Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sauðir Jehóva þarfnast ástríkrar umhyggju

Sauðir Jehóva þarfnast ástríkrar umhyggju

Sauðir Jehóva þarfnast ástríkrar umhyggju

Vitið, að [Jehóva] er Guð, . . . hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.“ — SÁLMUR 100:3.

1. Hvernig fer Jehóva með þjóna sína?

 JEHÓVA er hirðirinn mikli. Ef við erum þjónar hans lítur hann á okkur sem sauði sína og annast okkur blíðlega. Faðir okkar á himnum hughreystir okkur og hressir og leiðir um „rétta vegu fyrir sakir nafns síns.“ (Sálmur 23:1-4) Góði hirðirinn, Jesús Kristur, elskar okkur svo heitt að hann lagði lífið í sölurnar fyrir okkur. — Jóhannes 10:7-15.

2. Hvaða ástand ríkir meðal fólks Guðs?

2 Við sem njótum ástríkrar umhyggju getum tekið undir með sálmaritaranum: „Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng! Vitið, að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.“ (Sálmur 100:2, 3) Já, við erum glöð og örugg. Það er eins og við séum í fjárbyrgi með sterkum steinveggjum, óhult fyrir illskeyttum rándýrum. — 4. Mósebók 32:16; 1. Samúelsbók 24:4; Sefanía 2:6.

Fúsir hirðar hjarðarinnar

3. Hvernig fara kristnir öldungar með hjörð Guðs?

3 Það er engin furða að við skulum vera glaðir sem sauðir Guðs! Útnefndir öldungar taka forystuna á meðal okkar. Þeir eru ekki ‚drottnarar,‘ drottna ekki yfir okkur og reyna ekki að ráðskast með trú okkar. (4. Mósebók 16:13; Matteus 20:25-28; 2. Korintubréf 1:24; Hebreabréfið 13:7) Þeir eru kærleiksríkir hirðar sem fara eftir ráðleggingum Péturs postula: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:2, 3) Páll postuli sagði samöldungum sínum: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.“ Og sannarlega eru sauðirnir þakklátir fyrir að þessir menn, sem heilagur andi hefur skipað, skuli fara mildilega með hjörðina! — Postulasagan 20:28-30.

4. Hvers konar samband við hjörðina hafði Charles T. Russell og var þekktur fyrir?

4 Jesús gaf söfnuðinum „gjafir í mönnum,“ suma sem ‚hirða‘ er fara mildum höndum um hjörð Jehóva. (Efesusbréfið 4:8, 11, NW) Einn þessara manna var Charles T. Russell, fyrsti forseti Varðturnsfélagsins. Hann var kallaður „Pastor“ Russell vegna umhyggju sinnar og kærleika sem hirðir hjarðarinnar undir umsjón aðalhirðisins, Jesú Krists. * Núna eru kristnir öldungar skipaðir af hinu stjórnandi ráði votta Jehóva og þess er gætt að nota orð eins og „öldungur“ eða „kennari“ ekki sem titla. (Matteus 23:8-12) Engu að síður stunda nútímaöldungar hjarðgæslu, hirðastarf í þágu sauðanna sem eru gæsluhjörð Jehóva.

5. Af hverju ættu nýir að kynnast hinum útnefndu öldungum kristna safnaðarins?

5 Sem hirðar gegna öldungarnir þýðingarmiklu hlutverki í andlegum framförum hinna nýju. Þess vegna segir nýja bókin, Þekkingin sem leiðir til eilífs lífs, á blaðsíðu 168: „Gerðu þér far um að kynnast útnefndu öldungunum í söfnuðinum. Þeir hafa mikla reynslu í að beita þekkingunni á Guði þar sem þeir hafa uppfyllt hæfniskröfurnar til umsjónarmanna sem settar eru fram í Biblíunni. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Hikaðu ekki við að snúa þér til einhvers þeirra ef þú þarfnast andlegrar hjálpar til að sigrast á ávana eða losa þig við eiginleika sem stangast á við kröfur Guðs. Þú munt komast að raun um að öldungarnir fylgja áminningu Páls: ‚Hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.‘ — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8; 5:14.“

