Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tími til að vaka

Tími til að vaka

Tími til að vaka

„Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið. . . . En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — MARKÚS 13:10, 13.

1. Af hverju ættum við að vera þolgóð og hugrökk?

 ÞOLGÆÐI er nauðsyn — meðal trúlausrar og rangsnúinnar kynslóðar. Frá 1914 hefur kynslóð manna spillst alveg eins og á dögum Jesú. Og núna nær spillingin um allan heim. Núna á „síðustu dögum“ hrjá „örðugar tíðir“ mannkynið eins og Páll postuli lýsti. ‚Vondir menn og svikarar magnast í vonskunni.‘ Ljóst er að „allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins, sem gerir núna úrslitatilraun til að eyða jörðina. En verið hughraust! ‚Mikil þrenging‘ nálgast er verður varanlegur léttir öllum sem unna réttlætinu. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; 1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 7:14.

2. Hvernig uppfylltist spádómur árið 1914?

2 Sem betur fer hefur Jehóva nú þegar krýnt Drottin Jesú Krist á himnum, en það er undanfari þess að hann fjarlægi óvini og kúgara mannkyns. (Opinberunarbókin 11:15, Biblían 1912) Athyglisverður spádómur, sem Daníel skráði, hefur uppfyllst nú á þessari öld eins og við fyrri komu Messíasar. Í Daníel 4:16, 17, 32 er okkur sagt frá því að hlé hafi verið gert á réttmætum konungdómi yfir jörðinni um „sjö tíðir.“ Í hinni meiri uppfyllingu svarar hver þessara sjö tíða til sjö 360 ‚daga‘ biblíuára eða alls 2520 ára. * Þetta tímabil stóð frá 607 f.o.t., þegar Babýlon tók að fótum troða Ísraelsríkið, til ársins 1914 er Jesús var settur í hásæti á himnum sem réttmætur konungur mannkyns. Þá enduðu „tímar heiðingjanna“ eða tilteknar tíðir þjóðanna. (Lúkas 21:24) En þjóðirnar hafa neitað að víkja fyrir hinu komandi Messíasarríki. — Sálmur 2:1-6, 10-12; 110:1, 2.

3, 4. (a) Hvað er líkt með atburðum fyrstu aldar og okkar tíma? (b) Hvaða spurninga er viðeigandi að spyrja?

3 Er sjötugasta áravikan (árin 29-36) nálgaðist, og eins er dró að árinu 1914, væntu guðhræddir menn komu Messíasar. Og hann kom svo sannarlega! En í báðum tilvikum var koma hans með öðrum hætti en menn höfðu vænst. Í báðum tilvikum er illri „kynslóð“ líka eytt að boði Guðs tiltölulega skömmu síðar. — Matteus 24:34.

4 Í greininni á undan tókum við eftir hvernig hin illa Gyðingakynslóð, sem krafðist blóðs Jesú, leið undir lok. Hvað þá um núverandi skaðræðiskynslóð sem er honum andsnúin eða lætur eins og hann sé ekki til? Hvenær verður dómi fullnægt á þessari trúlausu kynslóð?

„Vakið“

5. (a) Hvers vegna þurfum við ekki að vita hvenær ‚dagur og stund‘ Jehóva rennur upp? (b) Með hvaða heilræðum lauk Jesús spádómi sínum samkvæmt Markúsarguðspjalli?

5 Eftir að hafa spáð atburðum, sem yrðu undanfari ‚mikilla þrengingatíma,‘ bætti Jesús við: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:3-36; Markús 13:3-32) Við þurfum ekki að vita nákvæma tímasetningu atburðanna. Það sem skiptir máli fyrir okkur er að vera vökul, rækta með okkur sterka trú og vera önnum kafin í þjónustu Jehóva — ekki að reikna út einhverja dagsetningu. Jesús lauk hinum mikla spádómi sínum á orðunum: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn. . . . Vakið . . . Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Markús 13:33-37) Í myrkri heimsins er hætta á ferðum. Við verðum að halda okkur vakandi! — Rómverjabréfið 13:11-13.

6. (a) Hvað ætti að vera akkeri trúar okkar? (b) Hvernig getum við ‚talið daga vora‘? (c) Hvað á Jesús fyrst og fremst við með „kynslóð“?

