Við höfum ástæðu til að gleðjast og fagna
Við höfum ástæðu til að gleðjast og fagna
„Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ — JESAJA 35:10.
1. Hverjir hafa sérstakt tilefni til að fagna og gleðjast nú á dögum?
ÞÚ HEFUR líklega veitt því athygli hve fáir í heiminum eru raunverulega glaðir nú á dögum. En sem sannkristnir menn eru vottar Jehóva glaðir. Og milljónir annarra, bæði ungir og gamlir, sem enn eru óskírðir en hafa félagsskap við votta Jehóva, hafa von um að öðlast þessa sömu gleði. Sú staðreynd að þú ert að lesa þessi orð hér í blaðinu gefur til kynna að þú njótir nú þegar þessarar gleði eða að hún sé innan seilingar fyrir þig.
2. Hvernig er gleði kristins manns ólík ástandinu meðal fólks almennt?
2 Flestir finna að það vantar eitthvað í líf þeirra. Hvað um þig? Sjálfsagt hefur þú ekki alla þá efnislegu hluti sem þú gætir notað og áreiðanlega ekki allt sem hinir ríku og voldugu hafa. Og þú vildir kannski vera heilsubetri og þrekmeiri. Samt er óhætt að segja að þú sért ríkari og heilbrigðari en flestir þeirra milljarða, sem byggja jörðina, þegar miðað er við gleði. Hvernig þá?
3. Hvaða þýðingarmikil orð verðskulda athygli okkar og hvers vegna?
3 Mundu eftir orðum Jesú: „Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.“ (Jóhannes 15:11) „Fögnuður yðar sé fullkominn.“ Hvílík lýsing! Ítarleg athugun á hinum kristna lífsvegi leiðir í ljós margar ástæður fyrir því að fögnuður okkar og gleði er fullkomin. En núna skulum við gefa gaum að þýðingarmiklum orðum í Jesaja 35:10. Þau eru þýðingarmikil af því að þau skipta miklu máli fyrir okkur sem nú lifum. Við lesum: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“
4. Hvers konar gleði er nefnd í Jesaja 35:10 og hvers vegna ættum við að gefa því gaum?
4 „Eilíf gleði.“ Aðrar ritningargreinar staðfesta að gleðin verður „eilíf.“ (Sálmur 45:7; 90:2; Jesaja 40:28) Gleðin verður því endalaus við aðstæður sem bæði leyfa það og réttlæta. Hljómar það ekki unaðslega? En kannski finnst þér þetta vers bara lýsa fræðilegum aðstæðum. Þú hugsar kannski: ‚Þetta á eiginlega ekki við mig að sama marki og dagleg vandamál mín og áhyggjur.‘ En staðreyndirnar tala öðru máli. Hið spádómlega fyrirheit í Jesaja 35:10 á erindi til þín núna. Til að kanna hvernig, skulum við skoða þennan fagra biblíukafla, Jesaja 35, og athuga hvern hluta í samhengi. Þú munt örugglega njóta þess sem þú finnur.
Fólk sem þurfti að gleðjast
5. Hvert var sögusviðið er spádómurinn í Jesaja 35. kafla var borinn fram?
5 Okkur til hjálpar skulum við athuga sögusvið þessa hrífandi spádóms. Hebreski spámaðurinn Jesaja skrifaði hann einhvern tíma um árið 732 f.o.t. Það var áratugum áður en babýlonskur her eyddi Jerúsalem. Eins og Jesaja 34:1, 2 gefur til kynna hafði Guð sagt fyrir að hann ætlaði að fullnægja dómi á þjóðunum, þeirra á meðal Edóm sem nefndur er í Jesaja 34:6. Ljóst er að hann notaði Babýloníumenn til þess. Eins lét Guð Babýloníumenn eyða Júda vegna þess að Gyðingar voru ótrúir. Hver var afleiðingin? Þjóð Guðs var hneppt í ánauð og heimaland hennar lá í eyði í 70 ár. — 2. Kroníkubók 36:15-21.
6. Hvað er ólíkt með spádóminum yfir Edómítum og yfir Gyðingum?
6 En það er mikilvægur munur á Edómítum og Gyðingum. Refsidómur Guðs yfir Edómítum var varanlegur; með tíð og tíma hurfu þeir af sjónarsviðinu. Enn þann dag í dag er hægt að skoða eyðirústirnar þar sem Edómítar bjuggu, svo sem hinar heimsfrægu rústir borgarinnar Petru. Nú á dögum er hins vegar engin þjóð til sem kallast ‚Edómítar.‘ En eyddu Babýloníumenn Júda til frambúðar þannig að landið yrði gleðisnautt um ókomna framtíð?