Þegar nýir vilja prédika

6. Hvernig er farið að ef biblíunemandi vill verða boðberi Guðsríkis?

6 Eftir að biblíunemandi hefur aflað sér þekkingar og sótt samkomur um hríð vill hann kannski verða boðberi Guðsríkis, prédikari fagnaðarerindisins. (Markús 13:10) Ef svo er ætti votturinn, sem nemur Biblíuna með honum, að hafa samband við umsjónarmann í forsæti sem fær öldung úr þjónustunefnd safnaðarins og annan öldung til að eiga fund með biblíunemandanum og kennara hans. Umræðurnar eru byggðar á bókinni Skipulag til að fullna þjónustu okkar, bls. 98 og 99. Ef öldungarnir tveir komast að raun um að hinn nýi trúir undirstöðukenningum Biblíunnar og hefur lagað sig að meginreglum Guðs, þá verður honum sagt að hann sé hæfur til að taka þátt í boðunarstarfinu meðal almennings. * Þegar hann skilar starfsskýrslu er hún færð inn á boðberakort merkt honum í spjaldskrá safnaðarins. Hinn nýi getur nú skýrt frá starfi sínu ásamt þeim milljónum annarra sem ‚boða orð Guðs‘ glaðir í lund. (Postulasagan 13:5) Söfnuðinum er síðan tilkynnt að hann sé óskírður boðberi.

7, 8. Á hvaða vegu má veita óskírðum boðbera nauðsynlega hjálp í boðunarstarfinu?

7 Óskírður boðberi þarfnast hjálpar öldunganna og annarra þroskaðra kristinna manna. Til dæmis hefur námsstjórinn í bóknámshópnum, sem hann sækir, áhuga á andlegum framförum hans. Nýja boðberanum finnst kannski erfitt að tala á áhrifaríkan hátt í starfinu hús úr húsi. (Postulasagan 20:20) Hann þiggur líklega hjálp feginshendi, einkum frá þeim sem haft hefur biblíunámið með honum í Þekkingarbókinni. Slík hjálp í verki er vel við hæfi því að Jesús Kristur bjó lærisveina sína undir boðunarstarfið. — Markús 6:7-13; Lúkas 10:1-22.

8 Góður undirbúningur er nauðsynlegur til að starf okkar sé árangursríkt. Þess vegna gætu boðberarnir tveir hist fyrst til að æfa kynningar sem stungið er upp á í hinni mánaðarlegu Ríkisþjónustu. Þegar þeir hefja starfið gæti reyndari boðberinn talað við fyrstu dyrnar og kannski aðrar. Eftir vingjarnleg inngangsorð gætu báðir boðberarnir átt þátt í að bera vitni. Nokkurra vikna samstarf úti á akrinum getur skilað sér í góðum endurheimsóknum og jafnvel heimabiblíunámi með hjálp bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Reyndari boðberinn gæti stjórnað náminu um tíma og síðan falið nýja boðberanum umsjónina. Það er mjög gleðilegt fyrir báða boðberana ef biblíunemandinn sýnir að hann kann að meta þekkinguna á Guði og tekur framförum!

9. Hvaða ráðstafanir eru gerðar þegar boðberi vill láta skírast?

9 Þegar óskírður boðberi tekur andlegum framförum vígist hann kannski Guði í bæn og vill láta skírast. (Samanber Markús 1:9-11.) Hann ætti að láta umsjónarmanninn í forsæti vita að hann langi til að skírast, sem fær síðan öldunga til að fara með honum yfir spurningarnar í bæklingnum Grundvallarkenningar Biblíunnar. Spurningunum er skipt í fjóra kafla og ættu þrír öldungar, ef mögulegt, að fara yfir þá með honum í þrennu lagi. Ef þeir eru sammála um að óskírði boðberinn hafi allgóðan skilning á kenningum Biblíunnar og sé að öðru leyti hæfur, þá segja þeir honum að hann megi láta skírast. Með vígslu sinni og skírn fær hann „merki“ til hjálpræðis. — Esekíel 9:4-6.

