Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hljóta erfikenningar að stangast á við sannleikann?

Hljóta erfikenningar að stangast á við sannleikann?

Hljóta erfikenningar að stangast á við sannleikann?

MARTEINN LÚTER var sannfærður um að hann hefði rétt fyrir sér. Hann taldi sig hafa stuðning Biblíunnar. Pólski stjörnufræðingurinn Kóperníkus áleit hins vegar að erfikenning samtíðarinnar væri röng.

Hvaða kenning? Að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Sannleikurinn væri sá, sagði Kóperníkus, að jörðin gengi um sól. Lúter vísaði því á bug og sagði: „Fólk leggur eyrun við framagjörnum stjörnuspekingi sem hefur reynt að sýna fram á að jörðin snúist, en ekki himinninn eða festingin, sólin og tunglið.“ — History of Western Philosophy.

ERFIKENNINGAR og hefðbundnar trúarskoðanir hafa oft stangast á við staðreyndir, við sannleikann. Þær geta jafnvel komið fólki til að gera ýmislegt skaðlegt.

Erfikenningar ganga auðvitað ekki alltaf í berhögg við sannleikann. Páll postuli hvatti kristna samtíðarmenn sína meira að segja til að fylgja þeim erfikenningum sem þeir hefðu tekið við: „Ég hrósa yður fyrir það, að þér . . . haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.“ — 1. Korintubréf 11:2; sjá einnig 2. Þessaloníkubréf 2:15; 3:6.

Hvað átti Páll við með ‚kenningum‘? Bókin Innsýn í Ritningarnar, 2. bindi, bls. 1118, bendir á að gríska orðið paraʹdosis, sem Páll notaði og þýtt er „kenning“ hér, merki það sem „miðlað er munnlega eða skriflega.“ Erfikenningu má skilgreina sem arfsögn, munnmæli, siði eða erfðavenju sem gengið hefur mann fram af manni eða er orðin viðtekin hugsun eða hátterni. * Þar eð sú ‚erfikenning,‘ sem Páll postuli flutti, var vel ættuð áttu kristnir menn að halda hana.

Augljóst er þó að erfikenningar geta bæði verið sannar eða ósannar, góðar eða slæmar. Breski heimspekingurinn Bertrand Russell hrósar til dæmis mönnum eins og Kóperníkusi á 16. öld sem væru nógu heiðarlegir og hugrakkir til að véfengja hefðbundna trú. Slíkir menn „gerðu sér ljóst að það sem trúað hafði verið frá alda öðli gat verið rangt.“ Sérð þú líka viskuna í því að fylgja ekki erfikenningum í blindni? — Samanber Matteus 15:1-9, 14.

Hvað þá um trúarlegar hefðir og erfikenningar? Getum við gengið að því sem gefnum hlut að þær séu réttar og skaðlausar? Hvernig getum við fullvissað okkur um það? Hvað ættum við að gera ef við komumst að raun um að erfikenningar og erfðavenjur á vettvangi trúarinnar ganga í berhögg við sannleikann? Greinin á eftir fjallar um þessar spurningar.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rétthafi myndar on page 2]

Cover: Jean-Leon Huens © National Geographic Society

[Rétthafi myndar on page 3]

Universität Leipzig