Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varanlegur endir ofbeldis — hvernig?

Varanlegur endir ofbeldis — hvernig?

Varanlegur endir ofbeldis — hvernig?

Í VON um að stemma stigu við ofbeldi reyndu allmargar borgir í Bandaríkjunum fyrir sér með nýstárlega hugmynd — vöru- eða peningaverðlaun handa þeim sem afhentu byssur sínar. Og hver var árangurinn? St. Louis-borg snaraði út 341.000 dollurum fyrir 8500 byssur. New York-borg tókst að safna yfir þúsund byssum með svipuðum hætti.

Hvaða áhrif hafði þetta á glæpi? Ósköp lítil, því miður. Manndráp, þar sem byssur komu við sögu, náðu nýju hámarki í St. Louis árið eftir. Í New York-borg er talið að enn séu um tvær milljónir byssa í umferð. Í Bandaríkjunum eru um 200 milljónir byssa í einkaeign, næstum ein fyrir hvert mannsbarn. Í öðrum löndum fara ofbeldisglæpir, þar sem byssur koma við sögu, ört vaxandi. „Brot, sem lögreglan skráði og þar sem skotvopn komu við sögu, nálega tvöfölduðust [á Bretlandi] frá 1983 til 1993 og urðu 14.000,“ segir tímaritið The Economist. Enda þótt manndráp séu tiltölulega fátíð þar í landi er um ein milljón ólöglegra skotvopna í umferð.

Öll fækkun þessara skotvopna hlýtur vissulega að vera skref í rétta átt. En aðgerðir, eins og hér var lýst, komast tæplega fyrir rætur ofbeldisins. Og hverjar eru ræturnar? Margt hefur verið nefnt til sögunnar en fæst af því getur kallast meginorsakir. Rótleysi fjölskyldunnar og skortur á siðferðisfræðslu hefur hrakið marga unglinga út í óaldarflokka þar sem þeir hafa leitast við að fullnægja þörfinni fyrir samfylgd og samstöðu. Gróðavonin fær suma til að beita ofbeldi. Sumir grípa til ofbeldis í þeim tilgangi að ráða bót á ranglæti. Þjóðarstolt, kynþáttahroki eða stéttardramb gerir marga skeytingarlausa um þjáningar annarra. Allt eru þetta rótgrónar orsakir sem ekki verða upprættar með auðveldum hætti.

Hvað er hægt að gera?

Fjölmennari lögregla, strangari fangelsisdómar, eftirlit með byssueign, dauðadómur — öllu hefur þessu verið slegið fram og það reynt til að stemma stigu við glæpum og ofbeldi. Árangurinn hefur verið misgóður, og sannleikurinn er því miður sá að ofbeldi er enn mjög stór þáttur tilverunnar. Af hverju? Af því að þessi ráð beinast aðeins gegn einkennunum.

Margir sérfræðingar telja hins vegar að menntun sé ein besta leiðin til að binda enda á ofbeldi. Enda þótt hugmyndin sé góð má ekki gleyma að ofbeldi takmarkast ekki við þjóðir þar sem menntunartækifæri eru takmörkuð. Ef nokkuð, virðist ofbeldi einna mest hjá þeim þjóðum þar sem menntun er á hvað hæstu stigi. Ljóst er að það er ekki bara menntun sem þörf er á heldur rétt tegund menntunar. Hvers konar menntun skyldi það vera? Er einhver fær um að kenna fólki að elska frið og heiðarleika?

„Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín [„friður þinn,“ NW] verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:17, 18) Hvernig kennir Jehóva Guð fólki friðarást og réttlæti? Fyrst og fremst með orði sínu, Biblíunni.

Kraftur Biblíunnar

Biblían er fjarri því að vera bara samsafn úreltra sagna sem eiga ekki lengur við. Hún hefur að geyma meginreglur og hugmyndir frá skapara mannsins sem frá sínum háa sjónarhóli þekkir mannlegt eðli betur en nokkur annar. „Svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum,“ segir Jehóva Guð. — Jesaja 55:9.

Af þessari ástæðu ber Páll postuli því vitni að ‚orð Guðs sé lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smjúgi inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, og dæmi hugsanir og hugrenningar hjartans.‘ (Hebreabréfið 4:12) Já, orð Guðs hefur kraft til að þrengja sér inn í og snerta hjarta mannsins og breyta hugsun hans og hegðun. Er það ekki það sem þarf til að breyta ofbeldishegðun manna nú á tímum?