6 Það er ekki nóg bara að gefa gaum að hinum innblásnu spádómum um síðustu daga ills heimskerfis. Dýrmæt fórn Krists Jesú og stórkostleg fyrirheit Guðs, sem byggð eru á henni, verður öðru fremur að vera akkeri trúar okkar. (Hebreabréfið 6:17-19; 9:14; 1. Pétursbréf 1:18, 19; 2. Pétursbréf 1:16-19) Fólk Jehóva bíður þess með óþreyju að sjá þetta illa heimskerfi enda og hefur stundum reynt að geta sér til hvenær ‚þrengingin mikla‘ brýst út, og jafnvel tengt slíkt útreikningum á ævilengd kynslóðar frá 1914. En við ‚öðlumst viturt hjarta,‘ ekki með því að reyna að geta okkur til um hve mörg ár eða dagar kynslóð sé heldur með því að hugleiða hvernig við getum ‚talið daga vora‘ er við lofum Jehóva glöð í bragði. (Sálmur 90:12) Jesús var ekki að setja reglu um það hvernig mæla ætti tímann heldur notaði hann orðið „kynslóð“ fyrst og fremst um samtíðarfólk sem lifir ákveðið söguskeið með öllu því sem einkennir það. *

7. Hvað skrifar prófessor í sagnfræði um „1914-kynslóðina“ og hvernig tengist það spádómi Jesú?

7 Robert Wohl, prófessor í sagnfræði, segir í bók sinni The Generation of 1914: „Í sögulegu samhengi afmarkast kynslóð ekki af tímamörkum sínum . . . Hún takmarkast ekki af vissum ártölum.“ En hann bendir á að fyrri heimsstyrjöldin hafi valdið „yfirþyrmandi viðskilnaði við fortíðina“ og bætir svo við: „Þeir sem lifðu stríðið losnuðu aldrei við þá tilfinningu að einn heimur hefði endað og annar gengið í garð í ágúst 1914.“ Þetta eru orð að sönnu og þau hitta naglann beint á höfuðið. „Þessi kynslóð“ mannkyns frá 1914 hefur orðið vitni að skelfilegum breytingum. Hún hefur séð jörðina baðaða blóði milljóna manna. Hernaður, þjóðarmorð, hryðjuverk, glæpir og lögleysa hafa gosið upp um allan heim. Hallæri, sjúkdómar og siðleysi hafa farið eins og eldur í sinu um hnöttinn. Jesús spáði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.“ — Lúkas 21:31, 32.

8. Hvernig leggja spámenn Jehóva áherslu á nauðsyn þess að halda vöku sinni?

8 Já, fullnaðarsigur Messíasarríkisins er í nánd! Er þá nokkuð unnið með því að rýna eftir ártölum eða reyna að geta sér til um bókstaflegt æviskeið ‚kynslóðar‘? Alls ekki! Habakkuk 2:3 segir greinilega: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ Reikningsskiladagur Jehóva nálgast óðfluga. — Jeremía 25:31-33; Malakí 4:1.

9. Hvaða framvinda frá 1914 sýnir að tíminn er stuttur?

9 Þegar Kristur tók að ríkja árið 1914 var Satan varpað niður til jarðar. Það hefur haft í för með sér ‚vei fyrir jörðina því að djöfullinn er stiginn niður í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.‘ (Opinberunarbókin 12:12) Þessi tími er sannarlega stuttur í samanburði við árþúsundalanga stjórn Satans. Guðsríki er í nánd og eins dagur og stund Jehóva til að fullnægja dómi á þessari vondu kynslóð! — Orðskviðirnir 3:25; 10:24, 25.

‚Kynslóðin‘ sem líður undir lok

10. Hvernig er „þessi kynslóð“ eins og kynslóðin á dögum Nóa?

10 Við skulum skoða orð Jesú í Matteusi 24:34, 35 nánar: „Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.“ Í framhaldinu segir Jesús að ‚enginn viti daginn eða stundina.‘ Og það sem enn mikilvægara er, hann bendir á að við verðum að forðast tálgryfjur sem eru allt umhverfis okkur á tímum þessarar kynslóðar. Jesús bætir þannig við: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki [„gáfu engan gaum,“ NW], fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ (Matteus 24:36-39) Jesús líkti kynslóð síns tíma hér við daga Nóa. — 1. Mósebók 6:5, 9, NW, neðanmáls.

