Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Lofið Jah, þið lýðir!“

„Lofið Jah, þið lýðir!“

„Lofið Jah, þið lýðir!“

„Allt sem andardrátt hefir lofi [Jah].“ — SÁLMUR 150:6.

1, 2. (a) Í hvaða mæli blómstraði sönn kristni á fyrstu öld? (b) Hverju höfðu postularnir varað við? (c) Hvernig þróaðist fráhvarfið?

 JESÚS skipulagði hinn kristna söfnuð lærisveina sinna sem blómstraði á fyrstu öldinni. Þrátt fyrir harða andstöðu trúarleiðtoga var ‚fagnaðarerindið prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ (Kólossubréfið 1:23) En eftir dauða postula Jesú Krists kynti Satan lævíslega undir fráhvarfi frá trúnni.

2 Postularnir höfðu varað við því. Til dæmis sagði Páll öldungunum í Efesus: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði. Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:28-30; sjá einnig 2. Pétursbréf 2:1-3; 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19.) Á fjórðu öld tóku fráhvarfskristnin og Rómaveldi höndum saman. Nokkrum öldum síðar ríkti Heilaga rómverska keisaradæmið, með tengsl við páfann í Róm, yfir stórum hluta mannkyns. Við siðaskiptin risu mótmælendur upp gegn illsku og óhófi kaþólsku kirkjunnar en mistókst að endurreisa sanna kristni.

3. (a) Hvenær og hvernig var fagnaðarerindið prédikað fyrir allri sköpun? (b) Hvaða biblíulegar væntingar urðu að veruleika árið 1914?

3 Er halla tók á nítjándu öldina var einlægur hópur biblíunemenda aftur upptekinn við að prédika og flytja ‚öllu, sem skapað er undir himninum, von fagnaðarerindisins.‘ Á grundvelli athugana sinna á spádómum Biblíunnar benti þessi hópur á, 30 árum fyrirfram, að „tímar heiðingjanna“ myndu enda árið 1914, en þetta tímabil var „sjö tíðir“ eða 2520 ár og hófst með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. (Lúkas 21:24; Daníel 4:16) Eins og þeir höfðu búist við urðu straumhvörf í sögu mannsins á jörðinni árið 1914. Á himni áttu sér líka stað sögulegir atburðir. Það var þá sem konungur eilífðarinnar setti meðkonung sinn, Jesú Krist, í himneskt hásæti sem undanfara þess að sópa allri illsku af jörðinni og endurreisa þar paradís. — Sálmur 2:6, 8, 9; 110:1, 2, 5.

Sjáið Messíasarkonunginn!

4. Hvernig reis Jesús undir nafni sínu, Míkael?

4 Árið 1914 hófst þessi Messíasarkonungur, Jesús, handa. Í Biblíunni er hann líka nefndur Míkael sem þýðir „hver er líkur Guði?“ vegna þess að hann er staðráðinn í að réttlæta drottinvald Jehóva. Í Opinberunarbókinni 12:7-12 lýsir Jóhannes postuli í sýn því sem gerast myndi: „Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ Sannarlega mikið fall!

5, 6. (a) Hvaða hrífandi yfirlýsing var gefin frá himnum 1914? (b) Hvernig tengist Matteus 24:3-13 því?

5 Því næst kunngerði þrumuraust á himni: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt. Og þeir [trúfastir kristnir menn] hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins [Krists Jesú] og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.“ Það þýðir frelsun fyrir ráðvanda menn sem hafa trúað á dýrmæta lausnarfórn Jesú. — Orðskviðirnir 10:2; 2. Pétursbréf 2:9.

6 Hljómsterka röddin á himni hélt áfram: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Hörmungarnar, sem jörðinni var spáð þarna, hafa birst í þeim heimsstyrjöldum, hugursneyðum, drepsóttum, jarðskjálftum og lögleysu sem þjáð hafa jörðina á þessari öld. Eins og Matteus 24:3-13 greinir frá spáði Jesús að þetta yrði hluti af ‚endalokatákni veraldar‘ eða þessa heimskerfis. Spádómarnir hafa ræst og frá 1914 hefur mannkynið mátt þola slíkar hörmungar að ekkert frá fyrri tíð jafnast á við þær.

