Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bjargað frá vondri kynslóð‘

Bjargað frá vondri kynslóð‘

Bjargað frá vondri kynslóð‘

„Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður?“ — LÚKAS 9:41.

1. (a) Hvað boða yfirstandandi hörmungatímar? (b) Hvað segir Ritningin um björgun?

 VIÐ lifum mikla hörmungatíma. Jarðskjálftar, flóð, hungursneyð, sjúkdómar, lögleysa, sprengjutilræði, hræðileg hernaðarátök — mannkynið hefur nánast verið að drukkna í öllu þessu og mörgu fleiru núna á 20. öldinni. En mestu hörmungarnar bíða okkar þó í náinni framtíð. Hvaða hörmungar? „Sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða“ aftur. (Matteus 24:21) En mörg okkar geta hlakkað til ánægjulegrar framtíðar. Hvers vegna? Vegna þess að orð Guðs talar um ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. . . . „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu . . . Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta . . . Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“‘ — Opinberunarbókin 7:1, 9, 14-17.

2. Hvaða byrjunaruppfyllingu fengu fyrstu versin í Matteusi 24. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla?

2 Spádómslýsing Jesú á endalokatíma heimskerfisins hefst á hinni innblásnu frásögu í Matteusi 24:3-22, Markúsi 13:3-20, og Lúkasi 21:7-24. * Þessi spádómur rættist upphaflega á hinu spillta Gyðingakerfi fyrstu aldar okkar tímatals og náði hámarki í ‚mikilli þrengingu‘ hjá Gyðingum sem átti sér ekki fordæmi. Allt trúar- og stjórnmálakerfi Gyðinga, með musterið í Jerúsalem sem miðstöð, var afmáð og aldrei endurreist.

3. Af hverju er áríðandi að fara eftir spádómi Jesú núna?

3 Lítum nú á aðstæðurnar er spádómur Jesú uppfylltist í fyrra sinnið. Þá skiljum við betur hliðstæða uppfyllingu hans nú á tímum. Við sjáum hve áríðandi það er að gera viðeigandi ráðstafanir núna til að komast lífs af úr mestu þrengingu sem ógnað hefur öllu mannkyni. — Rómverjabréfið 10:9-13; 15:4; 1. Korintubréf 10:11; 15:58.

„Endirinn“ — hvenær?

4, 5. (a) Af hverju höfðu guðhræddir Gyðingar á fyrstu öld áhuga á spádóminum í Daníel 9:24-27? (b) Hvernig rættist þessi spádómur?

4 Um árið 539 fyrir okkar tímatal sá Daníel spámaður í sýn atburði sem myndu eiga sér stað á síðustu „sjöund“ tímabils sem átti að vera „sjötíu sjöundir“ ára. (Daníel 9:24-27) Þessar „sjöundir“ hófust árið 455 f.o.t. er Artaxerxes Persakonungur fyrirskipaði að Jerúsalem skyldi endurreist. Síðasta ‚sjöundin‘ hófst er hinn smurði eða Messías, Jesús Kristur, kom fram við skírn sína og smurningu árið 29. * Guðhræddum Gyðingum á fyrstu öld var vel kunnugt um þessa tímasetningu spádóms Daníels. Til dæmis segir Lúkas 3:15 um mannfjöldann sem flykktist að til að heyra prédikun Jóhannesar skírara árið 29: „Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.“

5 Sjötugasta ‚sjöundin‘ átti að vera sjö ára tímabil er Gyðingar nytu sérstakrar velvildar. Hún hófst árið 29 og náði yfir skírn Jesú og þjónustu, fórnardauða hans „um miðja sjöundina“ árið 33, og aðra ‚hálfa sjöund‘ til ársins 36. Á þessari „sjöund“ voru það eingöngu guðhræddir Gyðingar og menn, sem tekið höfðu gyðingatrú, er fengu tækifæri til að verða smurðir lærisveinar Jesú. Síðan, það er árið 70 sem ekki hafði verið tímasett fyrirfram, gereyddi rómverskur her undir stjórn Títusar hinu trúvillta Gyðingakerfi. — Daníel 9:26, 27.

