Sæði höggormsins — hvernig afhjúpað?
Sæði höggormsins — hvernig afhjúpað?
„Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis.“ — 1. MÓSEBÓK 3:15.
1. (a) Af hverju er Jehóva glaður Guð? (b) Hvað hefur hann gert til að veita okkur hlutdeild í gleði sinni?
JEHÓVA er glaður Guð og hefur fullt tilefni til. Hann er fremsti og mesti gjafari góðra hluta og ekkert getur komið í veg fyrir að tilgangur hans nái fram að ganga. (Jesaja 55:10, 11; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Jakobsbréfið 1:17) Hann vill veita þjónum sínum hlutdeild í gleði sinni og gefur þeim gott tilefni til. Þess vegna, á einhverri myrkustu stund mannkynssögunnar — eftir uppreisnina í Eden, gaf hann okkur ástæðu til að horfa vonglaðir til framtíðarinnar. — Rómverjabréfið 8:19-21.
2. Hvernig veitti Jehóva afkomendum Adams og Evu von er hann felldi dóm yfir uppreisnarseggjunum í Eden?
2 Með því að standa gegn Jehóva og rægja hann hafði einn af andasonum hans gert sig að Satan djöflinum. Fyrstu mennirnir, Eva og síðan Adam, höfðu komist undir áhrifavald hans og brotið skýlaus lög Jehóva. Þau voru með réttu dæmd til dauða. (1. Mósebók 3:1-24) En um leið og Jehóva felldi dóm yfir þessum uppreisnarseggjum gaf hann afkomendum Adams og Evu tilefni til vonar. Hvernig þá? Jehóva sagði í 1. Mósebók 3:15: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ Þessi spádómur er skilningslykill að allri Biblíunni auk atburða nútíðar og fortíðar, bæði í heiminum og meðal þjóna Jehóva.
Merking spádómsins
3. Skýrðu hver er hvað í 1. Mósebók 3:15: (a) höggormurinn, (b) ‚konan,‘ (c) ‚sæði‘ höggormsins og (d) ‚sæði‘ konunnar.
3 Til að gera okkur grein fyrir þýðingu spádómsins skulum við skoða stuttlega hina ýmsu þætti hans. Sá sem ávarpaður er í 1. Mósebók 3:15 er höggormurinn — ekki snákurinn sjálfur heldur sá sem notaði hann. (Opinberunarbókin 12:9) ‚Konan‘ er ekki Eva heldur himneskt skipulag Jehóva, móðir andagetinna þjóna hans á jörðinni. (Galatabréfið 4:26) ‚Sæði‘ höggormsins er sæði Satans — illir andar, menn og mannastofnanir sem sýna eðli Satans og eru fjandsamleg gagnvart ‚sæði‘ konunnar. (Jóhannes 15:19; 17:15) ‚Sæði‘ konunnar er fyrst og fremst Jesús Kristur sem var smurður með heilögum anda árið 29. Hinar 144.000, sem eru ‚endurfæddar af vatni og anda‘ og erfingar með Kristi að ríkinu á himnum, eru viðbótarhluti þessa fyrirheitna sæðis. Farið var að bæta þeim við sæði konunnar á hvítasunnunni árið 33. — Jóhannes 3:3, 5, Biblían 1912; Galatabréfið 3:16, 29.
4. Hvernig tengist 1. Mósebók 3:15 því að jörðin verði paradís full af fólki sem er laust undan synd og dauða?
4 Sá sem olli því með blekkingum sínum að mannkynið missti paradís notaði höggorminn í Eden sem taltæki. Fyrsta Mósebók 3:15 bendir fram til þess tíma þegar sá sem notaði höggorminn verður að engu gerður. Þá opnast leiðin aftur fyrir mennska þjóna Guðs til að búa í paradís, lausir við synd og dauða. Þetta eru gleðilegar framtíðarhorfur! — Opinberunarbókin 20:1-3; 21:1-5.
