Haldið uppi af besta vini sínum
Haldið uppi af besta vini sínum
EIN vináttubönd öðrum fremur halda vottum Jehóva uppi. Það er hið dýrmæta samband við mesta vin þeirra, Jehóva Guð. (Samanber Jakobsbréfið 2:23.) Hann styður þá í erfiðum trúarprófraunum.
Margir hafa borið lof á vottana fyrir ráðvendni þeirra og staðfestu undir einræðisstjórnum. Einn þeirra er Jiří Krupička, doktor í heimspeki og náttúruvísindum, sem fluttist frá Tékkóslóvakíu árið 1968 eftir margra ára vist í fangabúðum kommúnista. Í bók sinni, Renesance rozumu (Vitsmunaendurreisn), minnist hann á þjáningar og staðfestu vottanna sem fangelsaðir voru vegna hlutleysis síns.
Undir stjórn kommúnista voru margir vottar dæmdir til fangavistar vegna trúar sinnar. Þótt þeir sætu í fangelsi neituðu þeir að vinna í úrannámum í hernaðarskyni. (Jesaja 2:4) Krupička lýsir atviki sem hann varð vitni að í einni af þessum námum árið 1952. Hann sá tvær mannverur standa eins og ísstyttur úti í vetrarkuldanum. Málmtunnum hafði verið steypt yfir höfuð þeirra og herðar.
Krupička segir: „Þeir höfðu staðið þar í tötralegum fangafötunum frá því snemma um morguninn. Hvernig gátu þeir staðið svona lengi á ísköldum fótunum? Vegna trúar sinnar. Tunnurnar voru gamlar og ryðgaðar. Grimm hönd sló þá svo harkalega á höfuðið og axlirnar að skörðótt brúnin skarst gegnum jakka og húð annars þeirra, og blóð draup úr ermi hans.
Vörðurinn stöðvaði röðina okkar frammi fyrir þeim og yfirmaðurinn flutti stutta ræðu yfir okkur. Hann sagði að það væri uppreisn að neita að vinna og mönnum væri refsað eftir því. Það væri tilgangslaust að vera með nokkurn tilfinningaþvætting um stríð og dráp við þessa andófsmenn, þessa óvini sósíalismans.“
Yfirmaðurinn tók upp járnstöng og sló í aðra tunnuna. Maðurinn inni í henni féll með tunnuna yfir sér. Það sem þá gerðist stendur Krupička enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.
Hann segir: „Ég heyrði söng innan úr tunnunum. Dauft hljóð, bæn sem hvíslað var til Guðs er heyrt getur hvað sem er hvaðan sem er — jafnvel tilraun manns til að syngja inni í gamalli, ryðgaðri úrantunnu. Guð heyrir það betur en kórsöng í stórri dómkirkju.“
Hinn 1. september 1993 hlaut starf votta Jehóva í Tékkneska lýðveldinu opinbera viðurkenningu. Vottarnir í Tékklandi fagna því að njóta nú frelsis til að inna kristið fræðslustarf sitt af hendi. Já, þeir hafa yndi af því að segja öðrum frá Jehóva, mesta vini sínum.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Gestir á móti í Tékkneska lýðveldinu.