Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Menntun — notaðu hana til að lofa Jehóva

Menntun — notaðu hana til að lofa Jehóva

Menntun — notaðu hana til að lofa Jehóva

„Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður.“ — JÓHANNES 7:18.

1. Hvenær og hvernig átti menntun upptök sín?

 MENNTUN á sér óralanga sögu. Hún átti upptök sín skömmu eftir að Jehóva Guð, hinn mikli fræðari og kennari, skapaði frumgetinn son sinn. (Jesaja 30:20; Kólossubréfið 1:15) Nú var sá orðinn til sem gat lært af fræðaranum mikla sjálfum. Um ótaldar árþúsundir átti þessi sonur — síðar þekktur sem Jesús Kristur — innilegt samband við föðurinn og hlaut óviðjafnanlega menntun í eiginleikum, verkum og tilgangi Jehóva Guðs. Síðar, sem maður hér á jörð, gat Jesús sagt: „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ — Jóhannes 8:28.

2-4. (a) Hverjar voru aðstæðurnar er Jesús sótti laufskálahátíðina árið 32, að sögn 7. kafla Jóhannesarguðspjalls? (b) Af hverju undruðust Gyðingar kennsluhæfileika Jesú?

2 Hvernig notaði Jesús þá menntun sem hann hlaut? Þau þrjú og hálft ár, sem jarðnesk þjónusta hans stóð yfir, var hann óþreytandi að segja öðrum frá því sem hann hafði lært. En það var fyrst og fremst með eitt markmið í huga. Hvaða markmið? Við skulum skoða orð Jesú í Jóhannesi 7. kafla þar sem hann útskýrði bæði uppruna og tilgang kennslu sinnar og kenningar.

3 Settu þig fyrst inn í aðstæðurnar. Þetta var haustið 32, næstum þrem árum eftir skírn Jesú. Gyðingar voru samankomnir í Jerúsalem til að halda laufskálahátíðina. Mikið hafði verið talað um Jesú fyrstu daga hátíðarinnar. Þegar hátíðin var hálfnuð kom Jesús í musterið og tók að kenna. (Jóhannes 7:2, 10-14) Eins og ævinlega reyndist hann mikill kennari. — Matteus 13:54; Lúkas 4:22.

4 Fimmtánda versið í 7. kafla hjá Jóhannesi segir: „Gyðingar urðu forviða og sögðu: ‚Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?‘“ Skilurðu af hverju þeir voru forviða? Jesús hafði ekki gengið í neinn rabbínaskóla þannig að hann var ómenntaður — eða það héldu þeir. Þó gat hann vandalaust fundið og lesið kafla í hinum helgu ritum. (Lúkas 4:16-21) Þessi smiður fá Galíleu fræddi þá jafnvel í lögmáli Móse! (Jóhannes 7:19-23) Hvernig gat hann það?

5, 6. (a) Hvernig útskýrði Jesús hvaðan kennsla hans og kenning væri komin? (b) Hvernig notaði Jesús menntun sína?

5 Eins og við lesum í 16. og 17. versi útskýrði Jesús: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig. Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“ Þeir vildu vita hjá hverjum Jesús hefði hlotið menntun sína og hann sagði þeim opinskátt að menntun hans væri frá Guði! — Jóhannes 12:49; 14:10.

6 Hvernig notaði Jesús menntun sína? Eins og stendur í Jóhannesi 7:18 sagði Jesús: „Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.“ Það var sannarlega vel við hæfi að Jesús skyldi nota menntun sína til að heiðra Jehóva, hann „sem fullkominn er að vísdómi.“ — Jobsbók 37:16.

7, 8. (a) Hvernig ætti að nota menntun? (b) Hver eru fjögur meginmarkmið góðrar menntunar?

7 Við lærum þannig dýrmæta lexíu af Jesú — það ætti ekki að nota menntun til að upphefja sjálfan sig heldur til að lofa Jehóva. Betur er ekki hægt að nota menntun. En hvernig geturðu notað menntun þína til að lofa Jehóva?

8 Að mennta merkir „að kenna með formlegri fræðslu og þjálfa undir umsjón, einkum í iðngrein, faggrein eða sérgrein.“ Við skulum nú líta á fjögur meginmarkmið góðrar menntunar og skoða hvernig hægt er að nota þau öll til að lofa Jehóva. Góð menntun ætti að gera okkur (1) vel læs, (2) vel skrifandi, (3) þroska huga okkar og siðferðisvitund og (4) veita okkur hagnýta kennslu í því sem þarf í daglegu lífi.

