Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Haldið áfram að vænta mín‘

‚Haldið áfram að vænta mín‘

‚Haldið áfram að vænta mín‘

„‚Haldið því áfram að vænta mín,‘ segir Jehóva.“ — SEFANÍA 3:8, NW.

1. Hvaða viðvörun gaf spámaðurinn Sefanía og af hverju skiptir það núlifandi menn máli?

 „HINN mikli dagur [Jehóva] er nálægur.“ Þannig hljóðaði viðvörun Sefanía spámanns um miðbik sjöundu aldar f.o.t. (Sefanía 1:14) Spádómurinn rættist innan 40 eða 50 ára þegar upp rann dagur Jehóva til að fullnægja dómi á Jerúsalem og þeim þjóðum sem boðið höfðu drottinvaldi hans birginn með því að fara illa með fólk hans. Af hverju er þetta áhugavert fyrir okkur sem lifum við lok 20. aldarinnar? Við lifum á tíma þegar hinn endanlegi „mikli dagur“ Jehóva nálgast óðfluga. Alveg eins og á dögum Sefanía er „brennandi reiði“ Jehóva í þann mund að brjótast út gegn nútímahliðstæðu Jerúsalem — kristna heiminum — og öllum þeim þjóðum sem fara illa með fólk Jehóva og bjóða alheimsdrottinvaldi hans birginn. — Sefanía 1:4; 2:4, 8, 12, 13; 3:8; 2. Pétursbréf 3:12, 13.

Sefanía — hugrakkur vottur

2, 3. (a) Hvað vitum við um Sefanía og hvað bendir til að hann hafi verið hugrakkur vottur Jehóva? (b) Hvaða staðreyndir gera okkur kleift að stað- og tímasetja spámannsstarf Sefanía?

2 Lítið er vitað um spámanninn Sefanía. Nafn hans (á hebresku Tsefanjah’) merkir „Jehóva hefur falið (varðveitt).“ En ólíkt öðrum spámönnum, sem lítið er vitað um, gerði Sefanía grein fyrir ætt sinni í fjórða lið, aftur til ‚Hiskía.‘ (Sefanía 1:1; samanber Jesaja 1:1; Jeremía 1:1; Esekíel 1:3.) Það er svo óvenjulegt að flestir biblíuskýrendur telja að þessi langalangafi hans hafi verið hinn trúfasti Hiskía konungur. Ef það er rétt var Sefanía af konungaætt, og það hlýtur að hafa veitt harðri fordæmingu hans á höfðingjum Júda aukið vægi og sýnt að hann var hugrakkur vottur og spámaður Jehóva. Nákvæm þekking hans á staðháttum í Jerúsalem og því sem fram fór við hirðina bendir til að hann kunni að hafa boðað dóma Jehóva í höfuðborginni sjálfri. — Sjá Sefanía 1:8-11, NW Ref. Bi., neðanmáls.

3 Sú staðreynd er eftirtektarverð að enda þótt Sefanía hafi boðað dóma Guðs gegn hinum borgaralegu ‚höfðingjum‘ í Júda (göfugmennum eða ættarhöfðingjum) og ‚konungssonunum‘ nefndi hann konunginn aldrei í gagnrýni sinni. * (Sefanía 1:8; 3:3) Þetta bendir til að hinn ungi Jósía konungur hafi þá þegar hallast að hreinni tilbeiðslu enda þótt hann væri greinilega ekki byrjaður siðbótarviðleitni sína í ljósi þess ástands sem Sefanía fordæmdi. Allt bendir þetta til að Sefanía hafi spáð í Júda á fyrstu stjórnarárum Jósía sem ríkti frá 659 til 629 f.o.t. Vafalaust vakti kröftugt spámannsstarf Sefanía hinn unga Jósía enn betur til vitundar um skurðgoðadýrkunina, ofbeldið og spillinguna, sem var útbreidd í Júda á þeim tíma, og stuðlaði án efa síðar að herferð hans gegn skurðgoðadýrkun. — 2. Kroníkubók 34:1-3.

