Flúið í öruggt skjól fyrir ‚þrenginguna miklu‘
Flúið í öruggt skjól fyrir ‚þrenginguna miklu‘
„Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ — LÚKAS 21:20, 21.
1. Af hverju er áríðandi fyrir þá sem enn tilheyra heiminum að flýja?
ÞAÐ er áríðandi fyrir alla, sem tilheyra heimi Satans, að flýja. Til að komast undan þegar núverandi heimskerfi er afmáð af jörðinni verða þeir að sýna á sannfærandi hátt að þeir hafi tekið óhagganlega afstöðu með Jehóva og tilheyri ekki lengur heiminum sem Satan er höfðingi yfir. — Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
2, 3. Hvaða spurningar ætlum við að ræða í sambandi við orð Jesú í Matteusi 24:15-22?
2 Í hinum mikla spádómi sínum um endalok heimskerfisins lagði Jesús áherslu á að slíkur flótti væri bráðnauðsynlegur. Við ræðum oft um það sem skrifað stendur í Matteusi 24:4-14, en það sem á eftir kemur er ekkert lítilvægara. Við hvetjum þig til að opna Biblíuna þína núna og lesa vers 15-22.
3 Hvað merkir spádómurinn? Hver var „viðurstyggð eyðingarinnar“ á fyrstu öldinni? Hvað boðaði það að hún skyldi standa „á helgum stað“? Hvaða þýðingu hefur þessi framvinda fyrir okkur?
„Lesandinn athugi það“
4. (a) Hvað sagði Daníel mundu gerast eftir að Gyðingar hefðu hafnað Messíasi? (b) Hvers vegna sagði Jesús, „lesandinn athugi það,“ þegar hann vísaði í orð Daníels?
4 Tökum eftir að í Matteusi 24:15 vísaði Jesús í það sem skrifað stendur í Daníelsbók. Í 9. kafla bókarinnar er spádómur um komu Messíasar og dóminn sem fullnægt yrði á Gyðingaþjóðinni fyrir að hafna honum. Síðari hluti 27. versins segir: „Á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma.“ Samkvæmt forngyðinglegri hefð var þessi hluti spádóms Daníels heimfærður á það er Antíokkus fjórði vanhelgaði musteri Jehóva í Jerúsalem á annarri öld f.o.t. En Jesús áminnti: „Lesandinn athugi það.“ Vanhelgun Antíokkusar fjórða á musterinu var vissulega viðurstyggileg en hún hafði enga eyðingu í för með sér — hvorki fyrir Jerúsalem, musterið né Gyðingaþjóðina. Jesús hlýtur því að hafa verið að minna áheyrendur sína á að uppfylling þessa spádóms væri ekki komin heldur biði síns tíma.
5. (a) Hvernig hjálpar samanburður á guðspjöllunum okkur að bera kennsl á „viðurstyggð“ fyrstu aldar? (b) Af hverju kom Cestíus Gallus í skyndingu með rómverskan her til Jerúsalem árið 66?
5 Hver var ‚viðurstyggðin‘ sem þeir áttu að vera vakandi fyrir? Athyglisvert er að frásögn Matteusar segir: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað“ en samstofna frásögn í Lúkasi 21:20 hljóðar svo: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.“ Árið 66 sáu kristnir menn í Jerúsalem það sem Jesús hafði boðað. Tíðir árekstrar Gyðinga og rómverskra embættismanna urðu til þess að Jerúsalem varð gróðrarstía uppreisnar gegn Róm. Það leiddi til þess að átök og ofbeldi blossaði upp víðsvegar í Júdeu, Samaríu, Galíleu, Dekapólis og Fönikíu, allt norður til Sýrlands og suður til Egyptalands. Hersveitir undir stjórn Cestíusar Gallusar voru sendar frá Sýrlandi til Jerúsalem, ‚borgarinnar helgu‘ sem Gyðingar kölluðu svo, til að stilla til friðar í þessum hluta Rómaveldis. — Nehemíabók 11:1; Jesaja 52:1.