Góð lestrarkunnátta

9. Af hverju er góð lestrarkunnátta þýðingarmikil?

9 Fyrst er það að vera vel læs. Af hverju er góð lestrarkunnátta svona mikilvæg? The World Book Encyclopedia útskýrir: „Lestur . . . er undirstaða lærdóms og einhver þýðingarmesta kunnátta daglegs lífs. . . . Góðir lesarar stuðla að velmegun og viðgangi þjóðfélagsins og auðga líf sitt um leið.“

10. Hvernig auðgar lestur í orði Guðs líf okkar?

10 Ef lestur almennt getur ‚auðgað líf okkar‘ hlýtur lestur í orði Guðs að gera það enn frekar. Slíkur lestur opnar hugi okkar og hjörtu fyrir hugsunum Jehóva og tilgangi, og skýr skilningur á þeim veitir lífi okkar gildi. Auk þess er ‚orð Guðs lifandi og kröftugt,‘ segir Hebreabréfið 4:12. Þegar við lesum orð Guðs og hugleiðum það löðumst við að höfundi þess og við finnum okkur tilknúin að gera breytingar á lífi okkar til að þóknast honum betur. (Galatabréfið 5:22, 23; Efesusbréfið 4:22-24) Við finnum okkur líka knúin til að segja öðrum frá hinum dýrmætu sannindum sem við lesum. Allt þetta er fræðaranum mikla, Jehóva Guði, til lofs. Vissulega getum við ekki notað lestrarkunnáttu okkar betur!

11. Hvað ætti að felast í góðri einkanámsáætlun?

11 Hvort sem við erum ung eða gömul ættum við að læra að lesa vel, því að lestur gegnir þýðingarmiklu hlutverki í lífi okkar sem kristinna manna. Auk þess að lesa orð Guðs að staðaldri ætti yfirferð yfir dagstextann í Rannsökum daglega ritningarnar, lestur Varðturnsins og Vaknið! og undirbúningur fyrir samkomur að vera hluti af einkanámsáætlun okkar. Og hvað um hina kristnu þjónustu? Ljóst er að það þarf góða lestrarkunnáttu til að prédika fyrir almenningi, endurheimsækja áhugasama og hjálpa fólki að nema Biblíuna.

Góð skriftarkunnátta

12. (a) Af hverju er þýðingarmikið að vera vel skrifandi? (b) Hver var mikilvægasta ritun sem átt hefur sér stað?

12 Annar tilgangur góðrar menntunar er sá að hún ætti að gera okkur vel skrifandi. Skrift flytur öðrum ekki bara orð okkar og hugmyndir heldur varðveitir þær líka. Fyrir ævalöngu skrifuðu um 40 Gyðingar á papýrus eða bókfell þau orð sem mynduðu síðar hinar innblásnu ritningar. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Vissulega var það mikilvægasta ritun sem átt hefur sér stað! Vafalaust stýrði Jehóva afritun og endurafritun þessara helgu orða í aldanna rás til að þau bærust okkur óbrengluð. Erum við ekki þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa látið skrifa orð sín niður í stað þess að treysta á munnlega geymd? — Samanber 2. Mósebók 34:27, 28.

13. Hvað bendir til að Ísraelsmenn hafi kunnað að skrifa?

13 Til forna voru aðeins útvaldar stéttir manna læsar og skrifandi, svo sem hinir skriftlærðu í Mesópótamíu og Egyptalandi. En Ísraelsmenn skáru sig úr því að þeir voru allir hvattir til að vera læsir og skrifandi. Fyrirmælin í 5. Mósebók 6:8, 9 um að Ísraelsmenn skyldu skrifa á dyrastafi húsa sinna, þótt það hafi greinilega átt að vera í táknrænum skilningi, gáfu til kynna að þeir hafi verið skrifandi. Börnum var kennt að draga til stafs á unga aldri. Sumir fræðimenn telja að Geser-almanakið, eitthvert elsta dæmi um fornhebreskt ritmál, sé minnisæfing skólapilts.

14, 15. Nefndu nokkrar gagnlegar og heilnæmar leiðir til að nota skriftarkunnáttu þína.

14 En hvernig getum við notað skriftarkunnáttu okkar á gagnlegan og heilnæman hátt? Vissulega með því að skrifa hjá okkur minnisatriði á samkomum, svæðismótum og landsmótum. Bréf, jafnvel ‚stutt,‘ getur verið uppörvandi fyrir þann sem er veikur eða flutt þakkir trúbróður eða systur sem sýndi okkur vinsemd eða gestrisni. (1. Pétursbréf 5:12) Ef einhver í söfnuðinum hefur misst ástvin í dauðann geta fáein orð í bréfi eða á korti frá okkur verið honum ‚hughreysting.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Kristin systir, sem missti móður sína úr krabbameini, sagði: „Vinur skrifaði mér fallegt bréf. Það hjálpaði mér sannarlega af því að ég gat lesið það aftur og aftur.“

15 Ágæt leið til að nota skriftarkunnáttu okkar Jehóva til lofs er sú að skrifa bréf til að bera vitni um Guðsríki. Stundum býr áhugasamt fólk, sem við viljum halda sambandi við, mjög afskekkt. Veikindi geta hamlað manni um stundar sakir að fara hús úr húsi. Þá er kannski hægt að segja bréflega það sem maður myndi að öllu jöfnu segja munnlega.