7. Hvernig hafa Gyðingarnir, sem voru fangar í Babýlon, kannski brugðist við 35. kafla Jesaja?
7 Hér hefur hinn stórkostlegi spádómur 35. kafla Jesajabókar spennandi merkingu. Við getum kallað hann endurreisnarspádóm því að fyrsta uppfylling hans átti sér stað þegar Gyðingar sneru heim í land sitt árið 537 f.o.t. Ísraelsmönnum, sem höfðu verið bandingjar í Babýlon, var veitt frelsi til að snúa heim í land sitt. (Esrabók 1:1-11) En þangað til það gerðist kunna Gyðingarnir, sem voru fangar í Babýlon og hugleiddu þennan spádóm Guðs, að hafa velt fyrir sér hvers konar ástand þeir myndu finna í heimalandi sínu, Júda. Og í hvaða ásigkomulagi yrðu þeir sjálfir? Svörin eru nátengd því hvers vegna við höfum virkilega ástæðu til að fagna og gleðjast. Við skulum skoða það nánar.
8. Hvers konar aðstæður myndu blasa við Gyðingum er þeir sneru heim frá Babýlon? (Samanber Esekíel 19:3-6; Hósea 13:7, 8.)
8 Aðstæður virtust sannarlega ekki lofa góðu fyrir Gyðinga, jafnvel þegar þeir fréttu að þeir gætu snúið aftur heim. Land þeirra hafði legið í eyði í sjö áratugi, heilan mannsaldur. Hvernig var landið orðið? Ræktaðir akrar, víngarðar og aldingarðar hlutu að vera komnir í algera órækt. Áveitugarðar og spildur voru orðnar að þurrum auðnum eða eyðimörkum. (Jesaja 24:1, 4; 33:9; Esekíel 6:14) Hugsaðu þér líka villidýrin sem hljóta að hafa verið mýmörg, meðal annars kjötætur svo sem ljón og pardusdýr. (1. Konungabók 13:24-28; 2. Konungabók 17:25, 26; Ljóðaljóðin 4:8) Ekki mátti gleyma bjarndýrum sem gátu drepið karl, konu eða barn í einu höggi. (1. Samúelsbók 17:34-37; 2. Konungabók 2:24; Orðskviðirnir 17:12) Og varla þarf að minnast á höggorma og aðra eitursnáka eða sporðdreka. (1. Mósebók 49:17; 5. Mósebók 32:33; Jobsbók 20:16; Sálmur 58:5; 140:4; ) Ef þú hefðir verið í för með Gyðingunum, sem sneru heim árið 537 f.o.t., hefðir þú sennilega verið smeykur að ganga um slíkt svæði. Það var svo sannarlega engin paradís sem blasti við þeim. Lúkas 10:19
9. Af hverju höfðu hinir heimkomnu tilefni til vonar og trúartrausts?
9 En það var Jehóva sjálfur sem leiddi dýrkendur sína heim og hann er fær um að gerbreyta auðnarástandi. Trúir þú ekki að skaparinn sé fær um það? (Jobsbók 42:2; Jeremía 32:17, 21, 27, 37, 41) Hvað ætlaði hann þá að gera — og gerði — fyrir hina heimkomnu Gyðinga og land þeirra? Hvernig tengist það fólki Guðs nú á tímum og þér — núna og í framtíðinni? Við skulum fyrst skoða hvað gerðist á þeim tíma.
Fögnuður yfir breyttu ástandi
10. Hvaða breytingu spáði Jesaja 35:1, 2?
10 Hvað átti að gerast þegar Kýrus leyfði Gyðingum að snúa heim í þetta eyðiland? Lesum hinn hrífandi spádóm í Jesaja 35:1, 2: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors.“
11. Hvaða vitneskju um landið byggði Jesaja á?
11 Á biblíutímanum voru Líbanon, Karmel og Saron þekkt fyrir gróðursæld og fegurð. (1. Kroníkubók 5:16; 27:29; 2. Kroníkubók 26:10; Ljóðaljóðin 2:1; 4:15; Hósea 14:6-8) Jesaja notaði þau sem dæmi til að lýsa því hvernig landinu yrði umbreytt með Guðs hjálp. En var það bara jarðvegurinn sem átti að breytast? Vissulega ekki!
