Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna veraldleg trúarbrögð líða undir lok

Hvers vegna veraldleg trúarbrögð líða undir lok

Hvers vegna veraldleg trúarbrögð líða undir lok

„Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ — OPINBERUNARBÓKIN 18:4.

1. (a) Í hvaða skilningi er Babýlon hin mikla fallin? (b) Hvaða áhrif hefur þessi atburður haft á votta Jehóva?

 „FALLIN er Babýlon hin mikla“! Já, frá sjónarhóli Jehóva er heimsveldi falstrúarbragðanna fallið. Svo hefur verið frá 1919 þegar þeir sem eftir voru af bræðrum Krists losnuðu undan áhrifum kristna heimsins sem er áhrifamesti hluti hinnar dularfullu Babýlonar. Þar af leiðandi hafa þeir getað fordæmt falstrúarbrögðin og kunngert réttláta stjórn Guðs fyrir atbeina Messíasarríkisins. Alla þessa öld hafa hollir vottar Jehóva afhjúpað þann trúarsambræðing sem hefur verið handbendi Satans við að afvegaleiða „alla heimsbyggðina.“ — Opinberunarbókin 12:9; 14:8; 18:2.

Hvernig er Babýlon hin mikla fallin?

2. Hvernig eru trúarbrögð heims á vegi stödd núna?

2 En einhverjum er kannski spurn hvernig við getum sagt að Babýlon sé fallin þegar trúarbrögðin virðast dafna svo víða um lönd. Kaþólska kirkjan og íslam segjast eiga sér einn milljarð áhangenda hvor fyrir sig. Mótmælendatrúin dafnar enn í Norður- og Suður-Ameríku þar sem sífellt eru að spretta upp nýjar kirkjur og kapellur. Hundruð milljóna manna fylgja trúarsiðum búddha- og hindúatrúarinnar. En hvaða jákvæð áhrif hafa öll þessi trúarbrögð á hegðun þessara milljarða manna? Hafa þau hindrað kaþólska og mótmælendur á Norður-Írlandi í að drepa hver annan? Hafa þau komið á sönnum friði milli Gyðinga og múslíma í Miðausturlöndum? Hafa þau skapað sátt og samlyndi milli hindúa og múslíma á Indlandi? Og hafa þau varnað rétttrúuðum Serbum, kaþólskum Króötum og múslímskum Bosníumönnum frá því að stunda „þjóðernishreinsanir“ og ræna hver annan, nauðga og drepa nú á síðustu misserum? Trúin er oft ekki annað en merkispjald, næfurþunn skel sem brestur við minnsta þrýsting. — Galatabréfið 5:19-21; samanber Jakobsbréfið 2:10, 11.

3. Af hverju standa trúarbrögðin frammi fyrir dómstóli Guðs?

3 Séð frá bæjardyrum Guðs breytir stuðningur fjöldans við trúarbrögðin ekki einni óumflýjanlegri staðreynd — öll trúarbrögð standa frammi fyrir dómstóli hans. Eins og saga Babýlonar hinnar miklu ber með sér verðskuldar hún þungan dóm vegna þess að ‚syndir hennar hafa hlaðist allt upp til himins og Guð hefur minnst ranglætis hennar.‘ (Opinberunarbókin 18:5) Hósea skrifaði á spámannamáli: „Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera.“ Öll falstrúarbrögð Satans um heim allan skulu taka út þyngstu refsingu fyrir svik sín við Guð, kærleika hans, nafn hans og son. — Hósea 8:7; Galatabréfið 6:7; 1. Jóhannesarbréf 2:22, 23.

Þú þarft að velja

4, 5. (a) Við hvaða skilyrði búum við núna? (b) Hvaða spurningum verðum við að svara?

4 Við lifum við endi hinna ‚síðustu daga‘ og streitumst sem sannkristnir menn við að komast gegnum þessar ‚örðugu tíðir.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Sannkristnir menn búa sem útlendingar í heimi morðingjans, lygarans og rógberans Satans, heimi sem endurspeglar svo sannarlega spilltan persónuleika hans. (Jóhannes 8:44; 1. Pétursbréf 2:11, 12; Opinberunarbókin 12:10) Við erum umkringd ofbeldi, undirferli, svikum, spillingu og yfirgengilegu siðleysi. Lífsreglur eru farnar veg allrar veraldar. Nautnalíf og tækifærismennska ráða ferðinni. Og oft láta klerkar spillinguna viðgangast með því að útþynna skýlausa fordæmingu Biblíunnar á kynvillu, saurlifnaði og hórdómi. Spurningin er því sú hvort þú styðjir falska tilbeiðslu og teljir hana góða og gilda, eða hvort þú takir virkan þátt í sannri guðsdýrkun. — 3. Mósebók 18:22; 20:13; Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 6:9-11.

