Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Jesús sagði: „Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.“ Merkir þetta að kristnir menn geti fyrirgefið syndir?

Það eru engin biblíuleg rök fyrir því að kristnir menn almennt, og ekki einu sinni útnefndir öldungar safnaðarins, hafi guðlegt vald til að fyrirgefa syndir. En það sem Jesús sagði lærisveinunum í Jóhannesi 20:23 og vitnað er í hér að ofan, gefur til kynna að Guð hafi veitt postulunum sérstakt vald til þess. Og orð Jesú hér kunna að tengjast því sem hann sagði í Matteusi 18:18 um ákvarðanir á himnum.

Kristnir menn geta fyrirgefið vissar syndir í samræmi við ráð Páls postula í Efesusbréfinu 4:32: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ Páll var að tala hér um ávirðingar eins kristins manns gegn öðrum, svo sem vegna lausmælgi. Þeir áttu að gera sér far um að útkljá slík mál og fyrirgefa hver öðrum. Munum eftir orðum Jesú: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ — Matteus 5:23, 24; 1. Pétursbréf 4:8.

En samhengi Jóhannesar 20:23 bendir til að Jesús hafi haft alvarlegri syndir í huga, eins og sjá má af öðru sem hann sagði við þennan sérstaka áheyrendahóp. Athugum það nánar.

Daginn sem Jesús var reistur upp birtist hann lærisveinunum í læstu herbergi í Jerúsalem. Frásagan segir: „Þá sagði Jesús aftur við þá: ‚Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.‘ Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: ‚Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.‘“ — Jóhannes 20:21-23.

Umræddir lærisveinar voru líklega fyrst og fremst trúfastir postular hans. (Samanber vers 24.) Með því að anda á þá og segja: „Meðtakið heilagan anda,“ var Jesús táknrænt að vekja athygli þeirra á að heilögum anda yrði bráðlega úthellt yfir þá. Jesús sagði síðan að þeir myndu hafa vald til að fyrirgefa syndir. Það er rökrétt að þetta tvennt sé tengt og leiði hvort af öðru.

Jesús úthellti heilögum anda fimmtíu dögum eftir upprisu sína, á hvítasunnudeginum. Hverju kom það til leiðar? Meðal annars því að þeir sem fengu heilagan anda voru endurfæddir sem andlegir synir Guðs og höfðu von um að verða meðstjórnendur Krists á himnum. (Jóhannes 3:3-5; Rómverjabréfið 8:15-17; 2. Korintubréf 1:22) En þessi úthelling andans gerði meira. Sumir, sem fengu andann, fengu líka undraverðan mátt. Þannig gátu sumir talað erlend tungumál sem þeir kunnu ekki fyrir. Aðrir gátu spáð. Og enn aðrir gátu læknað sjúka eða reist upp dána. — 1. Korintubréf 12:4-11.

Þar eð orð Jesú í Jóhannesi 20:22 vísuðu til þessarar úthellingar heilags anda yfir lærisveinana, virðast tengd orð hans um fyrirgefningu synda merkja að fyrir atbeina heilags anda hafi Guð veitt postulunum einstakt vald til að fyrirgefa syndir eða synja um fyrirgefningu. — Sjá Varðturninn (á ensku) 1. mars 1949, bls. 78.

Biblían greinir ekki ítarlega frá sérhverju tilviki er postularnir notuðu slíkt vald, en hún segir ekki heldur frá hverju einstöku tilviki er þeir notuðu hina undraverðu tungutalsgáfu, spádómsgáfu eða lækningagáfu. — 2. Korintubréf 12:12; Galatabréfið 3:5; Hebreabréfið 2:4.

Eitt tilvik, þar sem kom til kasta postulanna að beita valdi sínu að fyrirgefa syndir eða synja fyrirgefningu, var þegar Ananías og Saffíra lugu að heilögum anda. Pétur, sem heyrði Jesú segja orðin í Jóhannesi 20:22, 23, fletti ofan af Ananíasi og Saffíru. Fyrst ávarpaði Pétur Ananías sem dó samtundis. Þegar Saffíra kom síðar og hélt uppi blekkingunum felldi Pétur dóm yfir henni. Pétur fyrirgaf ekki synd hennar heldur sagði: „Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út.“ Hún dó líka þegar í stað. — Postulasagan 5:1-11.

