Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu kostgæfinn að lesa

Vertu kostgæfinn að lesa

Vertu kostgæfinn að lesa

„Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:13.

1. Hvernig getum við haft gagn af biblíulestri?

 JEHÓVA GUÐ hefur gefið mannkyninu þann stórkostlega hæfileika að geta lært lestur og skrift. Hann hefur líka gefið orð sitt, Biblíuna, þannig að við getum verið vel uppfrædd. (Jesaja 30:20, 21) Á síðum Biblíunnar getum við nánast „gengið“ með guðhræddum ættfeðrum eins og Abraham, Ísak og Jakob. Við getum „séð“ guðræknar konur eins og Söru, Rebekku og hina trygglyndu Rut frá Móab. Já, og við getum „heyrt“ Jesú Krist flytja fjallræðu sína. Við getum notið allrar þessarar ánægju og fræðslu ef við erum dugleg að lesa.

2. Hvað gefur til kynna að Jesús og postular hans hafi verið vel læsir?

2 Hinn fullkomni Jesús Kristur var eflaust fluglæs og hann var vissulega þaulkunnugur Hebresku ritningunum. Þegar djöfullinn freistaði hans vitnaði hann því hvað eftir annað í þær og sagði: „Ritað er.“ (Matteus 4:4, 7, 10) Einu sinni las hann opinberlega upp úr spádómi Jesaja í samkunduhúsinu í Nasaret og heimfærði á sjálfan sig. (Lúkas 4:16-21) Hvað um postula Jesú? Í ritum sínum vitnuðu þeir oft í Hebresku ritningarnar. Valdhafar Gyðinga litu að vísu á Pétur og Jóhannes sem ólærða leikmenn vegna þess að þeir höfðu ekki verið fræddir við æðri menntastofnanir Hebrea, en guðinnblásin bréf þeirra sýna svo ekki verður um villst að þeir voru vel læsir og skrifandi. (Postulasagan 4:13) En er virkilega svo mikilvægt að vera læs?

‚Sæll er sá sem les upphátt‘

3. Af hverju er svo mikilvægt að lesa Biblíuna og kristileg rit?

3 Að afla sér nákvæmrar biblíuþekkingar og fara eftir henni getur veitt mönnum eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Vottar Jehóva gera sér því ljóst að það er mjög mikilvægt fyrir þá að lesa og nema Heilaga ritningu og hin kristnu rit sem Guð lætur í té fyrir atbeina smurðra kristinna manna, hins trúa og hyggna þjóns. (Matteus 24:45-47) Þúsundir manna hafa jafnvel lært að lesa með hjálp til þess gerðra rita Varðturnsfélagsins, og þannig hafa þeir getað aflað sér lífgandi þekkingar frá orði Guðs.

4. (a) Af hverju uppskerum við hamingju ef við lesum, nemum og förum eftir orði Guðs? (b) Hvað sagði Páll Tímóteusi um lestur?

4 Það er manninum hamingju- og gleðigjafi að lesa, nema og fara eftir orði Guðs. Það stafar af því að við erum að þóknast Guði og heiðra hann, hljótum blessun hans og finnum til gleði. Jehóva vill að þjónar hans séu glaðir. Þess vegna fyrirskipaði hann prestunum að lesa lögmál sitt fyrir fólkinu í Ísrael til forna. (5. Mósebók 31:9-12) Þegar Esra fræðimaður og aðrir lásu lögmálið fyrir öllu fólkinu, sem saman var komið í Jerúsalem, skýrðu þeir lögmálið svo að úr varð ‚mikil gleðihátíð.‘ (Nehemíabók 8:6-8, 12) Kristni postulinn Páll sagði samverkamanni sínum Tímóteusi síðar: „Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.“ (1. Tímóteusarbréf 4:13) Önnur þýðing orðar þetta þannig: „Helgaðu þig upplestri Ritningarinnar.“ — New International Version.