6. Hvernig lét ‚viðurstyggðin‘ til skarar skríða árið 66 og hvernig brugðust kristnir menn við?

6 Prestastétt Gyðinga þurrkaðist þannig út, en hún hafði saurgað musterið í Jerúsalem og lagt á ráðin um að myrða sjálfan son Guðs. Þjóðar- og ættarskrárnar glötuðust líka. Hér eftir gat enginn Gyðingur með lögum gert tilkall til prestdóms eða konungdóms samkvæmt erfðarétti. En smurðir, andlegir Gyðingar höfðu sem betur fer verið skildir frá sem konunglegt prestafélag til að „víðfrægja dáðir“ Jehóva Guðs. (1. Pétursbréf 2:9) Þegar rómverskur her settist í fyrra sinnið um Jerúsalem árið 66 og gróf jafnvel undan musterisveggnum, gerðu kristnir menn sér ljóst að þessi her væri ‚viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standandi á helgum stað.‘ Hlýðnir spádómlegum fyrirmælum Jesú flúðu kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu og leituðu skjóls inn til fjalla. — Matteus 24:15, 16; Lúkas 21:20, 21.

7, 8. Hvaða „tákn“ sáu kristnir menn en hvað vissu þeir ekki?

7 Þessir trúföstu kristnu Gyðingar sáu spádóm Daníels uppfyllast og urðu sjónarvottar að átakanlegum styrjöldum, hungursneyð, drepsóttum, jarðskjálftum og lögleysu er Jesús hafði spáð sem hluta ‚táknsins um endalok‘ kerfisins. (Matteus 24:3) En hafði Jesús sagt þeim hvenær Jehóva Guð myndi fullnægja dómi á þessu spillta kerfi? Nei. Það sem hann spáði um hámark konunglegrar framtíðarnærveru sinnar átti vissulega einnig við um ‚hina miklu þrengingu‘ fyrstu aldar: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ — Matteus 24:36.

8 Gyðingar hefðu getað reiknað út frá spádómi Daníels hvenær Jesús kæmi fram sem hinn smurði eða Messías. (Daníel 9:25) En „sú mikla þrenging,“ sem lagði hið trúvillta Gyðingakerfi endanlega í rúst, var ekki tímasett. Það var ekki fyrr en eftir eyðingu Jerúsalem og musterisins sem þeim var ljóst að tíminn var árið 70. En þeim hafði hins vegar verið kunnugt um spádómsorð Jesú: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ (Matteus 24:34) Ljóst er að orðið „kynslóð“ er annarrar merkingar hér en í Prédikaranum 1:4 þar sem talað er um að hver kynslóðin af annarri komi og fari.

„Þessi kynslóð“ — hver er hún?

9. Hvernig skilgreina fornmálsorðabækur gríska orðið gene·aʹ?

9 Hvernig ætli postularnir fjórir, sem sátu með Jesú á Olíufjallinu, hafi skilið orðin „þessi kynslóð“ er þeir heyrðu spádóm hans um ‚endalok veraldar‘? Í guðspjöllunum er orðið „kynslóð“ þýðing gríska orðsins geneaʹ sem gildandi fornmálsorðabækur skilgreina þannig: „Bókstaflega þeir sem komnir eru af sameiginlegum forföður.“ (Walter Bauer: Greek-English Lexicon of the New Testament) „Þeir sem getnir eru, fjölskylda; . . . ættliðir hver af öðrum . . . eða ættliðir kynstofns eða þjóðar . . . eða allra manna sem uppi eru á sama tíma, Matt. 24:34; Mark. 13:30; Lúk. 1:48; 21:32; Fil. 2:15, einkum ættliðir Gyðingaþjóðarinnar sem uppi er á sama tímabili.“ (W. E. Vine: Expository Dictionary of New Testament Words) „Þeir sem getnir hafa verið, menn af sama stofni, fjölskylda; . . . allir þeir menn sem uppi eru á sama tíma: Mt. xxiv. 34; Mk. xiii. 30; Lk. i. 48 . . . einkum notað um kynstofn Gyðinga sem uppi er á einu og sama tímabili.“ — J. H. Thayer: Greek-English Lexicon of the New Testament.