7. Af hverju prédika vottar Jehóva af kappi?

7 Getur mannkynið átt einhverja framtíðarvon á þessari öld djöfullegra hörmunga? Já, vegna þess að Matteus 12:21 segir um Jesú: „Á nafn hans munu þjóðirnar vona.“ Hið átakanlega ástand meðal þjóðanna er ekki aðeins endalokatákn þessa heimskerfis heldur líka nærverutákn Jesú sem konungs Messíasarríkisins á himnum. Jesús segir um þetta ríki: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Hverjir eru einir um að prédika hina stórfenglegu von um Guðsríki núna? Vottar Jehóva! Af kappi prédika þeir hús úr húsi og meðal almennings að réttlætis- og friðarríki Guðs sé um það bil að taka málefni jarðarinnar í sínar hendur. Tekur þú þátt í þessu boðunarstarfi? Meiri sérréttindi geturðu ekki öðlast! — 2. Tímóteusarbréf 4:2, 5.

Hvernig kemur „endirinn“?

8, 9. (b) Hvernig hófst dómurinn „á húsi Guðs“? (b) Hvernig hefur kristni heimurinn fótum troðið orð Guðs?

8 Dómstími er runninn upp yfir mannkyninu. Okkur er tjáð í 1. Pétursbréfi 4:17 að dómurinn hafi byrjað „á húsi Guðs“ — trúfélögum sem segjast kristin. Sá dómur hefur staðið yfir síðan „síðustu dagar“ hófust með blóðbaði fyrri heimsstyjaldarinnar á árunum 1914-18. Hvernig hefur kristni heimurinn komið út úr þessum dómi? Lítum á stuðning kirkjufélaganna við styrjaldir frá 1914. Eru klerkarnir ekki ataðir ‚blóði saklausra fátæklinga‘ sem þeir öttu út í eldlínuna með prédikun sinni? — Jeremía 2:34, NW.

9 Jesús sagði eins og skráð er í Matteusi 26:52: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ Þannig hefur það verið í styrjöldum þessarar aldar! Klerkar hafa hvatt unga menn til að strádrepa aðra unga menn, jafnvel trúbræður sína — kaþólskir hafa drepið kaþólska og mótmælendur drepið mótmælendur. Þjóðernishyggjan hefur verið sett ofar Guði og Kristi. Hjá sumum Afríkuþjóðum hafa ættflokkabönd verið tekin fram yfir frumreglur Biblíunnar nú nýverið. Í Rúanda, þar sem flestir íbúanna eru kaþólskir, var að minnsta kosti hálf milljón manna brytjuð niður í ættbálkaofbeldi. Páfinn viðurkenndi í dagblaðinu L’Osservatore Romano sem gefið er út af Páfagarði: „Þetta er ekkert annað en þjóðarmorð sem jafnvel kaþólskir bera því miður ábyrgð á.“ — Samanber Jesaja 59:2, 3; Míka 4:3, 5.

10. Hvaða dómi mun Jehóva fullnægja á fölskum trúarbrögðum?

10 Hvernig lítur konungur eilífðarinnar á trúarbrögð sem hvetja menn til að brytja hver annan niður eða horfa á það aðgerðarlaus að sóknarbörnin drepi hvert annað? Opinberunarbókin 18:21, 24 segir okkur um Babýlon hina miklu, heimsveldi falskra trúarbragða: „Einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: ‚Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða. Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.‘“

11. Hvaða hryllilegir atburðir hafa átt sér stað í kristna heiminum?

11 Hryllilegir atburðir hafa átt sér stað í kristna heiminum og uppfyllt spár Biblíunnar. (Samanber Jeremía 5:30, 31; 23:14.) Klerkarnir hafa látið flest viðgangast óátalið og á það stóran þátt í því að hjarðir þeirra eru undirlagðar siðleysi. Á Íslandi, þar sem sögð er búa kristin þjóð, lýkur næstum helmingi hjónabanda með skilnaði. Þunganir unglingsstúlkna og kynvilla veður uppi meðal sóknarbarna. Vestanhafs misnota prestar börn kynferðislega — og dæmin eru býsna mörg. Dómssættir í þessum málum gætu að sögn kostað kaþólsku kirkjuna í Bandaríkjunum milljarð dollara innan áratugs. Kristni heimurinn hefur haft viðvörun Páls postula í 1. Korintubréfi 6:9, 10 að engu: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“

12. (a) Hvernig mun konungur eilífðarinnar láta til skarar skríða gegn Babýlon hinni miklu? (b) Hvaða ástæðu mun fólk Guðs, ólíkt kristna heiminum, hafa til að syngja „hallelúja“?