5. Hvernig tengir Opinberunarbókin 1:3 hamingju og lestur?

5 Af Opinberunarbókinni 1:3 er ljóst að hamingja okkar er undir því komin að við lesum orð Guðs og förum eftir því. Þar er okkur sagt: „Sæll er sá, er les [„upphátt,“ NW] þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“ Já, við þurfum að lesa upphátt og heyra spádómsorð Guðs í Opinberunarbókinni og Biblíunni allri. Sá maður er virkilega sæll sem „hefur yndi af lögmáli Jehóva og les lögmál hans lágum rómi dag og nótt.“ Og árangurinn? „Allt sem hann gerir mun lánast honum.“ (Sálmur 1:1-3, NW) Það er því ekki af tilefnislausu sem skipulag Jehóva hvetur okkur öll til að lesa og nema orð hans einslega, með fjölskyldunni og með trúbræðum.

Hugsaðu og hugleiddu

6. Hvað var Jósúa sagt að lesa og hvernig var það gagnlegt?

6 Hvernig geturðu haft mest gagn af lestri þínum í orði Guðs og kristilegum ritum? Líklega er gagnlegt fyrir þig að gera eins og Jósúa, guðhræddur leiðtogi Ísraels til forna. Honum var sagt: „Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana [„lesa hana lágum rómi,“ NW] um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ (Jósúabók 1:8) Að ‚lesa lágum rómi‘ merkir að lesa orðin í hálfum hljóðum fyrir sjálfan sig. Það er minnishjálp því að það festir efnið í huga manns. Jósúa átti að lesa lögmál Guðs „um daga og nætur,“ það er að segja að staðaldri. Þannig gat hann orðið gæfusamur og innt skyldur sínar við Guð viturlega af hendi. Þú getur líka notið góðs af því að lesa orð Guðs stöðuglega.

7. Hvers vegna ættum við ekki að hugsa fyrst og fremst um hraðann þegar við lesum orð Guðs?

7 Hugsaðu ekki fyrst og fremst um hraðann þegar þú lest orð Guðs. Ef þú hefur ætlað ákveðna stund til lestrar í Biblíunni eða kristilegum ritum, þá ættirðu að gefa þér góðan tíma. Það er sérstaklega áríðandi þegar þú nemur í því augnamiði að muna eftir mikilvægum þekkingaratriðum. Og þegar þú lest skaltu hugsa um efnið. Brjóttu orð biblíuritarans til mergjar. Spyrðu þig hvert sé markmiðið með því sem hann skrifar og hvaða gagn þú hafir af því.

8. Af hverju er gagnlegt að hugleiða efnið þegar við lesum Biblíuna?

8 Taktu þér tíma til að hugleiða meðan þú lest Heilaga ritningu. Þannig geturðu munað frásögur Biblíunnar og farið eftir meginreglum hennar. Með því að ígrunda orð Guðs og festa þér það í minni geturðu líka talað af sannfæringu og gefið þeim sem spyrja þig nákvæm svör í stað þess að segja eitthvað sem þig kynni að iðra síðar. Innblásinn orðskviður segir: „Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli.“ — Orðskviðirnir 15:28.

Tengdu nýjar hugmyndir fyrri vitneskju

9, 10. Hvernig geturðu haft meira gagn af biblíulestrinum með því að tengja nýja biblíuþekkingu fyrri vitneskju?

9 Flestir kristnir menn verða að viðurkenna að einu sinni vissu þeir ósköp lítið um Guð, orð hans og tilgang. En núna geta þessir kristnu þjónar orðsins útskýrt tilganginn með fórn Krists með hliðsjón af sköpuninni og syndafalli mannsins, sagt frá eyðingu þessa illa heimskerfis og sýnt fram á hvernig hlýðið mannkyn verður blessað með eilífu lífi í paradís á jörð. Þetta geta þeir aðallega vegna þess að þeir hafa aflað sér ‚þekkingar á Guði‘ með því að nema Biblíuna og kristileg rit. (Orðskviðirnir 2:1-5) Þeir hafa smám saman tengt fyrri vitneskju nýrri.