Vottar Jehóva, sem eru nú um fimm milljónir talsins í liðlega 230 löndum, eru lifandi sönnun þess að orð Guðs hefur sannarlega kraft til að breyta lífi manna til hins betra. Á meðal vottanna eru menn af öllum þjóðernum, tungumálum og kynþáttum. Þeir koma líka úr öllum stéttum og stigum þjóðfélagsins. Sumir þeirra voru áður ofbeldis- og vandræðamenn. En í stað þess að leyfa upprunanum að ýta undir fjandskap, meting, mismunun og hatur sín á meðal, hafa þeir lært að yfirstíga þessa tálma þannig að þeir eru friðsamir og sameinaðir um heim allan. Hvernig hefur það reynst mögulegt?

Herferð gegn ofbeldi

Vottar Jehóva hafa helgað sig því að hjálpa öðrum að öðlast nákvæma þekkingu á tilgangi Guðs eins og hann er opinberaður í orði hans, Biblíunni. Í öllum heimshornum leita þeir að þeim sem vilja læra vegu Jehóva og þiggja kennslu hans. Og viðleitni þeirra ber ávöxt. Árangurinn af þessari fræðsluherferð er sá að einstakur spádómur er að uppfyllast.

Fyrir um 2700 árum var spámanninum Jesaja innblásið að skrifa: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að . . . margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ — Jesaja 2:2, 3.

Að læra vegu Jehóva og ganga á hans stigum getur valdið undraverðum breytingum í lífi fólks. Ein breytingin var sögð fyrir í sama spádómi: „Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:4) Margir hafa lesið þessi ritningarorð. Textinn er meira að segja klappaður á vegg við byggingu Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann minnir á ætlunarverk Sameinuðu þjóðanna sem þeim hefur hingað til mistekist. Stríð og ofbeldi verður ekki upprætt með einhverri pólitískri stofnun manna. Jehóva Guð er einn fær um að áorka slíku. Hvernig mun hann gera það?

Augljóst er að það munu ekki allir þiggja boðið um að ‚fara upp á fjall Jehóva,‘ ‚læra um hans vegu‘ og „ganga á hans stigum.“ Það munu ekki heldur allir „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“ Hvað gerir Jehóva við slíka menn? Hann mun ekki halda dyrum tækifærisins opnum að eilífu eða bíða eftir að þeir breyti sér. Til að binda enda á ofbeldið mun Jehóva líka afmá þá sem halda ofbeldi sínu þverúðugir áfram.

Dýrmæt lexía

Aðgerðir Guðs á dögum Nóa eru okkur nútímamönnum viðvörun. Biblíusagan sýnir hvernig heimurinn var í þá daga: „Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.“ Þar af leiðandi sagði Guð við Nóa: „Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.“ — 1. Mósebók 6:11, 13.

Við skulum taka eftir einu þýðingarmiklu: Þegar Guð lét flóðið koma yfir þessa kynslóð manna varðveitti hann Nóa og fjölskyldu hans. Hvers vegna? Biblían svarar: „Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:9; 7:1) Þótt ekki sé víst að allir þálifandi menn hafi verið ofbeldismenn voru það aðeins Nói og fjölskylda hans sem ‚gengu með Guði.‘ Þess vegna lifðu þau af þegar þessi ofbeldisfulli heimur leið undir lok.

Við getum verið viss um að það fer ekki fram hjá Guði þegar jörðin ‚fyllist glæpaverkum‘ enn á ný. Alveg eins og á dögum Nóa lætur hann bráðlega til skarar skríða og bindur enda á ofbeldið — í eitt skipti fyrir öll. En Guð mun líka sjá þeim fyrir undankomuleið sem eru að læra að ‚ganga með Guði‘ núna, þeim sem þiggja kennslu í hinni miklu friðarfræðslu hans.

Jehóva fullvissar okkur fyrir munn sálmaritarans: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu“ eða „friði.“ — Sálmur 37:10, 11, Biblían 1859.

Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að hjálpa þér að kynnast Biblíunni þannig að þú getir tekið undir með þeim sem segja: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Jesaja 2:3) Ef þú gerir það geturðu orðið í hópi þeirra sem sjá bundinn enda á illsku og ofbeldi. Þá getur þú ‚glaðst yfir ríkulegri gæfu‘ og friði.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Reuters/Bettmann