Treystu á Jehóva og orð hans
Treystu á Jehóva og orð hans
„Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér.“ — SÁLMUR 9:11.
1. Af hverju getum við enn treyst á Jehóva og orð hans nú á tímum?
ÞAÐ getur virst óraunhæft og óhentugt í heimi nútímans að treysta á Guð og orð hans, Biblíuna. En viska Guðs hefur staðist tímans tönn. Skapari mannsins og konunnar er höfundur hjónabandsins og fjölskyldunnar og þekkir þarfir okkar betur en nokkur annar. Frumþarfir manna hafa ekkert breyst þannig að enn þarf að fullnægja þeim mikið til með sama hætti og áður. Þótt aldagömul séu eru viturleg heilræði Biblíunnar enn besta leiðsögnin um lausn vandamála og farsælt líf. Sá sem fer eftir þeim er hamingjusamur — jafnvel í þeim margbrotna, vísindasinnaða heimi sem við lifum í.
2. (a) Hvaða góðan ávöxt hefur það að hlýða boðorðum Guðs skapað í lífi fólks hans? (b) Hverju meiru heitir Jehóva þeim sem hlýða honum og orði hans?
2 Að treysta á Jehóva og fylgja meginreglum Biblíunnar er gagnlegt dag hvern. Það sýnir sig í lífi þeirra milljóna votta Jehóva um heim allan sem hafa haft sannfæringu og hugrekki til að fylgja heilræðum Biblíunnar. Það hefur reynst þeim vel að treysta á skaparann og orð hans. (Sálmur 9:10, 11) Að hlýða boðorðum Guðs hefur gert þá að betri mönnum hvað viðvíkur hreinlæti, heiðarleika, iðjusemi, virðingu fyrir lífinu og eignum annarra og hófsemi í mat og drykk. Það hefur stuðlað að ástríku fjölskyldulífi og góðu uppeldi — þeir eru gestrisnir, þolinmóðir, miskunnsamir og fúsir til að fyrirgefa — og mörgu fleiru. Þeir hafa að mestu leyti getað umflúið slæman ávöxt eins og reiði, hatur, morð, öfund, ótta, leti, dramb, lygi, rógburð, lauslæti og siðleysi. (Sálmur 32:10) En Guð lætur sér ekki nægja að lofa þeim velfarnaði sem halda lög hans. Jesús sagði að þeir sem gengju lífsbraut kristninnar fengju „hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma . . . mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ — Markús 10:29, 30.
Forðastu að treysta veraldlegri visku
3. Hvaða vandamál eiga kristnir menn stundum við að glíma að því er snertir að halda áfram að treysta á Jehóva og orð hans?
3 Ófullkomnum mönnum hættir meðal annars til að gera lítið úr kröfum Guðs eða gleyma þeim. Þeim er mjög gjarnt að halda að þeir viti best eða að viska menntastéttarinnar í þessum heimi sé æðri og nútímalegri en viska Guðs. Þjónar Guðs geta líka farið að hugsa þannig því að þeir lifa í þessum heimi. Þegar himneskur faðir okkar hvetur okkur til að hlýða á ráð sín lætur hann einnig fylgja viðeigandi viðvaranir: „Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín, því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli. Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta. Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast [Jehóva] og forðast illt.“ — Orðskviðirnir 3:1, 2, 5-7.
4. Hve útbreidd er „speki þessa heims“ og af hverju er hún „heimska hjá Guði“?
4 Mikið er í boði af visku þessa heims og hún kemur víða að. Til eru margar menntastofnanir og „að taka saman margar bækur, á því er enginn endir.“ (Prédikarinn 12:12) Núna gefur hin svokallaða upplýsingahraðbraut tölvuheimsins fyrirheit um ótakmarkaðar upplýsingar um nálega hvað sem vera skal. En það hvorki leysir vandamál heimsins né gerir hann skynsamari að hafa alla þessa þekkingu til taks. Öllu heldur versnar heimurinn dag frá degi. Það er því skiljanlegt að Biblían skuli segja okkur að ‚speki þessa heims sé heimska hjá Guði.‘ — 1. Korintubréf 3:19, 20.
5. Hvernig varar Biblían við „speki þessa heims“?
5 Núna á lokakafla hinna síðustu daga er ekki við öðru að búast en að blekkingameistarinn mikli, Satan djöfullinn, sendi frá sér lygaholskeflu í því skyni að grafa undan trausti á sannsögli Biblíunnar. Hin æðri biblíugagnrýni hefur getið af sér fjölda bóka með alls konar getgátum er véfengja áreiðanleika og trúverðugleika Biblíunnar. Páll varaði kristinn meðbróður sinn við: „Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar, sem nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar í trúnni.“ (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Biblían varar líka við: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8.