10 Það er bæði gagnlegt og gefandi að tengja nýja biblíuþekkingu fyrri vitneskju. (Jesaja 48:17) Þegar þú kynnist lögum Biblíunnar, meginreglum eða jafnvel eilítið óhlutlægum hugmyndum, þá skaltu tengja þær fyrirliggjandi vitneskju. Sjáðu hvernig upplýsingarnar samræmast því sem þú hefur lært um ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna.‘ (2. Tímóteusarbréf 1:13) Vertu vakandi fyrir upplýsingum sem geta hjálpað þér að styrkja samband þitt við Guð, bætt kristinn persónuleika þinn eða auðveldað þér að koma biblíusannindum á framfæri við aðra.

11. Hvað gætirðu gert þegar þú lest eitthvað í Biblíunni um hegðun? Lýstu með dæmi.

11 Þegar þú lest eitthvað í Biblíunni um hegðun skaltu reyna að koma auga á meginregluna að baki því. Hugleiddu það og ákveddu síðan hvað þú myndir gera við svipaðar aðstæður. Jósef, sonur Jakobs, neitaði staðfastlega að eiga siðlaus mök við konu Pótífars og spurði: „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:7-9) Í þessari hrífandi frásögu finnurðu meginreglu sem býr að baki — kynferðislegt siðleysi er synd gegn Guði. Í huganum geturðu tengt þessa meginreglu öðru sem stendur í orði Guðs, og það kemur þér að góðum notum ef þín er freistað til slíkrar syndar. — 1. Korintubréf 6:9-11.

Sjáðu atburði biblíusögunnar fyrir þér

12. Hvers vegna ættirðu að sjá frásögur Biblíunnar fyrir þér þegar þú lest þær?

12 Til að festa þér í minni það sem þú lest skaltu sjá það fyrir þér. Sjáðu landslagið, húsin og fólkið fyrir þér. Heyrðu raddir þess. Finndu ilminn af brauði sem er að bakast í ofni. Lifðu atburðina í huganum. Þá verður lesturinn hrífandi reynsla því að þú getur „séð“ forna borg, klifið hátt fjall, dáðst að undrum sköpunarverksins eða átt félagsskap við trúarhetjur fortíðar.

13. Hvernig myndirðu lýsa því sem frá er greint í Dómarabókinni 7:19-22?

13 Setjum svo að þú sért að lesa Dómarabókina 7:19-22. Sjáðu atburðinn fyrir þér. Gídeon dómari og 300 kappar hans af liði Ísraels hafa tekið sér stöðu utan við herbúðir Midíaníta. Klukkan er nálægt tíu að kvöldi í byrjun „miðvarðtíðarinnar.“ Verðir Midíaníta eru nýkomnir á vettvang og myrkrið hjúpar herbúðirnar þar sem óvinir Ísraels sofa. Sjáðu! Gídeon og menn hans eru með lúðra. Í vinstri hendi halda þeir á stórum vatnskrúsum með blysum í. Mennirnir 300, sem skipt er í þrjá hundrað manna flokka, þeyta skyndilega lúðrana, brjóta krúsirnar, lyfta blysunum hátt á loft og hrópa „Sverð [Jehóva] og Gídeons!“ Þú lítur yfir herbúðirnar og sérð Midíaníta leggja á flótta með miklu ópi! Meðan mennirnir 300 þeyta lúðrana lætur Guð Midíaníta snúast hver gegn öðrum með brugðnum sverðum. Þeir leggja á flótta og Jehóva veitir Ísrael sigur.