5 Núna stendur aðgreining yfir. Það er því ríkari ástæða en nokkru sinni fyrr til að greina milli falskrar guðsdýrkunar og sannrar. Hvað annað hafa kirkjudeildir og trúflokkar kristna heimsins gert sem er svo vítavert? — Malakí 3:18; Jóhannes 4:23, 24.

Falstrúarbrögðin sakfelld

6. Hvernig hefur kristni heimurinn svikið ríki Guðs?

6 Enda þótt milljónirnar í kristna heiminum fari að staðaldri með Faðirvorið, þar sem þær biðja þess að Guðsríki komi, hafa þær samt stutt alls konar pólitísk úrræði með ráðum og dáð á kostnað þessarar guðræðisstjórnar. Á öldum áður voru „höfðingjar“ kaþólsku kirkjunnar, svo sem kardínálarnir Richelieu, Mazarin og Wolsey, einnig stjórnmálamenn og gegndu ráðherraembættum.

7. Hvernig afhjúpuðu vottar Jehóva klerkastétt kristna heimsins fyrir meira en hálfri öld?

7 Fyrir meira en hálfri öld afhjúpuðu vottar Jehóva stjórnmálaþátttöku kristna heimsins í bæklingi sem hét Trúarbrögðin uppskera storminn. * Það sem sagt var þá er enn í fullu gildi: „Heiðarleg rannsókn á framferði klerka allra kirkjudeilda leiðir í ljós að trúarleiðtogar alls ‚kristna heimsins‘ taka af fullum áhuga þátt í stjórnmálum ‚þessa núverandi illa heims‘ og fúska við veraldleg mál hans.“ Á þeim tíma ávítuðu vottarnir Píus páfa tólfta fyrir sáttmála hans við nasistann Hitler (1933) og fasistann Franco (1941), og einnig fyrir að skiptast á stjórnarerindrekum við árásarþjóðina Japan í mars 1942, aðeins fáeinum mánuðum eftir hina illræmdu árás á Pearl Harbor. Páfinn fór ekki eftir viðvörun Jakobs: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ — Jakobsbréfið 4:4.

8. Hvernig blandar rómversk-kaþólska kirkjan sér í stjórnmál nú á dögum?

8 Hvernig er ástandið núna? Páfastóllinn tekur enn þátt í stjórnmálum, bæði fyrir milligöngu klerkastéttar sinnar og leikmanna. Síðustu áratugina hafa páfar lagt blessun sína yfir Sameinuðu þjóðirnar með því að flytja ávörp á þingum þessarar svikamyllu manna sem ætlað er það hlutverk að koma á heimsfriði. Í nýlegu tölublaði L’Osservatore Romano, opinberu dagblaði Páfagarðs, var tilkynnt að sjö nýir stjórnarerindrekar, „sendiherrar í Páfagarði,“ hafi afhent „hinum heilaga föður“ trúnaðarbréf sín. Getum við ímyndað okkur Jesú og Pétur taka þátt í slíkum stjórnarerindrekaskiptum? Jesús leyfði Gyðingum ekki að gera sig að konungi og sagði að ríki sitt væri ekki af þessum heimi. — Jóhannes 6:15; 18:36.

9. Af hverju getum við sagt að kirkjudeildir mótmælenda séu engu betri en þær kaþólsku?

9 Eru leiðtogar mótmælenda eitthvað betri en kaþólskir starfsbræður þeirra? Í Bandaríkjunum eru margar íhaldssamar kirkjudeildir mótmælenda, og mormónar einnig, kenndir við ákveðna stjórnmálastefnu. Hið svonefnda Kristilega bandalag (Christian Coalition) tekur mikinn og virkan þátt í bandarískum stjórnmálum. Klerkar annarra kirkjudeilda mótmælenda taka eindregna afstöðu með annarri stjórnmálastefnu. Það gleymist stundum að sumir, sem láta að sér kveða í bandarískum stjórnmálum, til dæmis Pat Robertson og Jesse Jackson, eru eða voru einnig prestar og eru titlaðir „séra,“ líkt og Norður-Írinn Ian Paisley sem situr á breska þinginu. Hvernig geta þeir réttlætt afstöðu sína? — Postulasagan 10:34, 35; Galatabréfið 2:6.