Ástæðurnar fyrir brennandi reiði Jehóva

4. Með hvaða orðum lýsti Jehóva reiði sinni gegn Júda og Jerúsalem?

4 Jehóva hafði fullt tilefni til að vera reiður leiðtogum og íbúum Júda og höfuðborgarinnar Jerúsalem. Hann sagði fyrir munn spámannsins Sefanía: „Ég mun útrétta hönd mína gegn Júda og gegn öllum Jerúsalembúum og afmá nafn Baals af þessum stað, nafn hofgoðanna ásamt prestunum, svo og þá er á þökunum falla fram fyrir her himinsins, og þá sem falla fram fyrir [Jehóva], en sverja um leið við Milkóm.“ — Sefanía 1:4, 5.

5, 6. (a) Hvernig var ástatt í trúmálum í Júda á dögum Sefanía? (b) Hvernig var ástandið meðal borgaralegra leiðtoga Júda og undirmanna þeirra?

5 Júda var flekkað auvirðandi frjósemisdýrkun Baals, stjörnuspeki illra anda og tilbeiðslu heiðna guðsins Milkóms. Ef Milkóm og Mólok eru einn og hinn sami, eins og sumir telja, stunduðu Júdamenn líka hinar viðbjóðslegustu barnafórnir. Slíkar trúarathafnir voru viðurstyggilegar í augum Jehóva. (1. Konungabók 11:5, 7; 14:23, 24; 2. Konungabók 17:16, 17) Skurðgoðadýrkendurnir vöktu enn meiri reiði Jehóva með því að halda áfram að sverja í nafni hans. Hann ætlaði ekki að umbera slíkan trúarlegan óhreinleika lengur heldur afmá jafnt heiðna presta sem fráhvarfspresta.

6 Borgaralegir leiðtogar Júda voru líka spilltir. Höfðingjarnir voru eins og gráðug, „öskrandi ljón“ og dómararnir sambærilegir við glorsoltna ‚úlfa.‘ (Sefanía 3:3) Undirmenn þeirra voru sakaðir um að „fylla hús Drottins síns [„herra sinna,“ NW] með ofbeldi og svikum.“ (Sefanía 1:9) Efnishyggja var í algleymingi. Margir notfærðu sér ástandið til að sanka saman auði. — Sefanía 1:13.

Efasemdir um dag Jehóva

7. Hve löngu fyrir ‚hinn mikla dag Jehóva‘ spáði Sefanía og hvernig var andlegt ástand margra Gyðinga?

7 Eins og við höfum þegar séð bendir hið hrikalega ástand í trúarlífi þjóðarinnar á dögum Sefanía til þess að hann hafi starfað sem vottur og spámaður áður en Jósía konungur hóf herferð sína gegn skurðgoðadýrkun um árið 648 f.o.t. (2. Kroníkubók 34:4, 5) Líklegt verður því að teljast að Sefanía hafi spáð að minnsta kosti 40 árum áður en ‚hinn mikli dagur Jehóva‘ rann upp yfir konungsríkið Júda. Margir Gyðingar efuðustu á þeim tíma, ‚gerðust fráhverfir‘ þjónustunni við Jehóva og misstu áhugann á henni. Sefanía talar um þá sem „eigi leita [Jehóva] né spyrja eftir honum.“ (Sefanía 1:6) Ljóst er því að Júdamenn voru sinnulausir og kærðu sig ekki um Guð.

8, 9. (a) Af hverju ætlaði Jehóva að rannsaka þá ‚menn sem lágu á dreggjum sínum‘? (b) Á hvaða hátt ætlaði Jehóva að vitja Júdabúa og borgaralegra og trúarlegra leiðtoga þeirra?