Verðmætar lexíur

14. Hvernig mætti nota 9. kafla Dómarabókarinnar til að kenna barni nauðsyn auðmýktar?

14 Við getum lært margt af því að lesa orð Guðs. Segjum til dæmis að þú viljir innprenta börnum þínum nauðsyn auðmýktar. Það ætti að vera auðvelt að sjá fyrir sér það sem sagt var í spádómi Jótams, sonar Gídeons, og skilja hvað það þýðir. Lesum fyrst Dómarabókina 9:8. „Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa,“ sagði Jótam. Olíutréð, fíkjutéð og vínviðurinn afþökkuðu konungsembættið. En lítilmótlegur þyrnir tók fúslega við konungdómi. Eftir að þú hefur lesið frásöguna fyrir börnin gætirðu útskýrt að nytjatrén hafi táknað göfugmenni í Ísrael sem sóttust ekki eftir konungdómi yfir samlöndum sínum. Þyrnirinn var einskis nýtur nema til eldsneytis og hann táknaði konungdóm hins drambláta Abímeleks, morðingja sem vildi drottna yfir öðrum en leið undir lok eins og lýst var í spádómi Jótams. (Dómarabókin 9. kafli) Hvaða barn langar til að verða eins og þyrnirinn þegar það vex úr grasi?

15. Hvernig kemur mikilvægi hollustunnar fram í Rutarbók?

15 Rutarbók sýnir vel fram á mikilvægi hollustunnar. Segjum að fjölskyldan skiptist á að lesa upp frásöguna og þið reynið að sökkva ykkur niður í hana. Þið sjáið Rut hina móabítísku á leið til Betlehem með tengdamóður sinni, ekkjunni Naomí, og þið heyrið hana segja: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Þið sjáið hina iðjusömu Rut tína eftirtíning á akri Bóasar. Þið heyrið hann hrósa henni: „Allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona.“ (Rutarbók 3:11) Skömmu síðar gengur Bóas að eiga Rut. Í samræmi við ákvæðin um mágskylduhjónabönd elur hún ‚Naomí son.‘ Þannig varð Rut formóðir Davíðs og síðar Jesú Krists. Þar með öðlaðist hún ‚fullkomin laun.‘ Og þeir sem lesa þessa biblíusögu draga af henni dýrmætan lærdóm: Verið Jehóva holl, þá blessar hann ykkur ríkulega. — Rutarbók 2:12; 4:17-22; Orðskviðirnir 10:22; Matteus 1:1, 5, 6.

16. Hvaða prófraun gengust Hebrearnir þrír undir og hvernig getur frásagan af því hjálpað okkur?

16 Frásagan af Hebreunum Sadrak, Mesak og Abed-Negó getur hjálpað okkur að vera Guði trú í prófraunum. Sjáðu atburðinn fyrir þér meðan 3. kafli Daníelsbókar er lesinn upp. Risavaxið gulllíkneski gnæfir yfir Dúradal þar sem embættismenn Babýlonar eru saman komnir. Þegar þeir heyra hljóðfæraleik falla þeir fram og tilbiðja líkneskið sem Nebúkadnesar konungur hefur látið reisa — það er að segja allir nema Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Kurteisir en einbeittir segja þeir konunginum að þeir ætli ekki að þjóna guðum hans né dýrka gulllíkneskið. Þessum ungu Hebreum er kastað í ofurheitan eldsofn. En hvað gerist? Konungur lítur inn í ofninn og sér þar fjóra menn, og er einn því líkastur „sem hann sé sonur guðanna.“ (Daníel 3:25) Hebrearnir þrír eru látnir koma út úr ofninum og Nebúkadnesar lofar Guð þeirra. Það er gefandi að sjá þennan atburð fyrir sér. Og það má draga af honum mikinn lærdóm um trúfesti við Jehóva í prófraunum!