5. Hvað einkennir andleg afkvæmi djöfulsins?
5 Eftir uppreisnina í Eden tóku menn og samtök að koma fram sem sýndu sama eðli og breytni og Satan djöfullinn — uppreisn, lygar, róg og morð, samfara andstöðu við vilja Jehóva og þá sem tilbáðu hann. Afkvæmi eða andleg börn djöfulsins þekktust á þessum einkennum. Þeirra á meðal var Kain sem myrti Abel þegar Jehóva tók tilbeiðslu Abels fram yfir tilbeiðslu Kains. (1. Jóhannesarbréf 3:10-12) Nimrod gerðist voldugur veiðimaður og valdhafi í andstöðu við Jehóva, enda merkir nafn hans uppreisnarmaður. (1. Mósebók 10:9, NW) Auk þess komu fram forn konungsríki hvert af öðru, þeirra á meðal Babýlon með ríkistrú sína byggðri á blekkingum, og þau kúguðu tilbiðjendur Jehóva grimmilega. — Jeremía 50:29.
„Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar“
6. Hvernig hefur Satan sýnt konu Jehóva fjandskap?
6 Allan þennan tíma var fjandskapur milli höggormsins og konu Jehóva, milli Satans djöfulsins og hins himneska, drottinholla andaveruskipulags Jehóva. Fjandskapur Satans sýndi sig er hann storkaði Jehóva og reyndi að spilla himnesku skipulagi hans með því að tæla engla til að yfirgefa sinn rétta bústað. (Orðskviðirnir 27:11; Júdasarbréfið 6) Hann sýndi sig þegar Satan notaði illa anda sína til að reyna að hefta för engla sem Jehóva hafði sent í ákveðnum erindagerðum. (Daníel 10:13, 14, 20, 21) Hann kom mjög greinilega í ljós núna á 20. öldinni þegar Satan reyndi að eyða Messíasarríkinu við fæðingu þess. — Opinberunarbókin 12:1-4.
7. Hvernig fundu drottinhollir englar Jehóva til fjandskapar gegn höggorminum táknræna en hvaða hemil hafa þeir haft á sér?
7 Kona Jehóva, drottinhollir englar hans sem heild, sýndi einnig fjandskap — gagnvart höggorminum táknræna. Satan hafði rægt hið góða nafn Guðs og véfengt ráðvendni hverrar einustu skynsemigæddrar sköpunarveru Guðs, þeirra á meðal allra englanna. Hann reri að því öllum árum að spilla hollustu þeirra við Guð. (Opinberunarbókin 12:4a) Drottinhollir englar, kerúbar og serafar gátu ekki annað en haft viðbjóð á þeim sem gerði sig að djöfli og Satan. Samt hafa þeir beðið þess að Jehóva taki til sinna ráða á sínum tíma. — Samanber Júdasarbréfið 9.
Fjandskapur gagnvart sæði konu Guðs
8. Hverjum var Satan á höttunum eftir?
8 En Satan var á höttunum eftir fyrirheitnu sæði konunnar, honum sem Jehóva sagði að ætti að merja höfuð höggormsins. Þegar engillinn kunngerði frá himnum að Jesús, sem fæddur var í Betlehem, væri „frelsari . . . sem er Kristur Drottinn“ var það sterk vísbending um að hann yrði hið fyrirheitna sæði konunnar. — Lúkas 2:10, 11.
9. Hvernig sýndi Satan grimmilegan fjandskap eftir fæðingu Jesú?
9 Hinn grimmilegi fjandskapur Satans sýndi sig brátt er hann lokkaði heiðna stjörnuspámenn í sendiför, fyrst til Heródesar konungs í Jerúsalem og síðan í húsið í Betlehem þar sem þeir fundu drenginn Jesú og móður hans, Maríu. Skömmu síðar fyrirskipaði Heródes konungur að öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, skyldu drepin. Þar sýndi Heródes djöfullegt hatur á sæðinu. Heródes vissi greinilega mætavel að hann var að reyna að afmá þann sem verða átti Messías. (Matteus 2:1-6, 16) Sagan ber því vitni að Heródes konungur hafi verið samviskulaus, slóttugur og grimmur — svo sannarlega hluti af sæði höggormsins.
10. (a) Hvernig reyndi Satan persónulega eftir skírn Jesú að ónýta tilgang Jehóva með hið fyrirheitna sæði? (b) Hvernig beitti Satan trúarleiðtogum Gyðinga fyrir sig til að ná markmiðum sínum?
