Guð og keisarinn
Guð og keisarinn
„Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ — LÚKAS 20:25.
1. (a) Hver er hin háa staða Jehóva? (b) Hvað skuldum við Jehóva sem við getum aldrei gefið keisaranum?
ÞEGAR Jesús Kristur gaf þessi fyrirmæli lék enginn vafi á því í huga hans að kröfur Guðs til þjóna sinna gengju fyrir hverju því sem keisarinn eða ríkið kynni að krefjast af þeim. Jesús skildi betur en nokkur annar sannleiksgildi orðanna í bæn sálmaritarans til Jehóva: „Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki [drottinvald] * þitt stendur frá kyni til kyns.“ (Sálmur 145:13) Þegar djöfullinn bauð Jesú yfirráð yfir öllum ríkjum veraldar svaraði Jesús: „Ritað er: [Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Lúkas 4:5-8) Það var aldrei hægt að tilbiðja ‚keisarann,‘ hvort sem það var keisari Rómar, einhver annar mennskur valdhafi eða ríkið sjálft.
2. (a) Hver er staða Satans gagnvart þessum heimi? (b) Með leyfi hvers er Satan í þessari stöðu?
2 Jesús mótmælti því ekki að Satan gæti gefið honum ríki heimsins. Síðar kallaði hann Satan „höfðingja þessa heims.“ (Jóhannes 12:31; 16:11) Undir lok fyrstu aldar skrifaði Jóhannes postuli: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þetta merkir ekki að Jehóva hafi afsalað sér drottinvaldi sínu yfir jörðinni. Munum að Satan sagði er hann bauð Jesú yfirráð yfir hinum pólitísku ríkjum: „Þér mun ég gefa allt þetta veldi . . . því að mér er það í hendur fengið.“ (Lúkas 4:6) Satan ræður yfir ríkjum heims aðeins af því að Guð leyfir það.
3. (a) Hver er staða stjórna þjóðanna gagnvart Jehóva? (b) Hvernig getum við sagt að undirgefni við stjórnir þessa heims feli ekki í sér að gefa sig undir Satan, guð þessa heims?
3 Eins fer ríkið með yfirráð sín aðeins af því að Guð sem æðsti drottinvaldur leyfir það. (Jóhannes 19:11) Það má því segja að ‚yfirvöldin, sem til eru,‘ séu „skipuð af Guði.“ Í samanburði við æðsta drottinvald Jehóva eru þau mun lægra sett. Samt sem áður eru þau „þjónn Guðs“ á þann hátt að þau veita nauðsynlega þjónustu, halda uppi lögum og reglu og refsa illvirkjum. (Rómverjabréfið 13:1, 4, 6) Kristnir menn þurfa því að skilja að þeir eru ekki að gefa sig undir vald Satans þegar þeir viðurkenna afstæða undirgefni sína við ríkið, jafnvel þótt Satan sé ósýnilegur höfðingi heimsins. Þeir eru að hlýða Guði. Hið pólitíska ríki er enn, árið 1996, hluti af „Guðs tilskipun“ sem er tímabundin ráðstöfun er hann leyfir, og þjónum hans á jörð ber að líta á yfirvöldin sem slík. — Rómverjabréfið 13:2.
Þjónar Jehóva til forna og ríkið
4. Af hverju leyfði Jehóva Jósef að komast í háa stjórnarstöðu í Egyptalandi?
4 Fyrir daga kristninnar leyfði Jehóva sumum þjónum sínum að gegna háum embættum í stjórn þess ríkis þar sem þeir bjuggu. Á 18. öld f.o.t. varð Jósef til dæmis forsætisráðherra Egyptalands og gekk Faraó næstur að völdum. (1. Mósebók 41:39-43) Síðar meir sýndi það sig að Jehóva hafði búið þannig um hnútana til að Jósef gæti verið verkfæri hans til að varðveita ‚niðja Abrahams‘ í samræmi við tilgang Jehóva. Að sjálfsögðu ber að hafa hugfast að Jósef var seldur í þrælkun til Egyptalands og að þjónar Guðs höfðu hvorki Móselögin né „lögmál Krists“ á þeim tíma er hann bjó þar. — 1. Mósebók 15:5-7; 50:19-21; Galatabréfið 6:2.
