Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lofið konung eilífðarinnar!

Lofið konung eilífðarinnar!

Lofið konung eilífðarinnar!

„[Jehóva] er konungur um aldur og ævi.“ — SÁLMUR 10:16.

1. Hvaða spurningar vakna um eilífðina?

 EILÍFÐIN — hvað myndirðu segja að hún væri? Heldurðu að tíminn geti virkilega haldið áfram endalaust? Það er engin spurning að tíminn teygir sig endalaust aftur í fortíðina. Hví þá ekki endalaust inn í framtíðina? Biblían segir beint út að Guð sé lofaður „frá eilífð til eilífðar.“ (Sálmur 41:14) Hvað þýðir þetta orðalag? Við skiljum það kannski betur ef við lítum á tengt hugtak — geiminn.

2, 3. (a) Hvaða spurningar um geiminn hjálpa okkur að skilja eilífðina? (b) Af hverju ættum við að vilja tilbiðja konung eilífðarinnar?

2 Hve víðáttumikill er geimurinn? Á hann sér einhver takmörk? Þar til fyrir 400 árum var álitið að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Þá fann Galíleó upp stjörnusjónaukann sem gerði mönnum kleift að sjá mun stærri hluta himingeimsins. Galíleó sá núna miklu fleiri stjörnur en menn höfðu áður séð og gat sýnt fram á að jörðin og aðrar reikistjörnur væru á braut um sólu. Vetrarbrautin sýndist ekki lengur dauf slæða á himninum heldur reyndist hún vera stjörnuþoka með um hundrað milljörðum stjarna. Við gætum aldrei talið svo margar stjörnur, jafnvel þótt við notuðum alla ævina til þess. Stjörnufræðingar hafa síðar fundið milljarða stjörnuþoka eða vetrarbrauta. Þær teygja sig endalaust út í geiminn, eins langt og öflugustu sjónaukar fá séð. Geimurinn virðist endalaus. Sama gildir um eilífðina — henni eru engin takmörk sett.

3 Eilífðarhugmyndin virðist ofvaxin okkar takmarkaða skilningi. En sá er til sem skilur hana til fulls. Hann getur talið og jafnvel kallað með nafni allar þessar ótal milljónir trilljóna stjarna í milljörðum vetrarbrauta. Sá hinn sami segir: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant. Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? [Jehóva] er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.“ (Jesaja 40:26, 28) Hvílíkur Guð! Vissulega er hann sá Guð sem við ættum að vilja tilbiðja!

„Konungur um aldur og ævi“

4. (a) Hvernig lýsti Davíð að hann kynni að meta konung eilífðarinnar? (b) Að hvaða niðurstöðu komst einn af mestu vísindamönnum sögunnar um uppruna alheimsins?

4 Í Sálmi 10:16 segir Davíð um þennan Guð og skapara: „[Jehóva] er konungur um aldur og ævi.“ Og í Sálmi 29:10 endurtekur hann: „[Jehóva] mun ríkja sem konungur að eilífu.“ Já, Jehóva er konungur eilífðarinnar! Auk þess vottar Davíð að þessi hátt upphafni konungur sé hönnuður og smiður alls þess sem við sjáum í geimnum, þegar hann segir í Sálmi 19:2: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ Um 2700 árum síðar tók hinn frægi vísindamaður Sir Isaac Newton undir með Davíð er hann skrifaði: „Þetta tígulega kerfi sóla, reikistjarna og halastjarna getur aðeins hafa orðið til fyrir ásetning og óskorað vald upplýstrar og voldugrar veru.“