Sérþörfum fullnægt

10. Hvernig eykur sá maður biblíuþekkingu sína sem hefur lokið námi í Þekkingarbókinni og látið skírast?

10 Eftir að einstaklingur hefur lokið biblíunámi sínu í Þekkingarbókinni og er skírður þarf kannski ekki að nema aðra bók formlega með honum, svo sem bókina Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði. * Hinn nýskírði lærir að sjálfsögðu margt er hann býr sig undir kristnar samkomur og sækir þær reglulega. Hann viðar einnig að sér viðbótarþekkingu er sannleiksþorsti fær hann til að lesa og nema kristin rit einn saman og ræða biblíuleg mál við trúbræður sína. En hvað þá ef sérþarfir skapast?

11. (a) Hvernig hjálpuðu Akvílas og Priskilla Apollósi? (b) Hvaða hjálp mætti veita nýlega skírðum ungum votti sem hyggur á hjónaband?

11 Jafnvel Apollós, sem var „fær í ritningunum“ og kenndi kostgæfilega um Jesú, naut góðs af er þau Priskilla og Akvílas, sem voru vel reynd í trúnni, „tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.“ (Postulasagan 18:24-26; samanber Postulasöguna 19:1-7.) Setjum sem svo að ungur, nýskírður vottur sé að hugsa um tilhugalíf og hjónaband. Reyndari kristinn maður gæti hjálpað honum að finna upplýsingar um þessi mál í ritum Varðturnsfélagsins. Til dæmis eru gagnlegar upplýsingar um þetta í sjöunda hluta bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga. * Boðberinn, sem nam Biblíuna með nýja vottinum, gæti farið yfir þetta efni með honum þótt hann hafi ekki reglulegt nám með honum.

12. Hvaða aðstoð mætti veita nýlega skírðum hjónum sem eiga í erfiðleikum?

12 Tökum annað dæmi. Setjum sem svo að nýskírð hjón eigi í erfiðleikum með að fara eftir meginreglum Guðs. Þau gætu leitað til öldungs sem gæti notað fáein kvöld með þeim í biblíuumræður og beint athygli þeirra að upplýsingum í ritum Varðturnsfélagsins. En öldungurinn myndi ekki taka aftur upp reglulegt biblíunám með hjónunum.

Ef nýskírður boðberi syndgar

13. Af hverju ættu safnaðaröldungar að vera miskunnsamir við nýlega skírðan boðbera sem hefur villst af leið en iðrast?

13 Öldungar líkja eftir hirðinum mikla, Jehóva, sem segir: „Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga . . . binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika.“ (Esekíel 34:15, 16; Efesusbréfið 5:1) Það var í anda þessa sem lærisveinninn Júdas hvatti til miskunnar eða mildi í garð smurðra kristinna manna sem voru efablandnir eða höfðu syndgað. (Júdasarbréfið 22, 23) Þar eð við getum réttilega vænst miklu meira af reyndum kristnum mönnum ætti vissulega að miskunna nýskírðum votti — sem er bara lamb — ef hann syndgar en iðrast. (Lúkas 12:48; 15:1-7) Öldungar, sem ‚dæma í umboði Jehóva,‘ sýna því þessum sauðum ástríka umhyggju og leiðrétta þá með hógværð eða mildi. — 2. Kroníkubók 19:6; Postulasagan 20:28, 29; Galatabréfið 6:1. *

