Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar fordómar heyra sögunni til!

Þegar fordómar heyra sögunni til!

Þegar fordómar heyra sögunni til!

SAGT er að vísindamaðurinn Albert Einstein hafi einu sinni haft á orði að það væri erfiðara að sigrast á fordómum í þessum dapurlega heimi en að kljúfa atóm. Edward R. Murrow, blaðamaður sem gat sér frægð í síðari heimsstyrjöldinni og varð síðar yfirmaður Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna, sagði að „enginn geti upprætt fordóma — bara viðurkennt þá.“

Hljóma þessar fullyrðingar trúlega? Er engin leið að uppræta misrétti og kynþáttafordóma? Hver er afstaða Guðs til fordóma?

Guð fer ekki í manngreinarálit

Biblían er andvíg hlutdrægni. (Orðskviðirnir 24:23; 28:21) Hún segir að ‚sú speki, sem að ofan er, sé í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.‘ (Jakobsbréfið 3:17) Lögð var áhersla á slíka visku við dómara í Forn-Ísrael. Þeim var sagt: „Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga.“ — 3. Mósebók 19:15.

Jesús Kristur og postular hans, Pétur og Páll, lögðu áherslu á eindregna afstöðu Biblíunnar gegn hlutdrægni og fordómum. Jesús var óhlutdrægur gagnvart þeim sem „voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Hann kenndi: „Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm.“ — Jóhannes 7:24.

Pétur og Páll fullvissa okkur um að Jehóva Guð sé ekki hlutdrægur. Pétur sagði: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Páll postuli segir: „Guð fer ekki í manngreinarálit.“ — Rómverjabréfið 2:11.

Áhrif Biblíunnar

Biblían býr yfir mætti til að breyta persónuleika þeirra sem hafa hana sér til leiðsagnar. Hebreabréfið 4:12 segir: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt.“ Með hjálp Jehóva getur fordómafullur maður jafnvel breytt hugsunarhætti sínum og orðið óhlutdrægur í samskiptum við aðra.

Tökum Sál frá Tarsus sem dæmi. Biblían greinir svo frá að hann hafi einu sinni verið hatrammur andstæðingur kristna safnaðarins þar eð hann fylgdi ströngum erfikenningum trúar sinnar. (Postulasagan 8:1-3) Erfikenningar Gyðinga sannfærðu hann fullkomlega um að allir kristnir menn væru fráhvarfsmenn og óvinir sannrar tilbeiðslu. Slíkir voru fordómar hans að hann studdi það að kristnir menn væru drepnir. Biblían segir að hann hafi ‚blásið ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins.‘ (Postulasagan 9:1) Hann ímyndaði sér að með því væri hann að veita Guði þjónustu. — Samanber Jóhannes 16:2.

En Sál frá Tarsus gat losað sig við öfgafulla fordóma sína. Hann snerist jafnvel til kristinnar trúar! Síðar, þá nefndur Páll, postuli Jesú Krists, skrifaði hann: „Fyrrum var [ég] lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.“ — 1. Tímóteusarbréf 1:13.

Páll var ekki sá eini sem tók svona róttækum sinnaskiptum. Í bréfi sínu til Títusar, sem einnig var trúboði, hvatti Páll kristna menn til að „lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn. Því að þeir voru tímarnir, að vér vorum einnig óskynsamir, óhlýðnir, villuráfandi, í ánauð hvers konar fýsna og lostasemda. Vér ólum aldur vorn í illsku og öfund, vorum andstyggilegir, hötuðum hver annan.“ — Títusarbréfið 3:2, 3.

Að brjóta niður fordómamúrana

Sannkristnir menn nú á tímum leggja sig alla fram við að fylgja þessum ráðum. Þeir vilja ekki dæma aðra eftir því hvernig þeir koma fyrir sjónir á yfirborðinu. Það varnar þeim að „lastmæla“ öðrum. Þeir eru alþjóðlegt bræðrafélag sem hafið er yfir öll þjóðernis- og kynþáttalandamæri þessa heims.