11. Hvaða samanburð á ‚kynslóðum‘ gerir Jesús í frásögu Matteusar og Lúkasar?

11 Þetta var ekki í fyrsta sinn sem postularnir heyrðu Jesú líkja ‚kynslóðum‘ saman því að nokkrum dögum áður hafði hann sagt um sjálfan sig: „Mannssonurinn . . . á . . . margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð. Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins:“ (Lúkas 17:24-26) Bæði Matteus 24. kafli og Lúkas 17. kafli bera þetta tvennt saman. Á dögum Nóa hafði „allt hold . . . spillt vegum sínum á jörðinni“ og það var ‚þessari kynslóð‘ sem var eytt í flóðinu. Á dögum Jesú voru þeir trúvilltu Gyðingar, sem höfnuðu Jesú, ‚þessi kynslóð.‘ — 1. Mósebók 6:11, 12; 7:1.

12, 13. (a) Hver er „þessi kynslóð“ nútímans sem á að líða undir lok? (b) Hvernig takast þjónar Jehóva á við þessa ‚rangsnúnu og gjörspilltu kynslóð‘ sem er núna?

12 Í lokauppfyllingu spádóms Jesú nú á dögum er „þessi kynslóð“ greinilega þeir jarðarbúar sem sjá táknið um nærveru Krists en bæta ekki ráð sitt. Hins vegar neitum við, sem erum lærisveinar Jesú, að láta líferni ‚þessarar kynslóðar‘ hafa áhrif á okkur. Þótt við séum í heiminum megum við ekki vera hluti af honum „því að tíminn er í nánd.“ (Opinberunarbókin 1:3; Jóhannes 17:16) Páll postuli áminnir okkur: „Gjörið allt án þess að mögla og hika, til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.“ — Filippíbréfið 2:14, 15; Kólossubréfið 3:5-10; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

13 Að ‚skína eins og ljós‘ felur ekki aðeins í sér að hafa hreinan, kristinn persónuleika heldur öðru fremur að fara eftir spádómlegum fyrirmælum Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Enginn maður getur sagt til um hvenær þessi endir verður, en við vitum að endalok ‚þessarar kynslóðar‘ vondra manna á sér stað um leið og borið hefur verið vitni „allt til endimarka jarðarinnar“ í þeim mæli sem Guð vill. — Postulasagan 1:8.

‚Sá dagur og stund‘

14. Um hvað áminna bæði Jesús og Páll í sambandi við „tíma og tíðir“ og hvernig ættum við að bregðast við því?

14 Þegar borið hefur verið vitni um heim allan í þeim mæli sem Jehóva ætlast til rennur upp ‚dagur hans og stund‘ til að losa sig við þetta heimskerfi. Við þurfum ekki að vita daginn fyrirfram. Páll áminnti því í samræmi við fordæmi Jesú: „Um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað. Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ Tökum eftir hvað er í brennidepli hjá Páli: „Þegar menn segja.“ Já, dómi Guðs verður fullnægt skyndilega þegar menn eiga síst von á, þegar talað er um ‚frið og enga hættu.‘ Ráðlegging Páls á því vel við: „Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:1-3, 6; sjá einnig vers 7-11; Postulasagan 1:7.

15, 16. (a) Af hverju ættum við ekki að halda að Harmagedón sé fjarlægara en við héldum kannski áður? (b) Hvernig verður drottinvald Jehóva miklað í náinni framtíð?

15 Þýðir þessi nákvæmari skilningur á ‚kynslóðinni‘ að Harmagedón sé fjær en við höfum haldið? Alls ekki! Enda þótt við höfum aldrei vitað ‚daginn og stundina‘ hefur Jehóva Guð alltaf vitað tímann og hann hefur ekki breytt sér. (Malakí 3:6) Augljóst er að heimurinn stefnir hraðbyri í átt til endanlegrar tortímingar. Þörfin á að halda vöku sinni er brýnni en nokkru sinni fyrr. Jehóva hefur opinberað okkur „það sem verða á innan skamms,“ og við ættum að vera glaðvakandi fyrir mikilvægi tímans. — Opinberunarbókin 1:1; 11:18; 16:14, 16.

16 Er tíminn nálgast skulum við halda vöku okkar því að Jehóva er í þann mund að kalla ógæfu yfir allt kerfi Satans! (Jeremía 25:29-31) Jehóva segir: „Ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ (Esekíel 38:23) Þessi ‚úrslitadagur Jehóva‘ er í nánd! — Jóel 1:15; 2:1, 2; Amos 5:18-20; Sefanía 2:2, 3.

Réttlátur ‚nýr himinn og ný jörð‘

17, 18. (a) Hvernig líður „þessi kynslóð“ undir lok að sögn Jesú og Péturs? (b) Af hverju ættum við að halda vöku okkar í sambandi við breytni og guðrækni?

