Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur átt góða og trausta vini

Þú getur átt góða og trausta vini

Þú getur átt góða og trausta vini

ÝMISLEGT getur tálmað vináttu. Biblían sagði fyrir að núna á „síðustu dögum“ myndi verða skortur á kærleika, ástúð og tryggð. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:12) Það hefur haft í för með sér einsemdarplágu sem á sér ekkert fordæmi í sögunni. Kona sagði: „Hverfið þar sem ég bý er eins og örkin hans Nóa. Það eru bara hjón sem fá að vera með.“ Hinn einmana getur ekki bara sjálfum sér um kennt. Sums staðar í heiminum eru tíðir búferlaflutningar, upplausn fjölskyldunnar, ópersónulegar og hættulegar borgir og veruleg fækkun frístunda alvarlegir vináttutálmar.

Nútímaborgarbúi hittir kannski fleira fólk á einni viku en þorpsbúi á 18. öld sá á heilu ári eða jafnvel heilli mannsævi! En sambönd manna eru oft yfirborðsleg nú á tímum. Margir eru á kafi í félagslífi og sífellt að reyna að skemmta sér. Við verðum samt að viðurkenna að innantómur gleðskapur í óheppilegum félagsskap er eins og að nota þyrna sem eldivið. Prédikarinn 7:5, 6 segir: „Betra er að hlýða á ávítur viturs manns en á söng heimskra manna. Því að hlátur heimskingjans er eins og þegar snarkar í þyrnum undir potti. Einnig það er hégómi.“ Þyrnar brenna skærum, snarkandi loga stutta stund en eru of efnislitlir til að ylja okkur. Eins geta hávaðasamir, hlæjandi félagar dreift huga okkar um stund, en þeir eyða ekki allri einmanakennd og fullnægja ekki þörf okkar fyrir sanna vini.

Einvera og einmanakennd er ekki hið sama. Einvera er okkur nauðsynleg að vissu marki. Hún hressir okkur þannig að við höfum meira að bjóða sem vinir. Margir kveikja strax á einhverjum rafeindatækjum þegar þeir finna til einsemdar. Í rannsókn nokkurri kom í ljós að einhver algengustu viðbrögðin við einmanakennd eru þau að horfa á sjónvarpið. En rannsóknarmennirnir komust að þeirri niðurstöðu að langvarandi setur fyrir framan sjónvarpið væru eitt það versta sem hægt væri að gera við einmanaleik. Það stuðlar að aðgerðarleysi, leiðindum og hugarórum og er slæmur staðgengill beinna samskipta við annað fólk.

Reyndar geta einverustundir reynst mjög verðmætar ef við notum þær á uppbyggilegan hátt. Það getum við gert með því að lesa, skrifa bréf, föndra eða hvílast. Með því að biðja til Guðs, lesa Biblíuna og hugleiða hana gerum við einverustundirnar líka uppbyggilegar. (Sálmur 63:7) Þannig styrkjum við tengsl okkar við Jehóva Guð sem getur verið besti vinur okkar.

Biblíuleg dæmi um vináttu

Enda þótt það sé ágætt að eiga vináttutengsl við marga minnir Biblían okkur á að til sé „ástvinur, sem er tryggari en bróðir.“ (Orðskviðirnir 18:24) Öll þörfnumst við nokkurra náinna vina sem láta sér virkilega annt um okkur, gleðja okkur, styrkja og veita frið með vináttu sinni. Sönn vináttubönd af þessu tagi eru kannski fágæt nú á dögum, en Biblían nefnir sérstaklega nokkur dæmi úr fortíðinni, til dæmis hina einstæðu vináttu Davíðs og Jónatans. Hvað lærum við af henni? Af hverju hélst vinátta þeirra?

Ein ástæðan er sú að bæði Davíð og Jónatan áttu margt sameiginlegt, fyrst og fremst djúpa hollustu og tryggð við Jehóva Guð. „Jónatan [lagði] ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu“ er hann sá sterka trú Davíðs á Jehóva og verk hans til varnar fólki hans. (1. Samúelsbók 18:1) Gagnkvæm ást á Guði stuðlar því að traustum vináttuböndum.

Davíð og Jónatan voru hughraustir menn sem lifðu eftir meginreglum Guðs. Þeir gátu því virt hvor annan. (1. Samúelsbók 19:1-7; 20:9-14; 24:6) Það er mikil blessun fyrir okkur ef við eigum guðrækna vini sem hafa meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi.

Margt annað stuðlaði að vináttu Davíðs og Jónatans. Þeir voru trúnaðarvinir og hreinskilnir og heiðarlegir hvor við annan. Slík var tryggð Jónatans að hann tók hag Davíðs fram yfir sinn eigin. Hann var ekki öfundsjúkur af því að Davíð hafði verið heitið konungdóminum heldur studdi hann bæði andlega og tilfinningalega. Og Davíð þáði hjálp hans. (1. Samúelsbók 23:16-18) Davíð og Jónatan sýndu hvor öðrum tilfinningar sínar með biblíulega viðeigandi hætti. Vinátta þeirra byggðist á gagnkvæmri væntumþykju. Þeir kunnu að meta hvor annan. (1. Samúelsbók 20:41; 2. Samúelsbók 1:26) Vináttan var órjúfanleg af því að þeir voru báðir trúfastir Guði. Með því að fara eftir slíkum meginreglum getum við ræktað vináttubönd við aðra og viðhaldið þeim.