5. Hvað skrifuðu Jesaja og Páll um uppsprettu viskunnar?

5 Við ættum sannarlega að finna til smæðar okkar þegar við hugsum til þess að hinn alvaldi Drottinn Jehóva lifir eilíflega, hann sem jafnvel „himinninn og himnanna himnar taka . . . ekki“ þótt víðáttumiklir séu. (1. Konungabók 8:27) Jehóva, lýst í Jesaja 45:18 sem þeim „er himininn hefir skapað . . . jörðina hefir myndað og hana til búið,“ er uppspretta miklu umfangsmeiri visku en dauðlegur mannshugur fær skilið til hlítar. Jehóva sagði eins og bent er á í 1. Korintubréfi 1:19: „Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.“ Páll postuli bætir svo við í 20. versi: „Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?“ Jú, eins og Páll segir nokkru seinna, í 3. kafla, 19. versi, er „speki þessa heims . . . heimska hjá Guði.“

6. Hvað gefur Prédikarinn 3:11 til kynna um „eilífðina“?

6 Salómon konungur vísar meðal annars til himintunglanna er hann segir: „Allt hefir [Guð] gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ (Prédikarinn 3:11) Vissulega býr sú löngun í hjarta mannsins að skilja „eilífðina.“ En getur hann nokkurn tíma öðlast slíka þekkingu?

Stórkostlegar lífshorfur

7, 8. (a) Hvaða stórkostlegar framtíðarhorfur blasa við mannkyninu og hvernig geta menn öðlast hlutdeild í þeim? (b) Af hverju ættum við að fagna því að Guð skuli ætla að halda áfram að fræða menn um alla eilífð?

7 Jesús Kristur sagði í bæn til Jehóva: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Hvernig getum við öðlast slíka þekkingu? Við þurfum að nema orð Guðs, heilaga Biblíu. Á þann hátt getum við öðlast nákvæma þekkingu á mikilfenglegum tilgangi Guðs, meðal annars þeirri ráðstöfun hans að gera mönnum kleift að lifa að eilífu í paradís á jörð fyrir atbeina sonar síns. Það verður „hið sanna líf“ sem nefnt er í 1. Tímóteusarbréfi 6:19. Það verður í samræmi við „Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum,“ eins og Efesusbréfið 3:11 lýsir því.

8 Já, við syndugir menn getum öðlast eilíft líf með uppfræðslu frá Guði og trú á lausnarfórn Jesú. Hversu lengi mun þessi uppfræðsla halda áfram? Hún heldur áfram um alla eilífð er menn verða fræddir stig af stigi um visku skapara okkar. Viska eða speki Jehóva er takmarkalaus. Páll postuli gerði sér grein fyrir því og sagði þess vegna: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ (Rómverjabréfið 11:33) Það er svo sannarlega viðeigandi að 1. Tímóteusarbréf 1:17 skuli kalla Jehóva ‚konung eilífðar‘!

Viska Jehóva í sköpunarverkinu

9, 10. (a) Hvaða mikilfengleg verk vann Jehóva er hann undirbjó jörðina sem gjöf til mannkynsins? (b) Hvernig birtist afburðaviska Jehóva í sköpunarverkum hans? (Sjá rammagrein.)

9 Lítum á hina stórfenglegu arfleifð sem konungur eilífðarinnar hefur látið mönnum í té. Sálmur 115:16 segir okkur: „Himinninn er himinn [Jehóva], en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.“ Finnst þér þetta ekki stórkostleg umsjá sem hann hefur falið manninum? Vissulega! Og svo sannarlega metum við mikils einstæða framsýni skaparans er hann útbjó jörðina sem heimili okkar. — Sálmur 107:8.

10 Stórkostleg framvinda átti sér stað á jörðinni á ‚sköpunardögunum‘ sex sem 1. kafli 1. Mósebókar greinir frá, en hver dagur spannaði þúsundir ára. Um síðir myndu sköpunarverk Guðs klæða alla jörðina grænu grasteppi, tignarlegum skógum og litríkum blómum. Jörðin átti að verða kvik af heillandi sjávardýrum og yndisfögrum fuglum, og geysistórri fylkingu húsdýra og villtra dýra sem fjölguðu sér hvert „eftir sinni tegund.“ Eftir að hafa lýst sköpun mannsins og konunnar segir 1. Mósebók 1:31: „Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ Þessum fyrstu mönnum var svo sannarlega búið yndislegt umhverfi! Skynjum við ekki visku, framsýni og umhyggju kærleiksríks skapara í öllum þessum sköpunarverkum? — Jesaja 45:11, 12, 18.