Berstu gegn efatilhneigingunni
6. Af hverju er árvekni nauðsynleg til að efasemdir nái ekki að festa rætur í hjartanu?
6 Önnur lúmsk aðferð djöfulsins er sú að sá efasemdum í hugi manna. Hann er sífellt á höttunum eftir einhverjum veikleika í trú okkar til að notafæra sér. Hver sem verður var við efasemdir hjá sér ætti að muna að sá sem stendur á bak við þær er hinn sami og sagði við Evu: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ Þegar freistarinn var búinn að sá efasemdum í huga hennar var næsta skrefið að ljúga að henni, og hún trúði. (1. Mósebók 3:1, 4, 5) Til að láta ekki efasemdir spilla trú okkar eins og gerðist hjá Evu verðum við að vera vökul. Ef einhverjar minnstu efasemdir um Jehóva, orð hans eða skipulag eru farnar að búa um sig í hjarta þínu skaltu uppræta þær hið snarasta áður en þær grafa svo um sig að þær geta eyðilagt trú þína. — Samanber 1. Korintubréf 10:12.
7. Hvað er hægt að gera til að uppræta efasemdir?
7 Hvað er hægt að gera? Enn og aftur er svarið að treysta á Jehóva og orð hans. „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.“ (Jakobsbréfið 1:5, 6; 2. Pétursbréf 3:17, 18) Einlæg bæn til Jehóva er því fyrsta skrefið. (Sálmur 62:9) Hikaðu svo ekki við að biðja kærleiksríka umsjónarmenn safnaðarins um hjálp. (Postulasagan 20:28; Jakobsbréfið 5:14, 15; Júdasarbréfið 22) Þeir hjálpa þér að grafast fyrir um rætur efasemdanna sem geta verið stolt eða rangur hugsunarháttur af einhverju tagi.
8. Hver er oft kveikjan að fráhvarfshugmyndum og hvaða úrræði eru gegn slíku?
8 Hefurðu lesið eða hlustað á hugmyndir fráhvarfsmanna eða veraldlega heimspeki með þeim afleiðingum að eitraðar efasemdir hafa gert vart við sig? Biblían gefur þessi viturlegu ráð: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans. Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi, og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15-17) Það er athyglisvert að margir, sem gerst hafa fráhvarfsmenn, stigu fyrsta skrefið út á ranga braut með því að kvarta undan því hvernig þeim fannst farið með sig í skipulagi Guðs. (Júdasarbréfið 16) Síðar fóru þeir að finna að trúnni. Alveg eins og skurðlæknir bíður ekki boðanna að skera burt hold, sem kominn er helbruni eða drep í, skaltu vera snöggur að uppræta úr huganum sérhverja tilhneigingu til að kvarta, vera óánægður með það hvernig haldið er á málum í kristna söfnuðinum. (Kólossubréfið 3:13, 14) Losaðu þig við hvaðeina sem nærir slíkar efasemdir. — Markús 9:43.
9. Hvernig hjálpa góðar, guðræðislegar venjur okkur að vera heilbrigð í trúnni?
9 Haltu þig fast við Jehóva og skipulag hans. Líktu trúfastur eftir Pétri sem sagði einbeittur í bragði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:52, 60, 66-68) Hafðu góða áætlun fyrir nám í orði Jehóva þannig að þú haldir trúnni sterkri, eins og stórum skildi sem þú getur „slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.“ (Efesusbréfið 6:16) Vertu virkur í hinni kristnu þjónustu og færðu öðrum boðskapinn um Guðsríki. Hugleiddu daglega með þakklátum huga hvernig Jehóva hefur blessað þig. Vertu þakklátur fyrir að þú skulir hafa þekkingu á sannleikanum. Ef þú hefur góðar kristnar venjur á öllum þessum sviðum hjálpar það þér að vera hamingjusamur, þolgóður og laus við efasemdir. — Sálmur 40:5; Filippíbréfið 3:15, 16, NW; Hebreabréfið 6:10-12.