Að hnýta vináttubönd

Ert þú að leita sannra vina? Þú þarft kannski ekki að leita svo langt. Sumir þeirra, sem þú umgengst að staðaldri, gætu verið vinir þínir og gætu þarfnast vináttu þinnar. Einkum þegar kristin trúsystkini eiga í hlut er viturlegt að fara eftir ráði Páls postula um að ‚láta verða rúmgott hjá sér,‘ færa út kvíarnar. (2. Korintubréf 6:11-13) En láttu það ekki ergja þig þótt sumar tilraunir þínar leiði ekki til náins vinskapar. Það tekur yfirleitt tíma að mynda vináttutengsl og þau verða ekki öll jafnsterk. (Prédikarinn 11:1, 2, 6) Að sjálfsögðu verðum við líka að vera óeigingjörn til að eiga sanna vini, og við þurfum að fara eftir ráði Jesú: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — Matteus 7:12.

Hverjir þarfnast vináttu þinnar? Hvað um þér yngra og þér eldra fólk, auk fólks sem er á líku reki og þú? Það var töluverður aldursmunur á Davíð og Jónatan, Rut og Naomí og Páli og Tímóteusi. (Rutarbók 1:16, 17; 1. Korintubréf 4:17) Geturðu látið vináttu þína ná til ekkla, ekkna og annarra ógiftra? Og hugsaðu til þeirra sem eru nýlega sestir að í byggðarlagi þínu eða söfnuði. Þeir hafa kannski þurft að sjá af flestum ef ekki öllum vinum sínum þegar þeir fluttu eða tóku nýja stefnu í lífinu. Bíddu ekki eftir að aðrir komi til þín. Ef þú ert kristinn skaltu byggja upp traust vináttubönd með því að fara eftir ráðleggingu Páls: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ — Rómverjabréfið 12:10.

Við getum hugsað um vináttu sem eins konar gjöf. Jesús sagði að ef við værum gjafmild myndu aðrir gefa okkur. Hann benti líka á að það veiti manninum meiri hamingju að gefa en þiggja. (Lúkas 6:38; Postulasagan 20:35) Hefur þú kynnst fólki af ólíkum uppruna? Alþjóðamót votta Jehóva hafa sýnt og sannað að fólk af ólíkum menningaruppruna getur bundist sönnum og traustum vináttuböndum þegar það á það sameiginlegt að tilbiðja Guð.

Að viðhalda vináttuböndunum

Því miður valda þeir sem fólk telur vini sína stundum sársauka. Skaðlegt slúður, trúnaðarbrestur, vanþakklæti — allt er þetta mjög sársaukafullt þegar það kemur frá manni sem þú álítur sannan vin. Hvað er hægt að gera þegar slíkt hendir?

Vertu góð fyrirmynd. Gerðu allt sem þú getur til að valda öðrum ekki óþörfum sársauka. Sums staðar skemmta vinir sér við að gera grín að göllum hver annars. En harðneskjuleg framkoma eða blekkingar styrkja ekki vináttuböndin þótt menn þykist vera að ‚gera að gamni sínu.‘ — Orðskviðirnir 26:18, 19.

Leggðu þig fram við að varðveita vináttuböndin. Stundum kemur upp misskilningur þegar vinir ætlast til of mikils hver af öðrum. Vinur, sem er veikur eða annars hugar vegna alvarlegs vandamáls, getur sjálfsagt ekki verið jafnhlýlegur og endranær. Reyndu þá að vera skilningríkur og styðja hann.

Leystu vandamál fljótt og með vinsemd. Gerðu það einslega ef mögulegt er. (Matteus 5:23, 24; 18:15) Fullvissaðu þig um að vinur þinn viti að þú viljir varðveita góð vináttutengsl. Sannir vinir fyrirgefa hver öðrum. (Kólossubréfið 3:13) Verður þú þess konar vinur — sem er traustari en bróðir?

En það er bara fyrsta skrefið að lesa og hugsa um vináttu. Ef við erum einmana skulum við gera eitthvað í málinu; þá verðum við ekki einmana lengi. Ef við leggjum okkur fram getum við eignast sanna vini. Við suma þeirra verða tengslin sérstaklega sterk. En enginn getur komið í stað Guðs, mesta vinarins. Aðeins Jehóva getur þekkt okkur, skilið og stutt fullkomlega. (Sálmur 139:1-4, 23, 24) Og orð hans veitir okkur stórkostlega framtíðarvon — um nýjan heim þar sem við getum átt sanna vini að eilífu. — 2. Pétursbréf 3:13.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Davíð og Jónatan voru sannir vinir. Við getum líka átt nána vini.