8 Jehóva kunngerði þann ásetning sinn að rannsaka þá sem sögðust vera fólk hans. Meðal þeirra, er sögðust tilbiðja hann, ætlaði hann að leita uppi þá sem efuðust í hjörtum sínum um að hann gæti eða ætlaði að láta málefni manna til sín taka. Hann sagði: „Í þann tíma mun ég rannsaka Jerúsalem með skriðljósum og vitja þeirra manna, sem liggja á dreggjum sínum, þeirra er segja í hjarta sínu: ‚[Jehóva] gjörir hvorki gott né illt.‘“ (Sefanía 1:12) Orðalagið ‚menn sem liggja á dreggjum sínum‘ (á við víngerð) vísar til manna sem hafa komið sér vel fyrir líkt og dreggjar í ámubotni, sem vilja ekki láta einhverja yfirlýsingu um yfirvofandi íhlutun Guðs í málefni manna raska ró sinni.

9 Jehóva ætlaði að vitja Júda- og Jerúsalembúa og presta þeirra sem höfðu blandað heiðni inn í tilbeiðsluna á honum. Ef þeim fannst þeir óhultir, eins og í skjóli nætur innan Jerúsalemmúra, myndi hann leita þá uppi með logandi ljósum er þrengdu sér gegnum hið andlega myrkur þar sem þeir höfðu leitað skjóls. Hann myndi hrista þá upp af trúarlegum doða þeirra, fyrst með ógnþrungnum dómsboðskap, síðan með því að fullnægja dómunum.

‚Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur‘

10. Hvernig lýsti Sefanía ‚hinum mikla degi Jehóva‘?

10 Jehóva innblés Sefanía að boða: „Hinn mikli dagur [Jehóva] er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög. Heyr! Dagur [Jehóva]! Beisklega kveinar þá kappinn.“ (Sefanía 1:14) Allir áttu beiska daga framundan — prestar, höfðingjar og almenningur — hver sá sem vildi ekki taka mark á viðvöruninni og snúa aftur til hreinnar tilbeiðslu. Spádómurinn lýsir þeim degi þegar dómi er fullnægt og heldur áfram: „Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta, dagur lúðra og herblásturs — gegn víggirtu borgunum og háu múrtindunum.“ — Sefanía 1:15, 16.

11, 12. (a) Hvaða dómur var boðaður yfir Jerúsalem? (b) Gat efnisleg velmegun bjargað Gyðingum?

11 Aðeins fáeinum áratugum síðar myndi her Babýlonar ráðast inn í Júda. Jerúsalem kæmist ekki undan. Íbúðar- og viðskiptahverfi hennar yrðu lögð í rúst. „Á þeim degi — segir [Jehóva] — mun heyrast neyðaróp frá Fiskhliðinu, kveinan úr öðru borgarhverfi og ógurlegt harmakvein frá hæðunum. Kveinið, þér sem búið í Mortélinu [hverfi í Jerúsalem], því að allur kaupmannalýðurinn er eyddur, afmáðir allir þeir, er silfur vega.“ — Sefanía 1:10, 11.

12 Margir Gyðingar, sem trúðu ekki að dagur Jehóva væri nálægur, voru á kafi í gróðavænlegum áhættuviðskiptum. En fyrir munn hins trúfasta spámanns Sefanía sagði Jehóva fyrir að auður þeirra myndi verða „að herfangi og hús þeirra að auðn.“ Þeir myndu ekki drekka vínið, sem þeir hefðu bruggað, og ‚hvorki silfur þeirra né gull fengi frelsað þá á reiðidegi Jehóva.‘ — Sefanía 1:13, 18.

Aðrar þjóðir dæmdar

13. Hvaða dóm flutti Sefanía yfir Móab, Ammón og Assýríu?

13 Fyrir munn spámannsins Sefanía lét Jehóva líka í ljós reiði sína gegn þjóðunum sem höfðu farið illa með fólk hans. Hann lýsti yfir: „Ég hefi heyrt svívirðingar Móabs og smánaryrði Ammóníta, er þeir svívirtu með þjóð mína og höfðu hroka í frammi við land þeirra. Fyrir því skal, svo sannarlega sem ég lifi — segir [Jehóva] allsherjar, Guð Ísraels — fara fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru. Þeir skulu verða að gróðrarreit fyrir netlur, að saltgröf og að óbyggðri auðn til eilífrar tíðar. . . . Og hann mun rétta út hönd sína gegn norðri og afmá Assýríu. Og hann mun leggja Níníve í eyði, gjöra hana þurra sem eyðimörk.“ — Sefanía 2:8, 9, 13.