6. Hvernig atvikaðist það að „viðurstyggð,“ sem valdið gat eyðingu, ‚stóð á helgum stað‘?
6 Rómverjar voru vanir að bera merki eða gunnfána sem voru heilagir í þeirra augum en Gyðingar litu á sem skurðgoð. Athyglisvert er að orðið, sem þýtt er „viðurstyggð“ í Daníelsbók, er fyrst og fremst notað um skurðgoð og skurðgoðadýrkun. * (5. Mósebók 29:17) Þrátt fyrir mótspyrnu Gyðinga komust rómverskar hersveitir með skurðgoðamerki sín eða gunnfána inn í Jerúsalem í nóvember árið 66 og byrjuðu að grafa undan norðurvegg musterisins. Það var engum blöðum um það að fletta að „viðurstyggð,“ sem gat valdið algerri eyðingu Jerúsalem, ‚stóð á helgum stað.‘ En hvernig gat nokkur maður flúið?
Áríðandi að flýja!
7. Hvað gerði rómverski herinn óvænt?
7 Skyndilega, án nokkurs sýnilegs tilefnis frá mannlegum bæjardyrum séð og þegar Jerúsalem virtist auðunnin, dró rómverski herinn sig til baka. Uppreisnarmenn Gyðinga eltu rómverska herliðið allt til Antípatris, um 50 kílómetra frá Jerúsalem, og sneru síðan heim. Við komuna til Jerúsalem söfnuðust þeir saman í musterinu til að leggja drög að næstu hernaðaráætlunum. Unglingar voru kallaðir til að styrkja víggirðingar og til herþjónustu. Myndu kristnir menn dragast inn í þessar aðgerðir? Jafnvel þótt þeir kæmust hjá því, myndu þeir enn vera á hættusvæði þegar rómverskar hersveitir sneru aftur?
8. Hvað gerðu kristnir menn strax í hlýðni við spádómsorð Jesú?
8 Kristnir menn í Jerúsalem og í allri Júdeu tóku til sín spádómlega viðvörun Jesú Krists og flúðu sem skjótast af hættusvæðinu. Það var áríðandi að flýja! Þeir héldu til fjalla og hugsanlegt er að sumir hafi sest að í Pella í Pereuhéraði. Þeir sem tóku viðvörun Jesú til sín sýndu ekki þá flónsku að snúa aftur til að reyna að bjarga efnislegum eigum sínum. (Samanber Lúkas 14:33.) Það hefur örugglega verið erfitt fyrir barnshafandi konur og mæður með börn á brjósti að leggja í ferðalag fótgangandi við þessar aðstæður. Hvíldardagsákvæði hindruðu ekki flóttann og þótt vetur væri nærri, var hann enn ekki genginn í garð. Þeir sem fóru eftir viðvörun Jesú og flúðu sem skjótast voru fljótlega óhultir fjarri Jerúsalem og Júdeu. Líf þeirra lá við. — Samanber Jakobsbréfið 3:17, NW.
9. Hve fljótt sneru hersveitir Rómverja aftur og með hvaða afleiðingum?
9 Strax næsta ár, árið 67, hófu Rómverjar aftur hernaðaraðgerðir gegn Gyðingum. Fyrst unnu þeir Galíleu. Síðan var Júdea sundurlimuð. Árið 70 var Jerúsalem aftur umkringd hersveitum Rómverja. (Lúkas 19:43) Hungrið svarf að. Þeir sem voru innikróaðir í borginni snerust hver gegn öðrum. Hver sem reyndi að flýja var umsvifalaust drepinn. Það sem kom yfir þá var ‚mikil þrenging‘ eins og Jesús hafði sagt. — Matteus 24:21.
10. Hverju öðru tökum við eftir ef við lesum með skarpskyggni?
10 En uppfyllti þetta fullkomlega það sem Jesús hafði spáð? Nei, meira var í vændum. Ef við lesum Ritninguna með skarpskyggni, eins og Jesús ráðlagði, þá veitum við örugglega athygli því sem framundan er. Við hugsum þá líka alvarlega um þýðingu þess fyrir líf okkar.
„Viðurstyggð“ nútímans
11. Á hvaða tveim öðrum stöðum talar Daníel um ‚viðurstyggðina‘ og hvaða tímabil er þar til umræðu?