Í þessu tilviki beitti Pétur postuli sérstöku valdi sínu til að synja um syndafyrirgefningu, þeirri undraverðu þekkingu að Guð myndi ekki fyrirgefa synd Ananíasar og Saffíru. Postularnir virðast líka hafa haft ofurmannlegt innsæi í mál þar sem þeir voru vissir um að syndir hefðu verið fyrirgefnar vegna fórnar Krists. Þessir postular, sem höfðu kraft heilags anda, gátu því fyrirgefið syndir eða synjað um syndafyrirgefningu. *

Það er ekki þar með sagt að allir andasmurðir öldungar á þeim tíma hafi haft slíkt undravald. Það má sjá af orðum Páls postula um brottrækan mann frá söfnuðinum í Korintu. Páll sagði ekki: ‚Ég fyrirgef syndir þessa manns‘ eða ‚Ég veit að þessum manni hefur verið fyrirgefið á himnum, svo að þið skuluð taka aftur við honum.‘ Páll hvatti allan söfnuðinn til að fyrirgefa þessum kristna manni, sem tekinn hafði verið inn í söfnuðinn aftur, og sýna honum kærleika. Hann bætti við: „Hverjum sem þér fyrirgefið, honum fyrirgef ég líka.“ — 2. Korintubréf 2:5-11.

Þegar maðurinn var tekinn inn í söfnuðinn aftur gátu allir kristnir bræður hans og systur fyrirgefið í þeim skilningi að þeir erfðu ekki við hann það sem hann hafði gert. En fyrst varð hann að iðrast og fá inngöngu í söfnuðinn á ný. Hvernig gerðist það?

Öldungar safnaðarins þurfa að taka á ýmsum alvarlegum syndum, svo sem þjófnaði, lygum eða grófu siðleysi. Þeir reyna að leiðrétta og áminna syndara og koma þeim til að iðrast. En haldi einhver áfram að stunda alvarlega synd og iðrast ekki, þá fara öldungarnir eftir fyrirmælum Guðs og víkja syndaranum úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:1-5, 11-13) Það sem Jesús sagði í Jóhannesi 20:23 á ekki við í slíkum tilfellum. Þessir öldungar hafa ekki undraverðar náðargáfur andans, svo sem hæfileika til að lækna sjúka eða reisa upp dána. Þær þjónuðu tilgangi sínum á fyrstu öldinni og liðu síðan undir lok. (1. Korintubréf 13:8-10) Og öldungar nútímans hafa ekki guðlegt vald til að fyrirgefa alvarlegar syndir í þeim skilningi að þeir geti lýst syndara hreinan í augum Jehóva. Þess konar fyrirgefning verður að byggjast á lausnarfórninni, og enginn nema Jehóva getur fyrirgefið á þeim grundvelli. — Sálmur 32:5; Matteus 6:9, 12; 1. Jóhannesarbréf 1:9.

Ef maður syndgar gróflega og iðrast ekki verður að víkja honum úr söfnuðinum eins og manninum í Korintu til forna. Ef hann iðrast síðar og vinnur verk samboðin iðruninni er fyrirgefning Guðs möguleg. (Postulasagan 26:20) Þegar svo er gefur Ritningin öldungunum tilefni til að ætla að Jehóva hafi vissulega fyrirgefið syndaranum. Og þegar hann hefur verið tekinn inn í söfnuðinn á ný geta öldungarnir hjálpað honum andlega að verða staðfastur í trúnni. Hinir í söfnuðinum geta fyrirgefið á sama hátt og kristnir menn í Korintu fyrirgáfu brottræka manninum sem tekinn var aftur inn í söfnuðinn á þeim tíma.

Með því að taka þannig á málum eru öldungarnir ekki að setja sínar eigin reglur til að dæma eftir. Þeir fara eftir meginreglum Biblíunnar og fylgja gaumgæfilega þeim biblíulegu aðferðum sem Jehóva hefur sett fram. Þess vegna verður sérhver fyrirgefning eða synjun á henni af hálfu öldunganna að vera í þeim skilningi sem fram kemur í orðum Jesú í Matteusi 18:18: „Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.“ Það sem þeir gera endurspeglar einfaldlega afstöðu Jehóva eins og hún kemur fram í Biblíunni.

Þar af leiðandi stangast orð Jesú í Jóhannesi 20:23 ekki á við Biblíuna í heild heldur gefa til kynna að postularnir hafi haft sérstakt vald í sambandi við fyrirgefningu synda, í samræmi við hið sérstaka hlutverk þeirra í bernsku kristna safnaðarins.

[Neðanmáls]

^ Jafnvel áður en Jesús dó og greiddi lausnargjaldið hafði hann vald til að lýsa yfir syndafyrirgefningu. — Matteus 9:2-6; samanber „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. september 1995.