14. Hvað ætti að gera þegar nýlega skírður boðberi drýgir alvarlega synd, og hvernig er hægt að hjálpa honum?

14 Segjum að nýlega skírður boðberi, sem átti áður við áfengisvandamál að stríða, hafi drukkið of mikið einu sinni eða tvisvar. Eða segjum að hann hafi sigrast á langvarandi tóbaksnotkun en látið einu sinni eða tvisvar undan freistingunni til að reykja. Jafnvel þótt nýi bróðirinn hafi beðið Guð fyrirgefningar ætti hann að leita hjálpar öldungs þannig að syndin verði ekki að venju. (Sálmur 32:1-5; Jakobsbréfið 5:14, 15) Þegar hann nefnir synd sína við einn af öldungunum ætti sá öldungur að reyna að leiðrétta hann á miskunnsaman hátt. (Sálmur 130:3) Kannski nægja biblíulegar ráðleggingar til að hjálpa honum að láta fætur sína feta beinar brautir þaðan í frá. (Hebreabréfið 12:12, 13) Þessi öldungur myndi ræða málsatvik við öldung í forsæti í söfnuðinum til að ákveða hvaða frekari aðstoð ætti að veita.

15. Hvað gæti verið nauðsynlegt í sumum tilvikum þegar nýlega skírður boðberi syndgar?

15 Í sumum tilvikum þarf kannski að gera meira. Ef talið er að óorð komist á söfnuðinn, hjörðinni stafi hætta af eða önnur alvarleg vandamál eru á ferðinni myndi öldungaráðið fela tveim öldungum að rannsaka málið. Komist þeir að raun um að málið sé það alvarlegt að skipa þurfi dómnefnd ættu þeir að greina öldungaráðinu svo frá. Öldungaráðið skipar þá dómnefnd til að hjálpa hinum villuráfandi. Dómnefndin ætti að koma mildilega fram við hann. Hún ætti að leggja sig fram um að leiðrétta hann með hjálp Ritningarinnar. Ef hann bregst vel við vinsamlegri viðleitni dómnefndarinnar getur hún komist að niðurstöðu um hvort ástæða sé til að hann taki ekki þátt í verkefnum á sviðinu á samkomum í ríkissalnum eða hvort leyfa eigi honum að svara á samkomum.

16. Hvað geta öldungar gert til að hjálpa þeim sem hefur villst af leið?

16 Ef hinn villuráfandi bregst vel við viðleitni nefndarinnar gætu einn eða tveir öldungar úr nefndinni ákveðið hirðisheimsóknir til hans til að styrkja trú hans og byggja upp jákvætt viðhorf til réttlátra staðla Guðs. Allir gætu þeir starfað með honum á akrinum af og til. Þeir gætu átt biblíulegar umræður við hann nokkrum sinnum og kannski notað viðeigandi greinar í Varðturninum og Vaknið!, án þess þó að koma á reglulegu biblíunámi. Með slíkri ástríkri umhyggju er vonandi hægt að styrkja þann sem villtist af leið til að standa gegn veikleikum holdsins í framtíðinni.

17. Hvað er gert ef einhver skírður, sem brotið hefur af sér, hvorki iðrast né lætur af syndugri breytni sinni?

17 Að vera nýlega skírður er auðvitað engin afsökun fyrir því að temja sér synd og iðrast ekki. (Hebreabréfið 10:26, 27; Júdasarbréfið 4) Ef einhver skírður brýtur af sér, iðrast ekki og snýr ekki baki við syndsamlegu líferni ætti að víkja honum úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:6, 11-13; 2. Þessaloníkubréf 2:11, 12; 2. Jóhannesarbréf 9-11) Þegar nauðsynlegt virðist að grípa til slíkra aðgerða velur öldungaráðið dómnefnd. Ef brottrekstur á sér stað ætti að lesa þessa stuttu tilkynningu: „ . . . hefur verið vikið úr söfnuðinum.“ *

Hjálpið þeim að „sækja fram til þroska“

18. Af hverju getum við verið viss um að nýlega skírðir kristnir menn og aðrir eigi alltaf eitthvað ólært um Jehóva og vilja hans?