14. Hvaða merki eru um að erlendar þjóðir hafi ‚haft hroka í frammi‘ við Ísraelsmenn og Guð þeirra, Jehóva?

14 Móab og Ammón voru forn fjandríki Ísraels. (Samanber Dómarabókina 3:12-14.) Á Móabítasteininum í Louvre-safninu í París er áletrun þar sem Mesa Móabskonungur gortar af sjálfum sér. Stoltur segir hann frá því að hann hafi tekið nokkrar ísraelskar borgir með hjálp Kamosar, guðs síns. (2. Konungabók 1:1) Jeremía, samtíðarmaður Sefanía, talaði um að Ammónítar hefðu hernumið Gað í Ísrael í nafni Milkóms, guðs síns. (Jeremía 49:1) Salmaneser fimmti Assýríukonungur hafði sest um Samaríu og tekið hana nálega öld fyrir daga Sefanía. (2. Konungabók 17:1-6) Skömmu síðar hafði Sanheríb konungur ráðist inn í Júda, tekið margar af víggirtum borgum hennar og jafnvel ógnað Jerúsalem. (Jesaja 36:1, 2) Talsmaður Assýríukonungs hafði hroka í frammi við Jehóva er hann krafðist uppgjafar Jerúsalem. — Jesaja 36:4-20.

15. Hvernig myndi Jehóva auðmýkja guði þjóðanna sem höfðu haft hroka í frammi við fólk hans?

15 Sálmur 83 nefnir margar þjóðir, þeirra á meðal Móab, Ammón og Assýríu, sem höfðu hroka í frammi við Ísrael og gortuðu: „Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!“ (Sálmur 83:5) Sefanía spámaður kunngerði hugrakkur að Jehóva allsherjar myndi auðmýkja allar þessar rembilátu þjóðir og guði þeirra. „Þetta skal þá henda fyrir drambsemi þeirra, að þeir hafa svívirt þjóð [Jehóva] allsherjar og haft hroka í frammi við hana. Ógurlegur mun [Jehóva] verða þeim, því að hann lætur alla guði jarðarinnar dragast upp, svo að öll eylönd heiðingjanna dýrki hann, hver maður á sínum stað.“ — Sefanía 2:10, 11.

„Haldið áfram að vænta mín“

16. (a) Hverjir glöddust yfir því að dagur Jehóva nálgaðist og hvers vegna? (b) Hvaða hvetjandi ákall barst þessum trúföstu leifum?

16 Þótt andlegt sinnuleysi, efahyggja, skurðgoðadýrkun, spilling og efnishyggja hafi verið útbreidd meðal leiðtoganna og margra af Júda- og Jerúsalembúum, er ljóst að sumir trúfastir Gyðingar hlustuðu á viðvörunarspádóma Sefanía. Þeir hryggðust yfir viðurstyggilegum athöfnum höfðingja, dómara og presta Júda. Yfirlýsingar Sefanía hughreystu þessa drottinhollu menn. Það vakti ekki angist hjá þeim að dagur Jehóva nálgaðist heldur gladdi þá, því að hann myndi binda enda á þessar viðbjóðslegu athafnir. Þessar trúföstu leifar gáfu hvetjandi ákalli Jehóva gaum: „Bíðið mín þess vegna [„Haldið áfram að vænta mín,“ NW] — segir [Jehóva], — bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt.“ — Sefanía 3:8.

17. Hvenær og hvernig tók dómsboðskapur Sefanía að uppfyllast á þjóðunum?

17 Þeim sem tóku þessa viðvörun til sín var ekki komið að óvörum. Margir lifðu það að sjá spádóm Sefanía uppfyllast. Árið 632 f.o.t. var Níníve eytt af sameiginlegum her Babýloníumanna, Meda og hirðingjasveita úr norðri, sennilega Skýta. Sagnfræðingurinn Will Durant segir: „Her Babýloníumanna undir stjórn Nabópólassars, ásamt her Meda undir stjórn Cýaxaresar og hirðingjasveitum Skýta frá Kákasus, tóku borgarvirkin í norðri átakalítið og með leifturhraða. . . . Í einu höggi var Assýría afmáð af sögusviðinu.“ Það var nákvæmlega það sem Sefanía hafði spáð. — Sefanía 2:13-15.