12 Innan skamms mun konungur eilífðarinnar, fyrir atbeina síns himneska hershöfðingja, Krists Jesú, gefa þrengingunni miklu lausan tauminn. Dómi Jehóva verður fyrst fullnægt á kristna heiminum og öllum öðrum hlutum Babýlonar hinnar miklu. (Opinberunarbókin 17:16, 17) Þeir hafa reynst óverðugir þess hjálpræðis sem Jehóva hefur séð fyrir með lausnarfórn Jesú. Þeir hafa fyrirlitið Guðs heilaga nafn. (Samanber Esekíel 39:7.) Hvílík háðung þegar þeir syngja „hallelúja“ í íburðarmiklum trúarbyggingum sínum! Þeir fjarlægja dýrmætt nafn Jehóva úr biblíuþýðingum en virðast gleyma þeirri staðreynd að „hallelúja“ þýðir „lofið Jah“ — en „Jah“ er styttri mynd af „Jahve“ eða „Jehóva.“ Það er vel við hæfi að Opinberunarbókin 19:1-6 skuli segja frá hallelúja-kórum sem brátt munu syngja til að fagna því að Guð skuli fullnægja dómi á Babýlon hinni miklu.

13, 14. (a) Hvaða þýðingarmiklir atburðir gerast næst? (b) Hvaða gleðileg úrslit mun það hafa í för með sér fyrir guðhrædda menn?

13 Því næst „kemur“ Jesús til að fella og fullnægja dómi á lýðum og þjóðum. Sjálfur spáði hann: „Þegar Mannssonurinn [Kristur Jesús] kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu [til að fella dóm]. Allar þjóðir [á jörðinni] munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.‘“ (Matteus 25:31-34) Vers 46 segir svo að hafrarnir „munu fara til eilífrar refsingar [„afnáms,“ NW], en hinir réttlátu til eilífs lífs.“

14 Opinberunarbókin lýsir því hvernig „Konungur konunga og Drottinn drottna,“ himneskur Drottinn okkar, Jesús Kristur, ríður fram til orustunnar við Harmagedón og eyðir stjórnmála- og viðskiptaöflum heimskerfis Satans. Þar með úthellir Kristur „heiftarreiði Guðs hins alvalda“ yfir gervallt veldi Satans á jörðinni. Þegar „hið fyrra er farið“ verða guðhræddir menn leiddir inn í hinn dýrlega nýja heim þar sem Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ — Opinberunarbókin 19:11-16; 21:3-5.

Tími til að lofa Jah

15, 16. (a) Af hverju er nauðsynlegt að fara eftir spádómsorði Jehóva? (b) Hvað gefa spámennirnir og postularnir til kynna að við verðum að gera til að hljóta hjálpræði, og hvað gæti það haft í för með sér núna fyrir mikinn fjölda manna?

15 Dagurinn til að fullnægja dómi er nálægur! Það er því skynsamlegt af okkur að gefa gaum að spádómsorðum eilífðarkonungsins. Rödd af himni tilkynnir þeim sem enn eru flæktir í kenningar og siði falstrúar: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ En hvert á að flýja? Það getur aðeins verið einn sannleikur og þar af leiðandi aðeins ein sönn trú. (Opinberunarbókin 18:4; Jóhannes 8:31, 32; 14:6; 17:3) Eilíft líf okkar er háð því að við finnum hana og hlýðum Guði hennar. Biblían beinir okkur til hans í Sálmi 83:19, en þar segir: „Þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“

16 En það er ekki nóg bara að þekkja nafn konungs eilífðarinnar. Við þurfum að rannsaka Biblíuna og læra um mikilfenglega eiginleika hans og fyrirætlanir. Síðan þurfum við að gera það sem hann vill að menn geri nú á tímum, eins og fram kemur í Rómverjabréfinu 10:9-13. Páll postuli vitnaði þar í innblásna spámenn og sagði svo: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“ (Jóel 3:5; Sefanía 3:9) Hólpinn? Já, því að fjöldinn allur af núlifandi fólki, sem trúir á lausnargjaldsráðstöfun Jehóva fyrir atbeina Krists, verður frelsaður úr hinni komandi miklu þrengingu er dómi verður fullnægt á spilltum heimi Satans. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14.

17. Hvaða stórfengleg von ætti að hvetja okkur núna til að taka þátt í að syngja söng Móse og lambsins?

17 Hvað vill Guð að þeir geri sem vonast til að lifa af? Að við tökum nú þegar þátt í að syngja söng Móse og söng lambsins og lofum konung eilífðarinnar er við hlökkum til sigurs hans. Við gerum það með því að segja öðrum frá dýrlegum fyrirætlunum hans. Þegar skilningur okkar á Biblíunni vex getum við vígt konungi eilífðarinnar líf okkar. Það verður til þess að við fáum að lifa um alla eilífð við þau skilyrði sem þessi voldugi konungur lýsir og finna má í Jesaja 65:17, 18: „Sjá, ég skapa nýjan himin [Messíasarríki Jesú] og nýja jörð [réttlátt nýtt mannfélag], og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“

18, 19. (a) Hvað ættu orð Davíðs í Sálmi 145 að knýja okkur til að gera? (b) Hverju megum við treysta fyllilega af hendi Jehóva?

