Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að gjalda keisaranum það sem keisarans er

Að gjalda keisaranum það sem keisarans er

Að gjalda keisaranum það sem keisarans er

„Gjaldið öllum það sem skylt er.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 13:7.

1, 2. (a) Hvaða jafnvægi sagði Jesús að kristnir menn ættu að hafa í sambandi við skyldur sínar gagnvart Guði og keisaranum? (b) Hvað skiptir mestu máli fyrir votta Jehóva?

 AÐ SÖGN Jesú skuldum við Guði eitt og keisaranum eða ríkinu annað. Hann sagði: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ Með þessum fáu orðum sló hann óvini sína út af laginu og lýsti í hnotskurn því jafnvægi sem við verðum að hafa í samskiptum okkar við Guð og við ríkið. Það er ekkert undarlegt að áheyrendur hans skuli hafa ‚furðað stórlega á honum.‘ — Markús 12:17.

2 Það sem skiptir þjóna Jehóva auðvitað mestu máli er að gjalda Guði það sem Guðs er. (Sálmur 116:12-14) En þeir gleyma ekki að Jesús sagði að þeir verði líka að gjalda keisaranum vissa hluti. Biblíufrædd samviska þeirra krefst þess að þeir ígrundi í bænarhug í hve miklum mæli þeir geti goldið keisaranum það sem hann krefst. (Rómverjabréfið 13:7) Margir lögfróðir menn nú á tímum hafa viðurkennt að vald stjórnvalda hefur sín takmörk og að fólk og stjórnir alls staðar er bundið af náttúrulögum.

3, 4. Hvað hefur verið sagt um náttúrulög, opinberuð lög og mannalög?

3 Páll postuli minntist á þessi náttúrulög er hann sagði um fólkið í heiminum: „Það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það. Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“ Ef þessir trúlausu menn hlýða náttúrulögum ýtir það jafnvel við samvisku þeirra. Páll segir því: „Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni.“ — Rómverjabréfið 1:19, 20; 2:14, 15.

4 Hinn nafntogaði enski lögfræðingur, William Blackstone, skrifaði á 18. öld: „Þessi lög náttúrunnar, sem eru jafngömul mannkyninu og sett af Guði sjálfum, eru að sjálfsögðu æðri öllum öðrum lögum. Þau eru bindandi um heim allan, í öllum löndum og á öllum tímum: engin mannalög eru lögmæt ef þau stangast á við þau.“ Blackstone talaði síðan um „opinberuð lög,“ sem er að finna í Biblíunni, og sagði: „Öll lög manna eru háð þessum tveim undirstöðum, lögum náttúrunnar og opinberuðum lögum; það þýðir að engin lög manna ættu að fá að stangast á við þau.“ Þetta er í samræmi við orð Jesú um Guð og keisarann í Markúsi 12:17. Ljóst er að Guð takmarkar á vissum sviðum það sem keisarinn getur krafist af kristnum manni. Æðstaráð Gyðinga villtist inn á slíkt svið er það bannaði postulunum að prédika um Jesú. Þess vegna svöruðu postularnir réttilega: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:28, 29.

‚Það sem Guðs er‘

5, 6. (a) Hvað ættu kristnir menn að hafa ofarlega í huga í ljósi þess að Guðsríki fæddist árið 1914? (b) Hvernig sýnir kristinn maður að hann sé þjónn orðsins?

5 Frá 1914, þegar Jehóva Guð, hinn alvaldi, hóf að stjórna sem konungur fyrir milligöngu Messíasarríkis Krists, hafa kristnir menn sérstaklega þurft að gæta þess að gefa keisaranum ekki það sem Guðs er. (Opinberunarbókin 11:15, 17) Lög Guðs krefjast þess meir en nokkru sinni fyrr að kristnir menn ‚séu ekki af heiminum.‘ (Jóhannes 17:16) Þeir eru vígðir lífgjafa sínum Guði og verða að sýna greinilega að þeir tilheyra ekki lengur sjálfum sér. (Sálmur 100:2, 3) Eins og Páll skrifaði „tilheyrum við Jehóva.“ (Rómverjabréfið 14:8, NW) Við skírn sína er kristinn maður auk þess vígður sem þjónn Guðs þannig að hann getur tekið undir með Páli: ‚Guð hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna.‘ — 2. Korintubréf 3:5, 6.