16, 17. (a) Nefndu dæmi sem sýnir gildi þess að skrifa bréf til að bera vitni um Guðsríki. (b) Hefur þú einhverja svipaða reynslu?

16 Tökum dæmi. Fyrir mörgum árum skrifaði vottur bréf til að bera vitni um Guðsríki fyrir ekkju manns sem greint var frá í héraðsblaðinu að væri látinn. Bréfinu var ekki svarað. Loks, í nóvember 1994, yfir 21 ári síðar, fékk votturinn bréf frá dóttur konunnar. Dóttirin skrifaði:

17 „Í apríl 1973 skrifaðir þú móður minni til að hughreysta hana eftir fráfall föður míns. Ég var þá níu ára. Móðir mín nam Biblíuna en er reyndar enn ekki þjónn Jehóva. En nám hennar leiddi að lokum til þess að ég komst í samband við sannleikann. Árið 1988 hóf ég biblíunám — 15 árum eftir að þú skrifaðir bréfið. Hinn 9. mars 1990 lét ég skírast. Ég er innilega þakklát fyrir bréfið sem þú skrifaðir fyrir mörgum árum, og mér finnst svo gaman að geta sagt þér frá því að þessi frækorn, sem þú sáðir, uxu með hjálp Jehóva. Móðir mín fékk mér bréfið frá þér til varðveislu og mig langar til að kynnast þér. Ég vona að þú fáir þetta bréf.“ Bréf dótturinnar með heimilisfangi hennar og símanúmeri barst vottinum sem hafði skrifað móður hennar mörgum árum áður. Reyndu að ímynda þér undrun ungu konunnar þegar votturinn hringdi til hennar — en hann skrifar reyndar enn bréf til að koma von Guðsríkis á framfæri við aðra.

Að þroska huga, siðferðisvitund og hinn andlega mann

18. Hvernig þroskuðu foreldrar huga og siðferðisvitund barna sinna á biblíutímanum?

18 Þriðja markmið góðrar menntunar er að hún ætti að þroska huga okkar og siðferðisvitund. Á biblíutímanum var litið á það sem frumskyldu foreldra að þroska huga og siðferði barnanna með góðri fræðslu. Það átti ekki bara að kenna börnum að lesa og skrifa heldur það sem þýðingarmeira var, það átti að mennta þau í lögmáli Guðs sem tók til allra athafna þeirra í lífinu. Menntun fól þannig í sér fræðslu um trúarskyldur þeirra, meginreglur um hjónaband, samskipti fjölskyldunnar og siðferðismál, auk skyldna gagnvart náunganum. Slík menntun hjálpaði þeim að þroska ekki bara hugann og siðferðisvitundina heldur einnig sinn andlega mann. — 5. Mósebók 6:4-9, 20, 21; 11:18-21.

19. Hvar getum við fengið menntun sem þroskar okkur andlega og kennir okkur hver séu bestu siðferðisgildin?

19 Hvað um okkar tíma? Góð veraldleg menntun er mikilvæg. Hún hjálpar okkur að þroska hugann. En hvar getum við leitað menntunar sem sýnir okkur bestu siðferðisgildin til að lifa eftir og hjálpar okkur að þroskast andlega? Í kristna söfnuðinum höfum við aðgang að guðræðislegri menntun sem fæst hvergi annars staðar á jörðinni. Með einkanámi okkar í Biblíunni og biblíutengdum ritum, auk þeirrar fræðslu sem veitt er á safnaðarsamkomum, svæðismótum og landsmótum, fáum við þessa ómetanlegu, samfelldu menntun — menntun frá Guði — ókeypis. Hvað kennir hún okkur?