11 Veitum því athygli að auk þess sem við höfum séð í Daníel 9:27 er einnig minnst á „viðurstyggð eyðingarinnar“ í Daníel 11:31 og 12:11. Á hvorugum staðnum er eyðing Jerúsalem til umræðu. Aðeins tveim versum á undan Daníel 12:11 er talað um tíma endalokanna. (Daníel 12:9) Við höfum lifað þann tíma frá 1914. Við þurfum þess vegna að vera vakandi fyrir því að bera kennsl á „viðurstyggð eyðingarinnar“ nú á tímum og gæta þess síðan að forða okkur af hættusvæði.
12, 13. Hvers vegna er viðeigandi að kalla Þjóðabandalagið „viðurstyggð“ nútímans?
12 Hver er „viðurstyggð“ nútímans? Öll rök hníga að því að það hafi verið Þjóðabandalagið sem tók til starfa árið 1920, skömmu eftir að endalokatími heimsins hófst. En hvernig gat það verið „viðurstyggð eyðingarinnar“?
13 Munum að Biblían notar hebreska orðið fyrir „viðurstyggð“ fyrst og fremst um skurðgoð og skurðgoðadýrkun. Var Þjóðabandalagið dýrkað eins og skurðgoð? Svo sannarlega! Klerkarnir stilltu því upp „á helgum stað“ og fylgjendur þeirra veittu því ástríðufulla hollustu. Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku lýsti yfir að Þjóðabandalagið yrði „pólitísk ímynd Guðsríkis á jörð.“ Öldungadeild Bandaríkjaþings barst heilt bréfaflóð frá trúarsöfnuðum sem hvöttu þingið til að fullgilda sáttmála Þjóðabandalagsins. Allsherjarráð Baptista, Safnaðarkirkjumanna og Öldungakirkjumanna á Bretlandseyjum hylltu Þjóðabandalagið sem „einu færu leiðina til að koma á [friði á jörð].“ — Sjá Opinberunarbókin 13:14, 15.
14, 15. Hvernig kom það til að Þjóðabandalagið og síðar Sameinuðu þjóðirnar stóðu „á helgum stað“?
14 Messíasarríki Guðs hafði verið stofnsett á himnum árið 1914, en þjóðirnar höfðu hins vegar barist fyrir eigin fullveldi. (Sálmur 2:1-6) Þegar stungið var upp á stofnun Þjóðabandalagsins höfðu þjóðirnar, sem voru nýbúnar að heyja fyrri heimsstyrjöldina, og klerkarnir, sem höfðu blessað heri þeirra, sýnt greinilega að þau voru búin að snúa baki við lögum Guðs. Þau horfðu ekki til Krists sem konungs. Þannig eignuðu þau mannastofnun hlutverk Guðsríkis; þau settu Þjóðabandalagið á ‚helgan stað‘ þar sem það átti ekki heima.
15 Arftaki Þjóðabandalagsins, Sameinuðu þjóðirnar, varð til 24. október 1945. Síðar lofuðu páfarnir í Róm Sameinuðu þjóðirnar sem „síðustu von friðar og sameiningar“ og „æðsta dómsvettvang friðar og réttvísi.“ Já, Þjóðabandalagið og arftaki þess, Sameinuðu þjóðirnar, urðu sannarlega skurðgoð, „viðurstyggð“ í augum Guðs og fólks hans.
Hvað á að flýja?
16. Hvað þurfa þeir sem unna réttlætinu að flýja núna?
16 Unnendur réttlætisins þurfa að flýja í öruggt skjól þegar þeir ‚sjá‘ þetta, þegar þeir gera sér grein fyrir hvað þessi alþjóðasamtök eru og hvernig þau eru hafin upp til skýjanna. Flýja frá hverju? Frá því sem er nútímahliðstæða hinnar ótrúu Jerúsalemborgar, það er að segja kristna heiminum, og í víðara samhengi frá Babýlon hinni miklu í heild, heimskerfi falskra trúarbragða. — Opinberunarbókin 18:4.
17, 18. Hvaða eyðingu mun „viðurstyggð“ nútímans valda?