10. (a) Hvaða samhljóða skilgreiningu finnum við í tveim heimildarritum sem vísa í Matteus 24:34? (b) Hvernig styðja guðfræðiorðabók og sumar biblíuþýðingar þessa skilgreiningu?

10 Vine og Thayer vitna þannig báðir í Matteus 24:34 er þeir skilgreina ‚þessa kynslóð‘ (he geneaʹ háʹte) sem ‚alla menn sem uppi eru á sama tíma.‘ Guðfræðiorðabókin Theological Dictionary of the New Testament (1964) styður þessa skilgreiningu og segir: „Með því að nota orðið ‚kynslóð‘ lætur Jesús heildartilgang sinn í ljós: hann beinir orðum sínum til þjóðarinnar í heild og er meðvita um samstöðu hennar í syndinni.“ Gyðingaþjóðin sýndi sannarlega ‚samstöðu í syndinni‘ þegar Jesús var á jörðinni, alveg eins og núverandi heimskerfi gerir. *

11. (a) Hvaða heimild ættum við fyrst og fremst að hafa að leiðarljósi til að komast að niðurstöðu um merkingu he geneaʹ háʹte? (b) Hvernig notaði þessi heimild hugtakið?

11 Kristnir menn, sem rannsaka þetta mál, taka auðvitað fyrst og fremst mið af því hvernig hinir innblásnu guðspjallamenn notuðu gríska orðasambandið he geneaʹ háʹte, „þessi kynslóð,“ er þeir greindu frá orðum Jesú. Orðasambandið var alltaf notað í neikvæðu samhengi. Jesús kallaði trúarleiðtoga Gyðinga til dæmis ‚höggorma og nöðru kyn‘ og sagði síðan að fullnægt yrði Gehennadómi á ‚þessari kynslóð.‘ (Matteus 23:33, 36) En náði dómurinn aðeins til hinna hræsnisfullu klerka? Alls ekki. Allmörgum sinnum heyrðu lærisveinar Jesú hann nota orðin ‚þessi kynslóð‘ í langtum víðtækari merkingu. Hvaða merkingu?

‚Þessi vonda kynslóð‘

12. Hvernig tengdi Jesús ‚mannfjöldann‘ og ‚þessa kynslóð‘ í áheyrn lærisveinanna?

12 Skömmu eftir páska árið 31, meðan hin mikla þjónusta Jesú í Galíleu stóð yfir, heyrðu lærisveinarnir hann segja við ‚mannfjöldann‘: „Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: ‚Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.‘ Jóhannes [skírari] kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ‚Hann hefur illan anda.‘ Mannssonurinn [Jesús] kom, át og drakk, og menn segja: ‚Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!‘“ Það var með engu móti hægt að gera þessum samviskulausa ‚mannfjölda‘ til hæfis! — Matteus 11:7, 16-19.

13. Hverja benti Jesús á og fordæmdi sem ‚þessa vondu kynslóð‘ í viðurvist lærisveinanna?

13 Síðar á árinu 31, er Jesús og lærisveinar hans héldu í aðra prédikunarferð sína um Galíleu, báðu „nokkrir fræðimenn og farísear“ hann um tákn. Hann sagði þeim og ‚fólkinu‘ sem viðstatt var: „Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar. . . . Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð.“ (Matteus 12:38-46) Greinilega tilheyrðu bæði trúarleiðtogarnir og „fólkið,“ sem skildi aldrei táknið er uppfylltist með dauða Jesú og upprisu, „þessari vondu kynslóð.“ *

14. Hvernig fordæmdi Jesús saddúkea og farísea í áheyrn lærisveina sinna?

14 Eftir páska árið 32, þegar Jesús og lærisveinarnir komu í Magadanbyggðir Galíleu, báðu saddúkear og farísear hann aftur um tákn. Hann endurtók: „Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.“ (Matteus 16:1-4) Þessir trúhræsnarar voru vissulega ámælisverðastir af því þeir voru leiðtogar hins ótrúa ‚fólks‘ er Jesús fordæmdi sem ‚þessa vondu kynslóð.‘