Fylgdu leiðsögn Jehóva í hjónabandinu
10. Af hverju er sérstaklega þýðingarmikið fyrir kristin hjón að leita leiðsagnar Jehóva?
10 Þegar Jehóva gerði ráðstafanir til að karl og kona byggju saman sem hjón var það ekki aðeins tilgangur hans að fylla jörðina að þægilegu marki heldur líka að auka hamingju þeirra. En synd og ófullkomleiki hafa valdið alvarlegum vandamálum í hjónabandinu. Kristnir menn eru ekki ónæmir fyrir þeim því að þeir eru líka ófullkomnir og finna fyrir álagi daglegs lífs. En í sama mæli og kristnir menn treysta á Jehóva og orð hans geta þeir verið farsælir í hjónabandi sínu og barnauppeldi. Veraldlegar athafnir eða hegðun eiga ekki heima í kristnu hjónabandi. Orð Guðs hvetur okkur: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ — Hebreabréfið 13:4.
11. Hvað ættu bæði hjónin að viðurkenna þegar leysa þarf vandamál í hjónabandinu?
11 Hjónaband, þar sem farið er eftir ráðleggingum Biblíunnar, einkennist af kærleika, tryggð og öryggi. Bæði hjónin skilja og virða meginregluna um forystu. Þegar erfiðleikar verða má oft rekja það til þess að ekki hefur verið farið eftir heilræðum Biblíunnar á einhverju sviði. Til að leysa þrálát vandamál er áríðandi að bæði hjónin einbeiti sér í einlægni að vandamálinu sjálfu og taki á því í stað þess að meðhöndla bara einkennin. Ef samræður hafa skilað litlu eða engu samkomulagi gætu hjónin beðið kærleiksríkan umsjónarmann að veita sér hlutlausa aðstoð.
12. (a) Um hvaða algeng vandamál gefur Biblían ráð? (b) Af hverju þurfa bæði hjónin að gera hlutina eins og Jehóva vill?
12 Er vandamálið tengt tjáskiptum, virðingu fyrir tilfinningum hvors annars, virðingu fyrir forystu eða ákvarðanatöku? Snýst það um uppeldi barnanna eða jafnvægi í kynlífinu? Eða eru það útgjöld fjölskyldunnar, afþreying eða félagsskapur sem veldur ágreiningi? Eruð þið ósátt um það hvort konan ætti að vinna úti eða ekki eða hvar þið eigið að búa? Hvert sem vandamálið er gefur Biblían raunhæf ráð, annaðhvort beint með lögum sínum eða óbeint með meginreglum. (Matteus 19:4, 5, 9; 1. Korintubréf 7:1-40; Efesusbréfið 5:21-23, 28-33; 6:1-4; Kólossubréfið 3:18-21; Títusarbréfið 2:4, 5; 1. Pétursbréf 3:1-7) Bæði hjónin auka hamingju sína þegar þau varast eigingjarnar kröfur og láta kærleikann blómstra í hjónabandinu. Þau verða bæði að hafa sterka löngun til að gera nauðsynlegar breytingar, að gera hlutina eins og Jehóva vill. „Sá sem gefur gætur að orðinu, hreppir hamingju, og sæll er sá, sem treystir [Jehóva].“ — Orðskviðirnir 16:20.
Unglingar — hlýðið á orð Guðs
13. Hvers vegna er ekki auðvelt fyrir kristna unglinga að vaxa upp sterkir í trúnni á Jehóva og orð hans?
13 Það er ekki auðvelt fyrir kristna unglinga að vaxa upp sterkir í trúnni með þennan illa heim allt umhverfis sig. Ein ástæðan er sú að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Unglingar sæta árásum þessa illskeytta óvinar sem getur látið hið illa virðast gott. Það að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig, eigingjörn metnaðarmál, sterk löngun í það sem er siðlaust og grimmt, og óeðlileg skemmtanafíkn — allt sameinast þetta í ríkjandi hugsunarhætti sem Biblían kallar „anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.“ (Efesusbréfið 2:1-3) Satan hefur með slægð komið þessum „anda“ inn í kennslubækur skólanna, í stóran hluta tónlistarinnar á markaðinum, í íþróttir og í annars konar skemmtiefni. Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir því að sporna gegn slíkum áhrifum með því að hjálpa börnum sínum að treysta á Jehóva og orð hans er þau vaxa úr grasi.