12. Af hverju getum við sagt að fólk sé þungamiðja spádómsins í Jesaja 35. kafla?
12 Jesaja 35:2 talar um að landið skyldi „fagna af unaði og gleði.“ Við vitum að jarðvegurinn og plönturnar fögnuðu ekki bókstaflega af unaði. Aukin frjósemi þeirra gat hins vegar vakið slíkar tilfinningar með fólki. (3. Mósebók 23:37-40; 5. Mósebók 16:15; Sálmur 126:5, 6; Jesaja 16:10; Jeremía 25:30; 48:33) Hinar bókstaflegu breytingar á landinu sjálfu myndu samsvara breytingum á fólkinu, því að það er fólk sem er þungamiðja þessa spádóms. Við höfum því ástæðu til að skilja orð Jesaja svo að þau beinist fyrst og fremst að breytingum á hinum heimkomnu Gyðingum, einkum gleði þeirra.
13, 14. Hvaða breytingum á fólki spáði Jesaja 35:3, 4?
13 Við skulum því skoða meira af þessum örvandi spádómi til að kanna hvernig hann uppfylltist eftir frelsun Gyðinga og heimkomu frá Babýlon. Í 3. og 4. versi talar Jesaja um aðrar breytingar á þeim sem sneru heim: „Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné! Segið hinum ístöðulausu [„áhyggjufullu,“ NW]: ‚Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.‘“
14 Er ekki styrkjandi að hugsa til þess að Guð okkar, sem gat umbreytt auðnarástandi landsins, hefur slíkan áhuga á tilbiðjendum sínum? Hann vildi ekki að hinum hernumdu Gyðingum fyndist þeir máttvana, væru kjarklitlir eða áhyggjufullir vegna framtíðarinnar. (Hebreabréfið 12:12) Hugsaðu um ástandið hjá þessum bandingjum. Ef frá er talin vonin, sem þeir gátu sótt í spádóma Guðs um framtíð þeirra, hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þá að vera bjartsýnir. Það var eins og þeir væru í dimmri dýflissu þar sem þeir höfðu ekki frelsi til að hreyfa sig og vera virkir í þjónustu Jehóva. Þeim kann að hafa liðið eins og þeir eygðu enga vonarglætu framundan. — Samanber 5. Mósebók 28:29; Jesaja 59:10.
15, 16. (a) Hvað getum við ætlað að Jehóva hafi gert fyrir hina heimkomnu? (b) Af hverju hafa hinir heimkomnu Gyðingar ekki búist við undraverðri lækningu, en hvað gerði Guð í samræmi við Jesaja 35:5, 6?
15 En það breyttist heldur betur þegar Jehóva lét Kýrus leysa þá úr haldi þannig að þeir gætu snúið heim! Biblían gefur engar vísbendinar um að Guð hafi með kraftaverki læknað blinda Gyðinga sem sneru heim, opnað eyru daufra eða læknað bæklaða útlimi. Hann gerði það sem var miklu stórkostlegra. Hann veitti þeim aftur ljós og frelsi landsins sem þeir elskuðu!
16 Ekkert bendir til að hinir heimkomnu Gyðingar hafi vænst þess að Jehóva ynni kraftaverk til að lækna þá líkamlega. Þeir hljóta að hafa gert sér ljóst að Guð hafði ekki læknað Ísak, Samson eða Elí. (1. Mósebók 27:1; Dómarabókin 16:21, 26-30; 1. Samúelsbók 3:2-8; 4:15) En hafi þeir vænst þess að Guð sneri högum þeirra við í táknrænni merkingu urðu þeir ekki fyrir vonbrigðum. Fimmta og sjötta vers hlutu vissulega táknræna upfyllingu. Jesaja hafði sagt nákvæmlega fyrir: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“
Landið gert eins og paradís
17. Hvaða bókstaflegum breytingum kom Jehóva greinilega til leiðar?
17 Þessir heimkomnu Gyðingar hafa vissulega haft ástæðu til að gleðjast og fagna yfir aðstæðum eins og þeim sem Jesaja lýsti í framhaldinu: „Því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.“ (Jesaja 35:6b, 7) Enda þótt við sjáum ekki slíka gróðursæld á öllu svæðinu nú á dögum eru margar vísbendingar um að landssvæðið, þar sem Júda var, hafi einu sinni verið „unaðsleg sveitaparadís.“ *
18. Hvernig hafa hinir heimkomnu Gyðingar líklega brugðist við blessun Guðs?
18 Hugsaðu þér hvernig Gyðingunum hlýtur að hafa verið innanbrjósts er þeir fengu að snúa aftur til fyrirheitna landsins, og hversu glaðir þeir hljóta að hafa verið. Þeir voru nú í aðstöðu til að umbreyta eyðilandinu sem hafði verið heimkynni sjakala og annarra villidýra. Hefðir þú ekki haft yndi af slíku endurreisnarstarfi ef þú hefðir vitað að Guð blessaði viðleitni þína?