5. Hvers vegna var herleiddum Gyðingum fyrirskipað að biðja Babýlon friðar?
5 Öldum síðar innblés Jehóva trúföstum spámanni sínum, Jeremía, að segja Gyðingum að lúta valdhöfunum er þeir voru í útlegð í Babýlon, og jafnvel að biðja borginni heilla eða friðar. Hann sagði í bréfi sínu til þeirra: „Svo segir [Jehóva] allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, . . . Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til [Jehóva] fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar.“ (Jeremía 29:4, 7) Fólk Jehóva hefur alltaf haft ástæðu til að ‚ástunda frið‘ innbyrðis og gagnvart þeirri þjóð þar sem þeir búa, til að hafa frelsi til að tilbiðja Jehóva. — 1. Pétursbréf 3:11.
6. Í hverju neituðu Daníel og vinir hans þrír að slaka til í sambandi við lögmál Jehóva, þótt þeir væru í háum stjórnarstöðum?
6 Meðan á útlegðinni í Babýlon stóð gengust Daníel og þrír aðrir trúfastir Gyðingar, sem voru í ánauð þar, undir fræðslu á vegum ríkisins og urðu háttsettir embættismenn í Babýlon. (Daníel 1:3-7; 2:48, 49) En jafnvel meðan á þjálfun þeirra stóð tóku þeir einbeitta afstöðu í sambandi við mataræði þar sem hætta var á að þeir hefðu ella brotið lögmálið er Guð þeirra, Jehóva, hafði gefið fyrir milligöngu Móse. Þeir hlutu blessun fyrir. (Daníel 1:8-17) Er Nebúkadnesar konungur lét reisa líkneski sem tákn ríkisins virðast hinir þrír hebresku félagar Daníels hafa neyðst til að vera viðstaddir athöfnina ásamt öðrum stjórnendum ríkisins. En þeir neituðu að „falla fram og tilbiðja“ ríkisskurðgoðið. Aftur umbunaði Jehóva þeim ráðvendnina. (Daníel 3:1-6, 13-28) Eins er það nú að vottar Jehóva virða fána þeirrar þjóðar þar sem þeir búa, en þeir taka ekki þátt í tilbeiðsluathöfn frammi fyrir honum. — 2. Mósebók 20:4, 5; 1. Jóhannesarbréf 5:21.
7. (a) Hvaða aðdáunarverðu afstöðu tók Daníel þótt hann gegndi háu embætti í stjórnkerfi Babýlonar? (b) Hvað breyttist með kristninni?
7 Eftir fall nýbabýlonsku konungsættarinnar var Daníel veitt hátt embætti í hinni nýju medísk-persnesku stjórn sem tók við af henni í Babýlon. (Daníel 5:30; 6:1-4) Hann lét þó ekki háa stöðu sína verða til þess að hann hvikaði frá ráðvendni sinni. Þegar lög ríkisins kröfðust þess að hann tilbæði Daríus konung í stað Jehóva neitaði hann. Fyrir vikið var honum varpað í ljónagryfju en Jehóva frelsaði hann. (Daníel 6:5-25) Þetta var auðvitað fyrir daga kristninnar. Eftir stofnsetningu kristna safnaðarins voru þjónar Guðs ‚bundnir af lögmáli Krists.‘ Margt, sem hafði verið leyft í hinu gyðinglega fyrirkomulagi, skyldi nú litið öðrum augum og miðast við það hvernig samskiptum Jehóva við fólk sitt var nú háttað. — 1. Korintubréf 9:21; Matteus 5:31, 32; 19:3-9.
Afstaða Jesú til ríkisins
8. Hvaða atvik sýnir að Jesús var staðráðinn í að forðast pólitísk afskipti?
8 Er Jesús Kristur var á jörðinni setti hann markið hærra fyrir fylgjendur sína og neitaði allri þátttöku í stjórnmálum eða hermálum. Eftir að Jesús hafði unnið það kraftaverk að metta nokkrar þúsundir manna með fáeinum brauðhleifum og tveim smáfiskum vildu Gyðingarnir taka hann með valdi og gera hann að pólitískum konungi. En Jesús forðaðist þá og flýtti sér til fjalla. (Jóhannes 6:5-15) Orðskýringabókin The New International Commentary on the New Testament segir um þetta atvik: „Það var sterk þjóðernishreyfing meðal Gyðinga á þeim tíma og vafalaust fannst mörgum, sem sáu þetta kraftaverk, að þarna væri kominn leiðtogi er Guð viðurkenndi, og að hann væri kjörinn til að leiða þá gegn Rómverjum. Þeir ákváðu því að gera hann að konungi.“ Bókin bætir við að Jesús hafi „afdráttarlaust hafnað“ þessu boði um pólitíska forystu. Kristur ljáði uppreisn Gyðinga gegn Rómverjum engan stuðning. Reyndar sagði hann fyrir hvaða afleiðingar uppreisnin eftir dauða hans myndi hafa — ólýsanlegar hörmungar fyrir Jerúsalembúa og eyðingu borgarinnar. — Lúkas 21:20-24.