17 Munum líka að á fyrstu öldinni þegar rómverski herinn kom með skurðgoðamerki sín eða gunnfána í hina helgu borg Gyðinga, var hann kominn til að eyða Jerúsalem og tilbeiðslukerfi hennar. Á okkar dögum á eyðingin ekki að koma bara yfir eina borg og ekki bara yfir kristna heiminn, heldur yfir gervallt heimskerfi falskra trúarbragða. — Opinberunarbókin 18:5-8.
18 Opinberunarbókin 17:16 segir fyrir að þetta táknræna, skarlatsrauða villidýr, sem hefur reynst vera Sameinuðu þjóðirnar, snúist gegn skækjunni Babýlon hinni miklu og eyði henni með miklum ofsa. Á myndríku máli segir bókin: „Hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ Það er ógnvekjandi að hugleiða þýðingu þessa. Það mun hafa í för með sér endalok allra falstrúarbragða alls staðar á jörðinni. Það mun svo sannarlega sýna að þrengingin mikla sé hafin!
19. Hvaða öfl hafa verið hluti af Sameinuðu þjóðunum frá stofnun þeirra og hvers vegna skiptir það máli?
19 Það er athyglisvert að frá stofnun Sameinuðu þjóðanna 1945 hafa guðlaus öfl, sem eru andvíg trúarbrögðum, gerst áberandi meðal aðildarríkja þeirra. Á ýmsum tímum víða um heim hafa slík róttæk öfl átt sinn þátt í að takmarka trúariðkanir verulega eða banna þær algerlega. En á nokkrum síðustu árum hefur andstöðu stjórnvalda gegn trúarhópum víða linnt. Sumum gæti þótt sem trúarbrögðunum sé nú engin hætta búin.
20. Hvers konar orð hafa trúarbrögð heims getið sér?
20 En trúarbrögð Babýlonar hinnar miklu eru eftir sem áður mikið sundrungar- og ofbeldisafl í heiminum. Stríðandi klofningshópar og hryðjuverkahópar eru í fréttafyrirsögnum oft nefndir eftir trúnni sem þeir aðhyllast. Óeirðalögregla og hermenn hafa þurft að ráðast inn í musteri og hof til að binda enda á ofbeldi milli trúarhópa sem berast á banaspjót. Trúflokkar hafa fjármagnað pólitískar byltingar. Trúarhatur hefur ónýtt fyrirætlanir Sameinuðu þjóðanna um að viðhalda stöðugleika milli þjóðernishópa. Öfl innan Sameinuðu þjóðanna myndu gjarnan vilja ryðja úr vegi hverjum þeim trúaráhrifum sem standa í vegi þess markmiðs þeirra að koma á friði og öryggi.
21. (a) Hver ákveður hvenær Babýlon hinni miklu verður eytt? (b) Hvað er áríðandi að gera áður?
21 Þá ber einnig að hafa annað mikilvægt í huga. Enda þótt herbúin ‚horn‘ innan Sameinuðu þjóðanna verði notuð til að eyða Babýlon hinni miklu, er eyðingin í rauninni gerð að dómi Guðs. Dóminum verður fullnægt á tilsettum tíma hans. (Opinberunarbókin 17:17) Hvað ættum við að gera þangað til? Að ‚ganga út úr henni‘ — forða okkur úr Babýlon hinni miklu — svarar Biblían. — Opinberunarbókin 18:4.
22, 23. Í hverju felst slíkur flótti?
22 Þessi flótti í öruggt skjól felst ekki í því að flýja frá einum stað til annars eins og kristnir Gyðingar gerðu er þeir yfirgáfu Jerúsalem. Þetta er flótti frá trúarbrögðum kristna heimsins, já, frá Babýlon hinni miklu í öllum sínum myndum. Hann felst í algerri aðgreiningu ekki bara frá falstrúarstofnunum heldur líka frá siðum þeirra og þeim anda sem þær leiða af sér. Þetta er flótti í öruggt skjól innan guðræðisskipulags Jehóva. — Efesusbréfið 5:7-11.
