Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guð, ríkið og þú

Guð, ríkið og þú

Guð, ríkið og þú

„Sverfur til stáls með kirkju og ríki í þjóðaratkvæðagreiðslu um hjónaskilnaði á Írlandi.“

ÞESSI fyrirsögn dagblaðsins The New York Times lýsir vel hvernig fólk getur þurft að velja milli þess sem ríkið vill og þess sem kirkjan kennir.

Í greininni sagði: „Þegar innan við mánuður er fram að þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort afnema eigi ákvæði stjórnarskrárinnar um bann við hjónaskilnuðum, eru stjórnvöld og kirkjan á öndverðum meiði. Slíkt er mjög fátítt á Írlandi sem er rammkaþólskt.“ Ríkið lagði til að bannið við hjónaskilnuðum yrði afnumið en kaþólska kirkjan er mjög andvíg hjónaskilnuðum og endurgiftingum. Írskir kaþólikkar urðu að velja milli ríkis og kirkju. Svo fór að ríkið vann með naumum meirihluta.

Mun átakanlegri og heiftúðugri barátta hefur verið háð um árabil á Norður-Írlandi um fullveldi þjóðarinnar. Margir hafa látið lífið. Rómversk-kaþólskir og mótmælendur hafa verið á öndverðum meiði um það hvoru ríkinu ætti að lúta: áframhaldandi

breskri stjórn yfir Norður-Írlandi eða sameiginlegri stjórn yfir öllu Írlandi.

Þar sem áður hét Júgóslavía hafa yfirvöld krafist þess að áhangendur ólíkra trúarbragða, þeirra á meðal kaþólskir og rétttrúnaðarmenn, berðust um yfirráð yfir landi. Hverjum voru almennir borgarar fyrst og fremst skuldbundnir? Áttu þeir að fylgja þeim sem sögðust vera fulltrúar ríkisins, eða áttu þeir að hlýða Guði sem segir: „Þú skalt ekki morð fremja . . . Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Rómverjabréfið 13:9.

Þér finnst kannski að þú getir tæplega nokkurn tíma lent í þessari aðstöðu. En svo gæti farið. Þú gætir jafnvel staðið frammi fyrir henni núna. Í bók sinni, The State in the New Testament, talar guðfræðingurinn Oscar Cullmann um „ákvarðanir er varða líf og dauða sem kristnir nútímamenn verða eða gætu þurft að taka við vonlausar aðstæður þegar alræðisstjórnir ógna þeim.“ En hann talar líka um „jafn raunverulega og þýðingarmikla ábyrgð sérhvers kristins manns — einnig kristins manns er býr við svokallaðar ‚eðlilegar,‘ ‚hversdagslegar‘ aðstæður — að horfast í augu við og leysa alvarleg vandamál sem hann stendur frammi fyrir vegna þess að hann er kristinn.“

Ættu kristnir menn þá að hafa áhuga á sambandi ríkis og kirkju nú á dögum? Vissulega. Allt frá öndverðu hafa kristnir menn reynt að sjá veraldleg yfirvöld í réttu ljósi. Leiðtogi þeirra, Jesús Kristur, var sakfelldur, dæmdur og líflátinn af rómverska ríkinu. Lærisveinar hans urðu að samræma kristnar skuldbindingar sínar og skyldur sem rómverskir borgarar. Það er því gott að rifja upp hvernig sambandi þeirra við yfirvöld var háttað, því að það er góð viðmiðun fyrir kristna nútímamenn.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Tom Haley/Sipa Press