Hafið gagn af biblíulestri fjölskyldunnar

17. Nefndu stuttlega nokkur atriði sem fjölskyldan getur lært af sameiginlegum biblíulestri.

17 Fjölskylda þín getur haft margs konar gagn af því að lesa Biblíuna saman að staðaldri. Með því að byrja á 1. Mósebók getið þið séð sköpunina fyrir ykkur og litast um á paradísarheimili mannsins. Þið getið lifað ykkur inn í sögu trúfastra ættfeðra og fjölskyldna þeirra og fylgst með Ísraelsmönnum ganga þurrum fótum yfir Rauðahafið. Þið sjáið fjárhirðinn Davíð sigra Filistarisann Golíat. Fjölskylda þín fylgist með byggingu musteris Jehóva í Jerúsalem, sér her Babýlonar jafna það við jörðu og horfir á það endurreist undir stjórn Serúbabels landstjóra. Ásamt óbreyttum fjárhirðum í nánd við Betlehem heyrið þið englana kunngera fæðingu Jesú. Þið fylgist með skírn hans og þjónustu, sjáið hann gefa mannslíf sitt sem lausnargjald og eigið þátt í gleðinni samfara upprisu hans. Því næst getið þið ferðast með Páli postula og séð söfnuði stofnaða er kristnin breiðist út. Síðan, í Opinberunarbókinni, getur fjölskyldan notið hinnar mikilfenglegu framtíðarsýnar Jóhannesar, meðal annars af þúsundáraríki Krists.

18, 19. Hverju er stungið upp á í sambandi við biblíulestur fjölskyldunnar?

18 Ef þið lesið Biblíuna upphátt sem fjölskylda skuluð þið lesa skýrt og með eldmóði. Við lestur sumra biblíukafla gæti einn í fjölskyldunni — kannski faðirinn — verið sögumaður. Þið hin getið tekið að ykkur hlutverk biblíupersónanna og lesið með viðeigandi tilfinningu.

19 Sameiginlegur biblíulestur fjölskyldunnar getur æft ykkur í lestri. Að öllum líkindum eykst þekking ykkar á Guði og það ætti að draga ykkur nær honum. Asaf söng: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört [Jehóva] að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.“ (Sálmur 73:28) Þetta hjálpar fjölskyldunni að vera eins og Móse sem „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega,“ það er að segja Jehóva Guð. — Hebreabréfið 11:27.

Lestur og kristið boðunarstarf

20, 21. Hvernig tengist lestrarkunnátta prédikunarstarfi okkar?

20 Löngunin að tilbiðja „hinn ósýnilega“ ætti að fá okkur til að þjálfa okkur í lestri. Góð lestrarkunnátta hjálpar okkur að bera vitni með orði Guðs. Hún hjálpar okkur tvímælalaust að halda áfram að boða Guðsríki eins og Jesús fól fylgjendum sínum er hann sagði: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8) Það er aðalstarf fólks Jehóva að bera vitni og lestrarkunnátta hjálpar okkur við það.

21 Enginn verður vel læs og góður biblíukennari án þess að leggja eitthvað á sig. (Efesusbréfið 6:17) ‚Leggðu því kapp á að reynast hæfur fyrir Guði og fara rétt með orð sannleikans.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Auktu biblíuþekkingu þína og færni sem vottur Jehóva með því að vera kostgæfinn að lesa.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig er hamingja háð því að lesa orð Guðs?

◻ Hvers vegna ættirðu að hugleiða það sem þú lest í Biblíunni?

◻ Af hverju ættirðu að tengja saman hugmyndir og sjá fyrir þér aðstæður og atburði þegar þú lest Ritninguna?

◻ Nefndu nokkra lærdóma sem draga má af biblíusögunum?

◻ Hvers vegna ætti fjölskyldan að lesa Biblíuna saman og hvernig tengist biblíulestur boðunarstarfi kristinna manna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Þegar þið lesið Biblíuna saman sem fjölskylda, reynið þá að sjá atburðina fyrir ykkur og íhugið þýðingu þeirra.