Glaðir í gleðisnauðum heimi
Glaðir í gleðisnauðum heimi
SÉ LITIÐ á það alversta hefur þetta verið öld Satans.“ Þannig hófst ritstjórnargrein í dagblaðinu The New York Times hinn 26. janúar 1995. „Aldrei áður hafa menn verið jafnfærir og jafnfúsir til að drepa milljónir annarra manna vegna kynþáttar, trúar eða stéttar.“
Ritstjórnargreinar sem þessar voru birtar í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá því að saklaus fórnarlömb stríðsins voru frelsuð úr dauðabúðum nasista. En sams konar grimmdardráp eiga sér stað enn þann dag í dag sums staðar í Afríku og Austur-Evrópu.
Fjöldamorð, þjóðernishreinsanir, ættflokkadráp — hvað sem þetta er nú kallað — veldur mikilli sorg. En mitt í slíkum hörmungum hefur mátt heyra sterkar gleðiraddir. Tökum Þýskaland á fjórða áratugnum sem dæmi.
Í apríl 1935 var Hitler og nasistaflokkur hans búinn að gera votta Jehóva ræka úr öllum opinberum störfum. Vottarnir voru líka handteknir, varpað í fangelsi og sendir í fangabúðir vegna kristins hlutleysis síns. (Jóhannes 17:16) Síðla í ágúst 1936 voru vottar Jehóva handteknir hópum saman. Í þúsundatali voru þeir sendir í fangabúðir þar sem flestir voru fram til ársins 1945, ef þeir lifðu. En hvernig brugðust vottarnir við þeirri ómannúðlegu meðferð sem þeir máttu sæta í búðunum? Þótt undarlegt kunni að virðast gátu þeir varðveitt gleði sína þrátt fyrir gleðisnautt umhverfi.
„Bjarg í foraðinu“
Breski sagnfræðingurinn Christine King átti viðtal við kaþólska konu sem var í fangabúðunum. „Ég gleymi aldrei hvernig hún komst að orði,“ sagði dr. King. „Hún lýsti í smáatriðum hve hryllilegt lífið var, hve viðbjóðslegar aðstæður hún bjó við. Og hún sagðist hafa þekkt til votta, og þessir vottar voru sem bjarg í foraðinu. Þeir voru eins og traustur klettur í allri eðjunni. Hún sagði að þeir hefðu verið þeir einu sem hræktu ekki þegar verðirnir gengu fram hjá. Þeir voru eina fólkið sem brást ekki við öllu sem dundi yfir með hatri heldur með kærleika og von og þeirri tilfinningu að það væri einhver tilgangur með öllu þessu.“
Hvað gerði vottunum kleift að vera „bjarg í foraðinu“? Óhagganleg trú á Jehóva Guð og son hans, Jesú Krist. Þess vegna tókst Hitler ekki að kæfa kristinn kærleika þeirra og gleði.
Lestu frásögur tveggja, sem komust lifandi úr fangabúðunum, af því hvernig þeir mættu þessari trúarraun fyrir 50 árum. Annar segir: „Ég ræð mér varla fyrir gleði að vita að ég skyldi njóta þeirra einstæðu sérréttinda að sanna kærleika minn og þakklæti til Jehóva við grimmilegustu aðstæður sem hægt er að hugsa sér. Enginn neyddi mig til þess! Þvert á móti, þeir sem reyndu að neyða okkur til einhvers voru óvinirnir sem reyndu með hótunum að fá okkur til að hlýða Hitler framar Guði — en árangurslaust! Ég er ekki bara glöð núna heldur var ég líka glöð innan fangelsismúranna, af því að ég hafði góða samvisku.“ — Maria Hombach, 94 ára.
Annar vottur segir: „Ég lít um öxl til fangavistarinnar með þakklæti og gleði. Árin, sem ég var í fangelsi og fangabúðum í stjórnartíð Hitlers, voru erfið og full af prófraunum. En ég hefði ekki viljað fara á mis við þau, af því að þau kenndu mér að treysta Jehóva algerlega.“ — Johannes Neubacher, 91 árs.
„Að treysta Jehóva algerlega“ — það var leyndardómurinn að baki gleðinni sem vottar Jehóva fundu fyrir. Þeir eru því glaðir þótt þeir lifi í gleðisnauðu umhverfi. Gleði þeirra sýndi sig greinilega á umdæmismótunum „Glaðir menn sem lofa Guð“ er haldin hafa verið undanfarna mánuði. Rifjum stuttlega upp það sem fram fór á þessum gleðilegu fjöldasamkomum.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Maria Hombach