10 Eftir að Jesús hafði verið smurður heilögum anda árið 29 og Jehóva hafði talað af himni og viðurkennt hann sem son sinn, reyndi Satan ítrekað að fá Jesú til að láta undan freistingu. Þannig vildi hann ónýta tilgang Jehóva með son sinn. (Matteus 4:1-10) Þegar það mistókst beitti hann aftur fyrir sig mönnum til að reyna að ná markmiðum sínum. Meðal þeirra, sem hann notaði til að reyna að gera Jesú tortryggilegan, voru hinir hræsnisfullu trúarleiðtogar. Þeir beittu sömu aðferðum og Satan sjálfur — lygi og rógi. Þegar Jesús sagði lömuðum manni: „Vertu hughraustur, . . . syndir þínar eru fyrirgefnar,“ lýstu fræðimennirnir umbúðalaust yfir að Jesús væri guðlastari, og biðu ekki eftir því að sjá hvort maðurinn hefði virkilega læknast. (Matteus 9:2-7) Er Jesús læknaði fólk á hvíldardegi fordæmdu farísearnir hann fyrir að brjóta hvíldardagslögin og lögðu á ráðin um að drepa hann. (Matteus 12:9-14; Jóhannes 5:1-18) Þegar Jesús rak út illa anda sökuðu farísearnir hann um að vera bandamaður „Beelsebúls, höfðingja illra anda.“ (Matteus 12:22-24) Eftir að Lasarus var reistur upp frá dauðum tóku margir trú á Jesú, en æðstu prestarnir og farísearnir lögðu aftur á ráðin um að drepa hann. — Jóhannes 11:47-53.
11. Hverja benti Jesús á sem hluta af sæði höggormsins þrem dögum fyrir dauða sinn og hvers vegna?
11 Jesús vissi fullvel hvaða ráð þeir voru að brugga og hinn 11. nísan árið 33 gekk hann óttalaust rakleiðis inn á musterissvæðið í Jerúsalem og kvað þar opinberlega upp dóm yfir þeim. Sem hópur höfðu fræðimennirnir og faríseanir sýnt ótvírætt hvaða mann þeir höfðu að geyma, þannig að Jesús sagði: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast.“ Jesús sagði umbúðalaust að þeir tilheyrðu sæði höggormsins: „Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm“ eða Gehennadóm? (Matteus 23:13, 33) Orðalagið minnir okkur á spádóminn í 1. Mósebók 3:15.
12, 13. (a) Hvernig sýndu æðstu prestarnir og fræðimennirnir enn skýrar hver væri andlegur faðir þeirra? (b) Hverjir gengu í lið með þeim? (c) Hvernig var sæði konunnar marið á hælnum til uppfyllingar 1. Mósebók 3:15?
12 Fundu þeir til í hjörtum sér þegar þeir heyrðu orð Jesú, og sárbændu þeir Guð um miskunn? Iðruðust þeir illsku sinnar? Nei! Markús 14:1 greinir frá því að strax næsta dag, á fundi í hallargarði æðsta prestsins, hafi „prestarnir og fræðimennirnir [leitað] fyrir sér, hvernig þeir gætu handsamað Jesú með svikum og tekið hann af lífi.“ Þeir héldu áfram að sýna morðhug Satans sem Jesús hafði áður kallað manndrápara. (Jóhannes 8:44) Skömmu síðar gekk Júdas Ískaríot á fund þeirra en Satan hafði tælt hann til fráhvarfs. Júdas yfirgaf hið lýtalausa sæði konu Guðs og gekk í lið með sæði höggormsins.