18. (a) Hvernig var dómi Guðs fullnægt á Jersúsalem og hvers vegna? (b) Hvernig rættist spádómur Sefanía um Móab og Ammón?

18 Margir Gyðingar, sem héldu áfram að vænta Jehóva, lifðu það einnig að sjá dómum hans fullnægt á Júda og Jerúsalem. Sefanía hafði spáð um Jerúsalem: „Vei hinni þverúðarfullu og saurguðu, hinni ofríkisfullu borg! Hún hlýðir engri áminningu, hún tekur engri hirtingu, hún treystir ekki [Jehóva] og nálægir sig ekki Guði sínum.“ (Sefanía 3:1, 2) Vegna ótrúfesti sinnar var Jerúsalem tvívegis umsetin Babýloníumönnum og að lokum tekin og lögð í rúst árið 607 f.o.t. (2. Kroníkubók 36:5, 6, 11-21) Að sögn gyðingasagnfræðingsins Jósefusar herjuðu Babýloníumenn á Móab og Ammón á fimmta ári eftir fall Jerúsalem og unnu bæði ríkin. Þau hurfu síðan af sjónarsviðinu eins og spáð var.

19, 20. (a) Hvernig umbunaði Jehóva þeim sem héldu áfram að vænta hans? (b) Hvers vegna koma þessir atburðir okkur við og hvað verður fjallað um í greininni á eftir?

19 Uppfylling þessara spádóma og annarra í bók Sefanía styrkti trú Gyðinga og annarra sem héldu áfram að vænta Jehóva. Meðal þeirra sem lifðu af eyðingu Júda og Jerúsalem voru Jeremía, Eþíópinn Ebed-Melek og afkomendur Jónadabs, Rekabítarnir. (Jeremía 35:18, 19; 39:11, 12, 16-18) Trúfastir Gyðingar í útlegðinni og afkomendur þeirra, sem héldu áfram að bíða Jehóva, voru meðal hinna glöðu manna sem voru frelsaðir úr Babýlon árið 537 f.o.t. og sneru aftur til Júda til að endurvekja hreina tilbeiðslu. — Esrabók 2:1; Sefanía 3:14, 15, 20.

20 Hvað þýðir allt þetta fyrir okkar tíma? Að mörgu leyti eru aðstæðurnar á dögum Sefanía sambærilegar við þær viðurstyggðir sem eiga sér stað í kristna heiminum núna. Og hin ýmsu viðhorf Gyðinga á þeim tíma bera keim af viðhorfum sem gætir nú á dögum, stundum jafnvel meðal fólks Jehóva. Um það er fjallað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ Orðið ‚konungssynirnir‘ virðist notað um alla höfðingjana af konungaættum því að synir Jósía voru kornungir á þeim tíma.

Til upprifjunar

◻ Hvernig var ástatt í trúmálum í Júda á dögum Sefanía?

◻ Hvernig var ástandið meðal borgaralegra leiðtoga og hver voru viðhorf marga landsmanna?

◻ Hvernig höfðu þjóðir hroka í frammi við fólk Jehóva?

◻ Við hverju varaði Sefanía Júda og aðrar þjóðir?

◻ Hvernig var þeim umbunað sem héldu áfram að vænta Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Móabítasteinninn staðfestir að Mesa konungur í Móab fór háðulegum orðum um Ísrael.

[Rétthafi]

Móabítasteinninn: Musée du Louvre, París

[Mynd á blaðsíðu 21]

Þessi fleygrúnatafla úr Babýlonarkróníku greinir frá eyðingu Níníve fyrir sameinuðum her og styður þannig spádóm Sefanía.

[Rétthafi]

Fleygrúnatafla: Með góðfúslegu leyfi The British Museum í Lundúnum.