11. Hvernig miklaði Salómon visku Jehóva í sköpunarverkinu?

11 Salómon var einn margra sem dáðist að visku konungs eilífðarinnar. Hann vekur aftur og aftur athygli á visku skaparans. (Orðskviðirnir 1:1, 2; 2:1, 6; 3:13-18) Salómon fullvissar okkur um að ‚jörðin standi að eilífu.‘ Hann kunni að meta hin mörgu undur sköpunarverksins, þar á meðal hlutverk regnskýjanna í vökvun jarðar. Hann sagði því: „Allar ár renna í sjóinn en sjórinn er enn ekki fullur. Vatnið hverfur á ný að upptökum ánna og byrjar allt upp á nýtt.“ (Prédikarinn 1:4, 7, Today’s English Version) Vatnið gufar upp úr höfunum og verður að skýjum eftir að regnið og árnar hafa vökvað jörðina. Hvernig liti jörðin út og hvernig væri komið fyrir okkur ef þessi hreinsun og endurvinnsla vatnsins væri ekki fyrir hendi?

12, 13. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta sköpunarverk Guðs?

12 Ef við kunnum að meta jafnvægið í náttúrunni ættum við að sýna það í verki eins og Salómon konungur tók fram í lokaorðum Prédikarans: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ (Prédikarinn 12:13, 14) Við ættum að óttast að gera nokkuð sem er Guði vanþóknanlegt og leitast heldur við að hlýða honum með lotningu og guðhræðslu.

13 Já, við ættum að vilja lofa konung eilífðarinnar fyrir stórkostleg sköpunarverk hans! Sálmur 104:24 segir: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ Við skulum taka heilshugar og fagnandi undir síðasta versið í þessum sálmi með því að segja við sjálf okkur og aðra: „Vegsama þú [Jehóva], sála mín. Hallelúja.“

Kóróna hins jarðneska sköpunarverks

14. Á hvaða vegu er maðurinn langtum fremri dýrunum?

14 Öll sköpun Jehóva er meistaraverk. En við — mannkynið — erum undraverðasta sköpunin á jörðinni. Sköpun Adams og síðan Evu var hámark sjötta sköpunardags Jehóva. Þau voru langtum æðri fiskum, fuglum og landdýrum. Mörg þeirra eru vitur af eðlishvöt en mennirnir eru gæddir rökhugsun, samvisku sem getur greint gott frá illu, hæfni til að gera framtíðaráætlanir og áskapaðri tilbeiðsluþrá. Hvernig varð allt þetta til? Maðurinn þróaðist ekki af skynlausum skepnum heldur var skapaður í mynd Guðs. Þar af leiðandi getur maðurinn einn endurspeglað eiginleika skaparans sem sagði um sjálfan sig: „[Jehóva], [Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ — 2. Mósebók 34:6.

15. Af hverju ættum við að lofa Jehóva í auðmýkt?

15 Við skulum lofa og þakka Jehóva fyrir stórkostlega hönnun mannslíkamans. Lífsnauðsynlegt blóðið fer hringrás um líkamann á hverri mínútu. Eins og 5. Mósebók 12:23 segir ‚er blóðið lífið‘ — dýrmætt í augum Guðs. Yfir sterkbyggðum beinum, sveigjanlegum vöðvum og viðbragðsfljótu taugakerfi gnæfir heili sem er langtum fremri nokkrum dýraheila og með getu sem tölva á stærð við skýjakljúf kæmist ekki í hálfkvisti við. Er þetta ekki nóg til að gera þig auðmjúkan? Það ætti að vera það. (Orðskviðirnir 22:4) Og hugleiddu einnig þetta: Með samspili lungna, barkakýlis, tungu, tanna og munns getur maðurinn talað hvert sem er af þúsundum tungumála jarðar. Davíð lofsöng Jehóva á viðeigandi hátt með orðunum: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ (Sálmur 139:14) Við skulum taka undir með Davíð og lofa Jehóva með þakklæti, hinn stórkostlega hönnuð okkar og Guð!