13 Snemma að morgni 14. nísan fluttu menn frá trúardómstóli Gyðinga Jesú sem fanga til rómverska landstjórans. Þar heimtuðu æðstu prestarnir fyrstir manna að Jesús yrði staurfestur. Þegar Pílatus spurði: „Á ég að krossfesta [„staurfesta,“ NW] konung yðar?“ voru það æðstu prestarnir sem svöruðu: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 19:6, 15) Þeir sýndu svo sannarlega á allan hátt að þeir tilheyrðu sæði höggormsins. En þeir voru vissulega ekki einir. Hin innblásna frásaga í Matteusi 27:24, 25 segir: „Pílatus . . . tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu“ og „allur lýðurinn sagði: ‚Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!‘“ Þannig sýndu margir af þessari kynslóð Gyðinga að þeir tilheyrðu sæði höggormsins. Jesús var dáinn áður en dagur var úti. Satan hafði notað sýnilegt sæði sitt til að merja hælinn á sæði konu Guðs.
14. Af hverju var það ekki sigur fyrir Satan er sæði konunnar var marið á hælnum?
14 Hafði Satan sigrað? Alls ekki! Jesús Kristur hafði sigrað heiminn og stjórnanda hans. (Jóhannes 14:30, 31; 16:33) Hann hafði varðveitt hollustu við Jehóva allt til dauða. Dauði hans sem fullkomins manns greiddi lausnargjaldið er þurfti til að endurkaupa lífsréttinn sem Adam fyrirgerði. Þar með opnaði hann þeim, sem myndu sýna trú á þessa ráðstöfun og hlýða boðorðum Guðs, leiðina til eilífs lífs. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Jehóva vakti Jesú upp frá dauðum til ódauðleika á himnum. Á tilsettum tíma Jehóva mun Jesús tortíma Satan. Í 1. Mósebók 22:16-18 er því spáð að Jehóva sýni velvild öllum fjölskyldum jarðar sem gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hljóta blessun fyrir tilverknað þessa drottinholla sæðis.
15. (a) Hvernig héldu postularnir áfram að afhjúpa sæði höggormsins eftir dauða Jesú? (b) Hvaða frekari fjandskap hefur sæði höggormsins sýnt allt fram á okkar dag?
15 Eftir dauða Jesú héldu andasmurðir kristnir menn áfram að afhjúpa sæði höggormsins eins og Drottinn þeirra hafði gert. Knúinn af heilögum anda varaði Páll postuli við ‚manni syndarinnar‘ eða ‚lögleysingjanum‘ sem koma myndi „fyrir tilverknað Satans.“ (2. Þessaloníkubréf 2:3-10) Þessi lögleysingi hefur reynst vera klerkastétt kristna heimsins. Sæði höggormsins ofsótti fylgjendur Jesú Krists grimmilega. Í spádóminum í Opinberunarbókinni 12:17 sagði Jóhannes postuli fyrir að Satan myndi halda áfram allt fram á okkar daga að heyja stríð gegn leifunum af sæði konu Guðs. Það er einmitt það sem gerst hefur. Í tugum landa hafa vottar Jehóva sætt bönnum, skrílsárásum, fangavist eða verið varpað í fangabúðir vegna óhagganlegrar afstöðu sinnar með ríki Guðs og réttlátum vegum hans.
Sæði höggormsins afhjúpað nú á tímum
16. Hverjir hafa verið afhjúpaðir á okkar tímum sem hluti af sæði höggormsins og hvernig?
16 Sannkristnir menn hafa líkt eftir Jesú Kristi og ekki látið af að afhjúpa höggorminn og sæði hans óttalaust. Árið 1917 gáfu Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru þá kallaðir, út bókina Hinn fullnaði leyndardómur þar sem þeir flettu ofan af hræsni klerka kristna heimsins. Því var fylgt eftir árið 1924 með prentaðri yfirlýsingu sem nefndist Klerkar kærðir. Fimmtíu milljónum eintaka var dreift um heim allan. Árið 1937 afhjúpaði J. F. Rutherford, þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, sæði Satans umbúðalaust í ræðum sem hétu „Afhjúpaðir“ og „Trúarbrögð og kristni.“ Árið eftir flutti hann ræðuna „Horfist í augu við staðreyndir“ í Lundúnum sem gestir á 50 mótum víða um lönd gátu hlýtt á samtímis með hjálp útvarpstækninnar. Mánuði síðar var ræðunni „Fasismi eða frelsi“ útvarpað um víðáttumikið útvarpsnet í Bandaríkjunum. Við þetta bættust beinskeyttar afhjúpanir í bókum svo sem Óvinir og Trúarbrögð og einnig í bæklingnum Afhjúpun. Í samræmi við það sem birst hefur á prenti síðan á þriðja áratugnum, bendir bókin Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, * sem komin er út á 65 tungumálum, á að spilltir pólitískir valdhafar og ágjarnir, samviskulausir viðskiptabraskarar séu líka einna fremstir meðal sýnilegs sæðis höggormsins. Þegar stjórnmálaleiðtogar temja sér lygar í þeim tilgangi að blekkja þegna sína, bera enga virðingu fyrir heilagleika blóðsins og kúga þjóna Jehóva (og sýna þar með hatur sitt á sæði konu Guðs), þá eru þeir svo sannarlega að sýna að þeir eru hluti af sæði höggormsins. Hið sama má segja um viðskiptabraskara sem ljúga samviskulausir ef þeir geta hagnast á því og framleiða eða selja vöru sem alþekkt er að veldur sjúkdómum.