18 Sálmaritarinn Davíð lýsti konungi eilífðarinnar með þessum orðum: „Mikill er [Jehóva] og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.“ (Sálmur 145:3) Já, mikilleikur hans er jafn órannsakanlegur og endimörk geims og eilífðar! (Rómverjabréfið 11:33) Um leið og við höldum áfram að meðtaka þekkingu á skapara okkar og ráðstöfun hans til að endurleysa mannkynið fyrir milligöngu sonar síns, Krists Jesú, viljum við lofa eilífðarkonung okkar meir og meir. Við viljum gera það sem Sálmur 145:11-13 segir: „Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns. Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns.“

19 Við getum í fullu trausti vænst þess að Guð okkar standi við yfirlýsinguna: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ Konungur eilífðarinnar mun leiða okkur blíðlega til enda hinna síðustu daga því að Davíð konungur fullvissar okkur: „[Jehóva] varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.“ — Sálmur 145:16, 20.

20. Hvernig bregstu við boði konungs eilífðarinnar eins og það kemur fram í síðustu fimm sálmunum?

20 Allir fimm síðustu sálmar Biblíunnar byrja og enda með orðinu „hallelúja“ sem er boð til lesandans. Þannig er okkur boðið í Sálmi 146: „Hallelúja. Lofa þú [Jehóva], sála mín! Ég vil lofa [Jehóva] meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.“ Ætlar þú að svara þessu kalli? Svo sannarlega ættir þú að vilja lofa hann! Megir þú skipa flokk þeirra sem lýst er í Sálmi 148:12, 13: „Bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar! Þau skulu lofa nafn [Jehóva], því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.“ Megum við af heilu hjarta þiggja boðið: „Lofið Jah, þið lýðir!“ Við skulum öll lofa konung eilífðarinnar einum rómi!

Hverju svarar þú?

◻ Hverju vöruðu postular Jesú við?

◻ Hvaða stórviðburðir hafa átt sér stað frá og með 1914?

◻ Hvaða dómum er Jehóva í þann mund að fullnægja?

◻ Af hverju er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að lofa konung eilífðarinnar?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 28]

Öld öngþveitis og umbrota

Margir hafa viðurkennt að öngþveitisöld hafi runnið upp snemma á tuttugustu öldinni. Til dæmis segir um „hamfarir ársins 1914“ í formálsorðum bókarinnar Pandaemonium eftir bandaríska öldungadeildarþingmanninn Daniel Patrick Moynihan, sem kom út árið 1993: „Styrjöld skall á og heimurinn breyttist — gersamlega. Núna eru aðeins átta ríki á jörðinni sem voru til árið 1914 og hafa ekki þurft að sæta því að stjórnskipan þeirra hafi verið breytt með valdi síðan þá. . . . Of stutt er frá stofnun sumra af þeim um það bil 170 öðrum ríkjum samtíðarinnar til að þau hafi náð að kynnast mikilli ólgu.“ Svo sannarlega hefur hörmung á hörmung ofan riðið yfir heiminn frá 1914.

Árið 1993 kom líka út bókin Out of Control — Global Turmoil on the Eve of the Twenty-First Century. Höfundurinn er Zbigniew Brzezinski, fyrrverandi formaður Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna. Hann segir: „Er tuttugasta öldin gekk í garð var því fagnað í mörgum skýringarritum sem raunverulegu upphafi skynsemisaldarinnar. . . . Þvert ofan í fyrirheitin varð tuttugasta öldin blóðugasta og hatursfyllsta öld sögunnar, öld pólitískra tálsýna og hrikalegra manndrápa. Grimmdin var skipulögð meir en nokkru sinni fyrr, útrýmingu fólks var hagað eins og fjöldaframleiðslu. Andstæðan milli hins góða, sem vísindin voru fær um að koma til leiðar, og þeirrar pólitísku illsku, sem fékk lausan tauminn, er átakanleg. Aldrei fyrr í sögunni höfðu manndráp verið jafnútbreidd um heim allan, aldrei fyrr tóku þau svo mörg mannslíf, aldrei fyrr hafði verið lagst svo á eitt í óslitinni viðleitni að gereyða fólki í þágu svo hrokafullra og fáránlegra markmiða.“ Þetta eru orð að sönnu!

[Mynd á blaðsíðu 26]

Míkael varpaði Satan og sveitum hans niður til jarðar árið 1914.