15. Hvaða fundi áttu Jesús og lærisveinar hans við ‚þessa kynslóð‘ rétt fyrir og eftir ummyndunina?

15 Undir lok þjónustu sinnar í Galíleu kallaði Jesús mannfjöldann og lærisveinana til sín og sagði: „Þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir.“ (Markús 8:34, 38) Ljóst er því að það var hinn mikli fjöldi iðrunarlausra Gyðinga þess tíma sem myndaði ‚þessa ótrúu, syndugu kynslóð.‘ Nokkrum dögum síðar, eftir ummyndun Jesú, komu Jesús og lærisveinar hans „til fólksins“ og maður nokkur bað hann að lækna son sinn. Jesú sagði: „Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður?“ — Matteus 17:14-17; Lúkas 9:37-41.

16. (a) Hvaða fordæmingu á ‚fólkinu‘ endurtók Jesús í Júdeu? (b) Hvernig drýgði „þessi kynslóð“ alversta glæpinn?

16 Það var líklega í Júdeu, eftir laufskálahátíðina árið 32 er „fólkið þyrptist“ að Jesú, að hann endurtók fordæmingu sína og sagði: „Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.“ (Lúkas 11:29) Að lokum, þegar trúarleiðtogarnir leiddu Jesú fyrir rétt, bauðst Pílatus til að láta hann lausan. Frásagan segir: „Æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur. . . . Pílatus spyr: ‚Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?‘ Þeir segja allir: ‚Krossfestu hann.‘ Hann spurði: ‚Hvað illt hefur hann þá gjört?‘ En þeir æptu því meir: ‚Krossfestu hann!‘“ Þessi ‚vonda kynslóð‘ krafðist blóðs Jesú. — Matteus 27:20-25.

17. Hvernig brugðust sumir af „þessari rangsnúnu kynslóð“ við prédikun Péturs á hvítasunnunni?

17 ‚Vantrúuð og rangsnúin kynslóð,‘ eggjuð áfram af trúarleiðtogunum, átti þannig stóran þátt í að Drottinn Jesús Kristur var líflátinn. Fimmtíu dögum síðar, á hvítasunnunni árið 33, fengu lærisveinarnir heilagan anda og tóku að tala ólíkum tungum. Við hljóðið „dreif að fjölda manns“ og Pétur postuli ávarpaði þá sem ‚Gyðinga og alla Jerúsalembúa‘ og sagði: „Þér létuð heiðna menn negla hann [Jesú] á kross og tókuð hann af lífi.“ Hvernig brugðust sumir áheyrendanna við? Það „var sem stungið væri í hjörtu þeirra.“ Pétur hvatti þá til að iðrast. Hann „vitnaði . . . áminnti þá og sagði: ‚Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.‘“ Það varð til þess að um þrjú þúsund manns ‚veittu orði hans viðtöku og voru skírðir.‘ — Postulasagan 2:6, 14, 23, 37, 40, 41.

Borin kennsl á ‚þessa kynslóð‘

18. Hvað átti Jesús alltaf við með orðunum „þessi kynslóð“?

18 En hver er þá ‚kynslóðin‘ sem Jesús nefndi svo oft í áheyrn lærisveinanna? Hvernig skildu þeir orð hans: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram“? Jesús var áreiðanlega ekki að víkja frá viðtekinni notkun hugtaksins „þessi kynslóð“ sem hann notaði æ ofan í æ um hinn mikla fjölda samtíðarmanna sinna ásamt ‚blindum leiðtogum‘ þeirra er samanlagt mynduðu Gyðingaþjóðina. (Matteus 15:14) Öll sú ógæfa, sem Jesús sagði fyrir, dundi á ‚þessari kynslóð‘ og hún leið síðan undir lok í ‚mikilli þrengingu‘ yfir Jerúsalem sem átti sér ekkert fordæmi. — Matteus 24:21, 34.

