden, það er að segja að menga hugi manna með lygum og blekkingum. (Jóhannes 8:44; 2. Korintubréf 11:3) Er mannkynið dreifðist um jörðina eftir flóðið á dögum Nóa varð fólk allra menningarsamfélaga fyrir því að þekkingarsjóðir manna voru vísvitandi mengaðir heimspeki og hugmyndum ættuðum frá illum öndum.

Áhrif andlegrar mengunar

Hvaða tjóni getur slík andleg mengun valdið? Við getum líkt henni við áhrif mengaðs vatns á líkamsheilsu okkar. Heimildarrit segir: „Um 200 milljónir manna eru fórnarlömb blóðögðusóttar [hitasóttar er veldur blóðleysi, vanlíðan, almennu heilsuleysi og jafnvel dauða] sem stafar af snertingu við mengað vatn. Fimm hundruð milljónir manna eru með augnyrju, sem er ein helsta orsök blindu, og má rekja hana til mengaðs þvottavatns. . . . Um tveir milljarðar manna hafa ekki heilnæmt drykkjarvatn.“ (Our Country, the Planet) Í andlegum skilningi hafa milljónir manna bæklast, blindast og jafnvel dáið vegna þess að þeir fylgdu erfikenningum sem voru mengaðar falskenningum illra anda. — 1. Korintubréf 10:20, 21; 2. Korintubréf 4:3, 4.

Margir eru til dæmis í óvissu eða blindir á það hvert sé samband Jesú Krists og föður hans, Jehóva Guðs. Það varð hefð meðal sumra, sem kölluðu sig kristna, að sleppa heilögu nafni Guðs, Jehóva, úr kristnu Grísku ritningunum. George Howard segir í tímaritinu Journal of Biblical Literature: „Við teljum að þessi niðurfelling fjórstafanafnsins hafi valdið ruglingi í hugum snemmkristinna manna af þjóðunum um samband ‚Drottins Guðs‘ og ‚Drottins Krists.‘“

Hugsaðu þér líka þá ringulreið, hjátrú og ótta sem sú óbiblíulega erfikenning að mannssálin sé ódauðleg hefur valdið. (Samanber Prédikarann 9:5; Esekíel 18:4.) Hve margir eru í fjötrum forfeðradýrkunar eða óttast sífellt að hinir dánu geri þeim mein? Þessi trú hefur jafnvel komið fólki til að drepa sjálft sig og aðra.

Margir Japanir halda að við dauðann hittist andar látinna fyrir handan. Sumir foreldrar, sem svipta sig lífi, hafa af þeim sökum talið best að drepa börnin sín líka. Orðabókin An English Dictionary of Japanese Ways of Thinking segir: „Sjálfsvíg er ekki alltaf fordæmt í Japan heldur er gjarnan litið á það sem viðunandi leið til að biðjast afsökunar á alvarlegum mistökum . . . Oft er jafnvel talað í samúðartón um fjölskyldusjálfsvíg.“

Prófaðu erfikenningarnar

Hvað ættum við að gera í ljósi þess hve hættulegt það er að fylgja hefðbundnum trúarskoðunum og siðum í blindni? Jóhannes postuli ráðlagði kristnum meðbræðrum sínum undir lok fyrstu aldar: „Elskaðir, trúið ekki öllum innblásnum orðum heldur reynið hin innblásnu orð [alveg eins og við myndum ganga úr skugga um hreinleika vatns] til að sjá hvort þau eru frá Guði, því að margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ (1. Jóhannesarbréf 4:1, NW; sjá einnig 1. Þessaloníkubréf 5:21.) Hvernig veistu hvort erfikenning er skaðlaus eða skaðleg? Þú þarft að hafa einhvern prófstein, einhvern mælikvarða á hreinleika til að prófa það sem þú trúir.

Biblían er slíkur mælikvarði. Jesús Kristur sagði: „Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Hann sagði einnig: „Sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23) Með því að nota orð Guðs geturðu komist að hinum hreinu vötnum sannleikans í stað mengaðra vatna þeirrar heimspeki sem er ættuð frá mönnum og illum öndum. — Jóhannes 8:31, 32; 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Mundu að það þarf ekki nema agnarlítið af mengunarefnum til að hafa hinar skelfilegustu afleiðingar. Stundum líða mörg ár áður en áhrifin koma í ljós. „Óhreint vatn er orðið lífshættulegasta efni í heimi,“ segir Shridath Ramphal, fyrrverandi forseti Alþjóðasambands um umhverfisvernd. „Að minnsta kosti 25.000 manns deyja daglega af völdum mengaðs vatns.“ Andlega mengaðar erfikenningar eru ekki síður hættulegar.

Hefurðu hugrekki til að slíta þig frá hefðbundnum trúarskoðunum, sem þú hefur aðhyllst svo árum skiptir, ef í ljós kemur að þær stangast á við sannleikann? Taktu mark á viðvörunum. Verndaðu þig og fjölskyldu þína með því að ganga úr skugga um að þær erfikenningar, sem þú fylgir, samræmist hreinu sannleiksorði Guðs. — Sálmur 19:9-12; Orðskviðirnir 14:15; Postulasagan 17:11.

[Neðanmáls]

^ Sjá bókina Rökrætt út af Ritningunni til að fá sannanir fyrir því að slíkar kenningar eigi sér enga stoð í Biblíunni. Bókin er gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sannleiksorð Guðs er eins og hrein og tær á.