9. (a) Hvernig lýsti Jesús sambandi ríkis síns og heimsins? (b) Hvaða viðmiðunarreglur setti Jesús fylgjendum sínum um samskipti þeirra við stjórnir heimsins?
9 Skömmu fyrir dauða sinn sagði Jesús sérlegum fulltrúa Rómarkeisara í Júdeu: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Lærisveinar Krists fylgja fordæmi hans uns ríki hans bindur enda á yfirráð pólitískra stjórna. Þeir hlýða þessum yfirvöldum en skipta sér ekki af pólitískum viðfangsefnum þeirra. (Daníel 2:44; Matteus 4:8-10) Jesús gaf lærisveinum sínum viðmiðunarreglur og sagði: „Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:21) Hann hafði áður sagt í fjallræðunni: „Neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.“ (Matteus 5:41) Af samhenginu má sjá að Jesús var að sýna fram á meginregluna um fúsa undirgefni við lögmætar kröfur, bæði í mannlegum samskiptum og við kröfur stjórnvalda sem samræmast lögum Guðs. — Lúkas 6:27-31; Jóhannes 17:14, 15.
Kristnir menn og keisarinn
10. Hvaða samviskuafstöðu tóku frumkristnir menn gagnvart keisaranum, að sögn sagnfræðings?
10 Þessar einföldu viðmiðunarreglur áttu að stjórna sambandi kristinna manna og ríkisins. E. W. Barnes segir í bók sinni, The Rise of Christianity: „Hvenær sem kristinn maður á síðari öldum var í vafa um skyldur sínar gagnvart ríkinu leitaði hann til valdsmannslegrar kenningar Krists. Hann galt skatta: álögð gjöld voru kannski þung — þau urðu reyndar óbærileg áður en vestrómverska ríkið féll — en kristinn maður galt þau engu að síður. Jafnframt gékkst hann undir allar aðrar kvaðir ríkisins, svo framarlega sem þess var ekki krafist að hann gyldi keisaranum það sem Guðs var.“
11. Hvernig ráðlagði Páll kristnum mönnum að koma fram við veraldlega valdhafa?
11 Það var í samræmi við þessa meginreglu sem Páll postuli sagði kristnum mönnum í Róm rúmlega 20 árum eftir dauða Krists: „Sérhver maður hlýði . . . yfirvöldum.“ (Rómverjabréfið 13:1) Um tíu árum eftir það, skömmu fyrir síðari fangavist sína og aftöku í Róm, skrifaði Páll Títusi: „Minn þá [kristna Krítverja] á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks, lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ — Títusarbréfið 3:1, 2.
Vaxandi skilningur á því hvað ‚yfirvöldin‘ væru
12. (a) Hverja áleit Charles Taze Russell vera rétta afstöðu kristins manns til yfirvalda? (b) Hvaða mismunandi afstöðu tóku smurðir kristnir menn til herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni?
12 Árið 1886 skrifaði Charles Taze Russell í bókinni Áætlun aldanna: „Hvorki Jesús né postularnir skiptu sér af jarðneskum stjórnendum á nokkurn hátt. . . . Þeir kenndu kirkjunni að hlýða lögum og virða valdamenn vegna embættis þeirra, . . . að greiða álagða skatta og sporna ekki gegn neinum settum lögum nema þau stönguðust á við lög Guðs. (Post. 4:19; 5:29; Rómv. 13:1-7; Matt. 22:21) Jesús og postularnir og frumkirkjan voru löghlýðin enda þótt þau héldu sér aðgreindum frá stjórnum þessa heims og tækju engan þátt í þeim.“ Þessi bók benti réttilega á að ‚yfirvöldin,‘ sem Páll postuli nefnir, séu mennsk stjórnvöld. (Rómverjabréfið 13:1) Árið 1904 sagði bókin Nýja sköpunin að sannkristnir menn „ættu að vera meðal löghlýðnustu borgara nútímans — ekki æsingamenn, ekki deilugjarnir, ekki aðfinnslusamir.“ Sumir skildu þessi orð svo að átt væri við algera undirgefni við yfirvöld, og gengu jafnvel svo langt að gegna herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni. Aðrir litu hins vegar svo á að herþjónusta stríddi gegn orðum Jesú: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Ljóst var að kristnir menn þurftu að fá gleggri skilning á undirgefni við yfirvöld.