6 Páll postuli skrifaði einnig: ‚Ég vegsama þjónustu mína.‘ (Rómverjabréfið 11:13) Við ættum vitanlega að gera það líka. Hvort sem við erum boðberar í fullu starfi eða hlutastarfi höfum við hugfast að Jehóva hefur sjálfur falið okkur þjónustuna. (2. Korintubréf 2:17) Þar eð sumir kunna að véfengja stöðu okkar þarf hver einasti vígður, skírður kristinn maður að vera reiðubúinn að leggja fram skýra og afdráttarlausa sönnun fyrir því að hann sé virkilega þjónn fagnaðarerindisins. (1. Pétursbréf 3:15) Hegðun hans ætti einnig að bera þjónustunni vitni. Sem þjónn Guðs ætti kristinn maður að vera málsvari góðs siðferðis og stunda það sjálfur, varðveita einingu fjölskyldunnar, vera heiðarlegur og sýna virðingu fyrir lögum og reglum. (Rómverjabréfið 12:17, 18; 1. Þessaloníkubréf 5:15) Samband kristins manns við Guð og þjónustan, sem Guð hefur falið honum, skiptir langmestu máli í lífi hans. Hann getur ekki gefið það upp á bátinn að boði keisarans. Ljóst er því að það er meðal þess „sem Guðs er.“

‚Það sem keisarans er‘

7. Hvaða orð fer af vottum Jehóva í sambandi við greiðslu skatta?

7 Vottar Jehóva vita að þeir skulda „yfirvöldum“ eða stjórnvöldum ‚undirgefni‘ sína. (Rómverjabréfið 13:1) Þegar því keisarinn eða ríkið gerir lögmætar kröfur leyfir biblíufrædd samviska þeirra þeim að verða við þessum kröfum. Sannkristnir menn eru til dæmis einhverjir skilvísustu skattgreiðendur í heimi. Þýska dagblaðið Münchner Merkur sagði um votta Jehóva: „Þeir eru heiðarlegustu og skilvísustu skattgreiðendur Sambandslýðveldisins.“ Ítalska dagblaðið La Stampa sagði einu sinni: „Þeir [vottar Jehóva] eru dyggustu þegnar sem nokkur gæti óskað sér: Þeir skjóta ekki undan skatti og reyna ekki að sniðganga óþægileg lög í eiginhagsmunaskyni.“ Þjónar Jehóva gera það „vegna samviskunnar.“ — Rómverjabréfið 13:5, 6.

8. Skuldum við keisaranum ekkert annað en skattpeninga?

8 Takmarkast „það, sem keisarans er“ við skatta? Nei, Páll nefndi ýmislegt annað, svo sem ótta og virðingu. Í bók sinni, Critical and Exegetical Hand-Book to the Gospel of Matthew, segir þýski fræðimaðurinn Heinrich Meyer: „Við eigum ekki að skilja [það sem keisarans er] . . . aðeins sem borgaralegan skatt heldur allt sem keisaranum bar sökum lögmætra yfirráða hans.“ Sagnfræðingurinn E. W. Barnes segir í verki sínu, The Rise of Christianity, að kristinn maður hafi greitt skatta ef hann skuldaði skatta og ‚jafnframt gengist undir allar aðrar kvaðir ríkisins, svo framarlega sem ekki var krafist að hann gyldi keisaranum það sem Guðs var.‘

9, 10. Af hverju gæti kristinn maður verið hikandi við að gjalda keisaranum það sem keisarans er, en hvað ætti að hafa í huga?

9 Hvers gæti ríkið krafist án þess að seilast inn á það sem réttilega tilheyrir Guði? Sumir hafa talið að þeir gætu með réttu goldið keisaranum skatt í mynd peninga en einskis annars. Þeir væru alls ekki ánægðir með að gefa keisaranum neitt er tæki tíma sem þeir gætu að öðrum kosti notað til guðræðislegra athafna. En þótt við eigum að ‚elska Jehóva Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti‘ reiknar Jehóva með að við notum tíma til ýmissa annarra hluta en heilagrar þjónustu okkar. (Markús 12:30; Filippíbréfið 3:3, NW) Til dæmis er giftum kristnum mönnum ráðlagt að nota tíma til að þóknast maka sínum. Slíkt er ekkert rangt, heldur segir Páll postuli að það sé „það, sem heimsins er,“ ekki „það, sem Drottins er.“ — 1. Korintubréf 7:32-34; samanber 1. Tímóteusarbréf 5:8.