23 Hvernig brugðust vottarnir við þegar smurðir þjónar Jehóva báru fyrst kennsl á viðurstyggð nútímans, Þjóðabandalagið, eftir fyrri heimsstyrjöldina? Þeir höfðu þá þegar sagt skilið við kirkjur kristna heimsins. En smám saman rann upp fyrir þeim að þeir héldu enn í suma af siðum og athöfnum kristna heimsins, svo sem notkun krossins, jólahald og aðrar heiðnar hátíðir. Þegar þeir lærðu sannleikann um þessa siði biðu þeir ekki boðanna. Þeir tóku til sín ráðin í Jesaja 52:11: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva]!“
24. Hverjir hafa tekið þátt í flóttanum, einkum frá 1935?
24 Einkum frá 1935 hefur vaxandi múgur annarra tekið sams konar stefnu. Þetta eru menn sem hafa tekið opnum örmum voninni að fá að lifa eilíflega í paradís á jörð. Þeir hafa líka ‚séð viðurstyggðina standa á helgum stað‘ og gera sér grein fyrir hvað það þýðir. Eftir að hafa ákveðið að flýja hafa þeir látið strika nöfn sín út af skrám trúarsamtaka sem eru hluti af Babýlon hinni miklu. — 2. Korintubréf 6:14-17.
25. Hvers er krafist auk þess að slíta öll tengsl við falstrúarbrögðin?
25 En að flýja út úr Babýlon hinni miklu felur miklu meira í sér en að yfirgefa fölsk trúarbrögð. Það er meira en að sækja fáeinar samkomur í ríkissalnum eða taka þátt í að prédika fagnaðarerindið einu sinni eða tvisvar í mánuði. Maður er kannski kominn líkamlega út úr Babýlon hinni miklu, en hefur hann raunverulega yfirgefið hana að öllu leyti? Hefur hann aðgreint sig frá þeim heimi sem Babýlon hin mikla er áberandi hluti af? Heldur hann enn í það sem endurspeglar anda Babýlonar hinnar miklu — andann sem virðir réttláta staðla Guðs að vettugi? Leggur hann lítið upp úr góðu siðferði og tryggð í hjónabandi? Leggur hann meiri áherslu á persónuleg og efnisleg hugðarefni en andleg? Hann má ekki hegða sér eftir þessu heimskerfi. — Matteus 6:24; 1. Pétursbréf 4:3, 4.
Láttu ekkert hindra þig í að flýja!
26. Hvað hjálpar okkur ekki bara að hefja flóttann heldur ljúka honum?
26 Þegar við flýjum í öruggt skjól er áríðandi að horfa ekki löngunaraugum til þess sem að baki er. (Lúkas 9:62) Við verðum að einbeita hugum og hjörtum að ríki Guðs og réttlæti hans. Erum við staðráðin í að sýna trú okkar og hlýðni með því að leita þessa fyrst, í trausti þess að Jehóva blessi slíka trúfasta lífsstefnu? (Matteus 6:31-33) Biblíuleg sannfæring ætti að hvetja okkur til þess er við bíðum óþreyjufull eftir þýðingarmikilli framvindu á vettvangi heimsmála.
27. Af hverju er mikilvægt að hugsa alvarlega um þær spurningar sem hér er spurt?
27 Dómsfullnæging Guðs hefst með eyðingu Babýlonar hinnar miklu. Þetta heimsveldi falskra trúarbragða, sem líkt er við skækju, verður eilíflega afmáð. Sá tími er mjög nærri! Hver verður staða okkar sem einstaklinga þegar þessir örlagatímar renna upp? Og hvorum megin stöndum við þegar þrengingin mikla nær hámarki með eyðingu þess sem eftir er af illu heimskerfi Satans? Ef við grípum til nauðsynlegra aðgerða núna er öryggi okkar tryggt. Jehóva segir okkur: „Sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur.“ (Orðskviðirnir 1:33) Með því að halda áfram að þjóna Jehóva dyggilega og með gleði á endalokatíma þessa heimskerfis getum við orðið hæf til að þjóna honum að eilífu.
[Neðanmáls]
^ Sjá Innsýn í Ritningarnar, 1. bindi, bls. 634-5, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Hver er „viðurstyggð“ nútímans?
◻ Í hvaða skilningi ‚stendur viðurstyggðin á helgum stað‘?
◻ Í hverju felst flótti í öruggt skjól nú á tímum?
◻ Hvers vegna er áríðandi að flýja?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 15]
Fylgjendur Jesú urðu að flýja tafarlaust til að bjargast.