20. Hvað kennir menntun frá Guði okkur og með hvaða árangri?

20 Þegar við byrjum að nema Biblíuna lærum við undirstöðukenningar hennar, ‚byrjunarkenningarnar.‘ (Hebreabréfið 6:1) Þegar við höldum áfram innbyrðum við ‚fasta fæðu‘ — það er að segja dýpri sannindi. (Hebreabréfið 5:14) En það sem þýðingarmeira er, við lærum meginreglur Guðs sem kenna okkur að lifa eins og hann vill að við lifum. Til dæmis lærum við að forðast venjur og athafnir sem ‚saurga líkamann,‘ og lærum að virða yfirráð og líf, limi og eignir annarra. (2. Korintubréf 7:1; Títusarbréfið 3:1, 2; Hebreabréfið 13:4) Auk þess lærum við að sjá þýðingu þess að vera heiðarlegir og iðjusamir við vinnu okkar og gildi þess að lifa eftir fyrirmælum Biblíunnar í kynferðismálum. (1. Korintubréf 6:9, 10; Efesusbréfið 4:28) Því betur sem við förum eftir þessum meginreglum vöxum við andlega og samband okkar við Guð styrkist. Guðrækileg breytni gerir okkur að góðum borgurum, hvar sem við búum. Og það getur komið öðrum til að lofa hann sem er uppspretta þessarar menntunar — Jehóva Guð. — 1. Pétursbréf 2:12.

Hagnýt kennsla fyrir daglegt líf

21. Hvaða verkþjálfun fengu börn á biblíutímanum?

21 Fjórða markmið góðrar menntunar er að veita okkur hagnýta kennslu í því sem þarf í daglegu lífi. Á biblíutímanum var verkþjálfun innifalin í góðri menntun í föðurhúsum. Stúlkum voru kennd heimilisstörf. Síðasti kafli Orðskviðanna sýnir að þau hljóta að hafa verið mörg og margvísleg. Stúlkur lærðu þannig að spinna og vefa, elda mat og stjórna heimili, versla og annast fasteignakaup. Drengir lærðu venjulega starf feðra sinna, hvort heldur það var akuryrkja eða einhver handiðn. Jesús lærði trésmíði af stjúpföður sínum, Jósef, og var því ekki bara kallaður „sonur smiðsins“ heldur líka „smiðurinn.“ — Matteus 13:55; Markús 6:3.

22, 23. (a) Undir hvað ætti menntun að búa börnin? (b) Af hvaða hvötum ættum við að afla okkur frekari menntunar þegar það virðist nauðsynlegt?

22 Nú á tímum felst góð menntun líka í því að búa sig undir að sjá fyrir fjölskyldu þegar þar að kemur. Orð Páls postula í 1. Tímóteusarbréfi 5:8 gefa til kynna að það sé heilög skylda að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Hann skrifaði: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ Menntun ætti því að búa börn undir þá ábyrgð sem þau þurfa að axla í lífinu, og jafnframt að búa þau undir að verða iðjusamir þjóðfélagsþegnar.

23 Hve mikla veraldlega menntun ættum við að fá? Það getur verið breytilegt frá einu landi til annars. En ef vinnumarkaðurinn kallar á meiri menntun en lögbundna skyldumenntun er það ábyrgð foreldranna að leiðbeina börnum sínum í sambandi við ákvarðanir um viðbótarmenntun eða verkþjálfun, og vega og meta bæði hugsanlega kosti og galla sem fylgja hverju slíku viðbótarnámi. En hvaða hvatir ættu að búa að baki því að fara út í framhaldsmenntun þegar það kann að virðast nauðsynlegt? Vissulega ekki löngun í peninga, upphefð eða hrós. (Orðskviðirnir 15:25; 1. Tímóteusarbréf 6:17) Munum hvað við lærðum af fordæmi Jesú: Við ættum að nota menntun til að lofa Jehóva. Ef við veljum framhaldsmenntun ætti það að vera til að sjá sómasamlega fyrir okkur svo að við getum þjónað Jehóva með eins mikilli þátttöku og hægt er í hinu kristna boðunarstarfi. — Kólossubréfið 3:23, 24.

24. Hvaða lexíu, sem við lærum af Jesú, ættum við aldrei að gleyma?

24 Við skulum því vera kostgæfin í viðleitni okkar að afla okkur góðrar veraldlegrar menntunar. Megum við notfæra okkur til fulls hina samfelldu menntun frá Jehóva sem er veitt innan skipulags hans. Og megum við aldrei gleyma hinni verðmætu lexíu sem við lærum af Jesú Kristi, best menntaða manni sem verið hefur á jörð — við ættum ekki að nota menntun til að upphefja sjálfa okkur heldur til að lofa mesta kennarann, Jehóva Guð!

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig notaði Jesús menntun sína?

◻ Af hverju er góð lestrarkunnátta mikilvæg?

◻ Hvernig getum við notað skriftarkunnáttuna til að lofa Jehóva?

◻ Hvernig hjálpar menntun frá Guði okkur að þroska bæði siðferðisvitundina og okkar andlega mann?

◻ Hvaða verklega þjálfun ætti góð menntun að veita?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 32]

Menntun var mikils metin í Ísrael til forna.