19. Í hvaða skilningi var heimförin úr ánauðinni í Babýlon bundin skilyrðum?
19 En það gat ekki hvaða Gyðingur, sem var fangi í Babýlon, ákveðið að fara heim til fyrirheitna landsins til að eiga hlutdeild í þessari gleðilegu umbreytingu. Guð setti skilyrðin. Enginn, sem var saurgaður af heiðnum, babýlonskum trúariðkunum, hafði rétt til að snúa heim. (Daníel 5:1, 4, 22, 23; Jesaja 52:11) Enginn gat heldur snúið heim sem var í heimsku sinni á óviturlegri braut. Slíkir menn voru allir óhæfir. Þeir sem uppfylltu kröfur Guðs, og hann áleit af þeim sökum heilaga í vissum skilningi, gátu hins vegar haldið heimleiðis til Júda. Þeir gátu ferðast eins og eftir helgri braut. Jesaja tók það fram í 8. versi: „Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar.“
20. Hvað þurftu Gyðingarnir ekki að óttast er þeir sneru heim, og hvað hafði það í för með sér?
20 Ferðalangarnir þurftu ekki að óttast árásir dýrslegra manna eða ræningjaflokka. Af hverju ekki? Af því að Jehóva myndi ekki leyfa neinum slíkum að vera á þessari braut með endurkeyptu fólki sínu. Gyðingarnir gátu því ferðast glaðir og fullir bjartsýni og með góða framtíðarvon. Taktu eftir hvernig Jesaja lýsti því í niðurlagi spádómsins: „Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar. Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ — Jesaja 35:9, 10.
21. Hvernig ættum við að líta á þá uppfyllingu sem 35. kafli Jesaja hefur þegar hlotið?
21 Hvílík spádómsmynd! En við ættum ekki að líta á hana bara sem liðna sögu, rétt eins og þetta væri bara falleg frásaga sem kemur aðstæðum okkar eða framtíð lítið við. Það er staðreynd að þessi spádómur á sér undraverða uppfyllingu nú á dögum meðal fólks Guðs, þannig að hann snertir hvert og eitt okkar. Hann gefur okkur öllum tilefni til að fagna og gleðjast. Þeir þættir spádómsins, sem snerta líf þitt núna og í framtíðinni, eru umfjöllunarefni næstu greinar.
[Neðanmáls]
^ Jarðræktarfræðingurinn Walter C. Lowdermilk (fulltrúi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) komst að eftirfarandi niðurstöðu í kjölfar rannsókna sinna á svæðinu: „Þetta land var einu sinni unaðsleg sveitaparadís.“ Hann nefndi einnig að loftslag hafi ekki breyst umtalsvert þar „frá tímum Rómverja“ og að „‚eyðimörkin,‘ sem breiddist út um áður frjósamt landið, hafi verið af manna völdum en ekki náttúrunnar.“
Manstu?
◻ Hvenær hlaut Jesaja 35 fyrstu uppfyllingu sína?
◻ Hvaða áhrif hlýtur byrjunaruppfylling spádómsins að hafa haft?
◻ Hvernig uppfyllti Jehóva Jesaja 35:5, 6?
◻ Hvaða breytingum á landinu og eigin aðstæðum fengu hinir heimkomnu Gyðingar að sjá og reyna?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Rústir Petru þar sem Edómítar bjuggu einu sinni.
[Rétthafi]
Garo Nalbandian
[Mynd á blaðsíðu 10]
Meðan Gyðingar voru í útlegð varð Júda að stórum hluta eins og eyðimörk þar sem grimm villidýr, svo sem birnir og ljón, áttu heimkynni.
[Rétthafi]
Garo Nalbandian
Bjarndýr og ljón: Safari-Zoo-dýragarðurinn í Ramat-Gan, Tel Aviv.