10 Kristur heimilaði fylgjendum sínum að ‚gjalda‘ skatta, og það kostar vissulega tíma sem er helgaður Jehóva — því að allt líf okkar er helgað honum. Ef meðalskatthlutfall í landinu væri 33 prósent tekna (og sums staðar er það hærra) svarar það til þess að venjulegur vinnandi maður greiði Ríkissjóði jafngildi fjögurra mánaða tekna á ári. Með öðrum orðum, að lokinni starfsævi sinni hefur hann eytt um 15 árum í að vinna fyrir þeim sköttum sem ‚keisarinn‘ krefst. Og hugsum líka um skólagöngu. Víðast hvar í heiminum er foreldrum skylt að senda börn sín í skóla ákeðinn lágmarksárafjölda. Skólaskyldan er mislöng frá einu landi til annars. Víðast hvar er hún talsvert löng. Vissulega er slík skólaganga að öllu jöfnu gagnleg, en það er keisarinn sem ákveður hve stóran hluta af lífi barnsins skal nota með þeim hætti, og kristnir foreldrar fara eftir ákvörðun hans.

Herskylda

11, 12. (a) Hvaða kröfu gerir keisarinn víða um lönd? (b) Hvernig litu frumkristnir menn á herþjónustu?

11 Önnur krafa keisarans í sumum löndum er herskylda. Núna á 20. öldinni hafa flestar þjóðir haft herskyldu á stríðstímum, og sumar einnig á friðartímum. Í Frakklandi var þessi skylda kölluð blóðskattur um árabil, og þar bjó sú hugsun að baki að sérhver ungur maður yrði að vera fús til að fórna lífinu fyrir ríkið. Geta þeir sem eru vígðir Jehóva goldið slíkt samvisku sinnar vegna? Hvernig litu kristnir menn á fyrstu öld á þetta mál?

12 Enda þótt frumkristnir menn hafi leitast við að vera góðir borgarar meinaði trú þeirra þeim að taka líf annars manns eða fórna lífi sínu fyrir ríkið. Alfræðibókin The Encyclopedia of Religion segir: „Fyrstu kirkjufeðurnir, þeirra á meðal Tertúllíanus og Órígenes, staðfestu að kristnum mönnum væri óheimilt að taka mannslíf, en það var meginregla sem kom í veg fyrir þjónustu í rómverska hernum.“ Prófessor C. J. Cadoux segir í bók sinni The Early Church and the World: „Að minnsta kosti fram á stjórnartíma Markúsar Árelíusar [161-180] gerðist enginn kristinn maður hermaður eftir skírn sína.“

13. Af hverju líta fæstir í kristna heiminum herþjónustu sömu augum og frumkristnir menn?

13 Hvers vegna líta kirkjufélög kristna heimsins málið ekki sömu augum nú á dögum? Vegna róttækrar breytingar sem átti sér stað á fjórðu öld. Kaþólska verkið A History of the Christian Councils útskýrir: „Margir kristnir menn . . . í stjórnartíð heiðnu keisaranna voru af trúarástæðum hikandi við að gegna herþjónustu, og þeir neituðu afdráttarlaust að taka sér vopn í hönd eða gerðust liðhlaupar. Er kirkjuþingið [í Arles, haldið árið 314] fjallaði um þær breytingar sem Konstantínus kom á, setti það ákvæði þess efnis að kristnum mönnum væri skylt að þjóna í stríði . . . af því að kirkjan nýtur friðar (in pace) undir stjórn höfðingja sem er hliðhollur kristnum mönnum.“ Þarna var horfið frá kenningum Jesú og þaðan í frá allt til okkar daga hafa klerkar kristna heimsins hvatt sóknarbörn sín til að þjóna í herjum þjóðanna, enda þótt einstaka maður hafi neitað því af samviskuástæðum.

14, 15. (a) Á hvaða grundvelli fá kristnir menn sums staðar undanþágu frá herþjónustu? (b) Hvaða meginreglur Biblíunnar hjálpa kristnum manni að taka rétta ákvörðun í sambandi við herþjónustu þar sem undanþágur eru ekki veittar?