16. Hvað orti frægt tónskáld Jehóva til lofs og hvaða hvatningu getum við farið eftir?

16 Í óratóríu frá átjándu öld, eftir Joseph Haydn, segir í lofgjörð til Jehóva: „Þakkið honum, öll dásemdarverk hans! Lofsyngið frægð hans, lofsyngið dýrð hans, blessið og miklið nafn hans! Lof Jehóva varir um eilífð, amen, amen!“ Hin innblásnu orð Sálmanna eru jafnvel enn fegurri, til dæmis hvatningin sem veitt er fjórum sinnum í 107. sálminum: „Þeir skulu þakka [Jehóva] miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn.“ Tekur þú þátt í þessari lofgjörð? Það ættir þú að gera því að allt sem er í sannleika fagurt er komið frá Jehóva, konungi eilífðarinnar.

Enn meiri máttarverk

17. Hvernig er Jehóva lofaður í ‚söng Móse og lambsins‘?

17 Á síðastliðnum sex þúsund árum hefur konungur eilífðarinnar unnið enn meiri máttarverk. Í síðustu bók Biblíunnar, í Opinberunarbókinni 15:3, 4, lesum við um þá á himni sem hafa hrósað sigri yfir djöfullegum óvinum: „Þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.“ Hvers vegna er þetta kallað ‚söngur Móse og lambsins‘? Við skulum athuga það.

18. Hvaða máttarverks er minnst í ljóðinu í 15. kafla 2. Mósebókar?

18 Fyrir um það bil 3500 árum, þegar voldugur her Faraós þurrkaðist út í Rauðahafinu, lofsungu Ísraelsmenn Jehóva fullir þakklætis. Við lesum í 2. Mósebók 15:1, 18: „Þá söng Móse og Ísraelsmenn [Jehóva] þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja [Jehóva], því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið. [Jehóva] skal ríkja um aldur og að eilífu!“ Réttlátar tilskipanir þessa konungs eilífðarinnar birtust í því hvernig hann dæmdi óvini sem storkuðu drottinvaldi hans og tók þá af lífi.

19, 20. (a) Til hvers myndaði Jehóva Ísraelsþjóðina? (b) Hvernig hafa lambið og aðrir svarað ögrun Satans?

19 Hvers vegna þurfti að koma til þess? Í Edengarðinum hafði hinn slægi höggormur leitt fyrstu foreldra okkar út í synd. Afleiðingin varð sú að synd og ófullkomleiki gekk í arf til allra manna. En konungur eilífðarinnar gerði strax ráðstafanir í samræmi við upphaflegan tilgang sinn, sem hefðu í för með sér að öllum óvinum hans yrði rutt burt af jörðinni og paradís endurreist þar. Konungur eilífðarinnar myndaði Ísraelsþjóðina sem lifandi dæmi um hvernig hann kæmi þessu til leiðar. — Galatabréfið 3:24.

20 Er fram liðu stundir varð Ísraelsþjóðin sjálf ótrú. Þetta hryggilega ástand náði hámarki er leiðtogar hennar framseldu Rómverjum eingetinn son Guðs til þess að hann yrði kvalinn hrottalega og drepinn. (Postulasagan 10:39; Filippíbréfið 2:8) En Jesús, ‚Guðslambið‘ sem fórna átti, var ráðvandur allt til dauða og svaraði á framúrskarandi hátt þeirri ögrun Satans, hins forna andstæðings Guðs, að enginn maður á jörðu gæti verið Guði trúfastur í erfiðum prófraunum. (Jóhannes 1:29, 36; Jobsbók 1:9-12; 27:5) Þrátt fyrir hinn arfgenga ófullkomleika, sem stafar af synd Adams, hafa milljónir guðhræddra manna fetað í fótspor Jesú og varðveitt ráðvendni þrátt fyrir djöfullegar árásir. — 1. Pétursbréf 1:18, 19; 2:19, 21.