17. Hvaða tækifæri stendur framámönnum enn opið sem kunna að koma út úr þessu heimskerfi?
17 Ekki munu allir, sem eru flekkaðir af veraldlegum trúarbrögðum, stjórnmálum eða viðskiptum, teljast hluti af sæði höggormsins þegar yfir lýkur. Sumir þessara karla og kvenna dást að vottum Jehóva. Þeir beita áhrifum sínum til að hjálpa þeim og gerast sannir guðsdýrkendur með tíð og tíma. (Samanber Postulasöguna 13:7, 12; 17:32-34.) Allir hafa þeir verið hvattir: „Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu. Þjónið [Jehóva] með ótta og fagnið með lotningu. Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu, því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.“ (Sálmur 2:10-13) Já, það er brýnt fyrir alla, sem þrá hylli Jehóva, að láta hendur standa fram úr ermum núna, áður en dómarinn himneski lokar dyrum tækifærisins!
18. Hverjir tilbiðja Jehóva þótt þeir tilheyri ekki sæði konunnar?
18 Aðeins þeir sem mynda hið himneska ríki tilheyra sæði konunnar. Þeir eru fáir að tölu. (Opinberunarbókin 7:4, 9) En mikill múgur annarra manna, já, milljónir manna, tilbiðja Jehóva og hlakka til eilífs lífs í paradís á jörð. Bæði í orði og verki segja þeir við smurða þjóna Jehóva: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ — Sakaría 8:23.
19. (a) Hvaða ákvörðun verða allir að taka? (b) Hverjir eru sérstaklega hvattir til að breyta viturlega meðan enn er tækifæri til?
19 Núna er sá tími runninn upp að allt mannkynið verður að velja. Vill það tilbiðja Jehóva og styðja drottinvald hans, eða ætlar það að leyfa Satan að vera stjórnandi sinn með því að gera það sem honum þóknast? Yfir fimm milljónir manna af öllum þjóðum hafa tekið afstöðu með Jehóva í félagi við þá sem eftir eru af sæði konunnar, erfingjum Guðsríkis. Átta milljónir manna í viðbót hafa sýnt áhuga á að nema Biblíuna með þeim eða sækja samkomur þeirra. Vottar Jehóva segja við þá alla: Dyr tækifærisins standa enn opnar. Takið ótvíræða afstöðu með Jehóva. Viðurkennið Krist Jesú sem hið fyrirheitna sæði. Eigið gleðilegt samfélag við sýnilegt skipulag Jehóva. Megið þið eiga hlutdeild í allri þeirri blessun sem hann mun veita fyrir milligöngu konungsstjórnar Krists Jesú.
[Neðanmáls]
^ Gefin út af Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Hver er höggormurinn sem talað er um í 1. Mósebók 3:15, og hver er konan?
◻ Hvað einkennir sæði höggormsins?
◻ Hvernig afhjúpaði Jesús sæði höggormsins?
◻ Hverjir hafa verið afhjúpaðir sem hluti af sæði höggormsins nú á tímum?
◻ Hvað er áríðandi að gera til að teljast ekki til sæðis höggormsins?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jesús afhjúpaði hræsnisfulla trúarleiðtoga og sýndi fram á að þeir væru hluti af sæði höggormsins.