14 Er kristnum mönnum nú á tímum skylt að fylgja fjöldanum í þessu máli? Nei, ef vígður, skírður kristinn maður býr í landi þar sem þjónar trúarinnar eru undanþegnir herþjónustu getur hann notfært sér það, því að vissulega er hann þjónn orðsins. (2. Tímóteusarbréf 4:5) Fjölmörg ríki, þeirra á meðal Bandaríkin og Ástralía, hafa veitt slíka undanþágu jafnvel á stríðstímum. Og á friðartímum eru vottar Jehóva víða undanþegnir herþjónustu þar sem annars er herskylda, á þeim grundvelli að þeir séu þjónar trúarinnar. Þannig geta þeir haldið áfram að hjálpa fólki með þjónustu sinni í þágu almennings.

15 En hvað nú ef kristinn maður býr í landi þar sem þjónar trúarinnar eru ekki undanþegnir herþjónustu? Þá verður hann að taka persónulega ákvörðun byggða á biblíufræddri samvisku sinni. (Galatabréfið 6:5) Þótt hann taki mið af valdi keisarans vegur hann og metur vandlega hvað hann skuldar Jehóva. (Sálmur 36:10; 116:12-14; Postulasagan 17:28) Kristinn maður man að aðalsmerki sannkristinna manna er kærleikur til allra trúbræðra, jafnvel þeirra sem búa í öðrum löndum eða tilheyra öðrum ættflokkum. (Jóhannes 13:34, 35; 1. Pétursbréf 2:17) Og hann gleymir ekki þeim meginreglum Biblíunnar sem er að finna meðal annars í Jesaja 2:2-4; Matteusi 26:52; Rómverjabréfinu 12:18; 14:19; 2. Korintubréfi 10:4; og Hebreabréfinu 12:14.

Borgaraleg þjónusta

16. Hvers konar þjónustu krefst keisarinn sums staðar af þeim sem vilja ekki gegna herþjónustu?

16 En þau lönd eru til þar sem ríkið veitir þjónum trúarinnar ekki undanþágu frá herskyldu en viðurkennir engu að síður að menn geti verið mótfallnir herþjónustu. Mörg þessara landa taka tillit til þess að sumir geti ekki gegnt herþjónustu samvisku sinnar vegna og þröngva þeim ekki til þess. Sums staðar er krafist ákveðinnar borgaralegrar þjónustu, svo sem gagnlegra starfa í þágu samfélagsins, og litið á hana sem almenna þegnskylduvinnu ótengda herþjónustu. Getur vígður kristinn maður gegnt slíkri þjónustu? Sem fyrr verður vígður, skírður kristinn maður að taka ákvörðun sjálfur miðað við biblíufrædda samvisku sína.

17. Á borgaraleg þjónusta sér biblíulegt fordæmi?

17 Svo virðist sem þegnskylduvinna hafi þekkst á biblíutímanum. Sagnfræðibók segir: „Auk skatta og skyldna, sem krafist var af Júdamönnum, var einnig lögð á þá vinnukvöð [ólaunuð vinna sem yfirvöld kröfðust]. Þetta var ævafornt fyrirkomulag í Austurlöndum sem hellensk og rómversk yfirvöld viðhéldu. . . . Nýjatestamentið nefnir líka dæmi um vinnuskyldu í Júdeu sem sýnir hve útbreidd hún var. Í samræmi við þennan sið neyddu hermennirnir Símon frá Kýrene til að bera kross [kvalastaur] Jesú (Matteus 5:41; 27:32; Markús 15:21; Lúkas 23:26).“

18. Hvers konar samfélagsþjónustu, sem á ekkert skylt við hernað eða trúmál, taka vottar Jehóva oft þátt í?

18 Á sama hátt krefjast ríki og sveitarstjórnir þess sums staðar af þegnum sínum að þeir gegni ýmiss konar samfélagsþjónustu. Stundum er um að ræða tiltekin verkefni, svo sem vegagerð eða að grafa brunna; stundum föst verkefni, svo sem vikulega þátttöku í viðhaldi vega, skóla eða sjúkrahúsa. Þar sem slík borgaraleg þjónusta er til almannaheilla og er ekki tengd falstrúarbrögðum og stríðir ekki á annan hátt gegn samvisku votta Jehóva hafa þeir oft lagt sitt af mörkum. (1. Pétursbréf 2:13-15) Yfirleitt hefur það gefið góðan vitnisburð og stundum þaggað niður í þeim sem saka vottana ranglega um að vera andvígir stjórnvöldum. — Samanber Matteus 10:18.

19. Hvernig ætti kristinn maður að snúa sér í málinu ef keisarinn fer fram á tímabundna þegnskylduvinnu sem ekki tengist hernaði?