14. Hvernig geta unglingar ‚flúið æskunnar girndir‘?
14 Páll gaf hinum unga starfsfélaga sínum, Tímóteusi, föðurleg ráð: „Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.“ (2. Tímóteusarbréf 2:22) Enda þótt ekki séu allar „æskunnar girndir“ slæmar í sjálfu sér ættu unglingar að ‚flýja‘ þær á þann hátt að verða ekki svo uppteknir af þeim að þeir eigi lítinn sem engan tíma eftir til að sinna guðrækilegum hugðarefnum. Líkamsrækt, íþróttir, tónlist, tómstundagaman og ferðalög þurfa ekki að vera röng í sjálfu sér, en þau geta orðið snara ef þau verða að aðalatriði lífsins. Flýðu algerlega tilgangslausar samræður, sjoppuhangs, óeðlilegan áhuga á kynferðismálum, að sitja bara og láta þér leiðast og að kvarta yfir því að foreldrarnir skilji þig ekki.
15. Hvað getur gerst innan veggja heimilisins sem getur stuðlað að því að unglingar lifi tvöföldu lífi?
15 Jafnvel innan veggja heimilisins getur unglingum verið hætta búin. Ef horft er á siðlaust eða ofbeldisfullt sjónvarps- og myndbandsefni getur það vakið löngun til að gera það sem illt er. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Biblían segir: „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa.“ (Sálmarnir 97:10; 115:11) Jehóva veit af því ef einhver reynir að lifa tvöföldu lífi. (Orðskviðirnir 15:3) Þið kristnir unglingar, lítið í kringum ykkur í herberginu ykkar. Hengið þið upp veggspjöld með myndum af siðlausum stjörnum íþrótta- eða tónlistarheimsins eða hafið þið uppi heilnæma hluti til að minna ykkur á það sem gott er? (Sálmur 101:3) Eruð þið með sómasamleg föt í fataskápnum ykkar eða endurspegla sum af fötunum ykkar öfgafulla fatatísku heimsins? Djöfullinn getur klófest ykkur með slóttugum brögðum ef þið látið undan freistingunni að prófa hið illa. Biblían gefur þessi viturlegu ráð: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.
16. Hvernig geta heilræði Biblíunnar hjálpað unglingnum að gera alla, sem máli skipta, stolta af honum?
16 Biblían segir okkur að gæta að félagsskap okkar. (1. Korintubréf 15:33) Þú ættir að velja þér að félögum þá sem óttast Jehóva. Láttu ekki undan hópþrýstingi. (Sálmur 56:12; Orðskviðirnir 29:25) Vertu guðhræddum foreldrum þínum hlýðinn. (Orðskviðirnir 6:20-22; Efesusbréfið 6:1-3) Leitaðu leiðsagnar og hvatningar hjá öldungunum. (Jesaja 32:1, 2) Hafðu andleg verðmæti og markmið fyrir hugskotssjónum. Vertu vakandi fyrir tækifærum til að taka andlegum framförum og taka þátt í starfsemi safnaðarins. Þjálfaðu hendurnar til ýmissa verka. Reyndu að vaxa upp sterkur og heilbrigður í trúnni; þá sýnirðu að það er virkilega eitthvað í þig spunnið — að þú ert þess verðugur að hljóta eilíft líf í nýjum heimi Jehóva! Himneskur faðir okkar verður stoltur af þér, jarðneskir foreldrar þínir munu hafa yndi af þér og þú verður kristnum bræðrum þínum og systrum til hvatningar. Það er það sem máli skiptir! — Orðskviðirnir 4:1, 2, 7, 8.
17. Hvaða gagn hafa menn af því að treysta Jehóva og orði hans?
17 Sálmaritaranum var blásið í brjóst að segja á ljóðmáli: „[Jehóva] synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik. [Jehóva] hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.“ (Sálmur 84:12, 13) Já, allir þeir sem treysta á Jehóva og orð hans, Biblíuna, munu njóta hamingju og farsældar, ekki verða fyrir vonbrigðum og vansæld. — 2. Tímóteusarbréf 3:14, 16, 17.
Hverju svarar þú?
◻ Af hverju ættu kristnir menn ekki að treysta á „speki þessa heims“?
◻ Hvað ætti sá að gera sem finnur fyrir efasemdum?
◻ Hvernig stuðlar það að farsælu og hamingjuríku hjónabandi að gera hlutina eins og Jehóva vill?
◻ Hvernig hjálpar Biblían unglingum að ‚flýja æskunnar girndir‘?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 28]
Kristnir menn geta leitað til Jehóva og orðs hans og hafnað „speki þessa heims“ sem heimsku.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Fjölskyldur, sem treysta á Jehóva og orð hans, eru farsælar og hamingjusamar.