18 Langflestir þjónar Guðs verða áfram í hjörðinni. Sem betur fer getum við líka öll átt sífellt nánara samband við himneskan föður okkar vegna þess að við getum alltaf lært meira um hann og vilja hans. (Prédikarinn 3:11; Jakobsbréfið 4:8) Þær þúsundir, sem létu skírast á hvítasunnunni árið 33, áttu vissulega margt ólært. (Postulasagan 2:5, 37-41; 4:4) Eins var það með menn af þjóðunum, en þeir höfðu ekki undirstöðuþekkingu á Ritningunni. Þannig var það til dæmis með þá sem létu skírast eftir ræðu Páls á Aresarhæð í Aþenu. (Postulasagan 17:33, 34) Þeir sem eru nýlega skírðir nú á dögum eiga líka margt ólært og þurfa tíma og hjálp til að styrkja þann ásetning sinn að halda áfram að gera það sem rétt er í augum Guðs. — Galatabréfið 6:9; 2. Þessaloníkubréf 3:13.

19. Hvernig er hægt að hjálpa þeim sem láta skírast að „sækja fram til þroska“?

19 Þúsundir manna skírast ár hvert og þarfnast aðstoðar þannig að þeir geti ‚sótt fram til þroska.‘ (Hebreabréfið 6:1-3, NW) Með orðum þínum, fordæmi og raunhæfri hjálp í boðunarstarfinu getur þú kannski hjálpað sumum að íklæðast nýja persónuleikanum og ‚lifa áfram í sannleikanum.‘ (3. Jóhannesarbréf 4; Kólossubréfið 3:9, 10) Ef þú ert reyndur boðberi getur verið að öldungarnir biðji þig að hjálpa nýjum trúbróður í boðunarstarfinu eða að ræða við hann um nokkur biblíuleg málefni um nokkurra vikna skeið til að styrkja trú hans á Guð, rétt mat á kristnum samkomum og svo framvegis. Sambandi hirðanna við hjörðina má líkja við föður sem hvetur og áminnir, og móður sem er mild og blíð. (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8, 11) En fáeinir öldungar og safnaðarþjónar geta ekki gert allt sem gera þarf í söfnuðinum. Við erum öll eins og fjölskylda þar sem allir hjálpast að. Við getum öll gert eitthvað til að hjálpa trúbræðrum okkar. Þú getur kannski sjálfur verið hvetjandi, hughreyst niðurdregna og þunglynda og stutt óstyrka. — 1. Þessaloníkubréf 5:14, 15.

20. Hvað getur þú gert til að útbreiða þekkinguna á Jehóva og annast gæsluhjörð hans blíðlega?

20 Mannkynið þarfnast þekkingar á Guði, og sem vottur Jehóva getur þú átt ánægjulega hlutdeild í að útbreiða hana. Sauðir Jehóva þarfnast ástríkrar umhyggju og þú getur gegnt kærleiksríku hlutverki í að veita hana. Megi Jehóva blessa þjónustu þína og megi hann umbuna þér einlæga viðleitni þína til að hjálpa sauðunum sem eru gæsluhjörð hans.

[Neðanmáls]

^ Upprunaleg merking enska orðsins pastor er hjarðmaður, fjárhirðir eða sálnahirðir og það var í þeirri merkingu sem það var notað um Charles T. Russell.

^ Þegar hér er komið sögu má hinn nýi fá eintak af bókinni Skipulag til að fullna þjónustu okkar.

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Fjallað var um slíkt fyrirkomulag til hjálpar óskírðum boðberum í greininni „Öðrum hjálpað að þjóna Guði“ í Varðturninum 1. júní 1989, bls. 27-32.

^ Ef brottrekstri er áfrýjað er beðið með tilkynninguna. Sjá bókina Skipulag til að fullna þjónustuna, bls. 147-8.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig fer Jehóva með sauði sína?

◻ Hvað er gert þegar einhvern nýjan langar til að prédika?

◻ Hvernig geta trúbræður hjálpað nýjum sem hafa sérþarfir?

◻ Hvaða hjálp geta öldungar veitt þeim sem villast af leið en iðrast?

◻ Hvernig gætir þú hjálpað nýlega skírðum boðbera að „sækja fram til þroska“?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Charles T. Russell var velþekktur sem ástríkur hirðir hjarðar Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Umhyggjsamir hirðar koma blíðlega fram við hjörð Guðs.