19. Hvenær og hvernig leið „himinn og jörð“ Gyðingakerfisins undir lok?

19 Jehóva var að dæma Gyðingaþjóðina á fyrstu öld. Iðrunarfullir menn, sem trúðu á miskunnarráðstöfun Jehóva fyrir milligöngu Krists, björguðust úr þessari ‚miklu þrengingu.‘ Allt sem Jesús hafði spáð rættist nákvæmlega og síðan liðu „himinn og jörð“ Gyðingakerfisins undir lok — þjóðin öll ásamt trúarleiðtogum sínum og óguðlegu mannfélagi. Jehóva hafði fullnægt dómi! — Matteus 24:35; samanber 2. Pétursbréf 3:7.

20. Hvaða áríðandi áminning á erindi til allra kristinna manna?

20 Þeir Gyðingar, sem höfðu gefið spádómsorðum Jesú gaum, gerðu sér ljóst að hjálpræði þeirra var ekki undir því komið að reyna að reikna út hve löng ‚kynslóðin‘ væri eða dagsetja einhverja „tíma eða tíðir,“ heldur að halda sér aðgreindum frá illri kynslóð samtíðarinnar og vera kostgæfnir í að gera vilja Guðs. Enda þótt lokaorð spádóms Jesú eigi við aðaluppfyllinguna á okkar tímum urðu kristnir Gyðingar á fyrstu öld líka að fara eftir áminningunni: „Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ — Lúkas 21:32-36; Postulasagan 1:6-8.

21. Hvaða skyndilegra atburða megum við vænta í náinni framtíð?

21 Núna er ‚hinn mikli dagur Jehóva nálægur og hraðar sér mjög.‘ (Sefanía 1:14-18; Jesaja 13:9, 13) Skyndilega, á fyrirfram ákveðnum ‚degi og stund‘ Jehóva, gefur hann reiði sinni lausan tauminn gegn trúar-, stjórnmála- og viðskiptaöflum heimsins, og þrjósku fólki sem myndar þessa ‚vondu og ótrúu kynslóð‘ samtíðarinnar. (Matteus 12:39; 24:36; Opinberunarbókin 7:1-3, 9, 14) Hvernig getur þú bjargast úr „þrengingunni miklu“? Því er svarað í greininni á eftir og þar er fjallað um stórkostlega framtíðarvon.

[Neðanmáls]

^ Ítarlegt yfirlit yfir spádóminn er að finna í Varðturninum 1. júlí 1994, bls. 14 og 15.

^ Nánari upplýsingar um ‚árasjöundirnar‘ er að finna á bls. 130-2 í bókinni Biblían — orð Guðs eða manna?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Sumar Biblíur þýða he geneaʹ háʹte í Matteusi 24:34 á eftirfarandi hátt: „þetta fólk“ (W. F. Beck: The Holy Bible in the Language of Today [1976]; D. H. Stern: Jewish New Testament [1979]); „þessi þjóð“ (K. S. Wuest: The New Testament — An Expanded Translation [1961]).

^ Þetta trúlausa ‚fólk‘ er ekki hið sama og ʽam-haʼaʹrets, „fólk landsins,“ sem hinir stoltu trúarleiðtogar vildu ekki leggja lag sitt við en Jesús ‚kenndi í brjósti um.‘ — Matteus 9:36; Jóhannes 7:49.

Hverju svarar þú?

◻ Hvað lærum við af uppfyllingu Daníels 9:24-27?

◻ Hvernig skilgreina gildandi fornmálsorðabækur ‚þessa kynslóð‘ eins og orðasambandið er notað í Biblíunni?

◻ Hvernig notaði Jesús alltaf orðið „kynslóð“?

◻ Hvernig uppfylltist Matteus 24:34, 35 á fyrstu öld?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Jesús líkti ‚þessari kynslóð‘ við hóp óstýrilátra barna.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Aðeins Jehóva vissi fyrirfram hvenær dómi yrði fullnægt á hinu illa Gyðingakerfi.