21. Hvað er fjallað um næst með hliðsjón af Postulasögunni 17:29-31?

21 Núna er runninn upp dagur Jehóva til að umbuna þessum trúföstu mönnum og til að dæma alla óvini sannleika og réttlætis. (Postulasagan 17:29-31) Hvernig gerir hann það? Því er svarað í næstu grein.

Upprifjun

◻ Hvers vegna er Jehóva réttilega kallaður ‚konungur eilífðarinnar‘?

◻ Hvernig birtist viska Jehóva í sköpunarverkum hans?

◻ Á hvaða vegu er mannkynið meistaraverk sköpunarinnar?

◻ Hvaða verk kalla á „söng Móse og lambsins“?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 21]

Afburðaviska Jehóva

Viska konungs eilífðarinnar endurspeglast á svo marga vegu í jarðneskum verkum hans. Taktu eftir orðum Agúrs: „Sérhvert orð Guðs er hreint, hann er skjöldur þeim, er leita hælis hjá honum.“ (Orðskviðirnir 30:5) Síðan bendir Agúr á margar af sköpunarverum Guðs, stórar og smáar. Í versi 24 til 28 lýsir hann til dæmis ‚fjórum sem eru smáir á jörðinni, og þó eru þeir vitrir spekingar.‘ Þessir fjórir eru maurinn, stökkhérinn, engisprettan og ferfætlan sem er eðla.

„Vitrir spekingar“ — hvernig þá? Nýheimsþýðingin segir hér „vitur af eðlishvöt.“ Dýrin rökhugsa ekki eins og mennirnir heldur reiða sig á áskapaða visku. Hefurðu einhvern tíma dáðst að þessari visku? Þessar sköpunarverur hafa geysigóða skipulagsgáfu. Maurasamfélögin eru til dæmis skipulögð þannig að þar eru drottning, vinnumaurar og hermaurar. Hjá sumum tegundum halda vinnumaurarnir jafnvel blaðlýs sem húsdýr á afgirtum svæðum. Þar mjólka þeir blaðlýsnar á meðan hermaurarnir hrekja alla óvini brott. Í Orðskviðunum 6:6 er þessi áminning: „Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.“ Ættu slík fordæmi ekki að hvetja okkur mennina til að vera „síauðugir í verki Drottins“? — 1. Korintubréf 15:58.

Menn hafa smíðað risaflugvélar. En flugfimi þeirra jafnast ekki á við flugfimi fuglanna, þeirra á meðal mánabríans sem vegur innan við þrjátíu grömm. Boeing 747 verður að bera 180.000 lítra af eldsneyti, vera undir stjórn þjálfaðrar áhafnar og notfæra sér margbrotið flugleiðsögukerfi til að fljúga yfir hafið. En mánabríanum litla nægir aðeins eitt gramm af fitu til að knýja sig alla leið frá Norður-Ameríku, yfir Mexíkóflóa og til Suður-Ameríku. Enginn þungur eldsneytisfarmur, engin þjálfun í siglingafræði, engin flókin kort eða tölvur! Er þessi hæfni komin til af tilviljunarkenndri þróun? Örugglega ekki! Þessi örsmái fugl er vitur af eðlishvöt, forritaður þannig af skapara sínum, Jehóva Guði.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Hin fjölbreyttu sköpunarverk ‚konungs eilífðarinnar‘ vegsama dýrð hans.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Líkt og Móse og allur Ísrael fagnaði sigri Jehóva við Rauðahafið verður mikill fögnuður eftir Harmagedón.