10. Hvaða skýr yfirlýsing var gefin árið 1944?

10 Við spyrjum sömu spurningar núna og bæklingurinn Trúarbrögðin uppskera storminn spurði árið 1944: „Geta nokkur samtök, sem gera sáttmála við veraldleg öfl, pota sér inn í stjórnmál þessa heims og reyna að notfæra sér heiminn og njóta verndar hans . . . verið kirkja Guðs eða verið fulltrúar Krists Jesú á jörð? . . . Ljóst er að engir trúmenn, sem deila markmiðum með ríkjum þessa heims, geta verið fulltrúar Guðsríkis í höndum Jesú Krists.“

Kains-andi falstrúarbragðanna

11. Hvernig fylgdu falstrúarbrögðin fordæmi Kains?

11 Alla mannskynssöguna hafa fölsk trúarbrögð sýnt sama hug og bróðurmorðinginn Kain sem myrti Abel. „Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.“ Kain þoldi ekki hreina og þóknanlega guðsdýrkun bróður síns og beitti ofbeldi — örþrifaráði rökþrota manns. — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

12. Hvaða merki sjást um samsekt trúarbragðanna í styrjöldum og átökum?

12 Styðja staðreyndirnar þessa fordæmingu falskra trúrbragða? Höfundur bókarinnar Preachers Present Arms segir: „Í sögu siðmenningarinnar . . . hafa tvö öfl alltaf átt með sér bandalag — þessi öfl eru stríð og trúarbrögð. Og af helstu trúarbrögðum heims . . . hafa engin verið stríðsglaðari en [kristni heimurinn].“ Fyrir nokkrum árum sagði dagblaðið The Sun í Vancouver í Kanada: „Kannski er það veikleiki allra stóru kirkjudeildanna að kirkjan siglir undir þjóðernisfána . . . Hvaða stríð hefur nokkurn tíma verið háð þar sem Guð var ekki sagður standa með báðum stríðsaðilum?“ Þú hefur kannski sjálfur séð merki þess í einhverri kirkju. Oft er altarið skreytt þjóðfánanum. Undir hvaða fána heldurðu að Jesús gangi? Orð hans hafa endurómað um allar aldir: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“! — Jóhannes 18:36.

13. (a) Hvernig hafa falstrúarbrögðin brugðist í Afríku? (b) Hvað sagði Jesús eiga að einkenna kristnina?

13 Trúfélög kristna heimsins hafa ekki kennt áhangendum sínum sannleikann um ósvikna bróðurárst. Í stað þess hafa þau leyft þjóðernis- og ættflokkaágreiningi að sundra sér. Fréttir sýna að klerkastéttir kaþólskra og biskupakirkjumanna áttu sinn þátt í ættflokkadrápunum miklu í Rúanda. Dagblaðið The New York Times sagði: „Fjöldamorðin í Rúanda hafi valdið því að mörgum rómversk-kaþólskum þar finnst forysta kirkjunnar hafa svikið sig. Kirkjan var oft klofin vegna þjóðerniságreinings milli hútúa og tútsa.“ Sama blað hafði eftir presti Maryknoll-trúboðsins: „Kirkjan brást hrapallega í Rúanda árið 1994. Margir Rúandamenn hafa í vissum skilningi afskrifað kirkjuna. Hún er ekki lengur trúverðug.“ Hversu ólíkt er þetta ekki orðum Jesú: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.

14. Hvaða orð hafa helstu trúarbrögð önnur en kristin getið sér?

14 Önnur helstu trúarbrögð Babýlonar hinnar miklu hafa ekki sett betra fordæmi. Hið hrikalega blóðbað árið 1947, þegar Indlandi var skipt, sýnir að helstu trúarbrögðin þar hafa ekki stuðlað að umburðarlyndi. Stöðug ofbeldisverk í indversku samfélagi sýna að fæstir hafa breytt sér. Það er engin furða að tímaritið India Today skuli segja: „Herfilegustu glæpir hafa verið drýgðir undir gunnfána trúarbragðanna. . . . Þau leysa gríðarlegt ofbeldi úr læðingi og eru geysilegt eyðingarafl.“