Tökum Henrique, þeldökkan Brasilíumann, sem dæmi. Sjálfur var hann fórnarlamb kynþáttamisréttis og fékk smám saman djúpstætt hatur á hvítum mönnum. Hann segir: „Tveir hörundsljósir vottar heimsóttu mig til að tala um nafn Guðs. Í fyrstu vildi ég ekki hlusta því að ég treysti ekki hvítum mönnum. En fljótlega varð mér ljóst að boðskapur þeirra hafði á sér sannleiksblæ. Ég þáði því biblíunám. Fyrsta spurningin mín var: ‚Eru margir svartir menn í kirkjunni ykkar?‘ Þeir svöruðu játandi. Síðan sýndu þeir mér síðustu myndina í Biblíusögubókinni minni * sem sýnir ungt fólk af ýmsum kynþáttum. Á myndinni var líka svartur drengur og það fannst mér uppörvandi. Seinna fór ég í ríkissal votta Jehóva þar sem ég sá fólk af ólíkum kynþáttum sýna hvert öðru virðingu. Það var mér mikils virði.“

Núna er Henrique vottur Jehóva og nýtur þess að tilheyra sannkristnu bræðrafélagi. Hann skilur að það er engum manni að þakka. Hann segir: „Ég er Jehóva og Jesú þakklátur fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir mig. Ég starfa með milljónum dyggra þjóna Jehóva af öllum kynþáttum og margvíslegum litarhætti og uppruna, sem eru sameinaðir í einum tilgangi.“

Í uppvextinum var Dario líka fórnarlamb fordóma. Sextán ára gamall byrjaði hann að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Hann segir: „Ég hef komist að raun um að kynþáttahroki fyrirfinnst ekki meðal vottanna.“ Hann hreifst af þeim ósvikna kærleiksanda sem hann fann þar. Hann veitti því sérstaklega eftirtekt að fólk af ólíkum kynþáttum gegndi ábyrgðarstöðum í söfnuðinum. Þegar Dario mætir fordómum eða mismunun utan safnaðarins minnist hann þess að Jehóva elskar fólk af öllum kynþáttum, þjóðum og tungum.

Að takast á við vandann

Við viljum öll njóta reisnar og virðingar. Þess vegna er erfitt að þola fordóma gegn sér. Kristni söfnuðurinn verndar okkur ekki fyrir allri snertingu við fordóma þessa illa heims. Svo lengi sem Satan djöfullinn stjórnar heimsmálunum verður ranglæti fyrir hendi. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Opinberunarbókin 12:12 varar okkur við: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Hann ætlar sér meira en bara að valda óþægindum. Honum er líkt við rándýr. Pétur postuli segir: „Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ — 1. Pétursbréf 5:8.

Biblían segir okkur líka: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ (Jakobsbréfið 4:7) Til að takast á við fordóma er gott að leita verndar Guðs eins og Davíð konungur gerði: „Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.“ (Sálmur 71:4) Við getum jafnvel beðið eins og sálmaritarinn: „Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.“ — Sálmur 56:2.

Hvernig svarar Guð slíkum bænum? Biblían segir: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.“ (Sálmur 72:12, 13) Það er gott til að vita að Jehóva muni, þegar þar að kemur, veita öllum hvíld sem hafa verið ranglæti beittir!

‚Hvergi munu menn illt fremja‘

Ríkisstjórnir þessa heims halda kannski áfram að beita lögum og gera ýmsar áætlanir í baráttu sinni gegn fordómum. Ef til vill halda þær áfram að heita jafnrétti og sanngirni. En þær eru lítils megnugar. (Sálmur 146:3) Enginn nema Guð getur og mun útrýma fordómum að fullu. Hann mun breyta mannkyninu í eina, sameinaða fjölskyldu. „Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ mun lifa af endi þessa illa heimskerfis og öðlast frið. — Opinberunarbókin 7:9, 10.

Jehóva mun bæta upp allt það tjón sem kynþáttafordómar og félagslegir fordómar hafa valdið. Hugsaðu þér — enginn verður ranglæti beittur! „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ (Míka 4:4) Og Jesaja 11:9 segir: ‚Hvergi munu menn illt fremja.‘

Ef þú finnur fyrir fordómum núna getur þessi stórfenglega framtíðarvon styrkt samband þitt við Jehóva. Hún hjálpar þér að þola ranglæti þessa illa heimskerfis. Um leið og þú tekst á við fordómana og horfir fram veginn skaltu fylgja viturlegu ráði Biblíunnar: „Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á [Jehóva].“ — Sálmur 31:25.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Ljósmynd: U.S. National Archives