17 Jesús sagði um ‚allt það sem koma ætti fram‘: „Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.“ (Matteus 24:34, 35) Jesús hafði líklega í huga ‚himin og jörð‘ — valdhafa og þegna — ‚þessarar kynslóðar.‘ Pétur postuli tók svipað til orða er hann talaði um ‚þá himna, sem nú eru ásamt jörðinni,‘ sem „geymast eldinum . . . og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ Því næst lýsir hann hvernig ‚dagur Jehóva mun koma sem þjófur, og himnarnir (stjórnvöld) líða undir lok‘ ásamt spilltu mannfélagi eða ‚jörð‘ og syndaverkum hennar. Postulinn hvetur okkur síðan til ‚að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að við væntum eftir og flýtum fyrir komu dags Jehóva, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.‘ Hvað kemur í kjölfarið? Pétur beinir athygli okkar að ‚nýjum himni og nýrri jörð þar sem réttlæti býr.‘ — 2. Pétursbréf 3:7, 10-13. *

18 Þessi ‚nýi himinn,‘ stjórn Guðsríkis í höndum Krists Jesú og meðkonunga hans, mun úthella blessun yfir réttláta ‚nýja jörð,‘ nýtt mannfélag. Átt þú fyrir þér að vera hluti þessa mannfélags? Ef svo er hefurðu ástæðu til að gleðjast yfir þeirri stórkostlegu framtíð sem í vændum er! — Jesaja 65:17-19; Opinberunarbókin 21:1-5.

19. Hvaða mikilla sérréttinda getum við notið núna?

19 Já, núna er verið að safna saman réttlátri „kynslóð“ manna. Hinn smurði „trúi og hyggni þjónn“ miðlar núna menntun frá Guði í samræmi við orðin í Sálmi 78:1, 4: „Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns. . . . Vér segjum seinni kynslóð frá lofstír [Jehóva] og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.“ (Matteus 24:45-47) Hinn 14. apríl 1995 voru yfir 13.000.000 manna um heim allan viðstaddar minningarhátíðina um dauða Krists í meira en 78.000 söfnuðum í um það bil 230 löndum. Varst þú meðal þeirra? Megir þú setja trú þína á Krist Jesú og ‚ákalla nafn Jehóva til hjálpræðis.‘ — Rómverjabréfið 10:10-13.

20. Hvernig verðum við að halda vöku okkar og með hvað í vændum úr því að „tíminn er orðinn stuttur“?

20 „Tíminn er orðinn stuttur,“ sagði Páll postuli. Nú er því nauðsynlegt að halda sér sívakandi og uppteknum í starfi Jehóva um leið og við þurfum að þola hatur og prófraunir af hendi vondrar kynslóðar manna. (1. Korintubréf 7:29; Matteus 10:22; 24:13, 14) Við skulum halda vöku okkar og fylgjast með öllu því sem Biblían sagði koma yfir ‚þessa kynslóð.‘ (Lúkas 21:31-33) Með því að komast undan því öllu og standa Guði þóknanleg frammi fyrir Mannssyninum munum við að lokum hljóta eilíft líf að launum.

[Neðanmáls]

^ Ítarlegar upplýsingar um hinar „sjö tíðir“ er að finna á bls. 127-39 og 186-9 í bókinni „Til komi þitt ríki,“ gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Sjá Innsýn í Ritningarnar, 1. bindi, bls. 918, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Sjá einnig bókina Hin komandi heimsstjórn okkar — Guðsríki, bls. 152-6 og 180-1, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvernig ættum við að ‚vaka‘ er við höfum séð hvernig Daníel 4:32 uppfylltist?

◻ Hvernig benda Matteusar- og Lúkasarguðspjall á ‚þessa kynslóð‘?

◻ Hvað sjáum við er við bíðum ‚þessa dags og stundar‘ og hvernig ættum við að bregðast við?

◻ Til hvers ætti vonin um ‚nýjan himin og nýja jörð‘ að hvetja okkur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Dýrlegur ‚nýr himinn og ný jörð‘ er rétt framundan fyrir alla kynþætti manna.

[Rétthafi]

Alexandra Boulat/Sipa Press

[Rétthafi]

Til vinstri og að neðan: Luc Delahaye/Sipa Press

[Mynd á blaðsíðu 27]

Þjáðu mannkyni mun létta er þessi ofbeldisfulla, vonda kynslóð líður undir lok.