„Mikil þverstæða“

15. Hvert er ástand trúarbragðanna í hinum vestræna heimi?

15 Jafnvel veraldlegir fréttaskýrendur og höfundar hafa veitt eftirtekt hvernig trúarbrögðunum hefur mistekist að sannfæra og innræta áhangendum sínum sönn gildi og standa gegn ágangi veraldarhyggjunnar. Í bók sinni, Out of Control, segir Zbigniew Brzezinski, fyrrverandi öryggisráðgjafi Bandaríkjanna: „Það er mikil þverstæða að mestu sigrar þeirrar hugmyndar að ‚Guð sé dauður‘ hafa ekki átt sér stað í ríkjum undir marxískri stjórn . . . heldur í hinum frjálslyndu lýðræðisþjóðfélögum Vesturlanda þar sem menningin hefur alið á siðferðilegu sinnuleysi. Það er staðreynd að í síðarnefndu ríkjunum eru trúarbrögðin hætt að vera virkt þjóðfélagsafl.“ Hann heldur áfram: „Tök trúarbragðanna á evrópskri menningu hafa dvínað verulega og Evrópa nútímans er — jafnvel meir en Ameríka — í eðli sínu veraldarsinnað samfélag.“

16, 17. (a) Hvað ráðlagði Jesús í sambandi við klerkastétt samtíðarinnar? (b) Hvaða meginreglu gaf Jesús um ávöxt?

16 Hvað sagði Jesús um klerkastétt Gyðinga á sínum tíma? „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear [og kenndu Tóruna eða lögmálið]. Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ Já, trúhræsni er engin nýlunda. — Matteus 23:2, 3.

17 Ávöxtur falstrúarbragðanna dæmir þau. Reglan, sem Jesús gaf, á sannarlega vel við: „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“ — Matteus 7:17-20.

18. Hvernig hefði kristni heimurinn átt að halda söfnuðunum sínum hreinum?

18 Hvað myndi gerast ef trúfélög kristna heimsins legðu sig samviskusamlega fram við að beita yfirlýsta safnaðarmenn kristilegum aga í mynd brottvísunar eða bannfæringar fyrir öll lögbrot sín? Hvað myndi verða um alla iðrunarlausa lygara, saurlífismenn, hórdómsmenn, kynvillinga, glæpamenn, svindlara, fíkniefnasala, fíkniefnaneytendur og félaga í skipulögðum glæpasamtökum? Ávöxtur kristna heimsins er svo rotinn að hann á ekkert annað skilið en tortímingu af hendi Guðs. — 1. Korintubréf 5:9-13; 2. Jóhannesarbréf 10, 11.

19. Hvað hafa menn viðurkennt í sambandi við trúarlega forystu?

19 Allsherjarþing öldungakirkjunnar í Bandaríkjunum viðurkenndi: „Við stöndum frammi fyrir kreppu sem er ógnvænleg bæði að umfangi og eðli. . . . Milli 10 og 23 af hundraði presta um allt land hafa staðið í kynferðissambandi við sóknarbörn, skjólstæðinga, starfsmenn o.s.frv.“ Bandarískur kaupsýslumaður lýsti ástandinu vel: „Trúarstofnunum hefur mistekist að koma arfteknu gildismati sínu á framfæri, og í mörgum tilfellum eru þær orðnar hluti af vandamálinu.“

20, 21. (a) Hvernig fordæmdu Jesús og Páll hræsni? (b) Hvaða spurningum er enn ósvarað?

20 Fordæming Jesú á trúhræsni er í fullu gildi núna eins og þegar hann var uppi: „Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ (Matteus 15:7-9) Orð Páls til Títusar lýsa núverandi ástandi einnig ágætlega: „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ — Títusarbréfið 1:16.

21 Jesús sagði að ef blindur leiddi blindan féllu báðir í gryfju. (Matteus 15:14) Vilt þú farast með Babýlon hinni miklu? Eða langar þig til að feta beinar brautir með augun opin og njóta blessunar Jehóva? Við stöndum núna frammi fyrir eftirfarandi spurningum: Hvaða trú, ef einhver, ber fram ávöxt Guði að skapi? Hvernig getum við þekkt hina sönnu guðsdýrkun sem er honum þóknanleg? — Sálmur 119:105.

[Neðanmáls]

^ Gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., árið 1944; nú ófáanlegur.

Manst þú?

◻ Hver er staða Babýlonar hinnar miklu núna frammi fyrir Guði?

◻ Á hvaða grundvelli eru falstrúarbrögðin sakfelld?

◻ Hvernig hafa falstrúarbrögðin sýnt anda Kains?

◻ Hvaða meginreglu gaf Jesús til að dæma öll trúarbrögð eftir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Alla mannkynssöguna hafa trúarleiðtogar blandað sér í stjórnmál.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Þessir klerkar voru líka voldugir stjórnmálamenn.

Mazarin kardínáli

Richelieu kardínáli

Wolsey kardínáli

[Rétthafi]

Mazarin kardínáli og Richelieu kardínáli: Úr bókinni Ridpath’s History of the World (VI. bindi og V. bindi). Wolsey kardínáli: Úr bókinni The History of Protestantism (I. bindi).