19 En hvað nú ef ríkið krefst þess af kristnum manni að hann inni um tíma af hendi þegnskylduvinnu undir borgaralegri stjórn í stað herþjónustu? Sem fyrr verður hver einstakur kristinn maður að taka sína eigin ákvörðun byggða á uppfræddri samvisku sinni. „Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.“ (Rómverjabréfið 14:10) Kristnir menn, sem standa frammi fyrir slíkri kröfu keisarans, ættu að rannsaka málið í bænarhug og ígrunda það vandlega. * Það gæti líka verið ráðlegt að ræða málið við þroskaða kristna menn í söfnuðinum. Eftir það þarf hver og einn að taka sína eigin ákvörðun. — Orðskviðirnir 2:1-5; Filippíbréfið 4:5, NW.

20. Hvaða spurningar og biblíulegar meginreglur hjálpa kristnum manni að ígrunda hvort hann geti unnið þegnskylduvinnu sem ekki er tengd herþjónustu?

20 Þegar kristinn maður rannsakar þetta mál tekur hann mið af allmörgum meginreglum Biblíunnar. Páll sagði að við yrðum að „vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, . . . reiðubúnir til sérhvers góðs verks, . . . sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ (Títusarbréfið 3:1, 2) Um leið er rétt af kristnum manni að kynna sér hvers konar borgaralegra starfa er ætlast til. Getur hann varðveitt kristið hlutleysi sitt ef hann vinnur þessi störf? (Míka 4:3, 5; Jóhannes 17:16) Myndu þau bendla hann við einhver falstrúarbrögð? (Opinberunarbókin 18:4, 20, 21) Myndu þau hindra hann í að rækja kristnar skyldur sínar eða tálma honum verulega að gera það? (Matteus 24:14; Hebreabréfið 10:24, 25) Eða gæti hann haldið áfram að taka andlegum framförum, jafnvel verið boðberi í fullu starfi samhliða þeirri þegnskylduvinnu sem krafist er af honum? — Hebreabréfið 6:11, 12.

21. Hvernig ætti söfnuðurinn að líta á bróður sem vinnur borgaralega þegnskylduvinnu sem ekki tengist hernaði?

21 Hvað þá ef kristinn maður kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa svarað slíkum spurningum hreinskilnislega, að þegnskylduvinnan sé ‚gott verk‘ sem hann getur unnið í hlýðni við yfirvöldin? Það er hans ákvörðun frammi fyrir Jehóva. Öldungarnir og aðrir ættu að virða samvisku bróðurins fullkomlega og halda áfram að líta á hann sem góðan kristinn mann. En ef kristnum manni finnst hann ekki geta innt þessa borgaralegu þjónustu af hendi, þá ætti einnig að virða þá afstöðu. Hann er líka álitinn góður kristinn maður og ætti að njóta kærleiksríks stuðnings. — 1. Korintubréf 10:29; 2. Korintubréf 1:24; 1. Pétursbréf 3:16.

22. Hverju höldum við alltaf áfram, óháð þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir?

22 Sem kristnir menn hættum við ekki að gjalda „þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Við virðum lög og reglu og leitumst við að vera friðsamir, löghlýðnir borgarar. (Sálmur 34:15) Við getum jafnvel beðið „fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir,“ þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á kristið líf okkar og starf. Með því að gjalda keisaranum það sem keisarans er, vonum við að við „fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.“ (1. Tímóteusarbréf 2:1, 2) Umfram allt höldum við áfram að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki sem einu von mannkynsins, og gjöldum Guði samviskusamlega það sem Guðs er.

[Neðanmáls]

^ Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 15. maí 1964, bls. 308, grein 21.

Geturðu svarað?

◻ Hvað skiptir kristinn mann mestu máli til að hafa jafnvægi í samskiptum við keisarann og Jehóva?

◻ Hvað skuldum við Jehóva sem við getum aldrei gefið keisaranum?

◻ Nefndu dæmi um það sem við getum réttilega goldið keisaranum.

◻ Hvaða ritningarstaðir hjálpa okkur að taka rétta ákvörðun í sambandi við herskyldu?

◻ Hvað þarf meðal annars að hafa í huga ef við erum kölluð í þegnskylduvinnu sem ekki tengist hernaði?

◻ Hverju höldum við áfram í sambandi við Jehóva og keisarann?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Postularnir sögðu æðstaráði Gyðinga: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“