13. Hvaða breyttur skilningur á eðli yfirvaldanna kom fram árið 1929 og hvernig reyndist hann til góðs?
13 Árið 1929, er lög ýmissa landa tóku að banna það sem Guð fyrirskipaði eða krefjast þess sem lög Guðs bönnuðu, var álitið að yfirvöldin hlytu að vera Jehóva Guð og Jesús Kristur. * Þannig skildu þjónar Jehóva málin á hinu erfiða tímabili fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan á henni stóð, og eins er kalda stríðið hófst með ógnarjafnvægi sínu og vígbúnaði. Þegar horft er um öxl verður því ekki neitað að þetta sjónarmið, sem upphóf vissulega æðsta vald Jehóva og Krists, hjálpaði fólki Guðs að varðveita ófrávíkjanlegt hlutleysi á þessu erfiða tímabili.
Afstæð undirgefni
14. Hvernig var varpað skýrara ljósi á Rómverjabréfið 13:1, 2 og skyldar ritningargreinar árið 1962?
14 Árið 1961 lauk þýðingu Nýheimsþýðingar heilagrar Ritningar. Gerð hennar hafði kallað á ítarlegar rannsóknir á texta og máli Ritningarinnar. Nákvæm þýðing orðanna, sem notuð eru ekki aðeins í 13. kafla Rómverjabréfsins heldur líka til dæmis í Títusarbréfinu 3:1, 2 og 1. Pétursbréfi 2:13, 17, sýndi að hugtakið ‚yfirvöld‘ eða ‚æðri yfirvöld‘ (NW) átti ekki við hin æðstu yfirvöld, Jehóva og son hans Jesú, heldur mennsk yfirvöld eða stjórnir. Síðla árs 1962 birtust greinar í Varðturninum með nákvæmum skýringum á 13. kafla Rómverjabréfsins og einnig skýrari viðhorfum en þeim sem menn höfðu á tímum C. T. Russells. Þessar greinar bentu á að undirgefni kristinna manna við yfirvöld getur ekki verið alger. Hún verður að vera afstæð, háð því að ekki komi til árekstra hjá þjónum Guðs við lög hans. Síðari greinar í Varðturninum hafa lagt áherslu á þetta mikilvæga mál. *
15, 16. (a) Hvaða betra jafnvægi veitti nýi skilningurinn á 13. kafla Rómverjabréfsins? (b) Hvaða spurningum er ósvarað?
15 Þessi lykill að réttum skilningi á 13. kafla Rómverjabréfsins hefur gert fólki Jehóva kleift að finna jafnvægið milli virðingar fyrir pólitískum yfirvöldum og ósveigjanlegrar afstöðu með mikilvægum meginreglum Ritningarinnar. (Sálmur 97: 11; Jeremía 3:15) Með hjálp hans hafa þeir getað séð samband sitt við Guð og samskipti sín við ríkið í réttu ljósi. Og hann hefur tryggt að þeir vanræki ekki að gjalda Guði það sem Guðs er, þótt þeir gjaldi keisaranum það sem keisarans er.
16 En hvað er það eiginlega sem tilheyrir keisaranum? Hvaða réttmætar kröfur getur ríkið gert til kristins manns? Fjallað er um þessar spurningar í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
^ Sjá Sálm 103:22, NW Ref. Bi. neðanmáls.
^ Varðturninn (ensk útgáfa), 1. og 15. júní 1929.
^ Þessar greinar birtust á íslensku í Varðturninum 1. janúar, 1. febrúar og 1. mars 1964; sjá einnig Varðturninn 1. júlí 1991, 1. maí 1993 og 1. desember 1994.
Athyglisvert er að prófessor F. F. Bruce segir í skýringum sínum við 13. kafla Rómverjabréfsins: „Ljóst er af samhenginu, og einnig af almennu samhengi postularitanna, að ríkið getur réttilega aðeins krafist hlýðni innan þess ramma sem tilskipun Guðs setur því — sérstaklega að bæði megi og verði að standa gegn ríkinu þegar það krefst hollustu sem Guði einum ber.“
Geturðu svarað?
◻ Af hverju er undirgefni við yfirvöld ekki hið sama og undirgefni við Satan?
◻ Hvaða afstöðu tók Jesús til stjórnmála á sínum tíma?
◻ Hvað ráðlagði Jesús fylgjendum sínum í samskiptum við keisarann?
◻ Hvernig ráðlagði Páll kristnum mönnum að koma fram við valdhafa þjóðanna?
◻ Hvernig hefur skilningur á eðli yfirvaldanna þróast smám saman?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jesús hafnaði boði Satans um pólitískt vald.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Russell skrifaði að sannkristnir menn „ættu að vera meðal löghlýðnustu borgara nútímans.“